Mál 9 2019

Mál 9/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 17. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. apríl 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 4. apríl 2019 og barst hún þann 7. maí 2019. Var greinargerð kærða send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 7. júní 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 14. sama mánaðar. Svar kærða barst 27. júní 2019 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 1. júlí sama ár með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingu aðila lést faðir kæranda, C, á árinu 2006.

Fyrir liggur í málsgögnum bréf sem kærði beindi til þáverandi sýslumannsembættis í Reykjavík þann 25. janúar 2007 vegna dánarbúsins fyrir hönd D, ekkju Þorsteins og móður kæranda. Var í bréfinu vísað til þess að umbjóðandi kærða og C hefðu átt saman þrjá syni, þ.e. kæranda, E og F sem væri látinn en hann hefði látið eftir sig tvö börn. Þá hefði C átt einn son frá fyrra hjónabandi, þ.e. G. Hafi vilji þeirra hjóna samkvæmt erfðaskrá staðið til þess að langlífari maki fengi leyfi til setu í óskiptu búi. Þá var tiltekið í bréfinu að ekki hefði náðst sátt um að ljúka mætti búinu með einkaskiptum að öllu leyti. Af þeim sökum teldi umbjóðandi kærða nauðsynlegt að embættið myndi hlutast til um að búið færi í opinber skipti, en þó einungis gagnvart G því D myndi sitja í óskiptu búi að öðru leyti.

Af málsgögnum verður ráðið að dánarbú C hafi verið tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 16. febrúar 2007. Sama dag mun H lögmaður hafa verið skipaður skiptastjóri í dánarbúinu.

Fyrir liggur í málinu frumvarp til úthlutunar í fyrrgreindu dánarbúi, dags. 17. september 2007. Í frumvarpinu er því lýst hverjir lögerfingjar séu, þar á meðal kærandi í þessu máli. Þá var eftirfarandi meðal annars tiltekið í frumvarpi skiptastjóra:

Skiptastjóra hefur borist bréf dags. 12. september sl. þar sem fram kemur ósk frá eftirlifandi maka hins látna D og erfingjunum A, E, K og J þess efnis að G verði greiddur út sinn arfshluti og að eftirlifandi maki D sitji í óskiptu búi. – Með vísan til tilvitnaðrar erfðaskrár hins láta verður arfshluti G 11,11% af hreinni eign dánarbúsins eða sem nemur kr. 1.454.922. – Verði frumvarp þetta samþykkt mun skiptastjóri annast um að greiða arfshlutann út eftir að erfðafjárskýrsla hefur verið frágengin og erfðafjárskattur greiddur af arfshlutanum og að fá staðfestingu Sýslumannsins í Reykjavík fyrir setu D í óskiptu búi.

Í fundargerð skiptafundar sem haldinn var þann 20. september 2007 var bókað að kærði væri þar mættur vegna D, A, E, J og K. Þá var bókað í fundargerð að engar athugasemdir væru gerðar við fyrirliggjandi frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu. Samkvæmt því myndi skiptastjóri árita frumvarpið um samþykkt þess og ljúka skiptum.

Með bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 2. nóvember 2007, var tilkynnt um að opinberum skiptum á dánarbúi C væri lokið.

Í málinu liggur jafnframt fyrir yfirlýsing E, dags. 6. maí 2019, sem kærði lagði fram undir rekstri þess en hún er svohljóðandi:

B lögmaður tók að sér að vera lögmaður móður minnar, D, vegna skipta á dánarbúi föður míns, C, sem lést í maí 2006. Erfingjarnir J og K óskuðu eftir því í samtali við mig að Logi gætti einnig þeirra hagsmuna og kom ég þeirri ósk á framfæri við B. Mér barst einnig ósk A sama efnis og upplýsti ég B um það. Það gagn er nú glatað, enda tæplega 13 ár liðin síðan þetta var. A gerði aldrei athugasmdir við málið á meðan það var hjá skiptastjóra, en hann var upplýstur um gang málsins á öllum stigum, né heldur gerði hann athugasemdir við gögn skiptastjóra að búskiptunum loknum. Afrit af þeim gögnum fékk móðir mín, og ég var viðstaddur þegar A las þau á heimili hennar árið 2008. Þessi gögn hef ég nú undir höndum og má vafalaust finna fingraför A á þeim pappírum.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærði hafi haft umboð til að koma fram fyrir hönd kæranda við fyrrgreind skipti á dánarbúi C.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að henni sé beint að ætluðu skjalafalsi kærða. Vísar kærandi um það efni til þess að kærði hafi komið fram fyrir hönd kæranda, án vitundar og samþykkis hins síðargreinda, við opinber skipti á dánarbúi föður hans. Hafi í því falist brot á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um hið ætlaða skjalafals vísar kærandi til þess að við opinber skipti á dánarbúi móður hans, D sem setið hafi í óskiptu búi, árið 2015 hafi ítrekað verið vitnað í opinber skipti á dánarbúi föður kæranda. Þar hafi kæranda ítrekað verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki gert athugasemdir vegna hinna fyrri dánarbússkipta. Kveður kærandi ástæður þess þær að opinberum skiptum á dánarbúi föður hans hafi vísvitandi verið haldið leyndum fyrir honum og tveimur öðrum lögerfingum af einum erfingja, þ.e. E, og hinum kærða lögmanni sem gætt hafi hagsmuna E.

Kærandi kveðst hafa leitað til sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu í júnímánuði 2018 og fengið þar afrit af erfðafjárskýrslu, frumvarp til úthlutunar í dánarbúi föður hans, dags. 17. september 2007 og fundagerð frá 20. sama mánaðar þar sem viðkomandi skiptum var lokið. Í tilgreindum skjölum hafi verið tiltekið að kærði hafi komið fram fyrir hönd kæranda við skipti á dánarbúinu. Hafi skiptastjóri, H lögmaður, jafnframt staðfest það í símtali við kæranda.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi ekki haft nokkra heimild til að koma fram fyrir sína hönd við skipti dánarbús föður hans á árinu 2007. Samkvæmt því hafi kærði gerst brotlegur við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé kvörtun í máli þessu þegar af þeirri ástæðu beint til úrskurðarnefndar lögmanna og þess krafist að nefndin beiti kærða þyngstu refsingu sem lög leyfa.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni er vísað til þess að það sé rangt að kærandi hafi viðhaft ósannar ávirðingar í kvörtun málsins. Þá sé málatilbúnaður hans hvorki byggður á misskilningi, minnisleysi eða ósannindum. Þvert á móti reyni kærði með þessu móti að gera kæranda tortryggilegan gagnvart nefndinni í því skyni að beina athyglinni frá eigin afglöpum.

Kærandi vísar til þess að engir aðrir lögerfingjar en fyrrgreindur E hafi fylgst með skiptum á dánarbúi föður þeirra á árinu 2007. Þá sé það rangt að E hafi óskað eftir að kærði gætti hagsmuna allra lögerfingja undir rekstri skiptanna og að hann hafi upplýst alla hlutaðeigandi um framvindu þeira. Bendir kærandi á að E hafi aldrei haft samband við sig vegna skiptanna enda hafi hann haft hagsmuni af því að halda þeim leyndum.

Kærandi ítrekar að það sé rangt að Hallur hafi haft umboð frá sér til hagsmunagæslu vegna skiptanna. Ekkert umboð liggi fyrir í málsgögnum sem sýni fram á að kærði fari með rangt mál. Þá hafi kærandi fyrst haft samband við viðkomandi skiptastjóra á árinu 2019. Hafi kærði því ekkert umboð haft frá kæranda við skipti dánarbúsins á árinu 2007 auk þess sem fyrirliggjandi yfirlýsing E í málinu, dags. 6. maí 2019, sé ósönn með öllu.

Kærandi vísar til þess að bréf það sem hann hafi lagt fram með kvörtun, dags. 25. janúar 2007, hafi hann fengið frá viðkomandi skiptastjóra í tölvubréfi þann 14. janúar 2019. Samkvæmt því sé það rangt að hann hafi haft skjalið undir höndum frá öndverðu, líkt og kærði haldi fram í málinu.

Kærandi lýsir því að endingu að ýmislegt hafi orkað tvímæli við fyrrgreind skipti en að endingu hafi allir verið sáttir. Fyrir liggi hins vegar að ástæða þess að honum hafi verið haldið utan við skipti á dánarbúi föður hans hafi verið sú að fyrrgreindur E hafi misfarið með reikninga fyrir andlátið.  Kjarni málsins sé hins vegar sá að kærði hafi ekki sýnt fram á að hann hafi haft leyfi til að koma fram fyrir hönd kæranda við skipti á dánarbúinu líkt og kvörtun málsins sé grundvölluð á.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kveðst kærði mótmæla öllum þeim ávirðingum sem fram koma í kvörtun kæranda jafnframt því sem þeim sé hafnað sem röngum, ósönnum og úr lausu lofti gripnum. Þá vísar kærði til þess að kvörtun hljóti að byggja annað hvort á misskilningi, minnisleysi eða ósannindum.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að hið rétta sé að móðir kæranda, D, hafi leitað til hans á haustmánuðum 2006, þ.e. í kjölfar andláts eiginmanns hennar C. Hafi nefndur C átt son frá fyrra sambandi en sá hafi ekki samþykkt að skipta búinu einkaskiptum. Af þeim sökum hafi umbjóðandi kærða, D, ákveðið að skipta búinu samkvæmt ákvæðum erfðaskrár. Hafi strax verið ákveðið að einungis skyldi búinu skipt gagnvart viðkomandi lögerfingja en að umbjóðandi kærða myndi sitja að öðru leyti í óskiptu búi í framhaldinu enda aðrir erfingjar sameiginlegir niðjar þeirra hjóna. Vísar kærði um þetta efni til bréfs hans, dags. 25. janúar 2007, sem kærandi hafi lagt fram.

Kærði lýsir því að þegar málið hafi komið til skiptastjóra hafi verið talið eðlilegt að þótt D hefði mestra hagsmuna að gæta væri betra að aðrir erfingjar fylgdust með málinu, en hagsmunir þeirra hefðu verið sameiginlegir. Vísar kærði til þess að E, einn af erfingjum D og C, hafi haft samband við sig vegna málsins og beðið um að kærði myndi annast hagsmunagæslu vegna allra þeirra. Hafi allir erfingjar verið upplýstir um það jafnframt því sem E hafi upplýst aðra jafnóðum um framvindu málsins, en um hafi verið að ræða kæranda og barnabörn D og C.

Kærði vísar til þess að bróðir kæranda, fyrrgreindur E, hafi verið með umboð frá honum til sín um hagsmunagæslu í málinu. Samkvæmt því hafi E haft umboð til að leita til kærða með málið sem kærði hafi og gert samkvæmt sinni bestu samvisku. Lýsir kærði því að E hafi sýnt honum umboðið, en hann muni nú ekki hvort hann hafi tekið ljósrit af því þótt líklegt sé. Þá hafi þessi aðferð verið ágæt í ljósi þess að kærandi hafi verið búsettur á Spáni. Kveðst kærði jafnframt minnast þess að í samtölum hans við skiptastjóra hafi komið fram að kærandi hefði sjálfur verið í samskiptum við hinn síðargreinda undir skiptunum.

Um allt framangreint vísar kærði til yfirlýsingar frá E sem er meðal málsgagna.

Kærði vísar til þess að undirrót kvörtunarinnar megi rekja til eftirmála fyrrgreindra dánarbússkipta. Við andlát D á árinu 2015 hafi þannig orðið úr harðvítugt erfðamál þar sem kærandi hafi meðal annars kært bróðir sinn til lögreglu auk þess að væna kærða og skiptastjóra dánarbús D um svik og pretti ásamt því að freista þess að losna sjálfur við áhvílandi veðskuldir að fjárhæð 10.000.000 króna sem hann hafi sjálfur stofnað til og hvíldu á aðaleign búsins að Guðrúnargötu 4 í Reykjavík. Hafi verið ljóst í því máli að kærandi gerði engan greinarmun á réttu og röngu í sínum málflutningi, ekki frekar en í máli þessu. Þá hafi kærandi verður gerður afturreka með allar sínar kröfur enda málatilbúnaður hans byggður á sandi.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar er vísað til þess að hann hafi haft þá reglu varðandi vörslu gagna og skjala alla tíð að afhenda þau skjólstæðingum til ábyrgðar og vörslu. Kærði eyði jafnframt gögnum eftir um það bil sjö ár enda telji hann þá skyldu sinni gagnvart skjólstæðingum fullnægt. Kveður kærði sig hafa viðhaft fyrrgreinda aðferð við vinnu í tengslum við dánarbú C.

Kærði bendir jafnframt á að skiptastjóri dánarbúsins, H, hafi sem opinber sýslunarmaður ekki gert neinar athugasemdir við umboð kærða gagnvart viðkomandi skjólstæðingum enda ekkert tilefni til.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá er tiltekið í ákvæðinu að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærði hafi haft umboð til að koma fram fyrir hönd kæranda undir opinberum skiptum á dánarbúi föður hins síðargreinda á árinu 2007. Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir framvindu tilgreindra skipta sem lauk með samþykktu frumvarpi til úthlutunar úr dánarbúinu á skiptafundi þann 20. september 2007. Þá liggur fyrir að skiptastjóri tilkynnti Héraðsdómi Reykjavíkur um lok hinna opinberu skipta með bréfi, dags. 2. nóvember 2007.

Um þetta efni er þess að gæta að fyrirliggjandi kvörtunarefni kæranda í málinu lúta öll að ætlaðri háttsemi kærða gagnvart kæranda við fyrrgreind dánarbússkipti. Er hér um að ræða lögskipti sem var lokið rúmum ellefu árum áður en máli þessu var beint til nefndarinnar með kvörtun kæranda.  Að mati nefndarinnar verður ekki framhjá því litið að kærandi hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni lýst því að við opinber skipti á dánarbúi móður hans á árinu 2015, sem setið hafi í óskiptu búi, hafi ítrekað verið vitnað í opinber skipti á dánarbúi föður hans frá árinu 2007. Hafi kæranda þannig verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki gert athugasemdir vegna hinna fyrri dánarbússkipta.

Í samræmi við framangreint verður að leggja til grundvallar að kærandi hafi þegar á árinu 2015 verið upplýstur um hin opinberu skipti á dánarbúi föður hans sem áður er lýst og átt þann kost að afla sér þeirra gagna sem hann kveðst nú hafa gert á árinu 2018 og lögð voru fram með kvörtun hans til nefndarinnar. Verður kærandi að bera hallann af því að hafa látið það ógert. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki miðað við annað tímamark en vitneskju kæranda á árinu 2015 við mat á því hvenær hann átti þess kost að koma kvörtun á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður að mati nefndarinnar að ætla að kærandi hafi þá þegar haft tök á að afla og kynna sér þau gögn, sem kvörtun aðilans er nú studd við, og átt þann kost að koma kvörtun á framfæri.

Kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmanna þann 3. apríl 2019 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Þá fellur það utan við valdsvið nefndarinnar að leggja efnislegt mat á hvort kærði hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að því gættu er óhjákvæmilegt að vísa kvörtun kæranda frá nefndinni með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson