Mál 1 2021

Mál 1/2021

Ár 2021, fimmtudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. janúar 2021 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 1. mgr. 26. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna í störfum sínum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. janúar 2021 og barst hún þann 4. mars 2021. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 10. mars 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 29. mars 2021 og voru þær sendar til kærða með bréfi dags. 7. apríl 2021. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 17. maí 2021 og voru þær sendar til kæranda þann 19. sama mánaðar þar sem jafnframt var upplýst um að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum liggur fyrir að Lögmannsstofan C beindi fyrir hönd kæranda skriflegri viðvörun um innheimtuaðgerðir til barnsföður kæranda þann 5. mars 2020 vegna ætlaðs vangreidds meðlags. Mun viðtakandi bréfsins, sem gagnaðili kæranda, hafa leitað til kærða um hagsmunagæslu vegna málsins í kjölfar þess.

Kvörtun í málinu varðar skilaboð sem kærði sendi til kæranda í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook kl. 00:23 fimmtudaginn 19. mars 2020, en þau voru orðrétt svohljóðandi:

Sæl A. Ég hef ekki tölvupóstinn þinn svonég sendo þér skilaboð hér á Favebook. B heiti ég, lögmaður D. Sú krafa sem þú hefur falið C að innheimta fyrir þig á sér enga stoð í lögum. Áður en ég fer með málið lengra vil ég biðja þig vinsamlegast að afturkalla beiðnina til C. Verði það ekki gert fyrir lok föstudags mun ég f.h. umbj. míns höfða mál gegn yður fyrir innheimtu óheimillar kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, auk kostnaðar við málshöfðun gegn yður. Verði þessu erindi ekki svarað fyrir lok föstudags með staðfestingu um að framangreint sé afturkallað, er mér ekki annar kostur fær en að færa málið í framangreindan farveg. Virðingarfyllst, B, lögmaður.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærði og lögmaður kæranda hafi átt með sér samtal að morgni 19. mars 2020. Fylgdi lögmaður kæranda því samtali eftir með tölvubréfi til kærða þar sem ítrekað var að öll samskipti vegna málsins skyldu fara í gegnum lögmanninn en ekki kæranda, sbr. 26. gr. siðareglna lögmanna. Í svari kærða sama dag bar hann því við að hann hefði gætt ákvæða 26. gr. siðareglnanna enda hefði brýn nauðsyn búið að baki viðkomandi samskiptum þar sem barn umbjóðanda hans og kæranda hefði lesið innheimtubréfið og haft af því miklar áhyggjur. Þá hafi kærði upplýst lögmann kæranda strax um skilaboð þau sem hann hefði sent til kæranda.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna tölvubréfasamskipti kærða og lögmanns kæranda á tímabilinu frá 20. mars til 19. júní 2020 vegna ágreinings um innheimtukröfuna. Ekki þykir ástæða til að reifa þau sérstaklega vegna sakarefnis málsins. Þá er jafnframt meðal málsgagna að finna bréf sem kærði beindi fyrir hönd síns umbjóðanda til lögmanns kæranda þann 8. apríl 2020 en þar var öllum kröfum kæranda hafnað. Í engu var hins vegar vikið að þeirri mögulegu málshöfðun gagnvart kæranda sem boðuð hafði verið í erindi kærða til kæranda sjálfs þann 19. mars 2020.

Líkt og áður er rakið var kvörtun í málinu móttekin þann 4. janúar 2021.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærði verði áminntur vegna brota í störfum. Þá krefst kærandi málskostnaður úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærandi vísar til þess í kvörtun að hún hafi falið Lögmannsstofunni C að innheimta kröfu fyrir sína hönd gagnvart umbjóðanda kærða. Hafi lögmannsstofan sent kröfubréf þar að lútandi fyrir hönd kæranda þann 5. mars 2020. Þann 19. sama mánaðar hafi kærði sett sig í samband við kæranda í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook. Hafi kærði þar kynnt sig sem lögmann skuldara og krafist þess að kærandi myndi afturkalla viðkomandi kröfu úr innheimtu hjá fyrrgreindri lögmannsstofu þar sem hún ætti sér ekki stoð í lögum. Bendir kærandi á að kærði hafi jafnframt tiltekið að ef krafan yrði ekki afturkölluð fyrir lok föstudagsins 20. mars 2020 yrði höfðað mál gegn kæranda fyrir innheimtu óheimillar kröfu.

Kærandi vísar jafnframt til þess að þennan sama dag, 19. mars 2020, hafi kærði setið fund með lögmanni hennar vegna kröfubréfsins sem sent hafði verið þann 5. mars sama mánaðar. Engin skrifleg svör hafi hins vegar borist við kröfubréfinu fyrr en kærði hafi sett sig beint í samband við kæranda á samfélagsmiðlinum aðfaranótt 19. mars 2020, svo sem fyrr greinir.

Kærandi byggir á að háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 26. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærði þannig verið fullmeðvitaður um að Lögmannsstofan C gætti hagsmuna kæranda í málinu og að því hafi kærða borið að beina skriflegum svörum til þeirrar stofu í samræmi við 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna. Þá hafi sú háttsemi kærða, að hafa beint samband við kæranda og hóta málaferlum ef ekki yrði brugðist við með afturköllun á réttmætri kröfu, falið í sér ótilhlýðilega þvingun og því brot gegn 35. gr. siðareglnanna.

Kærandi vekur athygli á að í svarbréfi, dags. 8. apríl 2020, hafi kærði hvergi vísað til yfirvofandi málshöfðunar vegna innheimtu á ólögmætri kröfu. Telur kærandi ljóst af því að tilgangur kærða með því að hafa beint samband við sig í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook og hóta þar yfirvofandi málshöfðun yrði krafan ekki afturkölluð, hafi verið að þvinga fram afturköllun kröfunnar með ótilhlýðilegum hætti.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að hún sé væntanlega ekki ein um það að hrökkva í kút þegar lögmaður í öllu sínu veldi banki upp á, hvað þá ef það er á þeim tíma sólarhrings sem fólki er helgur til hvíldar. Gæti konum að auki verið eðlislægt að líta á slíkt sem ofbeldi, eða að minnsta kosti tilraun til þess. Í augum þorra almennings tali lögmenn vafalítið með álíka valdboðsþunga og dómarar eða lögreglumenn. Enda þótt flestum sé væntanlega ljóst að lögmaður sé ekki yfirvald banki hjartað samt hraðar en ella ef hann knýr dyra. Hafi það í öllu falli átt við kæranda. Bendir kærandi í þessu samhengi á að kærði hafi sent hin umþrættu skilaboð á samfélagsmiðlinum kl. 00:23 þann 19. mars 2020.

Kærandi mótmælir því sérstaklega að einhver brýn nauðsyn hafi verið fyrir hinni umþrættu sendingu skilaboða af hálfu kærða aðfaranótt 19. mars 2020. Mótmælir kærandi því að sonur hennar hafi, 12 ára gamall, sótt bréf í póstkassa föður síns, sem af einhverjum ástæðum hafi legið þar óhreyft í tvær vikur, opnað það sjálfur og lesið að honum forspurðum. Geri þokkalega vel uppalin börn það einfaldlega ekki. Samkvæmt því standist atvikalýsing kærða um hina „brýnu nauðsyn“ til beinna samskipta við kæranda um miðja nótt því enga skoðun.

Kærandi vísar til þess að hún sé einstæð móðir tveggja drengja og að hún eigi í ágreiningi við barnsföður, þ.e. umbjóðanda kærða. Sé heimilið griðarstaður fjölskyldunnar. Séu skilaboð af því tagi sem kærði hafi sent um miðja nótt eðlilega hrollvekjandi inngrip í friðhelgi heimilisins. Þá hafi það gerst eftir að kærandi hafði leitað fulltingis lögmanns til að annast þau samskipti sem kærði hafði svo leitað beint til hennar með. Hafi það því verið gríðarlegt áfall að fá þau skilaboð frá kærða um miðja nótt sem kvörtun lúti að, en þau hafi verið ósvífin og falið í sér hótanir. Kveðst kærandi hafa orðið hrædd og verið brugðið. Hafi falist í því ógn auk þess sem valdboðið hafi verið augljóst. Jafnframt verði að líta til þess að þessi árás að nóttu til hafi verið óvænt þar sem kærandi hafi áður verið fullvissuð um að hún væri í vari fyrir atlögu af þessu tagi frá lögmanni sem aldrei gæti að nauðsynjalausa sneitt framhjá þeirri reglu að vera í samskiptum við lögmann kæranda vegna málsins.

III.

Kærði krefst þess aðallega að nefndin vísi málinu frá en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað að mati nefndarinnar, að teknu tilliti til áhrifa virðisaukaskatts.

Kærði kveðst hafna málsatvikum og fullyrðingum kæranda sem röngum og ósönnuðum. Þá kveðst kærði hafna því að háttsemi hans hafi brotið í bága við siðareglur lögmanna.

Kærði vísar til þess að hann hafi sent tölvupóst til lögmanns kæranda þann 19. mars 2020 þar sem útskýrt hafi verið að brýn nauðsyn, í skilningi 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna, hafi verið fyrir hinum umþrættu samskiptum þar sem barn umbjóðanda hans og kæranda hafi sótt innheimtubréf, dags. 5. mars 2020, og lesið það á undan föðurnum. Kærði hafi sent hin umþrættu skilaboð á samfélagsmiðlinum Facebook þann 19. mars kl. 00:23, eða þegar skrifstofa lögmanns kæranda hafi verið lokuð. Að sama skapi verði að telja að það sýni hversu brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi, þar sem skilaboðin hafi verið send eftir miðnætti hinn umrædda dag.

Sama dag, eða strax að morgni 19. mars 2020, hafi kærði setið fund með lögmanni kæranda vegna kröfubréfsins og tilkynnt honum þegar í stað um ástæðu þess að umbjóðandi hans hafi viljað senda umrædd skilaboð til kæranda vegna áhyggja barnsins.

Í samræmi við framangreint vísar kærði til þess að það hafi verið hans mat að uppfyllt væru skilyrði 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna, þ.e. annars vegar að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða og hins vegar að viðkomandi lögmanni hafi verið um það tilkynnt þegar í stað. Tekur kærði jafnframt fram að þetta hafi verið í eina skiptið sem hann hafi haft samband við kæranda, en í framhaldinu hafi öll samskipti verið milli hans og lögmanns kæranda.

Kærði vísar til þess að umbjóðandi hans hafi talið mjög mikilvægt, vegna uppnáms barns hans og kæranda, að kæranda yrði tilkynnt um afstöðu hans þegar í stað. Vísar kærði um þetta efni jafnframt til bréfs hans fyrir hönd umbjóðanda til lögmanns kæranda, dags. 8. apríl 2020. Megi þar glögglega sjá að umbjóðandi kærða hafi hafnað kröfu kæranda sem ólögmætri, ósanngjarnri og óheiðarlegri, sem og að hann muni ekki beygja sig undir hótanir vegna kröfu sem eigi sér ekki stoð.

Kærði ítrekar að talið hafi verið nauðsynlegt að tilkynna kæranda án tafar afstöðu umbjóðanda hans vegna hagsmuna barns þeirra sem hafi verið í uppnámi vegna innheimtubréfsins. Þá hafi kærði farið strax í málið morguninn eftir að hin umþrættu skilaboð voru send og rætt við lögmann kæranda.

Kærði bendir jafnframt á að kröfubréf sem sent hafi verið fyrir hönd kæranda, dags. 5. mars 2020, hafi ekki staðist lög, t.d. um fyrningu, og að með því hafi verið gengið harðar fram en nauðsyn hafi krafist, sbr. t.d. 36. gr. siðareglna lögmanna. Hafi umbjóðanda kærða þannig aldrei verið gefinn kostur á að ljúka málinu með samkomulagi. Með háttsemi sinni hafi kærði leitast við að málið yrði leyst á sem bestan og faglegastan máta.

Vísað er til þess að í kjölfar þessa hafi samskipta kærða og lögmanns kæranda verið góð og fagleg. Hafi því kvörtun í málinu vakið mikla furðu. Hafi kærða þannig ekki verið tilkynnt að til stæði að senda slíka kvörtun til nefndarinnar. Vísar kærði til þess að ef það hefði verið gert hefði hann haft allan vilja til að leitast við að málið yrði leyst í góðu á farsælan máta.

Kærði kveðst í einu og öllu hafa kappkostað að fylgja siðareglum lögmanna, meðal annars um að koma heiðarlega og faglega fram við aðra lögmenn og alla málsaðila. Harmar kærði ásakanir um ætluð brot hans gegn siðareglum lögmanna.

Kærði kveðst ekki hafa brotið á rétti kæranda, þ.e. hvorki gegn 1. mgr. 26. gr. né 35. gr. siðareglna lögmanna. Vísar kærði til þess að hann hafi þvert á móti kappkostað að gæta hagsmuna umbjóðanda síns sem og hagsmuna barns hans. Þá sýni öll samskipti kærða og háttsemi í málinu að hann hafi sinnt skyldum sínum sem lögmaður með sóma. Kærði telur á hinn bóginn að háttsemi lögmanns kæranda hafi að lágmarki verið athugaverð þar sem komið hafi verið fram með mun meiri hörku í innheimtuaðgerðum en þörf hafi verið á.

Í viðbótarathugasemdum kærða vísar aðilinn til þess að málatilbúnaður kæranda sé særandi og að hann harmi mjög að vera kallaður „árásarmaður“ ásamt því að umræddum skilaboðum sé líkt við „heimsókn“. Hafi ekkert annað legið til grundvallar skilaboðum kærða til kæranda en að gæta hagsmuna umbjóðanda hans og barns. Hafi ætlunin því alls ekki verið að koma kæranda í uppnám. Þá hafi brýn nauðsyn búið þar að baki, svo sem áður er rakið.

Kærði vísar til þess að vissulega þurfi að vega og meta hvenær nauðsynlegt sé fyrir lögmann að hafa samband við gagnaðila. Kveðst kærði hafa kappkostað að fylgja siðareglum lögmanna í sínum störfum. Hafi hann þannig farið strax og skrifstofa lögmanns kæranda opnaði morguninn eftir sendingu hinna umþrættu skilaboða, rætt málið við viðkomandi lögmann og greint honum frá þeim.

Niðurstaða

                                                                          I.

Kærði hefur krafist þess aðallega fyrir nefndinni að málinu verði vísað frá. Í málatilbúnaði kærða er á hinn bóginn engar málsástæður að finna sem lúta að þeirri kröfugerð eða leitt gætu til frávísunar málsins, ef á þær væri fallist.

Varðandi kröfuna sem slíka þá er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðu broti kærða, sem lögmanns, gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur ótvírætt undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, því undir valdsvið nefndarinnar. Þá er kvörtun málsins skýr um þau kvörtunarefni sem hún tekur til. Er aðalkrafa kærða um frávísun málsins samkvæmt því haldlaus og verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá kemur fram í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum en í ákvæðinu er jafnframt nánar skilgreint hvað teljist meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

III.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 1. mgr. 26. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa haft beint samband við sig, sem gagnaðila umbjóðanda kærða, í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook aðfaranótt 19. mars 2020. Hafi kærði þar beðið kæranda um að afturkalla viðkomandi kröfu gagnvart umbjóðanda kærða úr innheimtu hjá lögmanni en tilkynnt að mál yrði annars höfðað gegn kæranda fyrir innheimtu óheimillar kröfu.

Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að brýn nauðsyn hafi verið fyrir hinum umþrættu samskiptum þar sem barn umbjóðanda hans og kæranda hafi sótt innheimtubréf í póstkassa sem lögmaður kæranda hafi sent til umbjóðanda kærða og lesið það á undan hinum síðargreinda. Hafi barnið verið í miklu uppnámi eftir það og því talið nauðsynlegt að koma afstöðu til kæranda án tafar og hafi kærði því gert það að beiðni umbjóðanda síns. Hin umþrættu skilaboð hafi verið send kl. 00:23 eftir miðnætti sem sýni hversu brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi, en þá hafi skrifstofa lögmanns kæranda verið lokuð. Þá hafi kærði upplýst lögmann kæranda um hin umþrættu skiluboð strax morguninn eftir.

Fyrir liggur í málinu að nánar tilgreind lögmannsstofa beindi fyrir hönd kæranda skriflegri viðvörun um innheimtuaðgerðir til umbjóðanda kærða þann 5. mars 2020. Ágreiningslaust er í málinu að kærða var kunnugt um þá hagsmunagæslu, þ.e. að lögmaður kæmi fram fyrir hönd kæranda í viðkomandi máli. Þrátt fyrir það kaus kærði að snúa sér beint til kæranda aðfaranótt 19. mars 2020 og senda eftirfarandi skilaboð til hennar á samfélagsmiðlinum Facebook:

Sæl A. Ég hef ekki tölvupóstinn þinn svonég sendo þér skilaboð hér á Favebook. B heiti ég, lögmaður D. Sú krafa sem þú hefur falið C að innheimta fyrir þig á sér enga stoð í lögum. Áður en ég fer með málið lengra vil ég biðja þig vinsamlegast að afturkalla beiðnina til C. Verði það ekki gert fyrir lok föstudags mun ég f.h. umbj. míns höfða mál gegn yður fyrir innheimtu óheimillar kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, auk kostnaðar við málshöfðun gegn yður. Verði þessu erindi ekki svarað fyrir lok föstudags með staðfestingu um að framangreint sé afturkallað, er mér ekki annar kostur fær en að færa málið í framangreindan farveg. Virðingarfyllst, B, lögmaður.

Áður er gerð grein fyrir efni 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji.

Um hina ætluðu brýnu nauðsyn sem kærði hefur vísað til í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni er til þess að líta að kærði vék í engu að því efni í skilaboðunum sem hann sendi beint til kærða rétt eftir miðnætti 19. mars 2020. Lýsti kærði þannig í engu þeim áhyggjum sem umbjóðandi hans hefði af barni aðila og þörfinni af þeim sökum á hinum beinu samskiptum á samfélagsmiðli sem kvörtun tekur til. Þvert á móti tiltók kærði það eitt í hinum umþrættu skilaboðum að ef kærandi myndi ekki afturkalla beiðni um lögmannsaðstoð við innheimtu kröfu gagnvart umbjóðanda kærða innan tæplega tveggja sólarhringa myndi kærði fyrir hönd umbjóðandans höfða mál gagnvart kæranda „fyrir innheimtu óheimillar kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, auk kostnaðar við málshöfðun“.

Að mati nefndarinnar hefur kærði á engan hátt sýnt fram á að þeir ætluðu hagsmunir, sem hann vísaði til degi síðar gagnvart lögmanni kæranda og greinir jafnframt í málatilbúnaði hans fyrir nefndinni, hafi verið slíkir að heimilað hafi bein samskipti við kæranda með þeim hætti sem gert var og kvörtun í málinu tekur til. Hin umþrættu skilaboð sem kærði sendi til kæranda verða ekki skilin á annan hátt en að tilgangur með þeim hafi verið sá einn að fá kæranda til að afturkalla kröfu úr innheimtu hjá lögmanni gagnvart umbjóðanda kærða, þar á meðal með tilvísun til fyrirhugaðar málshöfðunar gagnvart kæranda ef því yrði ekki sinnt. Með hliðsjón af efni skilaboðanna verður að telja að málatilbúnaður kærða um hina brýnu nauðsyn, í skilningi 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna, eigi sér enga stoð. Hafi kærða því verið óheimilt að snúa sér beint til kæranda um málefnið enda lá ekki fyrir samþykki lögmanns kæranda fyrir slíkum milliliðalausum samskiptum.

Enn síður verður talið réttlæting fyrir hinum beinu samskiptum að kærði hafi kosið að senda skilaboðin til kæranda á þeim tíma sólarhrings þegar skrifstofa lögmanns kæranda var lokuð, svo sem kærði hefur vísað til fyrir nefndinni. Fyrir liggur að lögmaður kæranda var með skráð tölvupóstfang sem kærði gat auðveldlega nálgast jafnframt því sem vísað var til tölvupóstfangs viðkomandi lögmannsstofu í þeirri innheimtuaðvörun sem kærði hafði þá undir höndum. Hefur kærði heldur engar haldbærar skýringar á því veitt fyrir nefndinni hvers vegna honum var ekki nægilegt að bíða opnunar lögmannsstofunnar næsta morgun, þ.e. fyrst hann kaus að senda ekki erindið í tölvupósti til lögmanns kæranda. Verður þá að líta til tímasetningar á sendingu hinna umþrættu skilaboða en með hliðsjón af henni gat kærði á engan hátt ætlað að þau kæmust til skila til kæranda fyrir opnun næsta morgun.

Í samræmi við framangreint fór háttsemi kærða í bága við 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna. Með háttsemi sinni, þ.e. að senda þau skilaboð sem kvörtun tekur til í einkaskilaboðum á samfélagsmiðli til kæranda að nóttu til, sýndi kærði kæranda jafnframt ekki þá virðingu í ræðu, riti og framkomu sem áskilin er í 34. gr. siðareglnanna. En ekki síst er ámælisverð sú háttsemi kærða sem fólst í efni hinna umþrættu skilaboða, þ.e. að tilkynna kæranda um fyrirhugaða málsókn vegna innheimtu á ætlaðri „óheimilli kröfu“ ef kærandi myndi ekki afturkalla beiðni um lögmannsaðstoð við innheimtu hennar. Að mati nefndarinnar fólst í efni skilaboðanna ótilhlýðileg þvingun gagnvart kæranda í skilningi 35. gr. siðareglnanna sem sett var fram í því skyni að verða til framdráttar máli umbjóðanda kærða, þ.e. að þvinga fram afturköllun á kröfu sem þá hafði verið tekin til innheimtu fyrir hönd kæranda af hálfu lögmanns. Er þá einnig til þess að líta að kærði vék í engu að hinni mögulegu málsókn á hendur kæranda í bréflegu erindi sem hann beindi til lögmanns hennar þann 8. apríl 2020. Þá hefur málatilbúnaður kærða, um að innheimtuaðgerðir gagnvart umbjóðanda hans hafi verið óhóflega harkalegar, enga þýðingu í þessu efni eða vegna þeirra atvika sem kvörtun tekur til.  

Að mati nefndarinnar var sú háttsemi sem kærði viðhafði í lögmannsstörfum sínum gagnvart kæranda og hér hefur verið lýst verulega ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni. Þá eru skýringar þær sem kærði hefur veitt á háttsemi sinni fyrir nefndinni með öllu haldlausar að mati nefndarinnar og í reynd fjarstæðukenndar með tilliti til efnis þeirra skilaboða sem hann sendi til kæranda aðfaranótt 19. mars 2020. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kærða veitt áminning vegna brota gegn 1. mgr. 26. gr., 34. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Eftir atvikum þykir rétt að kærði greiði kæranda 50.000 krónur í málskostnað, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B, sætir áminningu.

Kærði, B lögmaður, skal greiða kæranda, A, 50.000 krónur í málskostnað.  

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson