Mál 14 2021

Mál 14/2021

Ár 2021, fimmtudaginn 24. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. júlí 2021 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar lýst er ágreiningi við kærðu, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærðu í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 24. ágúst 2021 og barst hún þann 17. september sama ár. Kæranda var send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi dags. 17. september 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 8. október 2021 en viðbótarathugasemdir kærðu þann 1. nóvember 2021. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að kærandi hafi leitað til lögmannsstofu kærðu í nóvembermánuði 2019 vegna umferðarslyss sem hann hafði lent í þann 8. janúar 2019. Bera málsgögn með sér að kærða hafi tekið að sér slysamál kæranda í framhaldinu og hafið vinnu við það. Þannig liggja fyrir í málinu samskipti sem kærða átti við ýmis tryggingafélög fyrir hönd kæranda frá nóvembermánuði 2019. Þá er ágreiningslaust á milli aðila að vegna takmarkaðrar kunnáttu kæranda í íslensku og ensku fóru samskipti aðila fram í gegnum pólskumælandi túlk á vegum lögmannsstofu kærðu.

Með bréfi C, til kærðu, dags. 26. maí 2020, var staðfest móttaka á umboði, upptöku að atburði, tilkynningu til D og sjúkragögnum vegna umferðarslyss kæranda frá janúarmánuði 2019. Var tiltekið að C gengist við ábyrgð á meintu líkamstjóni kæranda á grundvelli gagnanna. Þá var eftirfarandi tiltekið í bréfinu:

Þó svo hér virðist sem líkamstjóni skjólstæðings þíns hafi verið valdið af óþekktu ökutæki, sbr. ofangreint, þá gildir sú verklagsvenja að ökumaður / eigandi ökutækis sem slasast af völdum óþekkts, óvátryggðs eða erlendis ökutækis leitar til vátryggingarfélags ökutækis síns eftir bótum á grundvelli slysatryggingar ökumanns og eiganda. Er þessi háttur á hafður í hagræðingarskyni. Endurkrefur félagið svo C, sem réttilega ber ábyrgð á tjóninu reglum samkvæmt. Frekari meðferð máls þessa verður því á höndum vátryggjanda ökutækis skjólstæðings þíns og er þér bent á að snúa þér til hans vegna frekari meðferðar málsins. Engin frekari gögn liggja hjá C en félagið mun koma gagnalykli með upptöku í xx xxx þegar ekið var á það og reikningi sem fylgdi sjúkragögnum til E.

Fyrir liggur að með matsbeiðni, dags. 25. janúar 2021, óskuðu kærða fyrir hönd kæranda og E hf. eftir að tveir matsmenn myndu meta afleiðingar líkamstjóns kæranda vegna umferðarslyssins frá 8. janúar 2019. Fyrir liggur að matsfundur var haldinn þann 9. febrúar 2021 og mætti kærða þar með kæranda ásamt túlki frá F ehf. Niðurstaða matsmanna, sbr. matsgerð dags. 13. apríl 2021, var að kærandi hefði ekki orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins.

Fyrir liggur að túlkur á vegum kærðu upplýsti kæranda um niðurstöðu matsgerðarinnar bæði í tölvubréfum sem og símtölum jafnframt því sem matsgerðin var send kæranda. Þá var upplýst um næstu skref sem unnt væri að taka í málinu, þ.e. ef kærandi vildi ekki una mati matsmanna samkvæmt fyrrgreindri matsgerð frá 13. apríl 2021.

Kærða hefur lýst því fyrir nefndinni að hún hafi ekki krafið kæranda um neitt endurgjald vegna vinnu hennar þar sem ekki hafi komið til greiðslu bóta á grundvelli matsgerðarinnar. Kærandi hefur hins vegar vísað til ætlaðs endurgjalds kærðu að fjárhæð 613.444 krónur, án þess þó að leggja fram gögn þar að lútandi.

Af málsgögnum verður hins vegar ráðið að E hf. hafi greitt 613.444 krónur úr ökumanns- og eigendatryggingu kæranda vegna slyssins, sbr. nánar eftirfarandi sundurliðun:

  1. Útlagður kostnaður vegna sjúkraskrár kæranda 10.487       Greitt 31.7.2020.
  2. Útlagður kostnaður vegna lokavottorðs læknis 78.201       Greitt 29.1.2021.
  3. Útlagður sjúkrakostnaður 35.725       Greitt 4.2.2021.
  4. Útlagður kostnaður vegna túlkaþjónustu             22.181       Greitt 25.3.2021.
  5. Kostnaður vegna matsmanns 217.000     Reikn. 13.4.2021.
  6. Kostnaður vegna matsmanns 249.850     Reikn. 13.4.2021.

Samtals:                                                                    kr. 613.444

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar af hálfu kæranda með erindi sem móttekið var þann 24. júlí 2021.

II.

Af kvörtun verður helst ráðið að hún taki annars vegar til ágreinings á milli kærðu og kæranda um endurgjald eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í kvörtun kæranda að þess sé krafist að kærðu verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi kæranda er vísað til þess að það lúti að ætluðum brotum kærðu gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá sé ágreiningur á milli aðila vegna þess endurgjalds sem kærða hafi áskilið sér, þ.e. um rétt hennar til endurgjalds annars vegar og fjárhæð þess hins vegar.

Kærandi byggir á því að háttsemi kærðu hafi farið í bága við öll þau atriði sem tiltekin séu á heimasíðu lögmannsstofu hennar. Þannig hafi kærða ekki veitt kæranda faglega og persónulega þjónustu með hagsmuni kæranda að leiðarljósi. Jafnframt því hafi kærða ekki haft fagmennsku og vönduð vinnubrögð að leiðarljósi í störfum sínum. Þá hafi kærða ekki haft raunverulegan áhuga á kæranda, sem umbjóðanda, og því ekki veitt bestu mögulegu þjónustu í því skyni að ná sem mestum árángri í málinu. Aukinheldur hafi kærða ekki afhent honum nokkur gögn varðandi framgang málsins.

Kærandi byggir á að framangreind háttsemi kærðu í störfum hafi verið andstæð lögum og siðareglum lögmanna. Er á því byggt að vegna háttsemi kærðu hafi kærandi ekki verið talinn eiga rétt til bóta vegna slyss sem hann hafi lent í þann 8. janúar 2019.

Kærandi vísar til þess að kærða hafi fengið 613.444 krónur í þóknun vegna starfa sinna í þágu kæranda. Þrátt fyrir það hafi kærða ekki upplýst kæranda um það endurgjald. Þá hafi kærða einnig ekki upplýst um að lögmannsréttindi hennar væru takmörkuð við rekstur mála fyrir héraðsdómstólum.

III.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að staðfest verði að hún hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst kærða málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærða kveðst hafa unnið fyrir kæranda frá 2. nóvember 2019 til aprílmánaðar 2021. Vísar kærða til þess að matsgerð hafi þá legið fyrir í slysamáli kæranda sem túlkur á vegum kærðu hafi sent til hans með útskýringum. Jafnframt því hafi kæranda verið leiðbeint um framhaldið, kysi hann að fara lengra með málið og véfengja niðurstöðu matsgerðarinnar. Er því lýst að kærandi hafi aldrei látið í ljós hvort hann vildi gera slíkt.

Kærða vísar til þess að samskipti aðila hafi farið fram í gegnum túlk þar sem kærandi hafi ekki talað íslensku og lélega ensku. Þar sem matsmenn hafi metið kæranda með ekki neitt tjón vegna slyssins hafi hann ekki fengið bætur frá tryggingafélagi. Þar af leiðandi hafi kærða enga þóknun tekið vegna málsins enda kærandi ekki lagt fram nein gögn um slíkt. Lýsir kærða því að þegar hún hafi hitt kæranda við upphaf málsins með túlki hafi hann skrifað undir umboð og verkbeiðni. Jafnframt því hafi hann verið upplýstur um að ef ekki tækist að innheimta bætur fyrir hann á grundvelli matsgerðarinnar yrði ekki innheimt lögmannsþóknun vegna vinnu við málið. Jafnframt því hafi kæranda verið tjáð að ef málið færi lengra þá myndi fylgja því kostnaður. Samkvæmt því hafnar kærða því sem fráleitu að einhver þóknun hafi verið innheimt af kæranda.

Kærða vísar til þess að eftir að matsgerð lá fyrir og var kynnt kæranda hafi hann sent túlkinum mjög dónaleg tölvubréf þar sem ásakanir hafi verið um léleg vinnubrögð, að matsmenn hafi ekki verið hlutlausir og að túlkur á matsfundi hafi verið óhæfur. Hafi kærandi einnig viðhaft slíka háttsemi í símtölum. Vegna málatilbúnaðar kæranda lýsir kærða því einnig að hún hafi verið búin að undirbúa kæranda fyrir matsfundinn í gegnum túlk, þ.e. með því að tilgreina með nákvæmum hætti hvernig slíkir fundir færu fram.

Kærða bendir á að fyrir liggi umtalsverð tölvubréfasamskipti sem varpi ljósi á þá vinnu sem hún hafi innt af hendi í þágu kæranda. Þar megi finna samskipti við ýmsa aðila, svo sem lögregluna, vinnuveitanda kæranda, möguleg vitni að árekstrinum, tryggingafélög, meðferðarlækna kæranda og á milli túlksins og kæranda. Fyrir liggi til að mynda tölvubréf frá vinnuveitanda kæranda sem staðfesti að hann hafi þegið greiðslu frá vinnuveitanda sínum. Samkvæmt því sé það ekki rétt sem greini í kvörtun um að kærandi hafi ekki fengið neinar bætur þar sem kærandi hafi sannanlega fengið sinn veikindarétt greiddan. Þá hafi kærða einnig átt í samskiptum við C þar sem kærandi hafi ekki verið með bílnúmer þess sem ók aftan á hann á hreinu en C afgreiði erindi er lúti að tjóni af völdum óþekkts ökutækis.

Í samræmi við framangreint og fyrirliggjandi matsgerð kveðst kærða mótmæla því að hún hafi ekki unnið tilhlýðilega vinnu fyrir kæranda. Mótmælir kærða því einnig að hún hafi ekki sent kæranda nein gögn þar sem matsgerðin var send kæranda og útskýrð fyrir honum á móðurmáli hans. Jafnframt því hafi kærandi ekki óskað eftir frekari gögnum frá kærðu. Hafnar kærða því að hún hafi brotið gegn siðareglum lögmanna í störfum sínum í þágu kæranda. Þá hafnar kærða því að það sé henni að kenna að kærandi eigi ekki rétt á bótum enda hafi matsmenn með mikla reynslu í slysamötum metið hann á grundvelli fyrirliggjandi sjúkragagna og skoðunar. Aldrei hafi komið fram af hálfu kæranda að hann vildi reyna að hnekkja því mati.

Í viðbótarathugasemdum kærðu er vísað til þess að E hf. hafi tekið á sig bótaábyrgð í málinu í gegnum C þar sem um óþekkt ökutæki hafi verið að ræða. Samkvæmt því hafi ekki þurft að auglýsa eftir vitnum að árekstrinum þar sem tryggingafélagið hafi tekið á sig bótaskylduna. Hafi tryggingafélagið enda greitt fyrir matsgerðina, túlkaþjónustu á matsfundi, lokavottorð, læknisgögn og sjúkrakostnað, sbr. fyrirliggjandi samskipti í málinu og gögn sem sýna fram á greiðslu að fjárhæð 613.444 krónur. Ítrekar kærða að hún hafi engar greiðslur móttekið eða þegið í þóknun vegna vinnu í þágu kæranda.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Af erindi kæranda til nefndarinnar verður ráðið að það lúti meðal annars að ætluðu endurgjaldi kærðu eða fjárhæð þess. Hefur kærandi þannig vísað til þess að kærða hafi fengið 613.444 krónur í þóknun vegna starfa sinna í hans þágu. Kærða hefur hins vegar mótmælt þessum málatilbúnaði og bent á að hún hafi ekki krafið kæranda um neitt endurgjald vegna vinnu við málið enda hafi engar bætur fengist greiddar vegna umferðarslyss kæranda frá 8. janúar 2019, sbr. niðurstöðu matsmanna samkvæmt matsgerð dags. 13. apríl 2021.

Um þetta efni er til þess að líta að engin gögn hafa verið lögð fyrir nefndina sem bera með sér að kærða hafi áskilið sér þóknun úr hendi kæranda vegna lögmannsstarfa hennar á tímabilinu frá nóvember 2019 til aprílmánaðar 2021 eða að hún hafi fengið slíkt endurgjald greitt úr ökumanns- og eigandatryggingu kæranda hjá E hf. Þvert á móti bera málsgögn með sér að greitt hafi verið úr viðkomandi tryggingu vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við sjúkraskrá kæranda, lokavottorð læknis, sjúkrakostnað og störf matsmanna, svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru þær greiðslur að heildarfjárhæð 613.444 krónur, þ.e. sömu fjárhæðar og kærandi heldur fram í máli þessu að kærða hafi áskilið sér og fengið greitt sem endurgjald vegna starfa í hans þágu.

Líkt og áður greinir hefur kærða lýst því fyrir nefndinni að hún hafi ekki áskilið sér nokkurt endurgjald vegna lögmannsstarfa í þágu kærða á fyrrgreindu tímabili. Fær sá málatilbúnaður fulla stoð í málsgögnum að mati nefndarinnar. Þegar af þeirri ástæðu getur ekki verið um það að ræða í málinu að ágreiningur sé um endurgjald vegna starfa kærðu eða fjárhæð þess svo sem áskilið er í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa erindi kæranda að þessu leyti frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Málatilbúnaður kæranda er í öllum grundvallaratriðum reistur á því að hagsmunagæsla kærðu í hans þágu hafi verið ófullnægjandi og að háttsemi hennar hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Þá hafi kærða ekki afhent honum nokkur gögn varðandi framgang málsins.

Að mati nefndarinnar verður á engan hátt ráðið af málsgögnum að einhverju hafi verið áfátt í hagsmunagæslu kærðu í þágu kæranda á tímabilinu frá nóvember 2019 til apríl 2021. Enn síður verður ráðið af málsgögnum að ætlaður skortur á fagmennsku í hagsmunagæslu kærðu hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem greinir í matsgerð matsmanna, dags. 13. apríl 2021, um að kærandi hafi ekki orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna umferðarslyssins þann 8. janúar 2019. Þá liggur fyrir að túlkur á vegum kærðu upplýsti kæranda um niðurstöðu matsgerðarinnar þá þegar og hún lá fyrir og um þau skref sem unnt væri að taka ef vilji væri til að véfengja matið. Bera málsgögn aukinheldur ekki með sér að kærandi hafi óskað sérstaklega eftir frekari gögnum vegna málsins frá kærðu fyrr en erindi þessu var beint til nefndarinnar þann 24. júlí 2021.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærða hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af málsgögnum að mati nefndarinnar en að kærða hafi rækt þau störf sem henni var trúað fyrir af alúð og að hún hafi neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarðra hagsmuna kæranda í viðkomandi slysamáli, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, A, að því er varðar ágreining um endurgjald kærðu, B lögmanns, eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er vísað frá nefndinni.

Kærða, B, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson