Mál 8 2019

Mál 8/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 27. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2019:

A lögmaður,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. mars 2019 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. C lögmaður fer með málið fyrir hönd kæranda fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 18. mars 2019 og barst hún þann 3. apríl 2019. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 4. apríl 2019. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 23. apríl 2019 og voru þær sendar til kærða með bréfi dags. 29. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 14. maí 2019 og voru þær sendar til kæranda með bréfi dags. 15. sama mánaðar þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila mun kærði hafa tekið að sér innheimtu krafna í þágu D ehf. samkvæmt útgefnum reikningum félagsins á hendur E ehf. Mun kærði hafa átt í samskiptum við fyrirsvarsmann hins síðargreinda félags vegna kröfunnar auk þess sem hann mun hafa beint til þess innheimtuviðvörun og innheimtubréfi vegna hinnar ógreiddu kröfu. Mun fyrirsvarsmaður E ehf. hafa leitað til kæranda í framhaldi þessa og tók kærandi að sér hagsmunagæslu í þágu félagsins vegna málsins.

Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 23. maí 2018, var því lýst að E ehf. hefði leitað til F lögfræðistofu vegna málsins. Í tölvubréfinu voru mótbárur E ehf. gegn kröfu D ehf. raktar. Þá var það orðað í tölvubréfinu að í því skyni að leysa málið og spara aðilum málarekstur fyrir dómstólum væru tillögur að sátt að finna í tölvubréfinu án þess þó að viðurkenndur væri nokkur réttur umbjóðanda kærða. Voru tillögur kæranda fyrir hönd E ehf. tvíþættar og settar fram „með þeim fyrirvara að sáttir náist á þessum forsendum.“

Kærði svaraði framangreindu tölvubréfi kæranda þann 5. júní 2018. Í tölvubréfi kærða var tillögum kæranda frá 23. maí 2018 hafnað auk þess sem sett voru fram andsvör við þeim sjónarmiðum sem kærandi hafði hreyft í fyrri samskiptum. Þá lýsti kærði þeim möguleikum sem hann sæi fyrir sér varðandi framhald og lúkningu málsins, þar á meðal um að umbjóðandi kæranda myndi greiða kröfuna gegn 20% afslætti.

Málsaðilar áttu í frekari sáttaumleitunum vegna kröfunnar í tölvubréfasamskiptum þann 8. júní 2018. Kom fram í tölvubréfi kæranda þann dag að hann hefði fengið umbjóðanda sinn til að fallast á að ljúka málinu með greiðslu gegn því að afsláttur yrði hækkaður í 30%. Lýsti kærandi því mati sínu að báðir aðilar ættu að geta fallist á þá niðurstöðu að teknu tilliti til atvika málsins og í því skyni að forðast kostnaðarsaman málarekstur. Í svari kærða þann sama dag kom meðal annars fram að sá 20% afsláttur sem boðinn hefði verið væri meiri en sem næmi kostnaði við ætlaðar lagfæringar og að því væri ekki ástæða til að fallast á 30% afslátt sem kærandi hefði nefnt. Samkvæmt því teldi kærði 20% afslátt fullnægjandi til að loka málinu.

Kærði sendi á ný tölvubréf til kæranda þann 14. júní 2018. Í tölvubréfinu var því lýst að kærði hefði rætt við umbjóðanda sinn sem hefði samþykkt að ljúka mætti málinu með 25% afslætti og að eftirstöðvar kröfunnar að teknu tilliti til afsláttar næmu 2.794.484 krónum. Í sundurliðun kröfunnar var tiltekið að hluti hennar væri innheimtukostnaður að fjárhæð 290.330 krónur. Þá var í tölvubréfinu að finna greiðsluupplýsingar vegna kröfunnar jafnframt því sem því var lýst að það væri undir kæranda og hans umbjóðanda komið hvort vilji væri til að hafa samkomulag skriflegt. Í samkomulaginu fælist að um fullnaðaruppgjör væri að ræða, að umbjóðandi kæranda myndi una verkinu og að hvorugur aðila ætti frekari kröfur af neinu tagi vegna viðskiptanna.

Kærandi svaraði kærða daginn eftir, þann 15. júní 2018, og gerði athugasemdir við innheimtuþóknun kærða. Þá var tiltekið að umbjóðandi kæranda væri reiðubúinn að ganga frá fullnaðargreiðslu þennan sama dag til að ljúka málinu endanlega, þ.e. með greiðslu höfuðstóls og dráttarvaxta að frádregnum 25% afslætti eða alls 2.576.737 krónur. Kærði gerði grein fyrir innheimtukostnaði í tölvubréfi til kæranda þennan sama dag, sem er meðal málsgagna sem og svarbréf kæranda til kærða frá sama degi.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til kærða þann 18. júní 2018. Var þar ítrekuð óánægja umbjóðanda kæranda með innheimtukostnaðinn, að hann hefði aldrei komið til umræðu í sáttaumleitunum auk þess sem hann væri ekki í samræmi við skýr fyrirmæli leiðbeininga um endurgjald úr hendi skuldara með auglýsingu nr. 450/2013. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

Umbj. minn er tilbúinn að lenda málinu á þeim 25% afslætti sem áður hefur verið sammælst um. – Þá er umbj. minn reiðubúinn að greiða helming af þessum innheimtukostnaði til þess eins að sætta málið sem fyrst og losna við óþarfa truflun vegna ágreiningsins. – Verði gengið að þessu er hægt að klára allar greiðslur sem fyrst.

Kærði svaraði fyrrgreindu tölvubréfi kæranda þennan sama dag, 18. júní 2018. Kom þar fram að „þetta“ væri samþykkt eins og kærandi hefði lagt upp. Þá var í tölvubréfinu að finna stöðu kröfunnar miðað við 18. júní 2018 að teknu tilliti til 25% afsláttar af höfuðstól kröfunnar og dráttarvöxtum sem og 50% afsláttar af innheimtuþóknun, þannig að samtals til greiðslu væru alls 2.725.233 krónur. Kvaðst kærði vænta greiðslunnar hratt og örugglega.

Kærði fylgdi eftir fyrri samskiptum með tölvubréfi til kæranda þann 21. júní 2018. Var þar óskað eftir skýringum á því hvers vegna greiðsla hefði ekki borist í samræmi við samþykkta tillögu. Þá var tiltekið að dráttarvextir reiknuðust til viðbótar dag hvern. Kærandi svaraði tölvubréfi kærða þann 22. sama mánaðar þar sem eftirfarandi var tiltekið:

Umbj. minn hefur snúist hugur og hefur ekki í huga að komast að sáttum á neðangreindum forsendum. Hann mótmælir kröfu umbj. þíns.

Samkvæmt málsgögnum munu frekari samskipti ekki hafa farið á milli málsaðila vegna málsins.

Fyrir liggur að kærði annaðist málshöfðun D ehf. á hendur E ehf. með birtingu stefnu sem þingfest var í Héraðsdómi Y þann x. september 2018. Meðal gagna sem lögð voru fram af hálfu stefnanda við þingfestingu málsins voru tölvubréfasamskipti kæranda og kærða á tímabilinu frá 18. – 22. júní 2018, sem áður er lýst. Í málsatvikalýsingu stefnunnar var því meðal annars lýst að reynt hefði verið að leysa málið utan réttar og var um það efni meðal annars vísað til tilboðs kæranda fyrir hönd E ehf. frá 18. júní 2018 sem hafi verið engum fyrirvörum eða tímamörkum háð. Það tilboð hafi verið samþykkt af hálfu kærða fyrir hönd D ehf. og með því komist á löggerningur á milli aðila. Jafnframt var þar tiltekið að stefnandi sæi sér ekki annað fært en að leggja fram tölvubréfasamskiptin þar sem áðurgreint tilboð, samþykki og svo höfnun á efndum kæmi fram, enda væri ekki um sáttatillögu að ræða eftir samþykki kærða fyrir hönd D ehf. Þá var eftirfarandi tilgreiningu að finna í málsástæðukafla stefnunnar:

Stefnandi byggir þá á því að komist hafi á samningur milli aðila með fyrirvaralausu tilboði stefnanda í gegnum umboðsmann sinn og fyrirvaralausu samþykki lögmanns stefnanda á því tilboði. Stefndi telur að þó stefndi hafi síðar gert tilraun til þess að rifta eða afturkalla tilboð sitt þá sé hann samningsbundinn til að greiða a.m.k. þá fjárhæð sem þar kvað á um. Þannig, verði niðurstaða réttarins sú að stefnandi eigi ekki rétt á stefnukröfunni að fullu þá geti hann aldrei átt rétt á lægri fjárhæð en stefndi sjálfur var búinn að skuldbinda sig til að greiða. Stefnandi hins vegar er ekki skuldbundinn af samþykki sínu þar sem stefndi hefur ekki efnt samninginn og reynt með ólögmætum hætti að rifta honum. Vísar stefnandi vegna þessa til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að fundið verði að vinnubrögðum kærða vegna brota hans gegn siðareglum lögmanna samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn eða að kærða verði veitt áminning samkvæmt sama ákvæði. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún beinist að broti kærða gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna ásamt meginreglu 25. gr. þeirra. Hafi brot kærða falist í þeirri háttsemi að leggja sáttatillögu, sem farið hafi fram á milli lögmanna fyrir málshöfðun, fram sem dómskjal í máli, án samþykkis og þvert gegn vilja kæranda.

Í málatilbúnaði kæranda er því lýst að grundvöll kvörtunarinnar megi rekja til deilna tveggja félaga, þ.e. D ehf. og E ehf. og tölvubréfasamskipta lögmanna vegna þeirra. Þannig hafi kærandi gætt hagsmuna hins fyrrgreinda félags en kærði hagsmuna hins síðargreinda félags.

Kærandi vísar til þess að á milli kæranda og kærða, sem lögmanna, hafi farið fram sáttatillögur í tölvubréfasamskiptum. Þrátt fyrir að skjólstæðingur kæranda hafi talið kröfu gagnaðila ranga hafi verið ákveðið að freista þess að ljúka málinu með sáttum til að ljúka frekari deilum aðila og óþarfa kostnaði og vinnu sem málshöfðun hefði í för með sér. Í því skyni hafi aðilar átt í ítrekuðum tölvubréfasamskiptum þar sem rætt hafi verið um mögulegar lendingar á málinu, með öðrum orðum tillögur að sáttum. Bendir kærandi á að skjólstæðingi hans hafi snúist hugur um að reyna sættir í málinu, enda hafi hann talið kröfuna ranga. Hafi frekari sáttatilraunum því verið hætt. Þá hafi kærandi upplýst kærða um þá afstöðu í tölvubréfi þann 22. júní 2019 og að kröfum skjólstæðings kærða væri mótmælt.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að þann 26. september 2018 hafi kærði, fyrir hönd D ehf., stefnt E ehf. til greiðslu hinnar meintu kröfu. Hafi sú málshöfðun verið viðbúin í ljósi árangurslausra sáttaumleitana. Bendir kærandi hins vegar á að það sem fram hafi komið í téðri stefnu hafi vakið mikla undrun og komið kæranda algjörlega í berskjöldu. Þar hafi kærði þannig lagt fram tölvubréfasamskipti lögmannanna sem sönnunargagn í málinu, þar á meðal sáttatillögur kæranda og beitt þeim fyrir sér til að reyna upphefja réttmæti kröfu síns skjólstæðings. Þá hafi kærði byggt á þeim líkt og um sjálfstæðan grundvöll til að krefjast efnda væri að ræða. Með þeirri háttsemi hafi kærði brotið gegn bannákvæði 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna, enda hafi kærandi aldrei verið spurður hvort hann heimilaði slíka framlagningu auk þess sem hann hefði aldrei samþykkt að slíkt gagn yrði lagt fram fyrir dómi.

Kærandi vísar til þess að eftirfarandi hafi verið tiltekið í stefnu vegna málsins:

Stefnandi sér sér ekki annað fært en að leggja fram framangreind tölvupóstsamskipti þar sem áðurgreint tilboð, samþykki og svo höfnun á efndum koma fram, enda ekki um sáttatillögu að ræða eftir samþykki frá stefnda.

Kærandi bendir á að ofangreind staðhæfing sé engum frekari rökum studd, enda sé slíkt ótækt þar sem hún sé beinlínis röng. Þannig hafi aldrei komist á bindandi samkomulag milli aðila auk þess sem kærði hafi einn rangtúlkað þær sáttatillögur sem farið hafi fram í tölvubréfasamskiptum málsaðila.

Kærandi byggir á að það sem fram hafi komið í viðkomandi tölvubréfi sé, hafi verið og verði sáttatillaga. Er vísað til þess að sáttatillögur milli lögmanna séu ekki samningar í skilningi laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Það að leggja fram sáttatillögu feli ekki í sér skuldbindandi tilboð sem hægt sé að byggja á fyrir dómstólum í þeim skilningi sem kærði virðist bera fyrir sig. Slíkt gefi auga leið, enda væri þá þarflaust að undanþiggja sáttatillögur lögmanna svo skýrlega í siðareglum lögmanna líkt og gert sé. Geri kærði það bersýnilegt með framangreindri staðhæfingu að hann sé vel meðvitaður um að það sé lagt bann við framlagningu sáttatillagna sem þessara, líkt og honum jafnframt eigi að vera kunnugt. Byggir kærandi á að með háttsemi sinni hafi kærði virt áðurnefnt bann að vettugi og með því brotið gegn skyldum sínum og starfsheiðri sem lögmanni ásamt því að reyna með ósanngjörnum og afar ódrengilegum hætti að koma höggi á málsstað skjólstæðings kæranda.

Vísað er til þess að markmið 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna sé að tryggja að lögmenn geti leitað sátta sín á milli undir rekstri máls og treyst því að þær sáttatillögur verði aldrei lagðar fram án samþykkis þeirra. Með trúnaði þeim og hinu gagnkvæma trausti sem eigi að ríkja milli lögmanna við sáttaumleitanir sé tryggt að lögmenn geti starfað með fullnægjandi og skilvirkum hætti og kannað alla möguleika á að komast hjá málshöfðun sem annars sé yfirvofandi. Með framkomu sinni hafi kærði bersýnilega brotið gegn þessari reglu og þannig gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Telur kærandi háttsemi kærða skýrt brot gegn siðareglum lögmanna og laga nr. 77/1998, að hún sé til þess fallin að draga úr hinu gagnkvæma trausti lögmanna hvors gagnvart öðrum og hafi þannig neikvæð áhrif á stétt lögmanna í heild sinni. Taki úrskurðarnefnd ekki á þessu broti sé þar með verið að viðurkenna að í ákveðnum tilvikum megi leggja fram sáttatillögur lögmanna án samþykkis og gegn vilja þeirra, þvert gegn ótvíræðu orðalagi ákvæðis 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi kveðst aldrei á sínum starfsferli hafa orðið vitni að broti gegn banni þessu líkt og hér um ræðir. Er vísað til þess að lögmenn starfi eftir siðareglum og beri að rækja störf sín af trúmennsku og samviskusemi að viðlögðum drengskap. Framkoma kærða gagnvart kæranda hafi engan veginn verið í samræmi við þær kröfur sem til lögmanna séu gerðar og sem kærði hafi skuldbundið sig til að framfylgja með yfirlýsingu þess efnis, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi byggir á að háttsemi kærða sé bersýnilega aðfinnsluverð, enda sé ekki einungis vegið að kæranda sjálfum heldur jafnframt hagsmunum skjólstæðings hans, auk þess sem vegið sé að grundvelli sáttatillagna. Ítrekar kærandi hversu mikla þýðingu það kann að hafa í för með sér ef fallist yrði á að hægt væri að réttlæta brot gegn skýlausu ákvæði siðareglna lögmanna líkt og við eigi í máli þessu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að samskipti aðila í fyrirliggjandi tölvubréfum hafi verið sáttatillögur í skilningi 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Verði ráðið af tölvubréfasamskiptum að lögmennirnir hafi rætt sín á milli um hina meintu og umdeildu kröfu og hvort möguleiki væri fyrir hendi til að sætta deilur aðila á þann hátt að ekki þyrfti að koma til kasta dómstóla. Þá hafi eftirfarandi verið tekið fram í fyrsta tölvubréfi kæranda, dags. 23. maí 2018:

Allt neðangreint er sett fram í því skyni að leysa málið og spara mönnum þannig það tímafreka verk að ætla með málið fyrir dómstóla. Með neðangreindum tillögum er ekki að svo stöddu fallist á nokkurn rétt umbj. þíns. [...] Allt ofangreint er að sjálfsögðu sett fram með þeim fyrirvara að sáttir náist á þessum forsendum.

