Mál 10 2021

Mál 10/2021

Ár 2021, miðvikudaginn 24. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. maí 2021 erindi kæranda, A, þar sem lýst er ágreiningi við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. maí 2021 og barst hún þann 31. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 1. júní 2021. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að kærandi hafi leitað til lögmannsstofu kærða í lok febrúarmánaðar 2020 vegna vinnuslyss sem hann hafði lent í. Bera málsgögn með sér að aðilar hafi átt með sér fyrsta fund vegna málsins þann 7. mars 2020, en vinnupunktar kærða frá fundinum eru á meðal gagna fyrir nefndinni. Jafnframt liggur fyrir að kærandi veitti kærða á fundinum fullt og ótakmarkað umboð til að afla gagna vegna málsins, semja um bætur, taka við bótum og höfða dómsmál til innheimtu bóta vegna slyssins. Er undirritað umboð á íslensku meðal málsgagna sem og óundirritað afrit þess á pólsku, sem kærði kveðst hafa afhent kæranda á fundinum þar sem kærandi hafi talað takmarkaða íslensku og ensku. Varðandi þóknun var eftirfarandi tiltekið í umboðinu:

Allt sem B hdl. gerir f.h. undirritaðs í máli þessu er sem undirritaður hafi sjálfur gert það. Um þóknun fer skv. gjaldskrá C lögmannsstofu um hagsmunatengda þóknun (10%+vsk.), en þó aldrei lægri þóknun en skv. almennu tímagjaldi.

Gögn málsins bera með sér að kærði hafi í framhaldi fundar hafið vinnu í þágu kæranda við að sækja slysabætur vegna tilgreinds vinnuslyss. Er á meðal málsgagna um það efni að finna allnokkur tölvubréfasamskipti sem kærði átti vegna málsins við pólskumælandi verktaka lögmannsstofu hans, lækna, matsmann, tryggingafélag og túlkaþjónustu á tímabilinu frá 2. mars 2020 til 12. mars 2021 sem og tölvubréfasamskipti fyrrgreinds verktaka við kæranda og aðra þriðju aðila.

Fyrir liggur að með matsbeiðni, dags. 17. nóvember 2020, fór kærði þess á leit fyrir hönd kæranda að nánar tilgreindur handaskurðlæknir yrði fenginn til þess að skoða og meta tímabundna og læknisfræðilega örorku kæranda vegna vinnuslyssins. Lá örorkumat þar að lútandi fyrir þann 16. febrúar 2021 en þann sama dag hafði kærandi mætt á matsfund ásamt túlki frá D ehf. Á meðal málsgagna er einnig að finna reikning vegna þeirrar túlkaþjónustu, að fjárhæð 16.108 krónur með virðisaukaskatti, sem mun hafa verið greiddur af lögmannsstofu kærða.

Á meðal málsgagna er að finna kvittun vegna fullnaðaruppgjörs slyss kæranda sem E hf. sendi til kærða þann 18. febrúar 2021 en kærði undirritaði skjalið fyrir hönd kæranda degi síðar. Var tiltekið í kvittuninni að tryggingafélagið greiddi bætur samkvæmt læknisfræðilegu mati á varanlegum afleiðingum og ákvæðum skilmála vegna kæranda að fjárhæð 1.384.499 krónur. Þá var tiltekið að sú fjárhæð væri fullnaðar- og lokagreiðsla úr viðkomandi vátryggingaskírteini og að með greiðslunni væri lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins.

Kærði mun hafa móttekið umræddar bætur fyrir hönd kæranda. Þann 25. febrúar 2021 gerði lögmannsstofa kærða reikning á hendur kæranda vegna fyrrgreindra lögmannsstarfa að fjárhæð 450.585 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst á reikningnum að um væri að ræða uppgjör vegna slysabóta samkvæmt tímaskýrslu. Tilgreind tímaskýrsla, sem mun hafa fylgt með reikningnum til kæranda, tók til 12.75 klukkustunda vinnu kærða í þágu kæranda á tímabilinu frá 7. mars 2020 til og með 19. febrúar 2021. Þá var tiltekið bæði í tímaskýrslu og á reikningnum að tímagjald kærða væri 28.500 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því var hinn umþrætti reikningur að fjárhæð 363.375 krónur auk virðisaukaskatts.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar af hálfu kæranda með erindi sem móttekið var þann 10. maí 2021.

II.

Að mati nefndarinnar verður að skilja málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé krafist að áskilið endurgjald kærða samkvæmt reikningi nr. 916 sæti lækkun og að kærða verði gert að endurgreiða kæranda 278.907 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Í erindi kæranda er vísað til þess að það lúti að þóknun kærða að fjárhæð 450.585 krónur með virðisaukaskatti samkvæmt reikningi nr. 916 sem gefinn var út þann 25. febrúar 2021. Er vísað til þess að um hafi verið að ræða þóknun vegna lögmannsstarfa kærða við innheimtu bóta vegna vinnuslyss sem kærandi lenti í.

Kærandi vísar til þess að almennt taki lögmenn 10% auk virðisaukaskatts fyrir vinnu sem þessa. Fyrir liggi að bætur sem E hf. greiddi vegna vinnuslyssins hafi numið 1.384.499 krónum. Þrátt fyrir fyrrgreinda venju hafi kærði reiknað sér endurgjald á grundvelli tímakaups. Þá bendir kærandi á að vitað sé um fleiri mál af þessum toga sem verið hafi til meðferðar hjá kærða.

Í samræmi við framangreint vísar kærandi til þess að þess sé krafist að reikningur kærða verði endurgreiddur og að gerður verði nýr reikningur fyrir 10% auk virðisaukaskatts af þeirri bótafjárhæð sem kærði hafi móttekið fyrir hans hönd. Byggir kærandi á því að hann hafi ekki verið upplýstur um það greiðslufyrirkomulag og þá aðferð við ákvörðun þóknunar sem kærði hafi viðhaft í málinu.

III.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi sent erindi til lögmannsstofu hans þann 28. febrúar 2020 vegna vinnuslyss sem hann hafði orðið fyrir. Í kjölfar þess hafi kærandi verið boðaður á fund á lögmannsstofunni sem haldinn hafi verið þann 7. mars 2020. Á þeim fundi hafi verið farið heildstætt yfir málið og næstu skref þess. Á sama fundi hafi kærandi fengið afhent umboð til skoðunar og yfirferðar, en þýðing þess á pólsku hafi jafnframt verið afhent. Jafnframt því hafi þóknun samkvæmt umboðinu verið skýrð sérstaklega fyrir kæranda á fundinum, með aðstoð nánar tilgreinds túlks sem setið hafi fundinn og þýtt öll samskipti aðila. Samkvæmt því hafi verið skýrt fyrir kæranda á pólsku að þóknun væri aldrei lægri en samkvæmt almennu tímagjaldi, að fjárhæð 28.500 krónur auk virðisaukaskatts. Lýsir kærði því að kærandi hafi skilið það efni, undirritað umboðið á fundinum og sé því bundinn af þeim gerningi. Samkvæmt því hafi kærandi verið vel upplýstur um umsamda þóknun, þó hugsanlega hafi fennt yfir þá vitneskju með tímanum.

Kærði lýsir því að málið hafi verið rekið sem hefðbundið slysamál svo sem tímayfirlit og málsgögn beri með sér. Það sem óvenjulegt hafi verið hafi varðað verulega tíð samskipti af hálfu kæranda við túlk á vegum kærða sem þurft hafi að þýða sömu samskipti til kærða. Auk þess hafi öll samskipti verið á pólsku og þurft að þýða þau öll, líkt og málsgögn beri með sér. Hafi það leitt til þess að málið varð þyngra í vöfum en ella hefði verið.

Kærði lýsir því að tímaskýrsla hans sé heimildarskjalið að baki hinum umþrætta reikningi. Er vísað til þess að heildartímar kærða í málinu hafi verið 12.75 klukkustundir og að við lok þess hafi verið gefinn út reikningur í samræmi við þá vinnu, sbr. reikning nr. 916 að fjárhæð 450.585 krónur með virðisaukaskatti.

Kærði vísar til þess að aðrir sem komið hafi að málinu hafi verið laganeminn F og fyrrgreindur túlkur, G. Þeirra vinna hafi hins vegar ekki verið reikningsfærð. Bendir kærði á að túlkurinn tali íslensku og pólsku og starfi sem slíkur fyrir túlkaþjónustur hér á landi. Þá annist hann túlkun fyrir pólska viðskiptavini lögmannsstofu kærða og sjái um samskipti á milli stofunnar og þeirra viðskiptavina sem ekki tali ensku eða íslensku.

Kærði ítrekar að G hafi séð um öll samskipti við kæranda, þar sem kærandi tali takmarkaða ensku og íslensku. Þannig hafi hann þýtt öll samskipti fyrir kærða. Auk þess hafi kærði sent tölvubréf á G og óskað eftir að þau yrðu þýdd fyrir kæranda. Af fyrirliggjandi gögnum megi sjá að umtalsverð samskipti hafi verið á milli kæranda og G, frá G til kærða og frá G til kæranda. Hafi þessi nauðsynlegi samskiptaháttur leitt til þess að málið varð þungt í vöfum. Til viðbótar því hafi verið margvísleg símtöl á milli kærða, túlksins og laganemans sem ekki hafi endurspeglast í framlögðum tímaskýrslum. Hafi vinnan því verið mun umfangsmeiri og kostnaðarsamari en tímaskýrsla beri með sér og eigi almennt við í sambærilegum slysamálum.

Kærði vísar til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn varðandi rétt á hæfilegu endurgjaldi vegna málsins. Er ítrekað að kærandi undirritaði viðkomandi umboð jafnframt því sem áskilin þóknun var sérstaklega kynnt, bæði með afhendingu á þýðingu á umboði og loks með aðstoð túlks á fundi þann 7. mars 2020. Kveðst kærði þannig hafa skýrt fyrir kæranda að þóknun yrði aldrei lægri en samkvæmt almennu tímagjaldi, að fjárhæð 28.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Í samræmi við framangreint krefst kærði þess að umþrættur reikningur standi enda hafi hann byggt á tímaskýrslu og umboði þar sem samið hafi verið um að aldrei yrði greidd lægri þóknun en samkvæmt tímagjaldi. Hafi áskilið tímagjald verið hæfilegt og skráning tíma ekki úr hófi, heldur þvert á móti. Þannig hafi lögmannsstofa kærða tekið á sig margvíslega kostnaðarliði sem kærandi hafi ekki verið áframkrafinn um, enda slíkt innifalið í tímagjaldi kærða, þar á meðal verktakalaun laganema, túlks og að endingu reikningur fyrir túlkaþjónustu á matsfundi.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir atvikum að baki gjaldtöku kærða vegna lögmannsstarfa hans í þágu kæranda. Svo sem þar greinir veitti kærandi kærða umboð þann 7. mars 2020 vegna starfans sem kærði sinnti allt til 19. febrúar 2021 er vátryggingafélag greiddi bætur að fjárhæð 1.384.499 krónur vegna vinnuslyss sem kærandi hafði lent í. Um grundvöll þóknunar var vísað til þess í umboðinu að hún væri hagsmunatengd samkvæmt gjaldskrá, þ.e. 10% auk virðisaukaskatts, en að þó yrði þóknun aldrei lægri en samkvæmt almennu tímagjaldi. Varðandi umboðið hefur kærði einnig vísað til þess fyrir nefndinni að hann hafi látið kæranda í té afrit þess á pólsku þar sem kærandi hafi talað takmarkaða íslensku og ensku. Hefur kærandi ekki andmælt þeim málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni.

Ágreiningur í málinu lýtur að reikningi sem lögmannsstofa kærða gaf út á kæranda þann 25. febrúar 2021. Samkvæmt reikningnum og tímaskýrslu sem fylgdi með honum tók hann til alls 12.75 klukkustunda vinnu kærða í þágu kæranda á tímabilinu frá 7. mars 2020 til og með 19. febrúar 2021 á tímagjaldinu 28.500 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því var hinn umþrætti reikningur að fjárhæð 363.375 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. alls 450.585 krónur með virðisaukaskatti.

Málatilbúnaður kæranda er reistur á því að lögmenn taki almennt 10% auk virðisaukaskatts í þóknun fyrir slíka vinnu sem kærði hafi tekið að sér í hans þágu. Fyrir liggi að bætur sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi greitt vegna vinnuslyss kæranda hafi numið 1.384.499 krónum. Þrátt fyrir þá venju hafi kærði reiknað sér endurgjald á grundvelli tímakaups. Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að gjaldtaka hans hafi átt sér stoð í umboði enda hafi þar verið mælt fyrir um að þóknun yrði aldri lægri en samkvæmt almennu tímagjaldi. Þá hafi málið verið umfangsmeira en ella þar sem kærandi hafi hvorki talað né skilið íslensku eða ensku. Hafi sú þóknun sem kærði hafi áskilið sér verið sanngjörn að teknu tilliti til umfangs málsins.

Líkt og áður greinir var tiltekið í umboði því sem kærandi veitti kærða að þóknun yrði aldrei lægri en sem næmi almennu tímagjaldi. Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að kærandi hafi skilið efni umboðsins að þessu leyti enda afrit þess látið honum í té á pólsku. Samkvæmt því og eins og hér stendur á verður að leggja mat á hvort reikningur lögmannsstofu kærða frá 25. febrúar 2021 feli í sér hæfilegt endurgjald, í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998, vegna starfa kærða í þágu kæranda á tímabilinu frá 7. mars 2020 til og með 19. febrúar 2021.

Fyrir liggur að kærði annaðist hagsmunagæslu í þágu kæranda í um það bil eitt ár vegna slysamálsins sem lauk með samþykktu uppgjöri varðandi greiðslu slysabóta þann 19. febrúar 2021. Bera málsgögn með sér að aðilar hafi átt með sér umtalsverð samskipti á tímabilinu, í flestum tilvikum með aðstoð túlks á vegum kærða. Jafnframt því liggur fyrir að kærði annaðist samskipti við lækna, matsmann, tryggingafélag og túlkaþjónustu á meðan á hagsmunagæslunni stóð. Á meðal málsgagna er einnig að finna matsbeiðni sem kærði beindi fyrir hönd kæranda til matsmanns þann 17. nóvember 2020 vegna skoðunar og mats á tímabundinni og læknisfræðilegri örorku.

Að teknu tilliti til framangreinds og málsgagna að öðru leyti verður ekki séð að mati nefndarinnar að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslu kærða hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við það verkefni sem kærða var falið að sinna. Þá var tímagjald kærða, að fjárhæð 28.500 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Með hliðsjón af því er það álit nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun kærða vegna starfa hans í þágu kæranda. Er það því mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda sé 450.585 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda, og þegar hefur verið innheimt, var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um að áskilið endurgjald kærða sæti lækkun þannig að til endurgreiðslu komi.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson