Mál 27 2021

Mál 27/2021

Ár 2022, miðvikudaginn 16. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. október 2021 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærða í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. sömu laga. C hf. fara með mál kæranda fyrir nefndinni á grundvelli umboðs, dags. 30. september 2021.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. október 2021 og barst hún þann 21. sama mánaðar. Umboðsmanni kæranda var send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 26. október 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 12. nóvember 2021 en viðbótarathugasemdir kærða þann 2. desember sama ár.

Með erindi nefndarinnar, dags. 24. janúar 2022, var óskað eftir gögnum og/eða skýringum frá málsaðilum vegna nánar tilgreindra atriða. Bárust athugasemdir og gögn frá kærða vegna þeirrar beiðni dagana 25. janúar, 4. og 8. febrúar 2022 en athugasemdir frá kæranda dagana 7. og 21. febrúar 2022. Í kjölfar þess var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Þann 4. desember 2020 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-xxxx/20xx en kærði annaðist hagsmunagæslu í málinu í þágu stefnenda gagnvart stefnda, D. Var niðurstaða héraðsdóms sú að D hefði verið óheimilt að krefja lánþega um greiðslu uppgreiðslugjalds við uppgreiðslu lána.

Í framhaldi af því voru birtar upplýsingar á vefsíðu lögmannsstofu kærða um niðurstöðu héraðsdóms þar sem því var jafnframt lýst að þrátt fyrir óvissu um viðbrögð stefnda væri afar brýnt að lánþegar sem gætu átt rétt á endurgreiðslu ólögmætra gjalda leituðu réttar síns án tafar. Væri þess meðal annars þörf til að koma í veg fyrir mögulega fyrningu krafna og til að tryggja rétt til vaxta. Þá var eftirfarandi tiltekið:

            „Ef þú færð ekki endurgreitt borgar þú okkur ekkert – No cure no pay

Þar sem við höfum einbeitt okkur að þessum málum um langt skeið erum við reiðubúin að aðstoða. Þar sem um réttlætismál er að ræða og langan tíma getur tekið að komast að niðurstöðu, getur verið mjög kostnaðarsamt fyrir einstaklinga að sækja rétt sinn. Við viljum því bjóða viðskiptavinum okkar upp á að reka endurkröfumál með lágmarkskostnaði. Við förum ekki fram á greiðslu hefðbundinnar lögmannsþóknunar. Komi hins vegar til þess að þú fáir endurgreitt fáum við lága hlutdeild af þeirri endurgreiðslu.

Sú hlutdeild nemur aldrei meira en 15% auk vsk. Ef þú ert með réttaraðstoðartryggingu, gagnaðili er dæmdur til að greiða málskostnað eða semur um greiðslu hans, koma þær greiðslur til lækkunar. Það er von okkar að við getum aðstoðað þig til að sækja rétt þinn þér að kostnaðarlausu.

Mikill fjöldi fólks er í þeirri stöðu að eiga að líkindum rétt á endurgreiðslu. Því miður getum við ekki tekið að okkur að aðstoða allan þann fjölda í óvissu um hvernig málið mun enda eftir áfrýjun og án þess að þiggja þóknun af nokkru tagi um árs eða margra ára skeið. Við verðum því að fara fram á að þú greiðir kr. 50.000 fyrir gagnaöflun hjá D og tryggingafélögum, yfirferð og mat á máli þínu.

Til þess að við getum óskað eftir gögnum um þitt lán og uppgreiðslugjald frá D verðum við að fá umboð frá þér. Þú getur veitt okkur umboð með rafrænum skilríkjum með því að ýta á hnappinn hér fyrir neðan:

Á vefsíðunni var jafnframt að finna hnapp fyrir umboð sem unnt var að undirrita með rafrænum skilríkjum sem og viðkomandi umboð og almenna viðskiptaskilmála á PDF formi.

Á meðal málsgagna eru skjöl með yfirskriftinni „SKIPUNARBRÉF – UMBOГ og „GAGNAÖFLUNARUMBOГ sem bera með sér rafræna undirritun kæranda frá 9. desember 2020. Með hinu fyrrgreinda umboði fór kærandi þess á leit við kærða og lögmannsstofu hans að veitt yrði öll nauðsynleg lögfræðiþjónusta og hagsmunagæsla í tengslum við könnun á lögmæti uppgreiðsluþóknunar D og til þess að sækja endurgreiðslu fyrir hönd kæranda teldist réttur til hennar fyrir hendi. Var jafnframt vísað til þess í umboðinu að kærandi væri með tryggingar sínar hjá C. Þá var eftirfarandi tiltekið í umboðinu:

Í verkbeiðni þessari felst umboð til lögmanns/-a stofunnar til þess m.a. krefjast upplýsinga frá D, til þess að krefja sjóðinn um endurgreiðslu, til þess að reka fyrir mína/okkar hönd mál fyrir dómstólum út af umræddu verkefni, koma fram fyrir mína/okkar hönd gagnvart tryggingafélögum og semja um málalok í málinu og að taka við fjármunum fyrir mína/okkar hönd. Efni slíkra málaloka skuldbindur viðkomandi lögmaður sig til að kynna mér/okkur áður en hann undirritar þau fyrir mína/okkar hönd. Umboðið felur einnig í sér heimild til að kanna hvort ég/við séum með málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélagi mínu/okkar og e.a. leita samþykkis félagsins fyrir ábyrgð á málskostnaði á grundvelli tryggingarinnar.

Sérstaklega var fjallað um þóknun í E)-lið umboðsins en þar var eftirfarandi tiltekið:

Undirrit/-uð/-aður skuldbindur sig til að greiða lögmannsstofunni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt eftirfarandi fyrirkomulagi:

  1. Umsýslugjald – Við upphaf málsins eru greiddar 000 kr. í umsýslu- og gagnaöflunargjald. Greiða skal inná eftirfarandi fjárvörslureikning E: [...].
  2. Málskostnaðartrygging til staðar. – Undirrit/-uð/-aður er með málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélagi sínu sem er gert ráð fyrir að muni standa undir rekstri málsins fyrir dómstólum. Lögmannsstofan skuldbindur sig til að gefa ekki út reikninga vegna rekstrar málsins umfram það hámark sem málskostnaðartrygging kveður á um. Greiðslur til lögmannsstofunnar einskorðast við það sem fæst greitt út úr tryggingunni.
  3. Málskostnaðartrygging ekki til staðar. - Undirrit/-uð/-aður skuldbindur sig til að greiða lögmannsstofunni 15% hlutdeild af þeim ofgreiddu þóknunum sem fást endurgreiddar frá D. Við þá fjárhæð bætist virðisaukaskattur. Greiðslur til lögmannsstofunnar einskorðast við þá hlutdeild af heildarþóknun.
  4. D dæmdur til (eða semur um) að greiða málskostnað. – Ef D er dæmdur til (eða semur) um að greiða málskostnað kemur sá málskostnaður að fullu til frádráttar greiðslum samkvæmt 3. lið. Má gera ráð fyrir í langflestum tilvikum leiði það til þess að ekki þurfi að greiða neina hlutdeild af endurgreiðslunni.
  5. Útlagður kostnaður. - Undirrit/-uð/-aður skuldbindur sig til að greiða útlagðan kostnað vegna málarekstrarins. Gera má ráð fyrir að sá kostnaður einskorðist við þingfestingagjald sem miðast við hagsmuni og er annað hvort 000 kr. eða 39.000 kr.

Kærandi staðfesti með rafrænni undirritun á fyrrgreint gagnaöflunarumboð að hann samþykkti almenna viðskiptaskilmála lögmannsstofu kærða þar sem þeir voru jafnframt aðgengilegir. Tilgreindir skilmálar eru á meðal málsgagna fyrir nefndinni en þeir bera yfirskriftina „Almennir viðskiptaskilmálar – viðauki við skipunarbréf vegna mála um endurkröfu uppgreiðslugjalda“. Í formála þeirra var vísað til þess að samningssamband aðila réðist af viðskiptaskilmálunum ásamt skipunarbréfi. Var það efni einnig áréttað í grein 1.1. í skilmálunum þar sem meðal annars var tiltekið að skipunarbréfið og skilmálarnir mynduðu samning aðila um lögmannsþjónustu. Sérstakt ákvæði var að finna um gjöldtöku og reikningsgerð í 3. gr. skilmálanna þar sem eftirfarandi var meðal annars tiltekið:

3.1. Gjaldtaka okkar er í samræmi við það þóknunarfyrirkomulag sem samið er um í skipunarbréfinu.

3.2. Þrátt fyrir að samið sé um fast gjald, eða gjald sem miðast við hlutdeild af hagsmunum, munum við halda utan um raunverulegan tímafjölda eins og gildir um hefðbundna lögmannsþjónustu. Miðast sú skráning meðal annars við hversu brýnt og flókið verkefni er, hvort unnið sé utan hefðbundins skrifstofutíma, hvort um sé að ræða verk sem ekki hefur áður reynt á. Við skráum einnig símtöl, tölvupóstsamskipti og önnur samskipti sem tengjast ráðgjöf og veitingu þjónustu. Lágmarkstímaeining sem skráð er eru 15 mínútur.

3.3. Þú heimilar okkur að krefja um raunverulegt gjald fyrir þjónustuna, sem skráð er samkvæmt framangreindu, á grundvelli þeirrar gjaldskrár E sem í gildi er á hverjum tíma (´raunverulegt gjald´), úr málskostnaðartryggingu, á grundvelli gjafsóknar og/eða úr hendi gagnaðila.

Kærði hefur einnig lagt fyrir nefndina afrit af gjaldskrá lögmannsstofu hans sem mun hafa gilt frá og með 1. janúar 2021.

Þann 17. desember 2020 mun kærði hafa sent bréf til D fyrir hönd kæranda þar sem óskað var eftir nánar tilgreindum gögnum og var orðið við þeirri beiðni af hálfu sjóðsins. Í framhaldi af því, eða þann 8. janúar 2021, mun kærði hafa sent kröfubréf til D fyrir hönd kæranda þar sem krafa var gerð um endurgreiðslu á ólögmætu uppgreiðslugjaldi, dráttarvexti og innheimtukostnað samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu kærða.

Fyrir liggur að kærði beindi jafnframt erindi fyrir hönd kæranda til C þann 13. janúar 2021 þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða málsókn gegn D og óskað var eftir upplýsingum um hvort kærandi væri með málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélaginu og ef svo væri hvort viðkomandi málarekstur félli undir trygginguna. Í fyrstu mun hafa verið ágreiningur um hvort kostnaður vegna hins fyrirhugaða málareksturs félli undir tryggingu kæranda hjá tryggingafélaginu en úr honum mun hafa verið leyst og á það fallist.

Kærði hefur lagt fyrir nefndina í dæmaskyni skilmála C  - „F2“ sem tekur til slíkrar réttaraðstoðar sem hér um ræðir. Kemur þar meðal annars fram í 33. gr. að C geti gert að skilyrði fyrir greiðslu bóta að vátryggður leggi ágreining um réttmæti málflutningsþóknunar fyrir úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Er jafnframt tiltekið að bætur úr vátryggingunni séu greiddar þegar ágreiningur hefur verið til lykta leiddur. Kemur þar einnig fram að í ágreiningsmálum er varða fjárhagslega hagsmuni geti bætur aldrei orðið hærri en sem nemur fjárhæð þeirra hagsmuna sem ágreiningur lýtur að. Þá er ágreiningslaust í málinu að eigin áhætta kæranda, sem vátryggðs, var 20%.

Gögn málsins bera með sér að kærði hafi höfðað mál fyrir hönd kæranda gegn D með birtingu stefnu sem þingfest mun hafa verið í héraðsdómi þann x. mars 20xx. Hefur kærði lýst því fyrir nefndinni að þrátt fyrir að fordæmisgefandi mál hafi þá verið rekið fyrir æðri dómstól, sbr. áfrýjun héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/20xx, hafi verið talið nauðsynlegt að höfða málið til þess að rjúfa fyrningu vegna krafna kæranda á hendur D. Var stefnufjárhæð málsins 2.208.371 króna jafnframt því sem krafist var dráttarvaxta auk málskostnaðar.

Með dómi Hæstaréttar 27. maí 2021 í máli nr. 3/2021 var fyrrgreindri niðurstöðu í máli nr. x-xxxx/20xx hrundið og gjaldtaka D dæmd lögmæt, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. x/20xx frá sama degi. Hefur kærði vísað til þess fyrir nefndinni að í kjölfar þeirrar niðurstöðu hafi legið fyrir að brostinn væri málsgrundvöllur vegna krafna kæranda á hendur D og að fella þyrfti því niður málið fyrir héraðsdómi.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna réttarsátt sem ber með sér að hafa verið lögð fram á dómþingi héraðsdóms þann x. júní 20xx þar sem mál kæranda gegn D var fellt niður án kostnaðar. Fyrir liggur að kærði undirritaði sáttina fyrir hönd kæranda.

Á meðal málsgagna er reikningur nr. 7728 sem lögmannsstofa kærða gaf út á hendur kæranda þann 31. júlí 2021. Samkvæmt reikningnum tók hann annars vegar til lögfræðiþjónustu í 37.58 klst. á tímagjaldinu 32.500 krónur auk virðisaukaskatts sem og til þingfestingargjalds að fjárhæð 19.000 krónur. Var reikningurinn að heildarfjárhæð 1.533.608 krónur með virðisaukaskatti. Þá var því lýst á reikningnum að hann tæki til dómsmáls gegn D.

Á meðal málsgagna er einnig að finna tímaskýrslu að baki reikningnum vegna starfa kærða og annarra lögmanna í þágu kæranda sem tekur til tímabilsins frá 8. desember 2020 til 30. júní 2021. Tekur tímaskýrslan til alls 37 klukkustunda og 35 mínútna á tilgreindu tímabili en kærða er þar lýst sem ábyrgum fyrir verkinu. Hefur kærði einnig lagt fram í málinu tímaskýrslur í dæmaskyni  þar sem sérstakar færslur og skráningar hafa verið auðkenndar með nánari skýringum í málatilbúnaði aðilans.

Fyrir liggur að kærði sendi kröfubréf til C vegna kæranda og annarra umbjóðenda þann 19. júlí 2021 sem keypt höfðu réttaraðstoðartryggingu hjá C. Á meðal málsgagna eru jafnframt tölvubréfasamskipti kærða og fulltrúa C í júlí- og ágústmánuði 2021. Í tölvubréfi C til kærða þann 13. ágúst 2021 var þeirri afstöðu félagsins meðal annars lýst að bótakröfur kæranda og annarra umbjóðenda kærða væru óréttmætar og að bótaréttur hefði af þeim sökum ekki stofnast úr réttaraðstoðartryggingu. Var greiðslu bóta í málunum því hafnað af hálfu C.

Málsaðilar hafa jafnframt lagt fyrir nefndina frekari tölvubréfasamskipti sem fóru fram vegna málsins. Ekki þykir ástæða til að reifa þau frekar en greinir í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

Þann 30. september 2021 veitti kærandi umboð til C til þess að skjóta ágreiningi varðandi fjárhæð endurgjalds kærða til úrskurðarnefndar lögmanna. Var meðal annars tiltekið í umboðinu að í því fælist full og óskoruð heimild tryggingafélagsins til að óska eftir úrskurði nefndarinnar um fjárhæð þóknunar og framgöngu kærða að öðru leyti. Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar af hálfu kæranda með erindi sem móttekið var þann 6. október 2021.

II.

Kærandi krefst þess annars vegar að innheimta kærða á hendur honum vegna málareksturs í svokölluðu uppgreiðslumáli verði úrskurðuð ólögmæt og að kærða verði gert að hætta allri innheimtu vegna málsins. Að mati nefndarinnar verður að skilja tilgreinda kröfu kæranda með þeim hætti að þess sé krafist að reikningur E ehf. nr. 7728 sem útgefinn var þann 31. júlí 2021, að fjárhæð 1.533.608 krónur með virðisaukaskatti, verði felldur niður, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Til vara krefst kærandi þess að nefndin úrskurði um hæfilegt og hóflegt endurgjald með hliðsjón af umfangi máls kæranda.

Hins vegar krefst kærandi þess að nefndin taki afstöðu til þess hvort kærði skuli sæta agaviðurlögum vegna brota á siðareglum lögmanna og góðum lögmannsháttum.

Kærandi vísar til þess að kvörtun lúti annars vegar að ágreiningi um fjárhæð endurgjalds í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna starfa kærða og hins vegar að kvörtun vegna starfa kærða, sbr. 27. gr. sömu laga.

Um málsatvik vísar kærandi til þess að þann x. desember 20xx hafi gengið dómur í héraðsdómi í máli nr. E-xxxx/20xx þar sem kærði hafi gætt hagsmuna tveggja einstaklinga gagnvart D. Hafi niðurstaða héraðsdóms í málinu verið sú að innheimta D á uppgreiðsluþóknun á tilteknu tímabili hafi verið ólögmæt.

Vísað er til þess að í kjölfar þeirrar niðurstöðu hafi kærði auglýst þjónustu sína við innheimtu oftekinnar uppgreiðsluþóknunar D á vefsíðu lögmannsstofu sinnar. Hafi þar komið fram að óvissa ríkti um viðbrögð D við dómnum, svo sem hvort honum yrði áfrýjað til Landsréttar og því væri brýnt að lánþegar, sem gætu átt rétt til endurgreiðslu ólögmætra gjalda, leituðu réttar síns án tafar. Væri þess meðal annars þörf til að koma í veg fyrir mögulega fyrningu krafna og til að tryggja rétt þeirra til vaxta.

Kærandi bendir á að komið hafi fram á vefsíðu lögmannsstofu kærða að farið væri fram á 50.000 króna þóknun vegna gagnaöflunar og yfirferðar málsins. Jafnframt því hafi komið skýrt fram að ekki væri farið fram á greiðslu hefðbundinnar lögmannsþóknunar vegna innheimtunnar, en kæmi til þess að umbjóðandi fengi endurgreiðslu frá D myndi þóknun kærða takmarkast við 15% hlutdeild í endurgreiðslunni auk virðisaukaskatts. Þá hafi ennfremur eftirfarandi komið fram á heimasíðunni í feitletrun:

            „Ef þú færð ekki endurgreitt borgar þú okkur ekkert – No cure no pay

Kærandi vísar til þess að af þeim skilmálum sem birtir hafi verið á heimasíðu lögmannsstofu kærða hafi ekki annað mátt ráða en að greiðsla þóknunar að fjárhæð 50.000 krónur væri hámarkið sem hver og einn ætti að greiða ef ekki kæmi til hlutdeildargreiðslu.

Kærandi kveðst hafa skráð sig á vefsíðu kærða og fyllt þar út rafrænt umboð til handa kærða. Hafi umboðið veitt kærða heimild til að kanna hvort kærandi ætti rétt á endurgreiðslu frá D og gera allt sem þurfa þótti til þess að sækja um endurgreiðslu fyrir hönd hans, meðal annars að reka mál fyrir hönd kæranda vegna umrædds verkefnis og koma fram fyrir hönd kæranda gagnvart tryggingafélagi.

Vísað er til þess að á grundvelli umboðsins hafi kærði aflað gagna frá D og þingfest stefnu í málinu til þess að rjúfa mögulega fyrningu í málinu á meðan beðið væri endanlegs dóms í máli sem þegar væri rekið. Jafnframt því hafi kærði sent innheimtubréf á D vegna kröfunnar. Að gengnum dómi Hæstaréttar þann x. maí 20xx í máli nr. x/20xx, þar sem dómi héraðsdóms  hafi verið snúið og uppgreiðslugjaldið dæmt lögmætt, hafi kærði samið við D um að mál kæranda yrði fellt niður án kostnaðar.

Því er lýst að í framhaldi þessa hafi kærði gefið út reikning á hendur kæranda vegna vinnu við mál hans og sent reikninginn beint til C á grundvelli réttaraðstoðartryggingar. Hafi kærði einnig lagt fram tímaskýrslu vegna vinnunnar, sem sé á meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Í fyrsta lagi er á því byggt að kærði hafi gert reikning á hendur kæranda þrátt fyrir auglýsingar um annað. Bendir kærandi þannig á að kærði hafi auglýst með mjög skýrum hætti á vefsvæði lögmannsstofu sinnar að vinna vegna málsins yrði án endurgjalds og án hefðbundinnar lögmannsþóknunar. Eina undantekningin frá því hafi verið 50.000 króna gjald sem og 15% hlutdeild í mögulegri endurgreiðslu frá D. Fyrir liggur að ekki hafi komið til endurgreiðslu og að dómsmál kæranda var fellt niður. Með hliðsjón af því eigi kærði þar af leiðandi ekki rétt til innheimtu lögmannsþóknunar vegna vinnu sinnar. Enn fremur verði að líta svo á að krafa um bætur úr réttaraðstoðartryggingu kæranda jafngildi kröfu á hendur honum enda geri vátryggingaskilmálar ekki ráð fyrir sjálfstæðum rétti lögmanns til greiðslu bóta úr tryggingunni.

Kærandi telur að fyrrgreind framsetning auglýsingar kærða sé mjög villandi og í andstöðu við siðareglur lögmanna og góða lögmannshætti. Byggir kærandi á að kærði hafi með því að innheimta tímagjald vegna vinnu sinnar, þrátt fyrir að hafa auglýst að ekki yrði innheimt tímagjald, brotið gegn 42. gr. siðareglna lögmanna og ákvæðum 2. og 3. kafla laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, þar sem um sé að ræða ranga, ófullnægjandi og villandi auglýsingu í þeim tilgangi að afla lögmanninum viðskipta.

Kærandi bendir á að í 2. tl. e-liðar umboðs þess sem hann hafi undirritað vegna vinnu kærða hafi orðrétt komið fram um þóknun kærða ef málskostnaðartrygging væri til staðar:

2. Málskostnaðartrygging til staðar. Undirrit/-uð/-aður er með málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélagi sínu sem er gert ráð fyrir að muni standa undir rekstri málsins fyrir dómstólum. Lögmannsstofan skuldbindur sig til að gefa ekki út reikninga vegna rekstrar málsins umfram það hámark sem málskostnaðartrygging kveður á um. Greiðslur til lögmannsstofunnar einskorðast við það sem fæst greitt úr tryggingunni.

Kærandi byggir á að framangreint ákvæði feli ekki í sér heimild til að innheimta lögmannsþóknun samkvæmt tímagjaldi. Sé enda hvergi fjallað um innheimtu samkvæmt tímagjaldi í ákvæðinu, heldur einungis að gert sé ráð fyrir að tryggingin muni standa undir rekstri málsins og að kærði skuldbindi sig til að gefa ekki út reikninga umfram hámark vátryggingarinnar. Bendir kærandi á að hafi kærði ætlað að innheimta tímagjald vegna vinnu sinnar hafi hann átt að greina frá því með skýrum hætti, en það hafi hann ekki gert. Kærði hafði samið auglýsingar og umboð og skilmála sem þar koma fram einhliða og verði þar af leiðandi að bera halla af öllum óskýrleika. Verði enn fremur að túlka ákvæðið með hliðsjón af skýrri auglýsingu kærða, þar sem kveðið hafi verið á um að ekki væri innheimt hefðbundin lögmannsþóknun, heldur einungis 15% hlutdeild í endurgreiðslu frá D auk virðisaukaskatts og 50.000 krónur í fasta þóknun.

Kærandi byggir einnig á að háttsemi kærða feli mögulega í sér brot á 10. gr. siðareglnanna, þar sem kæranda hafi ekki verið gerð grein fyrir áætluðum málskostnaði með skýrum hætti. Jafnframt því hafi kæranda ekki verið gerð grein fyrir málskostnaði eftir framgangi málsins og föngum og kærði ekki vakið athygli hans á því að kostnaður yrði hár í tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi hafi verið. Aukinheldur hafi kærði ekki gert kæranda grein fyrir því á hvaða grundvelli þóknunin yrði reiknuð. Þvert á móti hafi auglýsingar kærða um þóknun ýmist verið rangar eða villandi. Hafi kærði þannig innheimt tímagjald og háar fjárhæðir, þrátt fyrir skýr loforð í auglýsingu um að ekki yrði tekin þóknun á grundvelli vinnuframlags.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er því mótmælt að ágreiningur í málinu sé á milli kærða og C enda sé ágreiningur á milli kæranda og kærða. Kærandi mótmælir jafnframt ásökunum og rangfærslum kærða um tilgang kvörtunar í málinu.

Kærandi mótmælir málatilbúnaði kærða um þá auglýsingu sem birt var á heimasíðu lögmannsstofu hans. Á grundvelli efnis auglýsingarinnar verði þannig að telja augljóst að fullyrðingar kærða um að kæranda hafi ekki verið lofað að vinnan yrði án endurgjalds séu rangar. Enn fremur verði að telja ljóst að auglýsingin feli í sér loforð og að kærandi hafi haft fulla ástæðu til að treysta því að kærði myndi ekki gera honum reikning vegna málsins, hvort heldur sem hann væri með í gildi réttaraðstoðartryggingu eða ekki, enda engir fyrirvarar settir í auglýsingunni um að þeir sem væru með réttaraðstoðatryggingu greiddu meira en aðrir.

Kærandi mótmælir því einnig að kærða hafi verið heimilt að innheimta tímagjald samkvæmt skipunarbréfi í þeim tilvikum sem málskostnaðartryggingar nyti við. Bendir kærandi á að skipunarbréfið sé ekki skýrt um að gjaldtaka kærða færi eftir gjaldskrá í slíkum tilvikum. Hafi þannig einungis verið gert ráð fyrir í skipunarbréfi að málskostnaðartrygging myndi standa undir rekstri málsins og að ekki yrðu gefnir út reikningar vegna málsins umfram hámark vátryggingarinnar. Hvergi segi hins vegar að innheimta fari samkvæmt gjaldskrá eða tímagjaldi í þeim tilvikum sem málskostnaðartrygging sé til staðar. Hafi kærandi því með réttu mátt ætla að kærði myndi, í samræmi við auglýsinguna, innheimta 15% þóknun úr málskostnaðartryggingu sinni og að innheimtan færi aldrei umfram hámark vátryggingafjárhæðarinnar. Hafi kæranda enda verið lofað í auglýsingu að ekki yrði innheimt hefðbundin lögmannsþóknun. Þar sem um sé að ræða auglýsingu sem sett hafi verið fram einhliða af kærða verði hann samkvæmt andskýringarreglunni að bera hallann af óskýrleika í skilmálunum. Sé kærða því ekki stætt á að innheimta tímagjald vegna vinnu sinnar.

Kærandi gerir athugasemdir við að kærði haldi því fram að hann hafi ekki verið krafinn persónulega um hefðbundna lögmannsþóknun, heldur hafi slíkri kröfu einungis verið beint gegn tryggingafélaginu. Sé hér um orðhengilshátt kærða að ræða enda ljóst að krafa vegna málsins sé á hendur kæranda. Stíli kærði þannig reikning á kæranda en ekki tryggingafélagið, enda eigi kærði engan sjálfstæðan rétt úr tryggingunni auk þess mögulegur réttur kæranda úr tryggingunni sé einskorðaður við tjón/kostnað sem hann hafi raunverulega orðið fyrir vegna málskostnaðar þar sem um skaðatryggingu sé að ræða.

Í öðru lagi byggir kærandi á að tímaskýrslur kærða séu háðar annmörkum og endurspegli ekki hvaða vinna hafi farið í málið. Byggir kærandi þannig á að tímaskýrsla sé ekki rauntímaskráning á þeim tímum sem kærði hafi unnið vegna málsins, heldur virðist sem tímaskráning sé sett í tímaskráningakerfi eftir á. Beri tímaskýrslur vegna málsins þess merki að sama vinna sé skráð í tímaskýrslur allra aðila málsins. Er í dæmaskyni á það bent að þann 10. mars 2021 hafi verið skráð í tímaskýrslu kæranda að unnið hafi verið 8.75 klst. við sniðmát stefnu fyrir mismunandi tilvik o.fl. því tengdu. Bendir kærandi á að tímaskráningin verði ekki skilin öðruvísi en að alls hafi farið 175 klst. í vinnu vegna sniðmáts stefnu og annarrar yfirferðar í 20 samkynja málum sem einungis hafi lotið að því að rjúfa fyrningu og setja fram kröfu um endurgreiðslu uppgreiðslugjalds. Miðað við þessa skráningu hafi kærði og/eða fulltrúi hans unnið í 175 klst. vegna málsins þann eina dag. Sé slíkt, eðli máls samkvæmt, ómögulegt. Telur kærandi í öllu falli ljóst að tímaskráning sé ófullkomin og ónákvæm, ef ekki beinlínis röng.

Kærandi byggir einnig á að tímaskýrslur kærða og sundurliðun yfir verkkostnað í málinu sé ekki í samræmi við góðar lögmannsvenjur. Jafnframt því uppfylli tímaskráningin ekki þær lágmarkskröfur sem settar séu fram í 15. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því sé ekki unnt að byggja á framlögðum tímaskýrslum við mat á því hversu mikil vinna hafi farið í umrætt verk lögmannsins og verði að meta það sjálfstætt út frá eðli málsins, þ.e.a.s. einfaldri innheimtukröfu sem felld var niður.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að gjaldskrá hafi verið mismunandi eftir því hvort aðilar voru með tryggingar eða ekki. Beri gögn málsins og innheimta kærða með sér að kærði hafi einungis innheimt tímagjald af þeim viðskiptavinum sem verið hafi með réttaraðstoðartryggingar í gildi. Byggir kærandi á að slík innheimta feli óhjákvæmilega í sér mismunun gagnvart skjólstæðingum. Orki sú mismunin við gjaldtöku, þ.e. eftir því hvort skjólstæðingur var með réttaraðstoðartryggingu eða ekki, tvímælis og feli jafnvel í sér brot á siðreglum lögmanna, sbr. 2. gr., 3. gr., 8. gr., 10. gr. og 42. gr. auk þess sem háttsemin geti vart talist til annars en óeðlilegra viðskiptahátta. Er einnig til þess að líta að kærandi ber 20% eigin áhættu hjá sínu tryggingafélagi. Vakni einnig upp spurningar hvort kærði hafi í raun ætlað að láta þá sem voru með tryggingar í gildi bera kostnað þeirra sem ekki voru með tryggingar í gildi.

Í fjórða lagi byggir kærandi á að innheimta kærða hafi verið úr hófi að teknu tilliti til lítils umfangs málsins. Fyrir liggi að kærði hafi farið með 20 sams konar innheimtumál vegna uppgreiðslugjalds fyrir dóm á svipuðum tíma, sem öll voru felld niður að frumkvæði kærða þegar niðurstaða Hæstaréttar hafi legið fyrir í hinu fordæmisgefandi máli. Bendir kærandi á að aðstæður í þessum málum hafi verið sambærilegar. Hafi vinna kærða í málunum því fyrst og fremst falist í því að útbúa einfalt stefnusniðmát fyrir innheimtumál og færa upplýsingar um kæranda og lán hans hjá D inn í það sniðmát. Beri stefnur í málunum vott um þetta enda nær samhljóða utan þess að þurft hefur að aðlaga nokkur atriði í hverri stefnu, svo sem nöfn stefnanda, dagsetningar og fjárhæðir. Telur kærandi að þessi 20 mál hefði jafnvel mátt sækja í einu og sama máli á grundvelli 19. og 19. gr. a. laga nr. 91/1991. Það hafi þó ekki verið gert þrátt fyrir augljós samlegðaráhrif þessara mála. Þess í stað hafi kærði kosið að krefja aðila þessara mála hvern um sig um ca. 1.400.000 – 1.500.000 krónur í hverju máli. Með samlagningu megi ætla að kærði hafi í þessum 20 málum innheimt nærri 28 milljónir í lögmannsþóknun á grundvelli vinnuframlags sem nemi nærri 700 klst.

Kærandi byggir á að það geti ekki staðist að vinna kærða vegna málsins hafi verið svo umfangsmikil. Ljóst sé af afar ófullkominni skráningu tíma í tímaskýrslu kærða að hún geti vart talist sönnun eða vísbending um það hve margir tímar hafi raunverulega farið í málið. Með hliðsjón af litlu umfangi málsins, þess að einungis var um að ræða kröfugerð í innheimtumáli sem ekki var flutt, verði að teljast ljóst að tímaskráning og innheimta lögmannsins vegna málsins sé úr öllu hófi og í engu samræmi við þá vinnu sem eðlileg getur talist að fari í mál af þessu tagi.

Á það er bent að kærða hafi á engan hátt verið heimilt að yfirfæra nokkurn hluta þeirrar vinnu, sem fram hafi farið af hans hálfu í tengslum við héraðsdómsmálið nr. x-xxx/20xx eða meðferð þess í Hæstarétti, yfir á mál kæranda þótt sú grunnvinna sem átt hafi sér stað í því máli hafi nýst í máli kæranda. Væri slíkt í hæsta máta óeðlilegt að mati kæranda og hefði þurft að byggja á samningi eða skýru samþykki kæranda sem ekki hafi legið fyrir.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að ekki sé gert lítið úr því að málin sem kærði flutti fyrir héraðsdómi og lauk með dómi Hæstaréttar í málum nr. x og x/20xx hafi að einhverju leyti verið flókin og viðamikil. Kærandi hafi bara alls ekki verið þátttakandi í þeim málarekstri. Vinna og flækjustig vegna þeirra málaferla séu því kæranda óviðkomandi. Vísar kærandi til þess að kjarni málsins sé að málarekstur hans gegn D hafi verið, líkt og kærði vísi sjálfur til, til þess eins að rjúfa mögulega fyrningu. Eini kostnaðurinn sem falli undir réttaraðstoðartryggingu kæranda sé kostnaður við rekstur þess máls. Sé mikilvægt að halda því til haga þannig að málarekstri kæranda til að rjúfa fyrningu verði ekki blandað við annan og flóknari málarekstur annarra aðila.

Í fimmta lagi byggir kærandi á að fjárhæð tímagjalds kærða hafi verið of hátt og ekki í samræmi við samning aðila eða gjaldskrá kærða. Um það efni bendir kærandi sérstaklega á að honum hafi ekki verið kynnt gjaldskrá kærða né heldur hafi hann verið upplýstur sérstaklega um tímagjald hans. Telur kærandi það fela í sér brot á 10. gr. siðareglna lögmanna auk þess sem slíkt sé ekki í samræmi við góða lögmannshætti. Bendir kærandi um þetta efni á dóm héraðsdóms í máli nr. E-xxx/20xx, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. xxx/20xx. Með hliðsjón af því og gjaldskrá E frá 1. janúar 2017 telur kærandi að fjárhæð tímagjaldsins, 40.400 krónur með virðisaukaskatti, sé of há fyrir mál af þessu tagi. Sé enda ljóst að sú vinna sem framkvæmd var í málinu var að mestu leyti á færi ritara og aðstoðarmanna. Þrátt fyrir það hafi verið innheimt gjald á grundvelli taxta fyrir hæstaréttarlögmann fyrir alla þá vinnu sem fram hafi farið.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er á það bent að kærði vísi til þess eins að honum hafi ætíð verið heimilt að kynna sér gjaldskrá lögmannsstofunnar. Vísar kærandi til þess að kærði mótmæli því hins vegar ekki að hann hafi ekki gefið upplýsingar um tímagjald eða að gjaldskráin hafi ekki verið kynnt. Samkvæmt því hafi kærandi engar upplýsingar haft um tímagjaldið eða mögulegan kostnað hans af rekstri dómsmálsins. Að mati kæranda bendir það eindregið til þess að ekki hafi átt að innheimta samkvæmt gjaldskránni vegna málsins, enda hafi öðru verið lofað samkvæmt auglýsingu kærða.

Í sjötta lagi bendir kærandi á að framlagðir reikningar kærða til C sýni mögulega annan og meiri kostnað en hann hafi í hyggju að innheimta. Vísar kærandi um það efni til þess að samkvæmt skilmálum réttaraðstoðartryggingar bæti hún málskostnað kæranda vegna þátttöku í dómsmálum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ávallt beri þó kærandi sjálfur 20% kostnaðarins í eigin áhættu. Sé það aðeins kærandi sjálfur sem geti átt rétt til bóta úr vátryggingunni en ekki kærði sem lögmaður, enda verði ekki leitt af fyrirliggjandi umboði að kærandi hafi framselt rétt sinn til tryggingabóta til kærða eða á annan hátt samþykkt að kærði gæti í eigin nafni sótt bætur í trygginguna.

Kærandi bendir á að þrátt fyrir framangreint hafi kærði sett fram kröfu vegna vinnu sinnar beint til tryggingafélagsins og án samráðs við kæranda. Hafi kærandi þannig ekki verið upplýstur um fjárhæð kröfunnar og innheimtu hennar. Með því hafi kærði brotið gegn 10. gr. siðareglna lögmanna enda hafi kæranda ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdur við innheimtu lögmannsins áður en til tryggingafélagsins var leitað.

Kærandi bendir á að kærði hafi upplýst að hann hefði ekki í hyggju að láta kæranda bera beinan kostnað af málinu, heldur myndi kærði sækja greiðslur úr réttaraðstoðatryggingu og veita kæranda síðan afslátt eftir á, sem næmi þeim 20% sem C innheimti af kæranda í eigin áhættu. Er vakin athygli á að sá afsláttur komi ekki fram á framlögðum reikningi. Þar sem réttaraðstoðartrygging og útreikningur eigin áhættu taki mið af raunverulegum kostnaði kæranda gangi þesi aðferðafræði ekki upp, þar sem afsláttur ætti að þýða að eigin áhætta reiknist af lægri stofni og svo koll af kolli. Þá bendir kærandi á að ef látið yrði af þeirri fyrirætlan yrði að skoða reikninginn, sem sendur hafi verið tryggingafélaginu ásamt kröfu um greiðslu bóta, sem málamyndagerning en ekki endanlegan reikning til kæranda. Væri slíkt ekki aðeins í ósamræmi við siðareglur lögmanna heldur fæli það einnig í sér saknæmt og refsivert auðgunarbrot.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er bent á að í málatilbúnaði kærða felist viðurkenning á að hann hafi sent tryggingafélaginu kröfu byggða á reikningi sem endurspegli ekki raunverulegan kostnað kæranda í málinu. Geti reikningurinn vart talist annað en málamyndagerningur, þ.e. falskur reikningur sem settur sé fram og sendur tryggingafélaginu til þess eins að knýja fram hærri bætur úr réttaraðstoðartryggingu kæranda en hann eigi rétt á. Sé hér um að ræða sviksamlega og refsiverða háttsemi, vátryggingasvik, sem kærði hafi framið eða hyggist fremja í nafni umbjóðenda sinna, þar á meðal kæranda í máli þessu. Ítrekar kærandi um þetta efni að tryggingin sé skaðatrygging sem taki til þess fjártjóns sem kærandi verði raunverulega fyrir vegna kostnaðar við rekstur dómsmála. Fái kærandi afslátt eða niðurfellingu á slíkum kostnaði komi hann samkvæmt meginreglum vátryggingaréttar til frádráttar þeirra tjónabóta sem hann eigi rétt á hjá sínu tryggingafélagi.

Í sjöunda lagi byggir kærandi á að hagsmunir hans hafi ekki verið hafðir nægjanlega að leiðarljósi við val á því hvaða mál kærði valdi að stefna. Er vísað til þess að kærandi hafi ekki verið upplýstur um það sérstaklega að stefnt yrði í málinu eða kæranda veitt færi á að tjá sig um það eða hvaða kostnaður hlytist af því. Telur kærandi það fela í sér brot á siðareglum lögmanna. Veltir kærandi því einnig fyrir sér hvort málum allra þeirra sem skráðu sig á vefsvæði lögmannsins hafi verið stefnt inn eða hvort lögmaður hafi handvalið mál. Hafi réttaraðstoðatrygging verið í gildi vegna allra þeirra 20 mála sem stefnt hafi verið veki það óneitanlega upp spurningar um hvaða sjónarmið hafi ráðið för við val þá því hvort stefnt væri í málunum eða ekki og hvort þeim sem voru með slíkar tryggingar hafi verið ætlað að greiða niður kostnað þeirra sem ekki hafi verið með slíkar tryggingar.

Á þeim grunni skorar kærandi á kærða að leggja fram upplýsingar um heildarfjölda þeirra einstaklinga sem veitt hafi kærða umboð til þess að innheimta ólögmætt uppgreiðslugjald fyrir þeirra hönd, hversu mörgum mála var stefnt og felld niður og hver hafi verið heildarfjöldi skráðra tíma á alla þessa einstaklinga og umkrafin fjárhæð lögmannsþóknunar. Þá kveðst kærandi skora á kærða að veita upplýsingar um hversu margir þessara einstaklinga hafi verið með réttaraðstoðartryggingar og hvort mismunur sé á útgefnum reikningum til þeirra og  hinna sem nutu ekki tryggingar. Að endingu skorar kærandi á kærða að afhenda eintak af gjaldskrá E sem í gildi var á árinu 2020 og 2021.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er á það bent að kærði hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að kærandi hafi verið upplýstur reglulega um stöðu mála og kostnað af málarekstri fyrir dómstólum. Verði kærði því að bera hallann af þessu.

Að endingu bendir kærandi á að samkvæmt málatilbúnaði kærða hafi hann gætt réttar um 90 einstaklinga vegna endurkrafna í samkynja málum sem alls námu ríflega 130.000.000 króna. Fyrir liggi að kærði hafi stefnt 20 málum vegna mögulegrar fyrningar og að 10 þeirra voru með tryggingar hjá C og að minnsta kosti einhverjir með tryggingar hjá öðrum tryggingafélögum. Er vísað til þess að kærði fullyrði að einungis hafi verið stefnt í þeim málum þar sem fyrning hafi verið yfirvofandi og að það eitt hafi ráðið því hvort málum umbjóðenda væri stefnt. Kærði hafi hins vegar ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Sé þannig óupplýst hvort einungis hafi verið hætta á fyrningu í þeim 20 málum af þeim 90 sem um ræði.

III.

Kærði krefst þess í fyrsta lagi að nefndin úrskurði um að fjárhæð endurgjalds fyrir vinnu hans sé réttmæt og eðlileg. Í öðru lagi er þess krafist að kröfum kæranda um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði bendir á að ágreiningur í málinu sé einkum á milli hans og C. Þannig hafi tryggingafélagið hafnað reikningi lögmannsstofu kærða vegna málareksturs í þágu kæranda og krafist þess að hann færi með ágreining um réttmæti þóknunar fyrir nefndina. Hafi tryggingafélagið samkvæmt því nýtt skilmála sína til að mynda hagsmunaárekstra á milli kærða og kæranda. Um leið hafi tryggingafélagið skrumskælt regluverk það sem gildi um störf nefndarinnar, nýtt hana sem ókeypis úrskurðaraðila og búið sér til vaxtalaust greiðsluskjól gagnvart reikningum lögmannsstofu kærða.

Um málsatvik vísar kærði til þess að í kjölfar dóms héraðsdóms x. desember 20xx í máli nr. x-xxxx/20xx hafi umtalsverður fjöldi einstaklinga leitað til lögmannsstofu hans vegna sambærilegra mála. Af þeim sökum hafi verið í flýti útbúinn texti á heimasíðu lögmannstofu hans þar sem helstu álitaefni varðandi niðurstöðu dómsins hafi verið skýrð.

Kærði vísar til þess að lögmannsstofa hans hafi heitið umbjóðendum sínum því að krefja þá aðeins um lágmarksgreiðslu fyrir þjónustuna. Hafi umbjóðendur þannig einungis verið krafðir um 50.000 krónur fyrir gagnaöflun og greiningu, en að auki hafi lögmannsstofan skuldbundið sig til þess að krefja umbjóðendur að hámarki um 15% hlutdeild í endurgreiðslum uppgreiðslugjalda D, en ef D yrði dæmdur til að greiða málskostnað myndu þær greiðslur dragast frá hlutdeildinni. Væri hins vegar málskostnaðartrygging til staðar, myndu greiðslur til lögmannsstofunnar einskorðast við það sem fengist greitt úr tryggingunni. Samkvæmt því hafi lögmannsstofa kærða lýst þeirri von sinni að ekki kæmi til þess að einstaklingar greiddu neina hlutdeild af hagsmunum sínum og að allur lögmannskostnaður væri borinn af D.

Vísað er til þess að viðkomandi umbjóðendur hafi gert samning við lögmannsstofu kærða þar sem gjaldtakan hafi verið fullkomlega skýr. Lýsir kærði því að lögmannsstofa hans hafi staðið við þann texta sem birtur hafi verið á heimasíðu hennar. Í 20 tilvikum hafi verið stefnt og mál látin niður falla. Hafi lögmannsstofan gert upp við tryggingafélög allra nema þeirra sem tryggðir hafi verið hjá C. Þá hafi lögmannsstofan tekið á sig eigin áhættu umbjóðenda sinna og afskrifað þann hluta reikninga sinna.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi undirritað skipunarbréf og gert samning við lögmannsstofu hans um lögfræðiþjónustu. Með því hafi kærandi fallist á gjaldskrá lögmannsstofunnar. Er á það bent að hafi á einhverjum tímapunkti leikið vafi á um þau kjör sem í boði hafi verið hafi kæranda í öllu falli verið það ljóst eftir að hafa kynnt sér og undirritað þá samninga. Í kjölfar þess hafi kærði og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans unnið ötullega að verkum í þágu kæranda og annarra umbjóðenda.

Vísað er til þess að þar sem lögmannsstofa kærða hafi haft til meðferðar fleiri samkynja mál, og þar sem samkynja mál hafi verið til meðferðar fyrir dómstólum, hafi verið reynt að takmarka kostnað við rekstur málanna. Í flestum málanna hafi því aðeins verið aflað gagna, þau greind og svo send krafa um endurgreiðslu til að virkja dráttarvaxtakröfu gagnvart D jafnframt því sem áskilnaður hafi verið gerður um aðgerðir síðar. Auk þess hafi mál verið höfðuð í þeim tilvikum þar sem hætta hafi verið á fyrningu krafna en krafa kæranda hafi tilheyrt þeim hópi. Þá hafi tryggingafélaginu verið tilkynnt um það enda réttaraðstoðartrygging í gildi sem tók til atvika.

Á það er bent að með dómum Hæstaréttar x. maí 20xx í málum nr. x og x/20xx hafi gjaldtaka D verið dæmd lögmæt. Vísar kærði til þess að þegar sú niðurstaða hafi legið fyrir hafi verið ljóst að fella þyrfti niður mál kæranda. Hafi það verið gert með réttarsátt og án kostnaðar gagnvart gagnaðila kæranda. Í framhaldi af því hafi kærði átt í samskiptum við tryggingafélagið um greiðslu úr réttaraðstoðartryggingu sem hafi á endanum verið hafnað. Þá hafi tryggingafélagið borið fyrir sig skilmála um að það gæti gert að skilyrði fyrir greiðslu bóta úr tryggingunni að vátryggður færi með ágreining um réttmæti málflutningsþóknunar fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Í fyrsta lagi byggir kærði á, vegna málsástæðu kæranda um að kærði hafi gert reikning þrátt fyrir auglýsingar um annað, að það sé samningssamband lögmannsstofu hans og kæranda sem ráði hvernig gjaldtökunni sé háttað. Upplýsingum á heimasíðu lögmannsstofunnar hafi verið beint til einstaklinga en ekki tryggingafélaga. Sé ljóst að ef umbjóðandi lögmanns hefur um langt skeið keypt réttaraðstoðartryggingu hafi hann þegar greitt hátt verð fyrir að geta sótt stærstan hluta málskostnaðar í hana. Sé fráleitt að halda því fram að kærandi, sem greitt hafi fyrir slíka tryggingu, hafi gengið út frá því að lögmannsstofa kærða væri að lofa því að taka á sig kostnað sem tryggingafélagið hafi tekið gjald fyrir að bera.

Á því er byggt að það sé rangfærsla af hálfu kæranda að lögmannsstofa kærða hafi auglýst að vinna vegna uppgreiðslumála væri „án endurgjalds“. Þvert á móti hafi því verið heitið af hálfu lögmannsstofunnar að málin yrðu rekin með lágmarkskostnaði fyrir viðskiptavini og að þeir yrðu ekki krafðir um hefðbundna lögmannsþóknun. Með því hafi viðskiptavinum verið heitið skaðleysi. Til þess að taka af allan vafa um eðli viðskiptasambandsins, hvernig gjaldtöku væri háttað og hver réttarstaða aðila væri hafi kærandi og lögmannsstofa kærða gert samninga sín á milli.

Kærði bendir á að kærandi hafi undirritað skipunarbréf rafrænt og falið lögmannsstofu hans að fara með mál sitt. Um leið hafi kærandi staðfest almenna viðskiptaskilmála lögmannsstofunnar og gengist undir þá. Samkvæmt skipunarbréfinu hafi verið samið um að ef málskostnaðartrygging væri til staðar, væri gert ráð fyrir að hún eða málskostnaður úr hendi gagnaðila stæði undir málarekstri.

Bent er á að skýrt komi fram í almennu viðskiptaskilmálunum að þeir auk skipunarbréfs myndi saman samninginn milli kæranda og lögmannsstofu kærða. Í grein 3.2. í almennu skilmálunum sé tekið fram að lögmannsstofa kærði haldi utan um raunverulegan unnin tímafjölda, sama hvaða þóknunarfyrirkomulag sé samið um. Þá hafi verið tekin fram í grein 3.3. að kærandi heimilaði lögmannsstofu kærða að krefja um raunverulegt gjald samkvæmt tímaskráningu, á grundvelli gjaldskrár lögmannsstofunnar, úr málskostnaðartryggingu, á grundvelli gjafsóknar og/eða úr hendi gagnaðila. Hafi það verið í fullkomnu samræmi við það sem lögmannsstofan hafi heitið kæranda, þ.e. að hann yrði persónulega ekki krafinn um hefðbundna lögmannsþóknun. Kærandi hafi hins vegar samið og heimilað lögmannsstofu kærða að krefja tryggingafélagið um raunverulegt gjald úr málskostnaðartryggingu.

Telur kærði ljóst að samningur lögmannsstofu hans við kæranda heimili þá gjaldtöku sem ágreiningur sé um. Grundvallist íslenskur fjármunaréttur á því að aðilar að samningum séu bundnir af efni þeirra. Eigi lögmannnsstofa kærða rétt til eðlilegrar, venjubundinnar og hóflegrar greiðslu fyrir þá tíma sem unnir hafi verið í þágu kæranda í samræmi við samning aðila. Á því hafi reikningsgerð í málinu grundvallast. Bendir kærði einnig á að í skipunarbréfinu, sbr. ákvæði E.2., hafi lögmannsstofa hans skuldbundið sig til að krefjast aðeins þeirrar greiðslu sem fengist greidd úr málskostnaðartryggingu. Hafnar kærði því að það sé ósiðlegt að standa með skjólstæðingi ef mál vinnst ekki. Varði það tryggingafélagið engu hver það sé sem beri eigin áhættu á endanum. Þá feli meintur vafi um inntak texta á heimasíðu ekki í sér neitt þriðjamannsloforð um að kærði gefi eftir vinnu sína til hagsbóta fyrir tryggingafélag.

Kærði byggir á að lögmannsstofa hans hafi staðið við allt gagnvart kæranda og að ekkert hafi verið óljóst um eðli gjaldtökunnar. Til viðbótar skýrum samningum hafi kærði verið í tíðum samskiptum við kæranda á ýmsum stigum málsins og veitt allar viðeigandi upplýsingar um stöðu málanna og framvindu þeirra.

Í öðru lagi bendir kærði á, vegna málatilbúnaðar kæranda um meinta annmarka á tímaskýrslu, að mál kæranda hafi verið samkynja öðrum málum sem lögmannsstofan hafi haft til meðferðar. Hafi lögfræðilegur ágreiningur í þeim öllum verið margþættur og flókinn. Auk þeirra mála sem stefnt hafi verið hafi lögmannsstofan tekið að sér fjölda annarra samkynja mála. Í heildina hafi þannig verið gætt réttar um 90 einstaklinga vegna endurkrafna sem numið hafi alls 130.000.000 króna. Að meðaltali hafi endurkröfurnar verið að fjárhæð 1.600.000 krónur. Hafi því verið umtalsverðir hagsmunir í húfi. Vegna fjölda mála, hagsmuna og flækjustigs hafi þrír lögmenn saman sinnt þeim. Hafi þeir fundað reglulega og farið yfir málin og stöðu þeirra. Þá hafi meiriháttar ákvarðanir verið teknar sameiginlega og mikilvægari skjöl og rannsóknarvinna vegna þeirra, svo sem ritun stefnu, verið með þeim hætti að allir kynntu sér stöðuna og fræðin og unnu saman að þeim.

Kærði bendir á að vinnuliðum í tímaskýrslu megi skipta í fjóra þætti, sbr. eftirfarandi:

  1. Í fyrsta lagi sé um að ræða vinnuliði sem lúti eingöngu að máli kæranda, þ.e. persónubundin samskipti við hann eða vegna hans, rýni skjala og sending erinda og gagna. Á meðal verkliða hafi falist að fara yfir, útskýra og aðstoða við frágang skipunarbréfs og fylgiskjala með því, ritun og sending gagnabeiðni, móttaka skuldabréfa, uppgreiðslukvittana og annarra gagna og rýni þeirra og sending kröfubréfs til D. Þá hafi einnig verið gjaldfærðir verkliðir sem falist hafi í yfirferð stefnuforms og að færa inn í það réttar fjárhæðir og staðreyndir úr skjölum kæranda, yfirlestur þess af lögmanni og frágangur stefnu og fylgiskjala. Byggir kærði á að þessi gjaldtaka hafi verið í fullu samræmi við samning aðila og hún hófstillt miðað við umfang.
  2. Í öðru lagi sé um að ræða vinnuliði sem eigi það sammerkt að vera vegna vinnu sem gagnast hafi fleiri umbjóðendum í samkynja málum. Byggir kærði á að þeim vinnuliðum hafi verið hagað með sanngjörnum hætti. Til að sýna fyllstu heilindi hafi kærði og aðrir lögmenn lögmannsstofunnar haldið utan um tímaskráningu mála og deilt í þann tímafjölda með fjölda samkynja mála. Dagana 15. desember 2020, 3. mars og 28. maí 2021 hafi verið skráð í tímaskýrsluna vinnufundir en þeir hafi verið mun fleiri þó þeir hafi ekki allir verið gjaldfærðir. Í öllum tilvikum hafi verið deilt í rauntíma þessara funda með fjölda samkynja mála sem fjallað hafi verið um. Varðandi skráða vinnu 10. mars 2021 bendir kærði á að vinna við sniðmát stefnu hafi farið fram á lengri tíma en tímaskráningarforrit virki þannig að það verði að færa skráða tíma á tiltekna dagsetningu. Vísar kærði til fyrirliggjandi gagna og að gjaldtaka á hvert mál vegna þessa hafi aðeins verið 8.75 klst.
  3. Í þriðja lagi sé um að ræða vinnuliði sem séu því marki brenndir að erfitt sé að deila unnum fjölda í fjölda samkynja mála. Hafi því verið brugðið á það ráð að gjaldfæra lægstu tímaeiningu samkvæmt samningi og gjaldskrá í þeim tilvikum, þ.e. 15 mínútur. Sé heildargjaldtaka vegna þessa samtals 2 klst.
  4. Í fjórða lagi sé um að ræða vinnuliði sem taki til mætingar auk annarra viðvika sem hvert um sig hafi verið skráð í lágmarks tímaeiningu. Samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu kærða sé gjaldtaka fyrir mót að lágmarki 15.000 krónur. Því hafi verið færðar í tímaskráningu 30 mínútur vegna móta.

Í samræmi við framangreint kveðst kærði hafna fullyrðingum kæranda sem fráleitum um að tímaskýrslur séu ekki í samræmi við lögmannsvenjur og lágmarkskröfur. Þannig séu fyrirliggjandi tímaskýrslur raunverulegt yfirlit yfir þann tíma sem farið hafi í vinnu í málinu. Líta verði til þess að umþrætt gjaldtaka varði mál sem séu flókin líkt og niðurstöður dómstóla beri með sér.

Í þriðja lagi byggir kærði á að lögmannsstofa hans hafi samið við kæranda og aðra umbjóðendur sína um að innheimta einungis tímagjald ef málskostnaður greiddist af gagnaðila, hann fengi gjafsókn eða að mál hans félli undir réttaraðstoðartryggingu. Samkvæmt því hafnar kærði því að hann hafi mismunað skjólstæðingum sínum. Þvert á móti hafi kærði lagt sig fram um að halda öllum umbjóðendum skaðlausum af málarekstrinum.

Í fjórða lagi hafnar kærði því að innheimta hans hafi verið úr hófi að teknu tilliti til umfangs málsins. Hafnar kærði því einnig að rétt hefði verið að stofna til málsóknarfélags og sækja öll mál í einu lagi enda hafi leikið verulegur vafi á um að réttarfarsskilyrði fyrir því væru uppfyllt.

Varðandi gjaldtökuna vísar kærði til fyrri sjónarmiða um það efni. Kveður kærði það rétt að vinnuframlag lögmanna sem komu að hagsmunagæslu í viðkomandi málum hafi verið umtalsvert. Líklega sé talan sem kærandi nefni, 700 klst., vanáætluð. Sú fjárhæð sem kærandi nefni, þ.e. nærri 28.000.000 króna, sé hins vegar fjarri lagi. Taka verði tillit til þess að lögmannsstofa kærði hafi kosið að taka á sig eigin áhættu skjólstæðinga í öllum tilvikum. Þá nemi greiðslur úr réttaraðstoðartryggingu að hámarki þeim hagsmunum sem stefnt er vegna, en í fjölda mála hafi endurkrafa verið langtum lægri en reikningur stofunnar. Í tilviki viðkomandi tryggingafélags séu hagsmunirnir allt niður í 410.000 krónur, en að teknu tilliti til eigin áhættu næmi þá gjaldtakan 328.000 krónum með virðisaukaskatti.

Byggir kærði á að gjaldtaka og umfang vinnu hafi verið hófleg í ljósi atvika og eðlis málanna. Hafi heildarumfang vinnunar aðeins verið um 33 – 37 klst. á hvert mál. Beri tímaskýrslur einnig með sér hversu tíð og hvers eðlis samskipti voru í hverju tilviki um sig.

Í fimmta lagi mótmælir kærði sjónarmiðum kæranda um fjárhæð tímagjalds. Bendir kærði á að rangt sé að kæranda hafi hvorki verið kynnt gjaldskrá né hann upplýstur um tímagjald. Er á það bent að með samningum hafi kærandi samþykkt að greiða tímagjald samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar og að honum hafi ætíð verið heimilt að kynna sér hana.

Kærði bendir á að tímagjald lögmannsstofu hans hafi verið samkvæmt samningi sem hafi verið í þessu máli 32.500 krónur auk virðisaukaskatts. Sé það í fullu samræmi við flækjustig málsins, mikilvægi þess og gjaldtöku annarra lögmanna í sambærilegum málum. Gjaldskrá lögmannsstofunnar geri ráð fyrir að tímagjald sé á bilinu 27.900 krónur til 67.000 krónur fyrir klukkustund og sé gjaldtaka í málinu því nærri neðri mörkum hennar. Byggir kærði á að tímagjaldið hafi verið afar hóflegt með tilliti til reynslu og menntunar þeirra lögmanna sem komið hafi að málinu, flækjustigs þess, hagsmuna, umfangs og atvika allra.

Varðandi málatilbúnað kæranda um að framlagðir reikningar sýni mögulega annan og meiri kostnað en í hyggju sé að innheimta bendir kærði í sjötta lagi á að lögmannsstofa hans hafi haft umboð til að sækja greiðslur til tryggingafélagsins samkvæmt undirliggjandi samningi sem kærandi hafi undirritað. Lögmannsstofa kærði hafi staðið við loforð sín við kæranda og mun gera það með því falla frá innheimtu þess hluta reikninga sem taka til eigin áhættu kæranda.

Kærði vísar til þess að það fyrirkomulag sem lýst sé í kvörtun sé fráleitt og í fullkomnu ósamræmi við raunveruleikann. Þannig haldi tryggingafélagið því fram að félagið muni „innheimta 20% af reikningi kæranda í eigin áhættu“. Enginn fótur sé fyrir því undarlega fyrirkomulagi í skilmálum tryggingafélagsins. Öll önnur tryggingafélög greiði einfaldlega þau 80% af málskostnaðinum sem þeim ber og láta lögmanninum og vátryggðum það eftir að gera upp það sem út af stendur.

Kærði bendir á að lögmannsstofa hans hafi gefið út reikninga á hendur kæranda. Sá reikningur sé til marks um réttmæt og gild kröfuréttindi á hendur kæranda, sem beri að greiða. Kærandi eigi rétt á bótum sem nemi 80% af þeirri kröfu og hafi falið lögmannsstofu kærða að innheimta þær bætur. Lögmannsstofa kærði muni afskrifa innheimtu á þeim 20% sem eftir standa. Það geri lögmannsstofan ekki til hagsbóta fyrir tryggingafélagið heldur til þess að efna fyrirheit sín við kæranda. Feli slíkt ekki í sér neina auðgun líkt og ranglega sé haldið fram í málinu.

Í viðbótarathugasemdum kærða er á það bent að skilningur tryggingafélagsins sé óframkvæmanlegur og feli í sér vítahring sem gangi ekki upp, nema þá aðeins að kærandi sé neyddur til að greiða hluta af kröfu lögmannsstofu kærða. Ef skilningur tryggingafélagsins væri lagður til grundvallar ætti lögmannsstofan að lækka reikninga sína niður í sem nemur 80% og gefa þá út að nýju. Svo myndi kærandi eiga rétt á 80% af þeim reikningi úr tryggingunni. Þar sem lögmannsstofan hyggst ekki krefja kæranda um meira en þeir fá greitt úr tryggingunni yrði ekki gerð krafa um þau 20% sem út af standa. Því ætti það sama við aftur, koll af kolli. Gangi röksemdir tryggingafélagsins þannig út á að ef lögmaður kýs að halda skjólstæðingi, sem nýtur málskostnaðartryggingar, skaðlausum af málarekstri felist sjálfkrafa í því refsiverð háttsemi og tryggingasvik.  Hafnar kærði þeim málatilbúnaði með öllu sem fráleitum.

Í sjöunda lagi byggir kærði á að kærandi fari með rangt mál varðandi hagsmuni og tilgang að baki málshöfðun. Bendir kærði á að kærandi hafi verið upplýstur um að málinu þyrfti að stefna til að rjúfa fyrningu og verið því samþykkur. Hafi kærandi þannig greitt sérstakt þingfestingargjald til lögmannsstofu kærða. Jafnframt því hafi kæranda verið boðið að kynna sér stefnu málsins og fá sérstakan fund til að fara yfir þær. Ítrekar kærði einnig að aðeins hafi verið stefnt í málum þar sem hætta hafi verið á fyrningu. Engum öðrum málum hafi verið stefnt. Hafi því verið fullkomlega hlutlægar og málefnalegar ástæður að baki þeim ákvörðunum.

Kærði bendir á að rangt sé að lögmannsstofa hans hafi stefnt 20 málum. Þannig hafi fleiri málum verið stefnt, en til þessa hafi aðeins verið rætt um þau mál sem hafi verið sama eðlis og felld hafi verið niður. Þau séu 20 talsins og þeim lokið. Önnur mál hafi ekki verið felld niður enn, þar sem ágreiningur í þeim og endurgreiðslukrafa sé annars eðlis. Allt að einu megi sjá í fyrirliggjandi gögnum að fullkomlega hlutlægar ástæður hafi ráðið för í hverju einasta tilviki við ákvarðanatöku um málshöfðun.

Að endingu ítrekar kærði kröfu um kostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Þá bendir kærði á að fullt tilefni sé til að beita ákvæði 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og ákveða að kærandi og þar með viðkomandi tryggingafélag greiði þann kostnað sem hljótist af störfum nefndarinnar.

Með vísan til alls framangreinds byggir kærði á að gjaldtaka í málinu, með hliðsjón af umfangi þess, eðli, flækjustigi og hagsmunum sé eðlileg og sanngjörn, jafnvel þó fleiri samkynja mál hafi verið rekin af lögmannsstofu hans.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa kærða og hins vegar um hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum. Það athugast að þau ágreiningsefni eru bundin við aðila máls þessa og koma því sjónarmið og málsástæður sem varða með beinum eða óbeinum hætti C, sem fer með umboð kæranda vegna málsins, ekki til úrlausnar í máli þessu.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Í 15. gr. siðareglnanna er tiltekið að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Þá kemur fram í 1. mgr. 42. gr. siðareglnanna að lögmaður megi auglýsa og kynna þjónustu sína svo sem samrýmist góðum lögmannsháttum. Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. er lögmanni óheimilt að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti, svo og að afla sér viðskipta með öðrum aðferðum, sem sama marki eru brenndar.

III.

Líkt og áður greinir hefur kærandi meðal annars krafist þess fyrir nefndinni að innheimta kærða á hendur honum vegna málareksturs í svokölluðu uppgreiðslumáli verði úrskurðuð ólögmæt og að kærða verði gert að hætta allri innheimtu vegna málsins. Verður að leggja þann skilning í tilgreinda kröfugerð kæranda að þess sé krafist að reikningur nr. 7728 sem lögmannsstofa kærða gaf út þann 31. júlí 2021, að fjárhæð 1.533.608 krónur, verði felldur niður á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Málatilbúnaður kæranda að þessu leyti er einkum reistur á því að gerður hafi verið reikningur vegna vinnu kærða í þágu kæranda þrátt fyrir auglýsingar um annað. Hafi kærði þannig verið bundinn við þá auglýsingu og þær upplýsingar sem veittar hafi verið á vefsíðu lögmannsstofu hans, þar á meðal um gjaldtöku vegna málsins. Hafi þar þannig meðal annars komið fram að engin þóknun yrði greidd ef endurgreiðsla fengist ekki frá D og að ekki væri farið fram á greiðslu hefðbundinnar lögmannsþóknunar.

Gerð er grein fyrir því efni sem birt var á vefsíðu lögmannsstofu kærða undir flipanum „UPPGREIÐSLUMÁL“ í málsatvikalýsingu að framan. Var því þannig lýst undir liðnum „Ef þú færð ekki endurgreitt borgar þú okkur ekkert – No cure no pay“ að boðið væri upp á að reka endurkröfumál með lágmarkskostnaði. Ekki væri farið fram á hefðbundna lögmannsþóknun en kæmi til endurgreiðslu yrði greidd lág hlutdeild af henni í þóknun sem næmi aldrei meira en 15% auk virðisaukaskatts. Var því einnig lýst að ef réttaraðstoðartrygging væri fyrir hendi, gagnaðili yrði dæmdur til að greiða málskostnað eða samið yrði um greiðslu hans kæmu þær greiðslur til lækkunar. Þá var tiltekið að farið væri fram á greiðslu að fjárhæð 50.000 krónur fyrir gagnaöflun hjá D og tryggingafélögum, yfirferð og mat á viðkomandi máli.

Á grundvelli málsgagna verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærandi hafi  undirritað skipunarbréf/umboð og gagnaöflunarumboð þann 9. desember 2020 vegna hagsmunagæslu kærða og lögmannsstofu hans í málinu. Er gerð grein fyrir efni tilgreindra skjala í málsatvikalýsingu að framan, þar á meðal þóknunarákvæði í E)-lið skipunarbréfsins. Samkvæmt þeim gögnum verður einnig að leggja til grundvallar að áliti nefndarinnar að kærandi hafi staðfest með undirritun sinni að hann samþykkti almenna viðskiptaskilmála lögmannsstofu kærða vegna hagsmunagæslunnar þar sem meðal annars var tiltekið að samningssamband aðila réðist af tilgreindum viðskiptaskilmálum ásamt skipunarbréfi.

Af málatilbúnaði aðila og fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að ágeiningslaust sé á milli aðila að á tilgreindum tíma hafi kærandi notið svokallaðrar réttaraðstoðar á grundvelli trygginga sem hann hafði keypt hjá C og að hún hafi tekið til þeirrar hagsmunagæslu sem kærði tók að sér í þágu kæranda. Vísaði kærandi sérstaklega til tryggingafélagsins í því umboði sem leggja verður til grundvallar að hann hafi veitt kærða og lögmannsstofu hans. Þá var því sérstaklega lýst umboðinu að í því fælist heimild til að kanna með slíka málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélaginu og eftir atvikum að leita samþykkis félagsins fyrir ábyrgð á málskostnaði á grundvelli tryggingarinnar.

Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður að leggja til grundvallar að fyrrgreint skipunarbréf og hinir almennu viðskiptaskilmálar, sem kærandi staðfesti með rafrænni undirritun þann 9. desember 2020, hafi gilt í réttarsambandi aðila. Var þar meðal annars kveðið á um rétt kærða og lögmannsstofu hans til endurgjalds vegna þjónustu í þágu kæranda. Þar sem málskostnaðartrygging var til staðar og til málshöfðunar kom fór um rétt til endurgjalds eftir 2. tölulið í E)-lið umboðsins sem var svohljóðandi:

Málskostnaðartrygging til staðar. – Undirrit/-uð/-aður er með málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélagi sínu sem er gert ráð fyrir að muni standa undir rekstri málsins fyrir dómstólum. Lögmannsstofan skuldbindur sig til að gefa ekki út reikninga vegna rekstrar málsins umfram það hámark sem málskostnaðartrygging kveður á um. Greiðslur til lögmannsstofunnar einskorðast við það sem fæst greitt út úr tryggingunni.“

Að mati nefndarinnar verður jafnframt að líta til hinna almennu viðskiptaskilmála sem komu til fyllingar við efni skipunarbréfsins varðandi samningsbundna heimild til gjaldtöku og reikningsgerðar. Var þannig tekið fram í grein 3.2. í skilmálunum að þrátt fyrir að samið væri um fast gjald, eða gjald sem miðaðist við hlutdeild af hagsmunum, yrði haldið utan um raunverulegan tímafjölda eins og gilti um hefðbundna lögfræðiþjónustu. Veitti kærandi jafnframt kærða og lögmannsstofu hans heimild, á grundvelli hinnar rafrænnu samþykktar, til að krefja um „raunverulegt gjald“ fyrir þjónustuna á grundvelli gjaldskrár lögmannsstofunnar úr málskostnaðartryggingu, á grundvelli gjafsóknar og/eða úr hendi gagnaðila. Þá var í grein 3.4. í skilmálunum vísað til þess að við verklok, eða undir framvindu máls þegar málskostnaðartryggingar nyti við, kæmi til reikningsgerðar vegna hagsmunagæslunnar.

Á grundvelli fyrrgreindra heimilda, sem leggja verður til grundvallar að gilt hafi í réttarsambandi aðila, verður ekki talið að mati nefndarinnar að efni það sem birt var á heimasíðu lögmannsstofu kærða hafi girt fyrir að til slíkrar gjaldtöku gæti komið sem umþrætt er í máli þessu. Er þá einnig til þess að líta að því var sérstaklega lýst á heimasíðunni að greiðslur frá þriðju aðilum kæmu til lækkunar á hlutdeild í mögulegri endurgreiðslukröfu. Var það efni nánar útfært í því umboði og þeim skilmálum sem áður er lýst og kærandi staðfesti gagnvart kærða með undirritun sinni. Eins og atvikum var háttað verður að telja að umsamið hafi verið á milli aðila að greiðslur til lögmannsstofu kærða vegna veittrar lögmannsþjónustu í þágu kæranda myndu einskorðast við það sem fengist greitt úr réttaraðstoðartryggingu kæranda hjá fyrrgreindu tryggingafélagi. Hefur kærði einnig staðfest það í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni þar sem fram hefur komið að skaðleysi kæranda væri tryggt þar sem ekki yrðu hafðar uppi frekari kröfur á hendur honum en næmi greiddri bótafjárhæð úr viðkomandi tryggingu, þ.e. að teknu tilliti til frádráttar vegna eigin áhættu kæranda.

Fyrir liggur að á sama stað og upplýsingar voru birtar á heimasíðu lögmannsstofu kærða um málareksturinn var að finna hnapp fyrir umboð sem unnt var að undirrita með rafrænum skilríkjum sem og viðkomandi umboð og hina almennu viðskiptaskilmála á PDF formi. Er ekkert annað fram komið í málinu en að þar hafi verið um sömu skjöl að ræða og kærandi undirritaði með rafrænum hætti þann 9. desember 2020. Að teknu tilliti til þess, sem og þess efnis sem birt var að öðru leyti á heimasíðu lögmannsstofunnar, verður ekki talið að kærði hafi veitt kæranda rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í skilningi 2. mgr. 42. gr. siðareglna lögmanna við upphaf lögskipta aðila þannig að í bága hafi farið við góða lögmannshætti. Vegna tilvísunar kæranda til II. og III. kafla laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, er þess einnig að gæta að Neytendastofa, undir yfirstjórn ráðherra, fer með eftirlit samkvæmt þeim lögum og fellur það því utan valdsviðs nefndarinnar að leggja mat á ætluð brot kærða og lögmannsstofu hans gagnvart þeim lögum, sbr. m.a. 4. gr. laganna.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að skilyrði séu til að fella niður reikning lögmannsstofu kærða nr. 7728, sem útgefinn var á hendur kæranda þann 31. júlí 2021, á grundvelli þeirra upplýsinga um viðkomandi málarekstur sem birtar voru á vefsíðu lögmannsstofunnar. Samkvæmt því þarf að taka til skoðunar hvort áskilið endurgjald kærða hafi verið hæfilegt, í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, þar á meðal að teknu tilliti til umfangs hagsmunagæslunnar og viðkomandi málareksturs, þeirra heimilda sem giltu í réttarsambandi aðila sem og atvika að öðru leyti.

IV.

Líkt og áður greinir krefst kærandi þess til vara á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 að nefndin úrskurði um hæfilegt og hóflegt endurgjald kærða með hliðsjón af umfangi viðkomandi máls. Með hliðsjón af málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni verður sú kröfugerð ekki skilin með öðrum hætti en að þess sé krafist að það endurgjald sem reikningur lögmannsstofu kærða nr. 7728 frá 31. júlí 2021 tekur til sæti lækkun. Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var reikningurinn að heildarfjárhæð 1.533.608 krónur með virðisaukaskatti en hann tók annars vegar til lögfræðiþjónustu í rúmar 37 klukkustundir á tímagjaldinu 32.500 krónur auk virðisaukaskatts sem og til þingfestingargjalds að fjárhæð 19.000 krónur.

Tilgreind krafa kæranda byggir meðal annars á því að hinn umþrætti reikningur hafi verið úr hófi að teknu tilliti til lítils umfangs málsins. Jafnframt því hafi tímaskýrsla að baki reikningnum verið háð annmörkum og því ekki endurspeglað hvaða vinna hafi farið í málið. Þá hafi áskilið tímagjald kærða verið of hátt og ekki í samræmi við samning aðila eða gjaldskrá lögmannsstofu hans. Hafi kæranda enda ekki verið kynnt gjaldskrá lögmannsstofunnar eða hann upplýstur með öðrum hætti um áskilið tímagjald, sbr. 10. gr. siðrareglna lögmanna. Kærði hefur á hinn bóginn andmælt þessum málatilbúnaði og byggt á að um hóflegt endurgjald hafi verið að ræða sem byggt hafi á þeim samningum sem aðilar hafi gert með sér.

Líkt og áður er rakið kemur fram í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Er áréttað um þetta efni í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni jafnframt að gera umbjóðanda grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Ágreiningslaust er í málinu að kærði gerði kæranda ekki sérstaklega grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf réttarsambands aðila. Af málsgögnum verður heldur ekki ráðið að kærandi hafi óskað sérstaklega eftir slíkum upplýsingum frá kærða. Líkt og áður greinir verður hins vegar á grundvelli málsgagna að telja að umsamið hafi verið á milli aðila að greiðslur til lögmannsstofu kærða vegna veittrar lögmannsþjónustu myndu einskorðast við það sem fengist greitt úr réttaraðstoðartryggingu kæranda hjá C, þannig að til frekari gjaldtöku gagnvart kæranda kæmi ekki. Á grundvelli þeirra samningsskilmála mátti kæranda vera ljóst hvert heildarendurgjald lögmannsstofu kærða gæti hæst orðið. Þá var með nægjanlegum hætti að mati nefndarinnar gerð grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin yrði reiknuð í þeim almennu skilmálum sem kærandi staðfesti með undirritun sinni þann 9. desember 2020.

Fyrir liggur að hinn umþrætti reikningur í máli þessu var grundvallaður á færslum í tímaskýrslu kærða og tímagjaldi sem rúmaðist innan gjaldskrár lögmannsstofu hans. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið reifuð verður í samræmi við kröfugerð og málatilbúnað aðila að taka til sérstakrar skoðunar það endurgjald sem reikningurinn tók til og leggja mat á hvort það hafi verið hæfilegt að teknu tilliti til umfangs hagsmunagæslunnar, verkþátta vegna hennar og þeirra samningsbundnu heimilda sem giltu í réttarsambandi aðila.

Að áliti nefndarinnar verður annars vegar hvað þetta efni varðar að líta til þess að við upphaf réttarsambands aðila innti kærandi af hendi greiðslu til lögmannsstofu kærða að fjárhæð 50.000 krónur. Í fyrirliggjandi skipunarbréfi var þeirri fjárhæð lýst sem „umsýslugjaldi“ sem greiða skyldi við upphaf máls í „umsýslu- og gagnaöflunargjald“. Hvorki var í skipunarbréfinu né hinum almennu skilmálum að finna nánari afmörkun á því hvað fælist í umsýslugjaldinu eða til hvaða verkþátta það tæki.  Í þeim upplýsingum sem birtar voru á vefsíðu lögmannsstofu kærða var hins vegar eftirfarandi tiltekið um þennan kostnaðarlið:

„Mikill fjöldi fólks er í þeirri stöðu að eiga að líkindum rétt á endurgreiðslu. Því miður getum við ekki tekið að okkur að aðstoða allan þann fjölda í óvissu um hvernig málið mun enda eftir áfrýjun og án þess að þiggja þóknun af nokkru tagi um árs eða margra ára skeið. Við verðum því að fara fram á að þú greiðir kr. 50.000 fyrir gagnaöflun hjá D og tryggingafélögum, yfirferð og mat á máli þínu.“

Að mati nefndarinnar er rétt að líta til fyrrgreindra upplýsinga sem kærði og lögmannsstofa  hans veittu til skýringar og fyllingar þeim samningsskilmálum sem kærandi staðfesti þann 9. desember 2020. Með hliðsjón af því verði að telja að í umsýslugjaldi því sem hér um ræðir hafi falist almenn umsýslustörf í tengslum við hagsmunagæsluna sem og nauðsynleg gagnaöflun vegna hennar hjá D annars vegar og tryggingafélögum hins vegar. Þá hafi jafnframt falist í gjaldinu greiðsla fyrir yfirferð og mat kærða á máli kæranda að fengnum nauðsynlegum gögnum frá viðkomandi aðilum.

Hvorki er gerð grein fyrir tilgreindu umsýslugjaldi, sem ágreiningslaust er að kærandi greiddi til lögmannsstofu kærða við upphaf réttarsambands aðila, í hinum umþrætta reikningi frá 31. júlí 2021 né þeirri tímaskýrslu sem reikningurinn var grundvallaður á. Að mati nefndarinnar verður þó ráðið af fyrirliggjandi tímaskýrslu kærða í málinu að endurgjald samkvæmt hinum umþrætta reikningi var að nokkru grundvallað á verkþáttum sem tóku til almennrar umsýslu í hagsmunagæslunni, gagnaöflunar sem og yfirferðar og mats á máli kæranda þegar nauðsynleg gögn höfðu borist. Eins og atvikum er háttað verður að áliti nefndarinnar að telja að kærandi hafi með réttu mátt ætla, á grundvelli þeirra heimilda sem giltu í réttarsambandinu sem og þeirra upplýsinga sem kærði veitti fyrir stofnun þess, að hið greidda umsýslugjald tæki til viðkomandi kostnaðarliða, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi færslur í tímakýrslu kærða:

            Dagsetning     Tímafjöldi      Skýring

            08/12/2020      0.5 klst.           „Samskipti við umbjóðanda

            09/12/2020      0.25 klst.         „Samskipti v. umbjóðanda

09/12/2020      0.5 klst.           „Skipunarbréf yfirfarið með umbjóðanda – gengið frá

 skipunarbréfi

14/12/2020      0.5 klst.           „Umboð afritað úr skipunarbréfi og vistað. Mappa

stofnuð. Skjöl vistuð og málaskrá uppfærð.

15/12/2020      0.75 klst.         „Innanhússfundur. Mat á fordæmi

héraðsdóms og hvernig það á við um önnur mál. Fundur 2 klst. * 3 lögmenn. Alls 6 klst. Hlutdeild máls 6/10.

16/12/2020      1.5 klst.           „Samskipti við D. Gengið frá bréfi með áskilnaði

 um bótarétt og kröfu um gögn. Bréf prentað, skannað og

 sent sjóðnum. Símtal við lögmann D.“

16/12/2020      1.25 klst.         „Erindi til tryggingafélags með beiðni um afstöðu til

bótaréttar úr réttaraðstoðartryggingu útbúið, prentað,

 undirritað, skannað og sent.

21/12/2020      0.25 klst.         „Samskipti v. D

21/12/2020      2.25 klst.         „Gögn móttekin frá D. Skuldabréf yfirfarið m.t.t.

                                               fordæmis héraðsdóms. Gögn vistuð, prentuð út og

                                               gengið frá. Höfuðstóll og vaxtadagsetningar skráðar og

                                               metið hvort fyrningar eða tómlætishætta sé fyrir hendi.

22/12/2020      0.25 klst.         „Málaskrá uppfærð

08/01/2021      0.25 klst.         „Málaskrá uppfærð

29/01/2021      0.25 klst.         „Málaskrá uppfærð

18/03/2021      0.75 klst.         „Málaskrá uppfærð. Ný málaskrá stefndra mála útbúin.

 Samskipti v. umbjóðanda.“

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að mati nefndarinnar að fullnægjandi skýringar hafi komið fram af hálfu kærða vegna fyrrgreindra 9.25 klst. sem færðar voru í tímaskýrslu hans á tilgreindu tímabili, þ.e. að teknu tilliti til þess umsýslugjalds sem kærandi innti af hendi til lögmannsstofu kærða við upphaf lögskipta aðila.

Hins vegar er þess að gæta, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að til réttarsambands aðila var stofnað í kjölfar dóms héraðsdóms x. desember 20xx í máli nr. x-xxx/20xx þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að krefja lánþega D um greiðslu uppgreiðslugjalds við uppgreiðslu lána. Liggur einnig fyrir að kærði annaðist hagsmunagæslu í þágu stefnanda í því máli sem og að leyfi var veitt til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Svo sem einnig er rakið í málsatvikalýsingu að framan höfðaði kærði mál fyrir hönd kæranda gegn D með birtingu stefnu sem þingfest var í Héraðsdómi þann x. mars 20xx. Hefur kærði lýst því fyrir nefndinni að þrátt fyrir að fordæmisgefandi mál  hafi þá verið rekið fyrir Hæstarétti, sbr. fyrrgreind áfrýjun héraðsdómsmálsins nr. x-xxxx/20xx, hafi verið talið nauðsynlegt að höfða málið til þess að rjúfa fyrningu vegna krafna kæranda á hendur sjóðnum. Í fyrirliggjandi tímaskýrslu er gerð grein fyrir vinnu kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans í tengslum við þá málshöfðun, sbr. meðal annars eftirfarandi færslur:

Dagsetning     Tímafjöldi      Skýring

            03/03/2021      50 mín             „Innanhússfundur. farið yfir aðrar

málsástæður en þær sem héraðsdómur byggði á. Afstaða tekin til ógildingarreglna og hvort byggt sé á þeim. Fundur 2.5 klst * 3 lögmenn. Alls 7,5 klst. Hlutdeild máls 7,5/10.

            10/03/2021      8.75 klst.         „Sniðmát stefnu útbúið fyrir mismunandi tilvik,

 mismunandi fjölda stefnenda, og mismunandi gjalddaga og fjölda vaxtadaga. Sniðmát uppfært miðað við forsendur héraðsdóma. Löggjafarsaga yfirfarin og lögskýringargögn könnuð m.t.t. megin málsástæðu. Fræðileg rýni. Sniðmát yfirfarið og hreinritað. Alls tímafjöldi við að útbúa sniðmát stefnu: 175 klst. Hlutdeild máls = 175/20.

12/03/2021      1.75 klst.         „Unnið í stefnu.

13/03/2021      1.5 klst.           „Unnið í stefnu. Farið yfir gjalddaga, mögulegar

 skuldskeytingar og veðandlag.“

15/03/2021      2.75 klst.         „Stefna hreinrituð. Skjalaskrá útbúin. Skjöl fjölfölduð og

 þingmerkt. Gögn skönnuð inn og skjölun.

16/03/2021      1.5 klst.           „Fundur með ríkislögmanni. Gögn afhent og

 birtingarvottorð undirritað

Fyrrgreind stefna ber með sér að vera vel unnin og að kærði hafi sinnt störfum í tengslum við hana í samræmi við góða lögmannshætti. Á hinn bóginn er til þess að líta að kærði mun á sama tíma hafa farið með og stefnt vegna að minnsta kosti 20 samkynja mála sem öll áttu það sameiginlegt að tilgangur málshöfðunar var að rjúfa fyrningu vegna undirliggjandi krafna á meðan beðið væri dóms Hæstaréttar í málinu nr. x/20xx. Reyndist dómur Hæstaréttar frá x. maí 20xx í því máli einnig fordæmisgefandi vegna málareksturs kæranda enda var mál hans fellt niður í héraðsdómi að gengnum dómi Hæstaréttar.

Að mati nefndarinnar verður einnig ekki fram hjá því litið að í þeim upplýsingum sem birtar voru á vefsíðu lögmannsstofu kærða fyrir stofnun réttarsambands aðila var því lýst að lögmenn stofunnar hefðu einbeitt sér „að þessum málum um langt skeið“ og væru því „reiðubúin til aðstoðar.“ Með hliðsjón af undanfarandi málarekstri og hinum veittu upplýsingum að þessu leyti mátti kærandi því með réttu ætla að kærði byggi yfir verulegri sérþekkingu vegna þess máls sem til hans var leitað með. Verður hvað það varðar jafnframt að líta til þess tímagjalds sem kærði áskildi sér vegna þjónustu í þágu kæranda, að fjárhæð 32.500 krónur auk virðisaukaskatts, en á grundvelli þess mátti kærandi með réttu ætla að sérþekking kærða á viðfangsefninu væri slík að þörf á tímafrekri greiningu á löggjafarsögu, lögskýringargögnum og fræðilegu rýni yrði takmarkaðri en ella kynni að vera.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat nefndarinnar að tímafjöldi í vinnuskýrslu kærða frá 10. mars 2021, þar sem gerð var grein fyrir 175 klukkustunda vinnu kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans við gerð sniðmáts stefnu og henni skipt niður á 20 mál, hafi verið verulega úr hófi og í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Að teknu tilliti til málsgagna og fyrrgreindra atvika telur nefndin að hæfilegur fjöldi vinnustunda við gerð stefnusniðmáts og verkefna því tengdu hafi verið 40 klukkustundir. Á grundvelli fjölda samkynja mála sé því hæfilegt að miða við að hluti kæranda vegna þeirrar vinnu séu 2 klst. í stað þeirra 8.75 klst. sem tilteknar eru í hinni umþrættu vinnuskýrslu. Að öðru leyti telur nefndin að tímafjöldi að baki vinnu við stefnugerð og málshöfðun í þágu kæranda hafi ekki verið umfram það sem vænta hafi mátt miðað við þá vinnu sem innt var af hendi og fyrrgreindar færslur í tímaskýrslu á tímabilinu 3. – 16. mars 2021 taka til.

Hvað aðra verkþætti í vinnuskýrslu kærða varðar verður ekki séð að mati nefndarinnar að tímafjöldi sem þar greinir hafi verið umfram það sem vænta hafi mátt miðað við þá vinnu sem innt var af hendi. Þá verður ekki talið að áskilið tímagjald kærða hafi verið úr hófi, en það rúmaðist innan gjaldskrár lögmannsstofu hans sem vísað var til í hinum almennu viðskiptaskilmálum sem kærandi staðfesti.

Í samræmi við allt framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að við mat á hæfilegu endurgjaldi kærða og lögmannsstofu hans, í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, vegna starfa í þágu kæranda sé rétt að leggja til grundvallar að hæfilegur fjöldi vinnstunda hafi verið 21 klukkustund. Samkvæmt því og að teknu tilliti til fyrrgreinds tímagjalds að fjárhæð 32.500 krónur auk virðisaukaskatts sé hæfilegt endurgjald vegna starfa kærða í þágu kæranda að fjárhæð 682.500 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. 846.300 krónur með virðisaukaskatti. Felst í þeirri niðurstöðu að áskilið endurgjald vegna lögfræðiþjónustu samkvæmt reikningi lögmannsstofu kærða nr. 7728 frá 31. júlí 2021 sætir lækkun úr 1.514.608 krónum með virðisaukaskatti í 846.300 krónur með virðisaukaskatti.

V.

Svo sem fyrr greinir hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að kærði hafi veitt kæranda rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í skilningi 2. mgr. 42. gr. siðareglna lögmanna við upphaf lögskipta aðila þannig að í bága hafi farið við góða lögmannshætti. Varðandi kröfu kæranda um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum vegna ætlaðra brota á siðareglum lögmanna og góðum lögmannsháttum hefur aðilinn einnig á því byggt að gjaldskrá kærða hafi verið mismunandi eftir því hvort viðskiptamenn hans voru með tryggingu eða ekki en í því hafi falist mismunun. Jafnframt sýni hinn umþrætti reikningur kærða mögulega annan og meiri kostnað en hann hafi í hyggju að innheimta. Þá hafi hagsmunir kæranda ekki verið hafðir nægjanlega að leiðarljósi við val á því hvaða samkynja málum kærði kaus að stefna.

Líkt og fyrr er rakið verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærandi hafi verið nægjanlega upplýstur um það hvernig gjaldtöku vegna lögmannsstarfa kærða yrði háttað á grundvelli þeirra umboða og almennu viðskiptaskilmála sem hann staðfesti með undirritun sinni. Á grundvelli málsgagna verður einnig ráðið að kærandi hafi verið upplýstur um þá málshöfðun sem kærði annaðist hagsmunagæslu í fyrir hans hönd enda upplýst að kærandi innti af hendi greiðslu þingfestingargjalds vegna málsins fyrir höfðun þess. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hafi búið að baki þeirri málshöfðun. Samkvæmt því verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærða, B lögmanns, vegna starfa í þágu kæranda, A, samkvæmt reikningi E ehf. nr. 7728 frá 31. júlí 2021 sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 846.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

__________________________________

Valborg Þ. Snævarr, formaður

 

 

__________________________________

Einar Gautur Steingrímsson

 

 

_____________________________

Kristinn Bjarnason