Kærandi vísar til þess að tillögum hans hafi verið hafnað með tölvubréfi kærða þann 5. júní 2018 er hinn síðargreindi hafi lagt fram aðra sáttatillögu. Hafi kærandi svarað á ný þann 8. sama mánaðar þar sem fyrst hafi verið rædd tillaga kærða og í framhaldi þess lögð fram ný tillaga að sáttum. Eftir það hafi sáttaumleitanir lögmanna haldið áfram.

Kærandi bendir á að í engu tölvubréfi hafi krafa umbjóðanda kærða verið viðurkennd. Þvert á móti hafi enn verið að reyna að sætta málið til að komast hjá hugsanlegri málshöfðun og þeim kostnaði sem því fylgi. Umbjóðanda kæranda hafi loks snúist hugur um að vilja reyna sáttaumleitanir enda talið að krafa umbjóðanda kærða væri röng. Hafi kærða verið tilkynnt um það í tölvubréfi þann 22. júní 2018 auk þess sem kröfu umbjóðanda hans hafi verið hafnað.

Byggt er á því að samskipti aðila allt frá fyrsta tölvubréfi hafi verið tillögur að sáttum. Sé því mótmælt að unnt sé að halda því fram að tölvubréfasamskipti þau hafi umbreyst í skuldbindandi tilboð í skilningi laga nr. 7/1936. Eigi lögmenn í sáttaumleitunum ekki að þurfa að ítreka áður gerða fyrirvara í hverju og einu tölvubréfi sem fram fari þeirra á milli. Önnur túlkun gangi í berhögg við tilgang 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Kærandi hafi gert fyrirvara í upphafi tölvubréfasamskiptanna. Þá hafi öll síðari samskipti verið svör við tölvubréfum í sömu keðju samskipta. Hafi því 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna gilt um samskiptin.

Í dæmaskyni kveðst kærandi vísa til dóms Hæstaréttar 18. janúar 2007 í máli nr. 300/2006. Byggir kærandi á að túlkun kærða á 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna grafi undan gildissviði og tilgangi ákvæðisins og hafi í för með sér að lögmenn geti ekki sýnt hvor öðrum það traust sem þeir með réttu eigi að gera. Þá sé það ekki við kæranda að sakast þótt umbjóðandi kærða hafi talið að af sáttatillögum lögmanna hafi komist á samningur. Hafi kærða þannig borið að skýra þeim frá að svo væru ekki heldur væru lögmenn að reyna að komast að sáttum vegna málsins.

Þá kveðst kærandi hafna röksemdum kærða um afturköllun tilboðs á sömu forsendum og áður greinir varðandi sáttatillögur. Þannig hafi tölvubréfasamskiptin ekki falið í sér tilboð í skilningi laga nr. 7/1936 og því komi afturköllun í skilningi þeirra sömu laga ekki til umfjöllunar.

Að endingu vísar kærandi til þess að staðreyndir málsins séu þær að lögmenn hafi reynt að sætta mál í tölvubréfasamskiptum sín á milli. Sérstakur fyrirvari þess efnis hafi verið gerður strax í upphafi. Aldrei hafi verið gengið til samningsgerðar út frá þeim samskiptum auk þess sem umbjóðandi kæranda hafi aldrei skrifað undir nokkurs konar viljayfirlýsingu eða samning sem álíta mætti sem bindandi yfirlýsingu í skilningi laga nr. 7/1936.

III.

Kærði krefst þess í málinu að kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni.

Kærði vísar til þess að félagið D ehf. hafi leitað til hans í því skyni að innheimta eftirstöðvar fjárkröfu á hendur E ehf. Hafi tilgreind fjárkrafa verið tilkomin vegna eftirstöðva vinnu D ehf. við jarðvegsvinnu fyrir E ehf. Kveður kærði að hann hafi upphaflega átt einhver samskipti við fyrirsvarsmann E ehf. sem svo hafi beint samskiptum og frekari viðræðum um úrlausn málsins til kæranda fyrir hans hönd.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að kærandi hafi sent tölvubréf til kærða þann 23. maí 2018 þar sem reifaðar hafi verið ákveðnar tillögur að sáttum í deilumáli aðila. Hafi kærði svarað og hafnað þeim tillögum í tölvubréfi þann 5. júní 2019 jafnframt því sem hann hafi lagt fram nýjar hugmyndir og sjónarmið D ehf. í deilunni. Kveður kærða þessar viðræður lögmanna hafa haldið áfram þar sem ýmis sjónarmið hafi verið reifuð og tillögur gengið fram og til baka.

Vísað er til þess að með tölvubréfi kæranda fyrir hönd síns umbjóðanda, dags. 8. júní 2019, hafi verið sent tilboð um að málinu yrði lokið með því að gefinn yrði 30% afsláttur af kröfufjárhæðinni. Kærði hafi hafnað því tilboði samdægurs auk þess sem hann hafi ítrekað fyrri tillögu umbjóðanda síns um að ljúka mætti málinu á 20% afslætti kröfufjárhæðar.

Kærði greinir frá því að málsaðilar hafi átt með sér símtal þann 14. júní 2018 þar sem kærandi hafi boðið fyrir hönd síns umbjóðanda uppgjör gegn 25% afslætti kröfufjárhæðar. Kveður kærði að tilboðið hafi engum fyrirvörum verið háð og að yrði það samþykkt myndi fjárhæðin verða greidd án tafa. Hafi hann átt viðræður við umbjóðanda sinn í kjölfar þessa sem hafi samþykkt að ljúka málinu með þessum hætti. Í framhaldi þess hafi kærði sent tölvubréf til kæranda með samþykki og sundurliðun kröfunnar svo hægt væri að greiða. Vísar kærði til þess að þá hafi komið í ljós, þann 15. júní 2018, að kærandi hafi ekki verið með það á hreinu hverjar forsendur væru þar sem hann hafi gert athugasemdir við að í samkomulagsgreiðslunni fælist innheimtukostnaður lögmanns. Ítrekaði kærandi í sama tölvubréfi að hans umbjóðandi væri reiðubúinn með greiðslu en að hún fæli ekki í sér neina innheimtuþóknun. Hafi kærði sama dag sent tölvubréf til kæranda þar sem því hafi verið mótmælt að innheimtuþóknunin ætti ekki rétt á sér eins og málið væri vaxið auk þess sem bent hafi verið á að tilboð kæranda hafi ekki verið neinum slíkum fyrirvörum háð.

Vísað er til þess að kærandi hafi þá farið að nýju til síns umbjóðanda, sbr. tölvubréf 15. júní 2018, þar sem hann hafi talið sig þurfa að kynna málið á ný enda hefði ekki verið áður rætt um þóknanir. Kveður kærði að í ljósi þeirra skýringa að misskilningur hafi orðið við tilboðsgerðina hafi það að sjálfsögðu verið virt við kæranda og að ekki hafi komið til greina að byggja á tilboði eða samþykki sem grundvöll samnings þó tilboðið hafi verið fyrirvaralaust.

Kærði bendir á að þann 18. júní 2018 hafi borist tölvubréf frá kæranda þar sem hann hafi tilkynnt að farið hafi verið yfir málið að nýju með umbjóðanda sem væri reiðubúinn að greiða eftirstöðvar skuldarinnar gegn 25% afslætti og 50% afslætti innheimtuþóknunar. Hafi tilboðið endað svo á eftirfarandi orðum: „Verði gengið að þessu er hægt að klára greiðslur sem fyrst.

Kærði byggir á að framangreint tilboð hafi verið sett fram af kæranda sem tilboð umbjóðanda hans um lok málsins. Tilboðið hafi engum fyrirvörum verið háð öðrum en um samþykki umbjóðanda kærða.

Kærði kveðst hafa borið tilboðið undir umbjóðanda sinn sama dag sem hafi samþykkt það og falið kærða að tilkynna kæranda um það. Þann sama dag, 18. júní 2018, hafi kærði sent tölvubréf til kæranda þar sem samþykki hafi verið komið á framfæri og til vitneskju kæranda og þar af leiðandi til umbjóðanda hans. Lýsir kærði því að hann hafi jafnframt upplýst umbjóðanda sinn um að tilkynnt hafi verið um samþykki tilboðsins og að málinu væri þar með endanlega lokið þegar umbjóðandi kæranda myndi inna greiðslu sína af hendi, í samræmi við tilboðið og samþykki þess. Hafi umbjóðandi kærða litið svo á að komin væri á skuldbindandi úrlausn málsins.

Kærði vísar til þess að þar sem engin greiðsla hafi borist hafi hann sent tölvubréf til kæranda þann 21. júní 2018 með fyrirspurn um hverju það sætti. Degi síðar, þann 22. júní 2018, hafi kærða borist tölvubréf frá kæranda þar sem fram hafi komið að umbjóðanda hans hafi „snúist hugur...“ og að hann ætlaði sér ekki að „komast að sáttum á neðangreindum forsendum.“

Kærði kveðst hafa tilkynnt umbjóðanda sínum samstundis um þennan viðsnúning gagnaðila. Hafi umbjóðandi kærða þá gert kröfu um að málinu yrði stefnt án frekari tafa enda hafi hann talið að samningur væri kominn á við umbjóðanda kæranda og að framferði viðkomandi væri með öllu ólíðandi enda um svik á efndum að ræða. Þá hafi umbjóðandi kærða lagt áherslu á að samningur þessi og framferði þeirra yrði hluti þeirra málsástæðna sem byggt yrði á í komandi héraðsdómsmáli.

Vísað er til þess að kærði hafi verið fyllilega meðvitaður um skyldu sína til að halda sáttatillögum utan málsgagna deilumála fyrir dómi en þar steyti aðila á í þessu máli. Byggir kærði á að kærandi vaði í villu vegar í skilningi sínum á því hvað teljist til tillagna og hugmynda sem falli undir tilgreinda 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna og hvað teljist til tilboða og samþykktra tilboða/samninga sem falli utan gildissviðs reglunnar og lúti þar með almennum lagareglum. Tillaga sé í eðli sínu hugmynd sem geti leitt til sátta en ekki fyrirvaralaus yfirlýsing um tilboð af hálfu aðila.

Kærði byggir á að með tölvubréfi kæranda þann 18. júní 2018 hafi kærandi að beiðni og fyrir tilstilli síns umbjóðanda gert fyrirvaralaust tilboð um lok málsins. Hafi kærandi komið þar fram fyrir hönd síns umbjóðanda við boðið en ekki sem lögmaður að ræða sáttatillögu við annan lögmann. Skýrlega sé kveðið á um það í því tölvubréfi kæranda að yrði tilboðið samþykkt þá myndi greiðslum verða lokið sem fyrst. Þá hafi enginn fyrirvari verið heldur í samþykki kærða fyrir hönd síns umbjóðanda auk þess sem sérstaklega hafi verið tilgreint að tilboð umbjóðanda kæranda væri samþykkt eins og það hefði verið sett fram.

Samkvæmt framangreindu byggir kærði á að með samþykki tilboðsins hafi verið kominn á skuldbindandi samningur milli aðila málsins, annars vegnar fyrir umbjóðanda kæranda til að inna samkomulagsgreiðsluna af hendi og að gegn henni væri hin umdeilda krafa að fullu uppgerð með þeirri eftirgjöf sem falist hafi í samþykki umbjóðanda kærða.

Kærði vísar til þess að afturköllun, eða það að umbjóðanda kæranda hafi svo á einhverjum tímapunkti snúist hugur, geti aldrei breytt því að samningur hafi komist á milli aðila enda engar heimildir til afturköllunar tilboðsins eftir samþykki þess. Það að umbjóðanda kæranda hafi snúist hugur bendi jafnframt til þess að aðilinn hafi verið búinn að gera upp hug sinn með því tilboði sem hann hafi gert og talið sig bundinn af því.

Kærði tekur undir að 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna hafi mikilvægum tilgangi að gegna í samskiptum og störfum lögmanna almennt og að það þurfi að vera hægt að eiga viðræðir um sættir mála utan réttar án þess að slíkar tillögur eða samskipti rati fyrir dómstóla. Þeim skilningi sem kærandi virðist leggja í ákvæðið sé hins vegar mótmælt.

Kærði kveður að ekki verið fram hjá því litið að í tölvubréfi kæranda hafi falist sjálfstætt tilboð um lok deilumálsins en ekki tillaga. Verði litið á það sem tillögu hafi það orðið að samningi milli aðila með fyrirvaralausu samþykki þess af hálfu umbjóðanda kærða enda hafi kærandi enga fyrirvara gert nema um samþykki.

Kærði tekur undir sjónarmið kæranda um mikilvægi þess að gagnkvæmt traust ríki milli lögmanna. Á þeim grundvelli verði líka að telja að kærði hafi mátt treysta því að tilboð kæranda, sem komið hafi verið til vitundar umbjóðanda kærða og samþykkt án tafa, myndi standa og að það yrði efnt í samræmi við almennar lagareglur, sbr. lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ella að einhverjar skýringar yrðu færðar fram sem gæfu tilefni til þess að fallið yrði frá málsástæðum og skjölum sem lögð hafi verið fram í héraðsdómsmálinu. Kærandi hafi hins vegar aldrei haft samband við kærða til þess að koma á framfæri að einhver mistök eða misskilningur hafi valdið því að umbjóðandi kæranda hafi ákveðið að efna ekki þann samning sem komist hafi á. Þar af leiðandi hafi engar forsendur verið fyrir kærða að réttlæta það gagnvart umbjóðanda sínum að kærandi og umbjóðandi hans skyldu ábyrgðarlausir af gjörðum sínum. Bendir kærði á að enn sé með öllu óskýrt hverju afturköllunin hafi sætt.

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að komist hafi á bindandi samningur og að engin skilyrði hafi verið til afturköllunar í samræmi við almennar lagareglur þar um. Á þeim grundvelli og fyrir kröfu umbjóðanda kærða hafi þeim málsástæðum verið teflt fram í viðkomandi héraðsdómsmáli. Kveðst kærði hafa gætt þess sérstaklega að því að einungis þau skjöl kæmu fram í málinu sem byggðu á þeirri málsástæðu að samningur hefði komist á í samræmi við það sem áður greinir og þannig hafi engar tillögur á fyrri stigum verið lagðar fram. Þá hafi ekki á neinn hátt verið byggt á því að með framferði sínu eða sáttavilja hafi umbjóðandi kæranda viðurkennt nein réttindi eða að vegið hafi verið að starfsheiðri kæranda í þeim efnum.

Kærði telur jafnljóst og kærandi viðurkenni í kvörtun sinni að hefði komið fram ósk um framlagningu skjalanna hefði slíku verið hafnað. Þess utan liggi fyrir að þar sem samskiptin hafi ekki falið í sér tillögu heldur samning hafi verið jafn óþarft að óska slíks samþykkis enda falli það utan 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.

Þá byggir kærði á að sambærileg sjónarmið og hann byggi á gagnvart kvörtun í málinu hafi komið fram í dómi Hæstaréttar 1. mars 2012 í máli nr. 461/2011. Samkvæmt því hafi umbjóðandi kærða mátt leggja traust sitt á að fram væri komin lausn deilunnar á grundvelli tilboðs umbjóðanda kæranda. Með vísan til þess hafi verið eðlilegt að umbjóðandi kærða gerði kröfu um að slíkum sjónarmiðum yrði teflt fram enda óeðlilegt að umbjóðandinn geti verið í verri stöðu gagnvart slíku tilboði vegna aðkomu lögmanns að málinu.

Vísað er til þess að lögmanni beri í hvívetna að gæta hagsmuna skjólstæðings sína og gera allt það sem hann veit réttast að lögum í þeim efnum. Byggir kærði á að hefði hann látið hjá líða kröfu umbjóðanda síns um að þessum málsástæðum yrði teflt fram í fyrirhugðu héraðsdómsmáli, hafi hann ekki sinnt þeirri skyldu sinni gagnvart sínum umbjóðanda. Samkvæmt því hafnar kærði því með öllu að aðgerðir hans, framferði og framlagning fyrir héraðsdómi hafi falið í sér brot gegn siðareglum lögmanna eða lögum nr. 77/1998 um lögmenn.

Í viðbótarathugasemdum kærða áréttaði aðilinn fyrri sjónarmið um hið fyrirvaralausa tilboð. Bendir kærði á að þó að það henti kæranda nú að halda því fram að það hafi verið hluti tillagna og verið með öllu óskuldbindandi þá sé það ekki í samræmi við hvernig það var sett fram og sé sannanlega fyrirvaralaust um að væri það samþykkt yrði krafan greidd. Skipti höfuðmáli í því samhengi hvaða skilning móttakandi hafi mátt leggja í tilboðið eins og það var framsett, en ekki hvað kærandi hafi talið að í því fælist. Þá sé það mikilvægt við úrlausn málsins að aðilar máls eigi ekki að þola það að vera í verri stöðu gagnvart tilboðum gagnaðila vegna aðkomu lögmanna, enda megi ljóst vera að ef tilboð kæranda hefði farið fram á milli aðila deilunnar þá hefðu tilgreind samskipti haft verulega þýðingu við úrlausn málsins fyrir dómi.

Kærði byggir á að óásættanlegt sé að lögmenn geti á grundvelli sinnaskipta umbjóðenda sinna, eftir samþykki tilboða, beitt siðareglum lögmanna til að ónýta notkun slíkra tilboða fyrri dómi. Þá séu sjónarmið kæranda þess efnis að fyrirliggjandi samskipti hafi allt frá fyrsta tölvubréfi verið tillögur að sáttum að engu hafandi í ljósi þess að kærandi sjálfur hafi tilgreint að hafa áður gert „tilboð“.

Vísað er til þess að almennur fyrirvari í upphafi samskipta aðila frá 23. maí 2018 hafi verið eðlilegur og sjálfsagður, en að ekki sé unnt að fallast á að slíkur fyrirvari heimili að lögmaður geti eftirleiðis komið fram án frekari fyrirvara og gert tilboð án ábyrgðar. Það sé alþekkt að lögmenn kasti á milli sín hugmyndum sem gætu átt við og orðið til að leysa mál en síðan gerist það að lögð séu fram formleg og fyrirvaralaus tillaga að sáttum í málinu. Þá sé málið komið úr hinum óformlega fasa óskuldbindandi hugleiðinga milli lögmanna.

Kærði hafnar tilvísun kæranda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 300/2006 enda eigi sá dómur ekki við um sakarefni málsins. Bendir kærði jafnframt á að kæranda hefði verið rétt, ef hann ætlaði að ekki yrði litið á tölvubréf hans sem tilboð þrátt fyrir afdráttarlaust orðalag, að geta þess sérstaklega að það boð væri háð einhverjum fyrirvörum.

Þá hafnar kærði fullyrðingu kæranda um að það hafi verið kæranda óviðkomandi að umbjóðandi kærða hafi talið að samningur hafi komist á og að kærði hafi átt að taka það upp hjá sjálfum sér að upplýsa að tilboðið hafi verið tillaga. Bendir kærði á að fyrir tilstilli tilboðsins hafi því verið komið til vitundar umbjóðanda aðilans og kynnt eins og það hafi verið sett fram af hálfu tilboðsgjafa.

Að endingu mótmælir kærði athugasemdum kæranda um að lög nr. 7/1936 komi ekki til álita í málinu. Er á það bent að siðareglur lögmanna geri það ekki að verkum að lög gildi ekki um framkomu þeirra eða starfshætti. Ekki verði leitað annað við mat á því hvort að með tölvubréfi kæranda frá 18. júní 2018 hafi verið lögð fram óskuldbindandi tillaga sem falli undir siðareglur lögmanna eða tilboð í skilningi laga nr. 7/1936 sem hafi verið samþykkt og með því komist á samningur, sem falli utan gildissviðs siðareglna lögmanna.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna með því að hafa lagt fram í dómi sáttatillögur sem kærandi hafði sent til hans í tölvubréfi þann 18. júní 2018 fyrir hönd síns umbjóðanda, sem gagnaðila umbjóðanda kærða, utan réttar án samþykkis kæranda.

Fyrir liggur að málsaðilar áttu í sáttaumleitunum sem lögmenn fyrir hönd sinna umbjóðenda vegna krafna umbjóðanda kærða á hendur umbjóðanda kæranda samkvæmt útgefnum reikningum. Er gerð grein fyrir tilgreindum sáttaumleitunum, sem áttu sér stað fyrir málshöfðun og voru því utan réttar í skilningi 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna, í málsatvikalýsingu að framan en þær tóku til tímabilsins frá 23. maí til 18. júní 2018.

Í málsatvikalýsingu að framan er meðal annars rakið efni tölvubréfs sem kærandi sendi til kærða, dags. 18. júní 2018. Var því meðal annars lýst í tölvubréfi kæranda að umbjóðandi hans væri tilbúinn að lenda málinu með þeim hætti að veittur yrði 25% afsláttur af kröfufjárhæðinni auk þess greiddur yrði helmingur af innheimtukostnaði kærða til þess að sætta málið. Þá var þar tiltekið að ef það yrði „gengið að þessu“ væri hægt að klára allar greiðslur „sem fyrst“.

Að mati nefndarinnar er ótvírætt af efni tölvubréfs kæranda að í því fólst sáttatillaga kæranda fyrir hönd síns skjólstæðings í skilningi 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Sáttatillagan var á hinn bóginn fyrirvaralaus um það efni sem í henni greindi og verður því réttilega túlkuð sem tilboð, í skilningi I. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, umbjóðanda kæranda um lúkningu máls gagnvart umbjóðanda kærða. Engin efni eru til annars en að telja en að slíkt tilboð um lúkningu máls utan réttar eitt og sér njóti verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna enda felur það í reynd í sér sáttatillögu í skilningi greinarinnar þótt það sé bindandi fyrir tilboðsgjafa samkvæmt almennum meginreglum samningaréttar og lögum nr. 7/1936. Tekur nefndin að öllu leyti undir sjónarmið beggja málsaðila um mikilvægi þess að lögmenn geti átt í milliliðalausum sáttaumleitunum utan réttar í þágu sinna umbjóðenda, í því skyni að freista þess að leysa ágreining sem kann að vera uppi með samkomulagi án aðkomu dómstóla, og að traust geti ríkt á milli lögmanna í slíkum samskiptum, þar á meðal um að sáttatillögur gagnaðila sem þar komi fram verði ekki lagðar fram í dómsmáli nema með samþykki þess er tillöguna hefur lagt fram.

Á hinn bóginn er þess að gæta í máli þessu að ágreiningslaust er að kærði samþykkti fyrrgreint tilboð fyrir hönd umbjóðanda síns með tölvubréfi til kæranda sama dag og það var veitt, þ.e. þann 18. júní 2018 svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Með því samþykki kærða, sem telja verður að hafi komið fram innan tilskilins frests samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1936, verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að komist hafi á samningur á milli umbjóðenda kæranda og kærða um lúkningu málsins. Að áliti nefndarinnar er ekki síður mikilvægt að traust ríki milli lögmanna þegar þeir koma fram í sáttaumleitunum í þágu umbjóðenda með öndverða hagsmuni, þar á meðal um að þeir hafi fullnægjandi heimildir og umboð til að leggja fram bindandi sáttatillögur og tilboð. Samkvæmt því á lögmaður sem móttekur fyrirvaralaust tilboð um lúkningu máls í þágu umbjóðanda síns frá öðrum lögmanni sem sinnt hefur hagsmunagæslu gagnaðila að geta treyst því að tilboðið sé réttilega fram borið á grundvelli heimildar og að fyrirvaralaust samþykki þess sé til þess fallið að leiða til lúkningar málsins samkvæmt samkomulagi sem þá hefur komist á.

Á grundvelli þess sem hér hefur verið rakið mátti kærði ganga út frá og treysta að kominn væri á skuldbindandi samningur á milli umbjóðenda málsaðila um lok málsins með samþykki því sem hann veitti og sendi í tölvubréfi til kæranda þann 18. júní 2018. Fyrir liggur að kærði var í góðri trú um að svo væri enda fylgdi hann samþykkinu eftir með tölvubréfi til kæranda, dags. 21. sama mánaðar, þar sem ýtt var á eftir greiðslu samkvæmt því samkomulagi sem hann taldi vera komið á. Þá má ljóst vera að ætluð breyting á huglægri afstöðu umbjóðanda kæranda til sátta í málinu, sem lýst var í tölvubréfi kæranda til kærða degi síðar, gat ekki haft nokkur réttaráhrif að lögum gagnvart hinu samþykkta tilboði, sbr. 7. gr. laga nr. 7/1936.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar í máli þessu að hið fyrirvaralausa sáttatilboð sem kærandi beindi fyrir hönd síns umbjóðanda til kærða þann 18. júní 2018 hafi ekki notið verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna eftir að kærði hafði sent tölvubréf til kæranda um samþykki þess þann sama dag. Samkvæmt því hafi ekki verið um sáttatillögu í skilningi greinarinnar að ræða eftir að hún var samþykkt heldur þvert á móti skjal sem orðið var að hluta samkomulags sem komist hafði á. Mátti kærði treysta að svo væri og að í samþykki hans á sáttatilboði kæranda fælist endir málsins að frágengnum efndum samkvæmt efni samkomulagsins.

Fyrir liggur að í stefnu þeirri, sem kærði þingfesti fyrir hönd umbjóðanda síns í Héraðsdómi Y þann x. september 2018, var á því byggt að komist hefði á bindandi löggerningur á milli aðila á grundvelli tölvubréfasamskipta lögmanna þeirra fyrir málshöfðun, svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt því sem áður greinir og með hliðsjón af atvikum öllum verður að telja að kærða hafi verið heimilt að leggja fram þau tölvubréfasamskipti málsaðila að þessu máli sem fært gátu stoð undir þá málsástæðu umbjóðanda síns, þar á meðal fyrrgreint tölvubréf kæranda frá 18. júní 2018. Þá verður ekki talið að kærði hafi gengið lengra í þeim efnum en tilefni var til, að teknu tilliti til 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að kærði hafi gagnvart kæranda gerst brotlegur gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna í störfum sínum.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson