Mál 11 2021

Mál 11/2021

Ár 2022, miðvikudaginn 16. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2021:

A ehf.

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. maí 2021 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda, A ehf., þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. D lögmaður fer með málið fyrir hönd kærða fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 28. maí 2021 og barst hún þann 16. júní sama ár. Var lögmanni kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 24. júní 2021. Hinn 18. júlí 2021 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til til lögmanns kærða þann 16. ágúst 2021. Þann 8. september 2021 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir frá kærða og var tilkynning þess efnis send til lögmanns kæranda þann 13. sama mánaðar jafnframt því sem upplýst var um að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að kærði gætti hagsmuna E ehf., gagnaðila kæranda, í undanfara og við rekstur málsins nr. E-xxxx/20xx fyrir héraðsdómi. Höfðaði umbjóðandi kærða málið á hendur kæranda með birtingu stefnu þann 28. ágúst 2020 til innheimtu skuldar að fjárhæð 20.152.217 krónur auk dráttarvaxta. Með dómi héraðsdóms í málinu, sem uppkveðinn var þann x. febrúar 20xx, var kærandi dæmdur til að greiða umbjóðanda kærða stefnukröfur málsins auk málskostnaðar.

Kvörtun í máli þessu er reist á því að með yfirlýsingum kærða í bréfum til kæranda, dags. 2. og 3. júní 2020, hafi hann gegn betri vitund gefið kæranda og dómstólum misvísandi og rangar upplýsingar um að nánar tilgreind iðgjöld væru í skilum. Vísar kærandi annars vegar um það til eftirfarandi efnis í bréfi, dags. 2. júní 2020:

[...] Undirritaðri lögmannsstofu var falið að yfirfara launaseðla þeirra starfsmanna sem unnið hafa verkefni fyrir A ehf. og kanna hvort greitt hafi verið í samræmi við launaseðla. – Af launaseðlum má ráða að starfsmennirnir njóta í það minnsta lágmarkskjara samkvæmt þeim kjarasamningum sem myndu gilda ef A hefði ráðið starfsmennina beint til sín til að sinna þeim verkefnum sem þeir hafa sinnt fyrir A. Raunar virðast starfsmennirnir að nokkru njóta kjara sem eru umfram þessi lágmarkskjör. Er þetta í samræmi við 5. gr. a. laga nr. 139/2005. – Samkvæmt bankayfirlitum sem undirrituðum lögmönnum voru send hafa starfsmennirnir jafnframt fengið greidd laun í samræmi við það sem fram kemur á launaseðlum þeirra. [...] Með bréfi þessu er því staðfest að þeir starfsmenn E sem starfað hafa fyrir A hafa notið kjara sem eru að lágmarki í samræmi við það sem íslensk lög og kjarasamningar gera ráð fyrir.

Hins vegar vísar kærandi hvað kvörtunarefnið varðar til eftirfarandi tilgreiningar í bréfi, dags. 3. júní 2020:

Vísað er til bréfs undirritaðra til A ehf. dags. 2. júní sl. þar sem brugðist var við fyrirspurn félagsins er varðaði E ehf. Óskað var eftir frekari upplýsingum um skil á virðisaukaskatti, staðgreiðslu og lífeyrissjóði. Þess skal getið að E ehf. telur sér ekki skylt að veita A þessar upplýsingar. – Aftur á móti geta undirritaðir staðfest að þeir hafi haft milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd E ehf. á lífeyrissjóðsiðgjöldum, staðgreiðslu og virðisaukaskatti, m.a. vegna þeirra starfsmanna sem A hefur nýtt í starfsemi sinni.

Kærandi byggir kvörtun sína á að háttsemi kærða hafi strítt gegn 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 19. gr., 20. gr., 25. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 44. gr. þeirra. Þá telur kærandi einnig að kærði hafi ekki hagað sér í samræmi við lög, sbr. meðal annars 147. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Styður kærandi það einnig við úrskurð héraðsdóms frá x. apríl 2021 í máli nr. X-xx/20xx þar sem bú umbjóðanda kærða var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu F vegna vangreiddra iðgjalda starfsmanna að fjárhæð 73.056.000 krónur á tímabilinu frá júlí 2019 til mars 2020. Hafi umbjóðandi kærða haft þar uppi varnir sem byggt hafi á því að krafan væri með ábyrgð þriðja manns og að notendafyrirtæki bæru óskipta ábyrgð á kröfunni á grundvelli 4. gr. b. laga nr. 139/2005.

Kærði hefur mótmælt tilgreindum málatilbúnaði fyrir nefndinni og krafist aðallega frávísunar málsins en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Verður gerð frekari grein fyrir kröfugerð og málsástæðum aðila sem og þeim gögnum sem þeir byggja á í umfjöllun um málatilbúnað þeirra fyrir nefndinni, sbr. kafla II. og III hér á eftir.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var þann 25. maí 2021.

II.

Kærandi krefst þess aðallega að kærði verði áminntur en til vara að honum verði gert að sæta öðrum agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá krefst kærandi málskostnaður úr hendi kærða, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi lýsir því að kvörtun varði lögmannsstörf kærða í þágu E ehf. og rekstur máls fyrir dómi. Er vísað til þess að tilgreindur umbjóðandi kærða sé félag sem rekið hafi starfsmannaleigu í skilningi laga nr. 139/2005 um starfsmannaleigur. Í upphafi árs 2020 hafi kærandi leitað eftir þjónustu E ehf. við að útvega starfsmenn til framkvæmda. Hafi verið gerður samningur um það efni þann 16. janúar 2020.

Kærandi kveðst hafa greitt alls níu reikninga frá E ehf. á tímabilinu frá 21. janúar til og með 21. apríl 2020. Er vísað til þess að eftir það hafi E ehf. gefið út níu reikninga á tímabilinu 6. maí til 12. júní 2020 sem hafi ekki verið greiddir af kæranda. Um ástæður þess að greiðslur hafi verið stöðvaðar vísar kærandi til þess að hann hafi haft upplýsingar um að E ehf. hefði ekki fullnægt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 139/2005, en vafi um það hafi varðað rétta greiðslu launa, starfskjara og annarra launatengdra gjalda starfsmanna E ehf. sem starfað hafi í þágu kæranda. Jafnframt því hafi verið efasemdir um hvort E ehf. hefði staðið skil á opinberum- og launatengdum gjöldum. Um stöðu kæranda hvað það varðar er sérstaklega vísað til 1. og 4. gr. laganna sem og laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 4. mgr. 7. gr. og 20. gr. laganna.

Vegna ábyrgðar sem skilgreinds „notendafyrirtækis“ kveðst kærandi hafa óskað ítrekað eftir upplýsingum frá E ehf. um þá starfsmenn sem starfað hafi í hans þágu, þ.e. hvort laun og kjör væru í samræmi við lög, kjarasamninga og launaseðla. Jafnframt því hafi kærandi óskað eftir staðfestingu á skilum lífeyrissjóðsiðgjalda og opinberra gjalda, á grundvelli heimildar í lögum nr. 139/2005.

Því er lýst að kærði hafi svarað erindi lögmanns kæranda með bréfi, dags. 2. júní 2020. Hafi þar komið fram að lögmannsstofa kærða hefði yfirfarið launaseðla og kannað hvort greiðslur samræmdust þeim. Jafnframt því hafi verið tiltekið að starfsmennirnir nytu í hið minnsta lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi. Þá hafi komið fram að greidd laun væru í samræmi við launaseðla.

Kærandi bendir ennfremur á að í bréfi kærða fyrir hönd E ehf., dags. 3. júní 2020, hafi komið fram að kærði og annar tilgreindur lögmaður hafi haft milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd félagsins á lífeyrissjóðsiðgjöldum, staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Einnig hafi þar komið fram að E ehf. teldi sér ekki skylt að veita gögn og upplýsingar um virðisaukaskattskil, staðgreiðslu og lífeyrissjóðsiðgjöld. Bendir kærandi á að samkvæmt því hafi bréf kærða ekki notið fulltingis neinna skjallegra gagna. Hafi kærandi því haft réttmæta ástæðu til að óttast að E ehf. hefði ekki staðið skil á gjöldunum þannig að til ábyrgðar kæranda gæti stofnast.

Kærandi vísar til þess að þann x. febrúar 20xx hafi gengið dómur í héraðsdómi í máli nr. E-xxx/20xx sem umbjóðandi kærða, E ehf., hafi höfðað á hendur kæranda til heimtu skuldar samkvæmt ógreiddum reikningum. Bendir kærandi á að á meðal málsgagna hafi verið fyrrgreind bréf kærða, dags. 2. og. 3. júní 2020, þar sem staðfest hafi verið að kærði hefði sjálfur annast milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd E ehf. á lífeyrissjóðsiðgjöldum, staðgreiðslu og virðisaukaskatti, vegna starfsmanna sem kærandi hafði nýtt í starfsemi sinni. Hafi verið fallist á þann málatilbúnað í forsendum dómsins og ekki talið að slík vanskil væru fyrir hendi. Í dóminum hafi kærandi verið dæmdur til að greiða E ehf. 20.152.217 krónur auk dráttarvaxta en kærandi hafi áfrýjað þeim dómi til Landsréttar.

Kærandi vekur athygli á að héraðsdómi hafi borist gjaldþrotaskiptabeiðni hinn x. desember 2020 vegna E ehf. Hafi bú félagsins verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms þann x. apríl 20xx „vegna vangreiddra iðgjalda starfsmanna hans fyrir tímabilið júlí 2019 til mars 2020“, samtals að fjárhæð 73.046.000 krónur. Er á það bent að E ehf. hafi mótmælt kröfunni, meðal annars á þeim grundvelli að viðkomandi krafa væri tryggð með ábyrgð þriðja aðila, sbr. 4. gr. b. laga nr. 139/205. Hafi þeirri málsástæðu verið hafnað.

Kærandi byggir á að í fyrrgreindum málatilbúnaði umbjóðanda kærða, E ehf., sé bein tilvísun til ábyrgðar kæranda á vangoldnum iðgjöldum starfsmanna félagsins sem nú er gjaldþrota. Hafi sá málatilbúnaður falið í sér yfirlýsingu fyrir dómi um sakarefni og bindi hann þar eftir reglum um gildi loforða, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991. Í málinu liggi hins vegar fyrir yfirlýsing kærða hinn 3. júní 2020 þar sem fullyrt hafi verið að kærði hefði sjálfur haft milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd E ehf. á lífeyrissjóðsiðgjöldum, en þá námu vanskil samkvæmt úrskurði héraðsdóms 73.046.000 krónum fyrir viðkomandi tímabil. Byggir kærandi á að sá úrskurður hafi fullt sönnunargildi um þau atvik sem í honum greinir, sbr. m.a. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Í samræmi við framangreint telur kærandi upplýst að kærði hafi gegn betri vitund, með hliðsjón af gjaldþrotaúrskurði og yfirlýsingu hans sjálfs, gefið kæranda og dómstólum misvísandi og beinlínis rangar upplýsingar um að iðgjöld væru í skilum. Kærandi byggir á að þær ástæður séu tilefni til þess að nefndin geri aðfinnslur við lögmannsstörf og háttsemi kærða eða beiti hann öðrum viðurlögum eftir því sem lög heimila. Hins vegar þegar lagt sé mat á öll þau atriði sem bent hafi verið á telur kærandi að tilefni sé til þess að kærði verði áminntur fyrir brot á siðareglum enda hafi kærði verið staðinn að því að upplýsa dómstóla og kæranda rangt frá veigamiklum atriðum um málefni sem varði ríka hagsmuni kæranda. Byggir kærandi á að háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 19. gr., 20. gr., 25. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 44. gr. þeirra. Þá telur kærandi að kærði hafi ekki hagað sér í samræmi við lög, sbr. meðal annars 147. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er því mótmælt að deilt sé um sönnunaratriði í málinu sem útilokað sé að leysa úr fyrir nefndinni með hliðsjón af þeirri sönnunarfærslu sem heimiluð sé, sbr. 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Kærandi byggir á að augljóst sé að málið nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla. Ráðist sakarefnið að verulegu leyti af skjallegum sönnunargögnum en ekki öflun vitnaskýrslna eða munnlegs málflutnings. Er vísað til þess að kærandi telji enga þörf á vitnaskýrslum sem þó séu heimilar, sbr. 2. mgr. 9. gr. málsmeðferðarreglnanna. Jafnframt sé til þess að líta að nefndin hafi ekki vísað málinu frá þegar í upphafi á grundvelli heimildar í 1. mgr. 8. gr. reglnanna.

Kærandi bendir á að í málatilbúnaði kærða virðist jafnframt felast að hann hafi veitt kæranda fullnægjandi upplýsingar um að E ehf. væri ekki í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld. Hafi kærði um það efni vísað til tölvubréfs frá 2. júlí 2020 sem sent hafi verið G. Kveðst kærandi mótmæla þeim málatilbúnaði og vekur athygli á eftirfarandi orðalagi í bréfi kærða frá 3. júní 2020:

Aftur á móti geta undirritaðir staðfest að þeir hafi haft milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd E ehf. á lífeyrissjóðsiðgjöldum, staðgreiðslu og virðisaukaskatti, m.a. vegna þeirra starfsmanna sem A nýtti í starfsemi sinni.

Á því er byggt að með þessu hafi kæranda verið gefin skilyrðislaus yfirlýsing í formlegu bréfi áður en tölvubréfið var sent þann 2. júlí 2020. Byggir kærandi á að yfirlýsingin hafi verið skýr, afdráttarlaus og án fyrirvara. Haggi útleggingar og vangaveltur kærða á tölvupóstum ekki þeirri yfirlýsingu. Hafi einnig hér þýðingu að kærandi fékk aldrei gögn sem sannreyndu upplýsingar er lutu að skuldleysi og/eða vanskilum E ehf., umfangi þeirra og eðli gjalda.

Á því er byggt að enginn vafi leiki á að kærði hafi veitt kæranda rangar eða í öllu falli villandi upplýsingar. Þannig hafi verið staðhæft í yfirlýsingu kærða að greiðslur og uppgjör hefðu farið fram. Á því tímamarki hafi vanskil hins vegar verið veruleg og því um rangar upplýsingar að ræða. Einnig verði að teljast óumdeilt að kærði hafi vitað eða mátt vita um vanskil E ehf.

Kærandi telur að málsástæður kærða um launakeyrslur og skilagreinar séu að engu hafandi. Sé ljóst að skilagreinar eigi að vera aðgengilegar í bókhaldi E ehf.

Kærandi byggir á að upplýst sé að kærði hafi gegn betri vitund gefið kæranda og dómstólum misvísandi og beinlínis rangar upplýsingar. Í forsendum héraðsdóms í málinu nr. E-xxx/20xx hafi greinilega verið byggt á yfirlýsingu kærða, sbr. meðal annars eftirfarandi:

Í bréfum frá lögmönnum stefnanda 2. og 3. júní 2020 þar sem svarað var erindum frá lögmanni stefnda var vísað til launaseðla starfsmanna við verkið sem lögmenn kváðust hafa yfirfarið sem og til bankayfirlits. Var staðfest að laun hefðu verið greidd. Jafnframt staðfestu sömu lögmenn, að sögn umfram skyldu, að þeir hefðu sjálfir annast milligöngu um greiðslur og uppgjör f.h. stefnanda á lífeyrissjóðsiðgjöldum, staðgreiðslu og virðisaukaskatti, m.a. vegna starfsmanna sem stefndi hefði nýtt í starfsemi sinni.

Kærandi telur að á tímamarki yfirlýsingar og undir rekstri dómsmálsins hafi upplýsingar þær sem kærði veitti skipt miklu máli. Ljóst sé að ábyrgð notendafyrirtækis á grundvelli laga nr. 139/2005 sé rík og hafi því verið óskað eftir upplýsingunum. Ljóst sé nú að vangoldin iðgjöld hafi verið til staðar hjá E ehf. Jafnvel þótt það félag hafi síðar verið úrskurðað gjaldþrota, þannig að ábyrgð kæranda eigi ekki lengur við, breyti það engu um ábyrgð hans á tímamarki yfirlýsingar og nauðsyn þess að upplýsingar yrðu veittar samkvæmt lagaskyldu.

Að endingu vísar kærandi til sérfræðiábyrgðar kærða sem lögmanns. Telur kærandi ljóst að lögmenn verði að sæta ströngu sakarmati við mat á því hvort háttsemi þeirra stríði gegn siðareglum lögmanna. Verði og að skýra athugasemdir kæranda í því ljósi.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaður úr hendi kæranda, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Kærði byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að í málinu sé deilt um sönnunaratriði sem útilokað sé að leysa úr fyrir nefndinni með þeirri takmörkuðu sönnunarfærslu sem heimiluð sé samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. sömu reglna. Til að allar staðreyndir liggi fyrir um hina meintu misvísandi upplýsingagjöf kærða væri þannig nauðsynlegt að taka skýrslu af þeim sem kærði hafi verið í samskiptum við í tengslum við málið, þar á meðal H, G og J héraðsdómara sem kvað upp dóm í máli nr. E-xxx/20xx. Þegar af þeirri ástæður byggir kærði á að vísa beri málinu frá nefndinni.

Kærði lýsir því að í upphafi máls hafi hann verið í samskiptum fyrir hönd umbjóðanda við H, starfsmann K, sem komið hafi fram fyrir hönd kæranda sem ráðgjafi og óskað hafi eftir upplýsingum um laun og greiðslur til starfsmanna og síðar hvort opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld væru í skilum. Byggir kærði á að strax í þessum samskiptum hafi kæranda verið ljóst að umbjóðandi kærða væri í vanskilum með þessi gjöld. Aftur á móti hafi umbjóðandi kærða byggt á því að slík vanskil réttlættu með engum hætti þá aðgerð málshefjanda að halda eftir greiðslum á útistandandi reikningum, með vísan til þess að á einhverjum tímapunkti kynni að reyna á keðjuábyrgð samkvæmt lögum nr. 139/2005.

Er vísað til þess að vegna fyrirspurna H f.h. kæranda hafi kærði og annar tilgreindur lögmaður sent bréf fyrir hönd umbjóðanda með svörum við beiðni H um upplýsingar um laun og launagreiðslur til þeirra starfamanna umbjóðanda kærða sem unnið höfðu á vegum kæranda. Hafi bréfin byggt á upplýsingum sem umbjóðandi kærða hefði veitt lögmannsstofunni, en þær upplýsingar hafi varðað fleiri en bara þá starfsmenn sem unnið hafi fyrir kæranda. Hafi hvorki kærandi né H tekið nokkurt mark á bréfunum heldur hafi H þvert á móti sagt símleiðis við kærða að síðara bréfið, dags. 3. júní 2020, staðfesti að umbjóðandi kærða væri í vanskilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld. Þá ályktun hafi H byggt á því að ekkert félag sem væri í fullum skilum með öll opinber gjöld þyrfti að fá lögmenn til að hafa milligöngu um greiðslur til Skattsins og lífeyrissjóða. Ítrekar kærði að ekki verði færðar sönnur á efni símtala H við kærða með þeirri takmörkuðu sönnunarfærslu sem heimil sé fyrir nefndinni.

Kærði lýsir því að fljótt hafi orðið ljóst að kærandi hafi haft það eitt fyrir stafni að draga lappirnar og komast hjá greiðslu reikninga sem umbjóðandi kærða hafði gefið út. Hafi kærði því fyrir hönd umbjóðanda skorað á kæranda að greiða útistandandi skuld í tölvubréfi þann 12. júní 2020.

Því er lýst að þáverandi fulltrúi lögmanns kæranda hafi sent bréf fyrir hönd kæranda til umbjóðanda kærða, dags. 16. júní 2020. Í bréfinu hafi verið ítrekuð afstaða kæranda um að yfirlýsing kærða og meðeiganda hans fæli ekki í sér fullnægjandi svör við fyrirspurnum kæranda. Í bréfinu hafi einnig verið gerð krafa um að umbjóðandi kærða veitti tilteknar upplýsingar og tekið fram að kærandi frábiði sér annað bréf frá kærða og meðeiganda hans.

Kærði kveðst hafa haft samband símleiðis við fyrrgreindan H þann 24. júní 2020 til að kanna stöðu málsins. Hafi svör H verið á þá leið að kærandi hefði falið lögmanni að gæta hagsmuna félagsins. Síðar þann sama dag hafi kærði sent tölvubréf til lögmanns kæranda með tilkynningu um símtalið og staðfestingu á að því hefði verið slitið þegar í ljós hafi komið að kærandi hefði fengið lögmann til hagsmunagæslu vegna málsins.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til tölvubréfasamskipta við lögmann kæranda og fulltrúa hans frá 25. og 26. júní 2020. Bendir kærði á að í tölvubréfi hans til lögmannsins frá hinum síðargreinda degi hafi eftirfarandi verið tiltekið:

Umbjóðanda þínum er fullkunnugt um að nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að greiða laun, staðgreiðslu, virðisaukaskatt, lífeyrisiðgjöld og annað, er sú að útgefnir reikningar séu borgaðir. Umbjóðandi þinn er því með háttsemi sinni beinlínis að koma því til leiðar að örðugra reynist fyrir umbjóðanda okkar að gera upp framangreindar skuldbindingar.

Kærði bendir á að eftir frekari samskipti hafi hann sent fulltrúa lögmanns kæranda tölvubréf 2. júlí 2020 þar sem brugðist hafi verið við beiðni um upplýsingar sem sett hafði verið fram í bréfi, dags. 16. júní 2020. Er því lýst að með tölvupóstinum hafi fylgt upplýsingar um þá starfsmenn sem unnið hafi fyrir kæranda, ráðningarsamningar þeirra, launaseðlar, útgefnir reikningar og tímaskýrslur að baki þeim. Jafnframt því hafi verið lögð til aðferð í tölvubréfinu við að leysa málið, sem veitt hafi kæranda alla þá vörn sem hann gat mögulega þurft gegn hugsanlegum kröfum á grundvelli keðjuábyrgðar samkvæmt lögum nr. 139/2005. Vísar kærði til eftirfarandi efnis í tölvubréfinu:

Hvað varðar greiðslur til lífeyrissjóðs, staðgreiðslu og tryggingagjald og gjald í stéttarfélag er eins og ég nefndi við þig símleiðis ekki hægt að sundurliða það sem þegar hefur verið greitt niður á ákveðna starfsmenn, heldur eru þær greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi settar inn á heildarskuld vegna allra starsfmanna E. Til að koma til móts við A, án allrar viðurkenningar á réttmæti, er A reiðubúið að inna af hendi greiðslur sem nema fullri fjárhæð frádráttarliðanna og tryggingagjald, með skýringum til Skattsins, lífeyrissjóðs og stéttarfélags um að greiðslurnar séu vegna þessara starfsmanna á þessum tímabilum. Forsenda fyrir því að hægt sé að ganga frá greiðslu með þessum hætti er að umbjóðandi þinn greiði að fullu vangoldna reikninga inn á fjárvörslureikning skrifstofu minnar[...]

Kærði telur að ljóst megi vera af efni tölvubréfsins að umbjóðandi hans var sannarlega ekki skuldlaus við Skattinn, lífeyrissjóði og stéttarfélög. Ef umbjóðandi kærða hefði verið skuldlaus við þessa aðila hefði umbjóðandinn með einföldum hætti getað útvegað vottorð um slíkt. Aftur á móti hafi ekki verið hægt að útvega vottorð um að launagreiðandi væri skuldlaus við Skattinn, lífeyrissjóði og stéttarfélög vegna tiltekinna starfsmanna ef vanskil voru fyrir hendi vegna annarra starfsmanna. Kveðst kærði hafa útskýrt þetta í símtali við fulltrúa lögmanns kæranda sem og með ítrekun í fyrrgreindu tölvubréfi.

Byggir kærði samkvæmt því á að það sé beinlínis rangt sem haldið sé fram í kvörtun um að „tillögum“ um afhendingu upplýsinga og gagna hafi verið hafnað. Þvert á móti hafi ítarlegar upplýsingar verið veittar bæði símleiðis og með tölvubréfum. Af þeim upplýsingum hafi mátt ráða að umbjóðandi kærða væri í vanskilum með opinber gjöld og iðgjöld til lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Hins vegar hafi umbjóðandi kærða ekki talið að slíkt réttlætti stöðvun kæranda á greiðslum samkvæmt útgefnum reikningum.

Kærði bendir á að kærandi hafi fyrst gert efnislegar athugasemdir við reikninga í bréfi, dags. 17. júlí 2020. Í því bréfi hafi hvergi verið að finna athugasemdir við svar kærða frá 2. júlí 2020 og raunar ekkert á það minnst að kærandi teldi sér heimilt að halda eftir greiðslu vegna vanskila umbjóðanda kærða á opinberum gjöldum og lífeyrissjóðsiðgjöldum.

Kærði vísar til þess að þar sem sættir hafi ekki tekist hafi umbjóðandi hans höfðað mál á hendur kæranda til innheimtu á reikningunum. Bendir kærði á að við þingfestingu málsins hafi hann ekki lagt fram þau bréf sem kærandi virðist byggja á að hafi verið notuð með annarlegum hætti af hálfu kærða. Hafi það verið kærandi sjálfur sem lagði bréfin fram með greinargerð til dómsins þann 17. nóvember 2020. Jafnframt því hafi kærandi lagt fram tölvubréf kærða frá 2. júlí 2020.

Kærði bendir á að í greinargerð kæranda til héraðsdóms hafi aðilinn gert kröfu um að dómkröfur stefnanda yrðu stórlega lækkaðar og að málskostnaður yrði felldur niður. Samkvæmt því hafi kærandi hvorki krafist sýknu né sýknu að svo stöddu, á grundvelli þess að hann ætti rétt til að halda eftir greiðslum vegna vanskila umbjóðanda kærða á opinberum gjöldum.

Samkvæmt því kveðst kærði hafa einbeitt sér að efni málsins við flutning fyrri ræðu sinnar við aðalmeðferð málsins, þ.e. kröfum á grundvelli reikninganna, vinnuskýrslum að baki reikningunum og þeim efnislegu athugasemdum sem fyrst höfðu komið fram í  bréfi lögmanns kæranda þann 17. júlí 2020 og ítrekaðar voru í greinargerð aðilans til héraðsdóms. Bendir kærði á að fyrst í fyrri ræðu lögmanns kæranda hafi verið sett fram krafa um sýknu að svo stöddu á þeim grundvelli að umbjóðandi kærða hefði ekki brugðist við áskorun í greinargerð kæranda til dómsins.

Kærði kveðst hafa þurft að bregðast við þessari nýju kröfu í málinu. Hafi kærði því í síðari ræðu sinni við aðalmeðferð málsins gert grein fyrir tölvubréfi sínu til þáverandi fulltrúa lögmanns kæranda, dags. 2. júlí 2020. Lýsir kærði því að hann hafi hins vegar ekki fjallað um þau bréf, sem kvörtun kæranda lúti að, né hafi kærði eða umbjóðandi hans nokkurn tímann byggt á þeim við meðferð málsins. Samkvæmt því kveðst kærði hafna alfarið eftirfarandi lýsingu sem sé að finna í kvörtun málsins:

Meðal málsgagna voru umrædd bréf kærða dags. 2. og 3. júní 2020 þar sem það var staðfest að kærði hefði sjálfur annast milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd félagsins á lífeyrissjóðsiðgjöldum, staðgreiðslu og virðisaukaskatti, vegna starfsmanna sem kærandi hafði nýtt í starfsemi sinni. Var í forsendum dómsins fallist á þennan málatilbúnað og ekki talið að slík vanskil væru fyrir hendi.

Kærði byggir á að þessi málatilbúnaður kæranda feli í sér útúrsnúning og sé að engu hafandi. Þannig hafi málatilbúnaður umbjóðanda kærða ekki byggt á að bréf kærða, dags. 2. og 3. júní 2020, hefðu þýðingu fyrir málið eða að umbjóðandi kærða væri skuldlaus við Skattinn og lífeyrissjóði. Þvert á móti hafi kærði ekki farið í neinar felur með að slík vanskil væru fyrir hendi. Bent var á að ástæða þessara vanskila væri sú að viðskiptavinir umbjóðanda kærða hefðu ekki greitt þá reikninga sem gefnir höfðu verið út.

Kærði byggir á að ekkert komi fram í forsendum dóms í máli nr. E-xxx/20xx sem gefi til kynna að kærði hafi villt um fyrir dómaranum eða að þær upplýsingar sem fram koma í bréfum kærða og meðeiganda hans frá 2. og 3. júní 2020 hafi haft nokkur áhrif í málinu. Bendir kærði þvert á móti á eftirfarandi forsendur dómsins:

Stefndi taldi þetta ekki fullnægjandi og var því óskað eftir frekari upplýsingum með bréfi sem beint var á stefnanda 16. júní 2020 en virðist ekki hafa komið til vitneskju a.m.k. lögmanna stefnanda fyrr en í lok mánaðarins. Með tölvuskeyti 2. júlí voru stefnda sendir allir launaseðlar hlutaðeigandi starfsmanna og staðfest að laun hefðu verið greidd en greint frá því að ekki væri hægt að senda sundurliðaðar upplýsingar um launatengd gjöld fyrir einstaka starfsmenn heldur væru þar inni greiðslur vegna annarra starfsmanna stefnanda í öðrum verkefnum. Hins vegar var boðist til að inna af hendi greiðslur vegna launatengdra gjalda til viðkomandi opinberra aðila, eyrnamerkt viðkomandi starfsmönnum, tímabilum og viðtakendum.

Einnig er í málinu óljóst á hvaða grunni stefndi gat gert þær kröfur sem félagið gerði á hendur stefnanda í ljósi framangreinds, að engar kröfur höfðu borist frá starfsmönnum. Án þess að það hafi þá þýðingu í málinu verður ekki heldur annað séð í fljótu bragði en að stefnandi hafi gefið stefnda nokkuð ítarlegar upplýsingar samkvæmt beiðnum hans og jafnvel boðist til að gera ráðstafanir til að tryggja skaðleysi stefnda sem virtust umfram skyldu.

Kærði byggir á að umfjöllun í dómsforsendum beri það með sér að héraðsdómur hafi talið vanreifað af hálfu kæranda á hvaða grundvelli og að hve miklu leyti hann hafi talið sér heimilt að halda eftir eigin greiðslu vegna vanskila umbjóðanda kærða á opinberum gjöldum og lífeyrissjóðsiðgjöldum. Hafi niðurstaðan því orðið sú að jafnvel þótt fallist væri á að kæranda hefði verið heimilt að koma að kröfu um sýknu að svo stöddu við aðalmeðferð málsins, hefði þeirri kröfu engu að síður verið hafnað vegna vanreifunar. Byggir kærði á að hann verði ekki látinn bera ábyrgð á óglöggum og vanreifuðum málatilbúnaði kæranda.

Kærði byggir á að hann geti ekki með neinu móti stjórnað því hvernig annar lögmaður hagaði málatilbúnaði sínum fyrir E ehf. í málinu nr. X-xxx/20xx.

Kærði vísar til þess að hann hafi veitt kæranda upplýsingar um að umbjóðandi hans væri ekki í fullum skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld. Jafnframt því liggi fyrir að kærði lagði til aðferð á uppgjöri, sem tryggði skaðleysi kæranda af hugsanlegum kröfum á grundvelli keðjuábyrgðar. Þá liggi fyrir að engum kröfum hafi verið beint að kæranda á grundvelli keðjuábyrgðar og í ljósi þess að E ehf. sé nú gjaldþrota muni slík krafa ekki koma fram, sbr. lög nr. 139/2005.

Verði ekki fallist á aðalkröfu um frávísun málsins byggir kærði á að ekki verði hjá því komist að hafna öllum kröfum kæranda. Þá verði ekki hjá því komist að úrskurða kærða málskostnað úr hendi kæranda. Verði að líta til þess að kærandi hafi borið alvarlegar sakir á kærða án þess að nokkur fótur hafi verið fyrir þeim. Hafi kærandi farið af stað með málið gegn betri vitund og sett fram ósannar og ósannaðar fullyrðingar.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að það sé rangt sem kærandi haldi fram um að vitnaskýrslur séu heimilar fyrir nefndinni. Bendir kærði á að hvergi í reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna sé þess getið að aðilum sé heimilt að leiða vitni til að gefa skýrslur um umdeild atvik, enda hafi nefndin almennt litið svo á að hún hafi ekki úrskurðarvald í málum sem varði ágreining um staðreyndir sem einungis verði leyst úr á grundvelli vitnaleiðslna. Án vitnaleiðslna verði ekki leyst úr ágreiningi um efni símtala kærða við H og þáverandi fulltrúa lögmanns kæranda. Án vitnaleiðslna verði heldur ekki leyst úr ágreiningi um það sem fram hafi komið í ræðu kærða við aðalmeðferð málsins í héraði. Loks verði ekki án vitnaleiðslna leyst úr ágreiningi um það hvort Skatturinn og lífeyrissjóðir geti útvegað vottorð vegna skila á gjöldum tiltekinna starfsmanna, eins og kærandi hafi óskað eftir og kærði fengið upplýsingar um að ekki væri hægt að útbúa.

Varðandi bréf kærða og meðeiganda hans til kæranda ítrekar kærði að kærandi taldi þessi bréfa enga þýðingu hafa strax frá upphafi. Hvergi komi fram í bréfunum að umbjóðandi kærða hafi verið skuldlaus við Skattinn, lífeyrissjóði og stéttarfélög. Í bréfunum hafi verið tekið fram að lögmannsstofa kærða hefði haft milligöngu um greiðslur og uppgjör fyrir hönd umbjóðandans á þessum gjöldum, sem sé satt. Þessar greiðslur og uppgjör hafi ekki falið sér fullnaðaruppgjör á öllum skuldum umbjóðanda kærða við þessar stofnanir og hafi kæranda ekki dulist það á neinum tímapunkti, sbr. fyrri athugasemdir.

Ítrekar kærði að endingu að hann hafi aldrei gefið dómstólum rangar eða misvísandi upplýsingar.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í I. kafla siðareglna lögmanna er kveðið almennt á um góða lögmannshætti. Er þar tiltekið í 2. mgr. 1. gr. að lögmaður skuli leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í III. kafla siðareglnanna er fjallað um samskipti lögmanna og dómstóla. Kemur þar fram í 1. mgr. 19. gr. að lögmaður skuli sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu. Ber lögmanni eftir sem áður að gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þá er kveðið á um í 20. gr. siðareglnanna að lögmaður megi aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Þá er í IV. og V. kafla siðareglnanna að finna ákvæði um samskipti lögmanna innbyrðis og um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er í hinum fyrrgreinda kafla mælt fyrir um að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu, sbr. 1. mgr. 25. gr. siðareglnanna. Þá er í hinum síðargreinda kafla mælt fyrir um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna, sbr. 34. gr. siðareglnanna.

II.

Líkt og áður greinir er kvörtun í máli þessu reist á því að með yfirlýsingum kærða í bréfum til kæranda, dags. 2. og 3. júní 2020, hafi hann gegn betri vitund gefið kæranda og dómstólum misvísandi og rangar upplýsingar um að nánar tilgreind lífeyrissjóðsiðgjöld umbjóðanda hans væru í skilum. Er efni tilgreindra bréfa, að því er sakarefni málsins varðar, tekið orðrétt upp í málsatvikalýsingu að framan. Er á því byggt að sú háttsemi kærða hafi, með hliðsjón af efni yfirlýsinganna og síðari gjaldþrotaúrskurðar vegna umbjóðanda hans, strítt gegn fyrrgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna.

Aðalkrafa kærða í málinu lýtur að því að málinu verði vísað frá nefndinni. Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að deilt sé um sönnunaratriði sem útilokað sé að leysa úr fyrir nefndinni með þeirri takmörkuðu sönnunarfærslu sem heimiluð sé, sbr. 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Til að allar staðreyndir liggi fyrir um hina meintu misvísandi upplýsingagjöf kærða sé þannig nauðsynlegt að taka skýrslu af þeim sem kærði hafi verið í samskiptum við í tengslum við málið. Þar sem því verði ekki við komið í málinu beri að vísa því frá nefndinni.

Kærandi hefur andmælt tilgreindum málatilbúnaði kærða og byggt á því að ljóst sé að málið nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla. Ráðist sakarefnið þannig að verulegu leyti af skjallegum sönnunargögnum en ekki öflun vitnaskýrslna sem þó séu heimilar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. málsmeðferðarreglnanna.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna getur nefndin kallað aðila fyrir sig til skýrslugjafar eða munnlegs málflutnings. Í 1. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna er kveðið á um að nefndin taki afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls. Nefndin getur hins vegar vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri þess, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglnanna.

Á fyrrgreindar heimildir reyndi í úrskurði nefndarinnar frá 29. maí 2019 í máli nr. 39/2018 þar sem lagt var til grundvallar að vitni yrðu ekki kvödd fyrir nefndina til skýrslugjafar um málsatvik, sbr. meðal annars eftirfarandi forsendur:

Svo sem áður greinir er heimild til skýrslugjafar fyrir nefndinni takmörkuð við málsaðila og þá sem skoðast sem fyrirsvarsmenn þeirra þegar lögaðilar, líkt og hér um ræðir, eiga í hlut. Samkvæmt því verða vitni ekki kvödd fyrir nefndina til að gefa skýrslu um málsatvik ólíkt því sem við á um í einkamálum sem rekin eru fyrir dómstólum, sbr. meðal annars VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því og eins og málið liggur fyrir nefndinni verður að mati nefndarinnar að telja að í því séu slík sönnunaratriði að ekki verði úr þeim leyst með fullnægjandi hætti nema að undangenginni skýrslugjöf vitna um málsatvik.“

Kærði hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að hann hafi við upphaf málsins verið í samskiptum við nánar tilgreindan ráðgjafa á vegum kæranda, þar á meðal vegna þeirra upplýsinga sem veittar voru í hinum umþrættu bréfum frá 2. og 3. júní 2020, en sá málatilbúnaður hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu kæranda. Hefur kærði einnig lýst því að kæranda hafi frá öndverðu verið ljóst að umbjóðandi kærða væri í vanskilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld. Hafi efni hinna umþrættu bréfa, sem byggt hafi á upplýsingum frá umbjóðanda kærða og varðað fleiri starfsmenn en unnið hafi fyrir kæranda, ekki breytt þeirri afstöðu kæranda og ráðgjafa hans enda hafi ráðgjafinn tekið fram í símtali við kærða eftir móttöku þeirra að að ekkert félag sem væri í fullum skilum með öll opinber gjöld þyrfti að fá lögmenn til að hafa milligöngu um greiðslur til Skattsins og lífeyrissjóða.

Af framlögðum gögnum í málinu verður ekki ráðið að vísað hafi verið til eða byggt hafi verið á efni hinna umþrættu bréfa í þeirri stefnu sem birt var kæranda þann 28. ágúst 2020 og þingfest var í héraðsdómi þann x. september sama ár, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/20xx. Fyrir liggur jafnframt að bréfin voru ekki lögð fram af hálfu stefnanda málsins, sem kærði annaðist hagsmunagæslu fyrir, heldur var það kærandi sjálfur sem lagði þau fram á dómþingi þann x. nóvember 20xx samhliða framlagningu á greinargerð í málinu. Þá verður ekki ráðið af málsgögnum fyrir nefndinni hvort eða þá að hvaða marki kærði kann að hafa byggt á efni hinna umþrættu bréfa við munnlegan flutning málsins í héraði.  

Eins og atvikum er háttað og sakarefnið liggur fyrir nefndinni verður að mati nefndarinnar að telja að úrslit málsins, um það efni hvort kærði hafi gegn betri vitund gefið kæranda og dómstólum misvísandi og/eða rangar upplýsingar, kunni að geta ráðist af framburði aðila og vitna um málsatvik. Er þá ekki aðeins litið til þess hvað kærði og fyrirsvarsmenn kæranda kunna að geta borið fyrir um heldur jafnframt hvernig aðrir þriðju aðilar sem aðkomu höfðu að málinu og samskiptum vegna þess upplifðu atvik að þessu leyti, þar á meðal þeir ráðgjafar sem komu fram fyrir hönd kæranda sem og sá héraðsdómari sem fór með og dæmdi málið nr. E-xxx/20xx.

Þar sem vitni verða ekki kvödd fyrir nefndina til skýrslugjafar um málsatvik, svo sem áður greinir, er það mat nefndarinnar að í málinu séu slík sönnunaratriði að ekki verið úr þeim leyst með fullnægjandi hætti nema að undangenginni skýrslugjöf vitna um málsatvik. Samkvæmt því er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá nefndinni með vísan til 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

 

__________________________________

Valborg Þ. Snævarr, formaður

 

 

__________________________________

Einar Gautur Steingrímsson

 

 

_____________________________

Kristinn Bjarnason