Mál 4 2021

Mál 4/2021

Ár 2021, miðvikudaginn 8. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. mars 2021 erindi kæranda, Benedikts A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærða, B, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærða í störfum gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.  

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 18. mars 2021 og barst hún þann 21. apríl sama ár. Kæranda var send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 26. apríl 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar dagana 26. maí og 23. ágúst 2021 en viðbótarathugasemdir kærða þann 25. hinn síðargreinda mánuð. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi leitað til kærða í októbermánuði 2020 með beiðni um lögmannsaðstoð. Liggur fyrir í málinu samningur um lögmannsþjónustu, dags. 23. október 2020, sem gerður var á milli kæranda og lögmannsstofu kærða. Var þar meðal annars tiltekið að í lögmannsþjónustunni fælist að lögmannsstofan skyldi vinna í nánar tilgreindum ágreiningsmálum með hagsmuni kæranda að leiðarljósi. Fæli vinnan í sér fundarhöld, yfirlestur gagna, gagnaöflun, bein samskipti við aðila máls auk skjalagerðar, bréfaskrif og eftir atvikum skipulagningu sáttafunda.

Um þóknun var í fyrrgreindum samningi vísað til þess að hún byggði á tímagjaldi sem væri 23.900 krónur auk virðisaukaskatts á klukkustund. Var jafnframt tiltekið að fyrsta greiðsla til lögmannsstofu kærða skyldi fara fram eigi síðar en þann 28. október 2020 og að fjárhæð hennar ætti að samsvara 10 klukkustunda vinnu. Kæmi sú greiðsla til frádráttar á fyrsta reikningi vegna málsins en að greiðsla hans væri forsenda þess að lögmannsstofan héldi áfram vinnu vegna málsins. Þá var tiltekið að samningurinn væri uppsegjanlegur af beggja hálfu með sannanlegri tilkynningu þar um og að slík tilkynning hefði engin áhrif á þær skuldbindingar sem fallið hefðu til fyrir uppsögnina.

Í samræmi við samning aðila gerði lögmannsstofa kærða reikning á kæranda þann 27. október 2020 að fjárhæð 296.360 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ágreiningslaust er að sá reikningur var ekki greiddur af hálfu kæranda.

Á meðal málsgagna er að finna tímaskýrslu vegna vinnu kærða í þágu kæranda á tímabilinu frá 15. – 30. október 2020. Tímaskýrslan tók til alls 12.50 klukkustunda vinnu af hálfu kærða í þágu kæranda á tilgreindu tímabili.

Í tímaskýrslunni greinir meðal annars frá fundi sem kærði átti með lögmanni gagnaðila kæranda þann 26. október 2020. Á þeim fundi mun kærði hafa áttað sig á vinatengslum við einn af gagnaðilum kæranda, en gögn málsins bera með sér að kærandi hafi áður lagt fram kæru hjá lögreglu gagnvart viðkomandi gagnaðila vegna ætlaðs skjalafals. Af málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni verður ráðið að kærði hafi upplýst kæranda um þau tengsl beint í kjölfar fundar og að honum yrði erfitt um vik að annast hagsmunagæsluna áfram í þágu kæranda af þeim sökum. Leiddu þau atvik til þess að kærði sagði sig frá málinu og þar með hagsmunagæslu í þágu kæranda.

Í kjölfar þess áttu aðilar í ítrekuðum tölvubréfasamskiptum varðandi uppgjör og aðra þætti málsins, án þess að samkomulag næðist. Fór svo að lögmannsstofa kærða höfðaði mál á hendur kæranda til innheimtu á hinum útgefna reikningi frá 27. október 2020. Var málið þingfest í héraðsdómi þann x. febrúar 20xx, sbr. málið nr. E-xxx/20xx. Hélt kærandi uppi vörnum í málinu og reisti málatilbúnað sinn þar í öllum grundvallaratriðum á sömu málsástæðum og kvörtun í máli þessu tekur til. Dómur í málinu var uppkveðinn þann x. júlí 202x og var þar fallist á allar kröfur lögmannsstofu kærða og kæranda gert að greiða henni 296.360 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnað að fjárhæð 375.000 krónur.

Líkt og áður greinir var kvörtun í máli þessu móttekin þann 12. mars 2021.

II.

Í kvörtun er þess annars vegar krafist af hálfu kæranda að hann þurfi ekki að greiða fyrir lögmannsþjónustu kærða vegna forsendubrests en til vara er þess krafist að áskilin þóknun kærða verði lækkuð.  Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í kvörtun kæranda að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er vísað til þess að henni sé beint að hagsmunatengslum kærða við gagnaðila kæranda sem og óhóflegu endurgjaldi kærða gagnvart kæranda.

Í rökstuðningi í kvörtun vísar kærandi annars vegar til þess að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þess tíma- og fjárrasks sem skapast hafi vegna hagsmunatengsla kærða við gagnaðila kæranda. Hafi kærði gengist við þeim hagsmunatengslum. Byggir kærandi á að kærði hafi gengið meir erinda gagnaðilans en kæranda og að framkoma kærða hafi litast meir af vináttu hans við helsta gagnaðila kæranda í málinu. Til að mynda hafi kærði tiltekið að hann hefði aldrei kynnst eins heiðarlegum manni á ævi sinni og viðkomandi gagnaðila kæranda og það jafnvel þótt kærða hefði verið kunnugt um að kærandi hefði kært viðkomandi aðila til lögreglu fyrir skjalafals.

Hins vegar byggir kærandi á að kærði hafi farið langt út fyrir þann tímaramma sem kærandi hafi sett og gengið þvert gegn vilja kæranda við skipulagningu fundarplana og fleiri verkþátta. Telur kærandi að kærði hafi smurt viljandi á mun fleiri tíma í vinnu í þágu kæranda en tilefni hafi verið til og lagt hafi verið upp með í upphafi.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að það sé rétt hjá kærða að undirritaður hafi verið samningur á milli aðila í októbermánuði 20xx. Kærandi kveðst hins vegar ekki hafa lesið vel textann fyrir undirritun og ekki gert sér grein fyrir fjárhæð fyrirframgreiðslu inn á þóknun.

Kærandi ítrekar að eftir því sem liðið hafi á málið hafi kærði byrjað að taka æ meiri taum af hagsmunum og skoðunum gagnaðilans. Hafi kærandi orðið sérstaklega meðvitaður um þetta í kjölfar mjög langs fundar kærða með lögmanni gagnaðilans. Ekki aðeins hafi kærði gengið vísvitandi gegn ósk kæranda um að hitta helst ekki lögmanninn ellegar mjög stutt og þá aðeins í þeim tilgangi að útvega frumrit af meintri afturköllun umboðs. Þá hafi kærði gleymt því erindi og þurft að leita til viðkomandi lögmanns á nýjan leik með tilheyrandi kostnaði fyrir kæranda.

Kærandi bendir á að eftir fund lögmannanna hafi kærði áttað sig á öðrum mistökum, þ.e. að kærði hefði sérstök hagsmuna/vinatengsl við einn úr liði „gagnaðilahópsins“. Vísar kærandi til þess að kærði hafi hringt til sín í kjölfarið og sagst þurfa að segja sig frá málinu vegna tengsla við einn af gagnaðilum kæranda. Kærði hafi hins vegar tiltekið að hann gæti hugsað sér að halda áfram með málið ef kærandi afturkallaði kæru á hendur hinum sama aðila sem lögð hafi verið fram hjá lögreglu vegna skjalafals. Af því hafi ekki orðið. Telur kærandi að með þessari háttsemi hafi kærði brotið gegn 8. og 9. gr. siðareglna lögmanna.

Vísar kærandi til þess að í kjölfar þessa hafi réttarsambandi aðila verið slitið og ágreiningur orðið um áskilda þóknun kærða vegna starfa í þágu kæranda.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að hann muni ekki hafa mörg orð um fádæmalausa kvörtun kæranda enda sé hún í heild sinni vart svara verð. Veki það sérstaka athygli að kærandi kjósi vandlega að láta ekki fylgja með það grundvallar skjal sem vinna kærða hafi byggt á. Sé þar um að ræða sérstakan samning sem lögmannsstofa kærða hafi gert við kæranda áður en vinna hófst.

Kærði vísar til þess að á fundi hans með kæranda í októbermánuði 20xx hafi verið farið yfir málið, rætt um fyrirframgreiðslu svo hægt væri að ráðast í vinnuna strax og að svo yrði séð til með greiðsludreifingu á öðrum greiðslum vegna starfa lögmannsstofnunar. Í kjölfarið hafi fyrrgreindur samningur verið undirritaður en aldrei hafi borist greiðsla á grundvelli hans frá kæranda.

Kærði byggir á að sú vinna sem unnin hafi verið í þágu kæranda hafi verið hófleg og á sanngjörnu verði. Kærandi hafi ekki verið krafinn um frekari greiðslu en sem nemi fjárhæð umrædds samnings, þ.e. vinnu sem numið hafi 10 klukustundum, jafnvel þótt meiri vinna hafi þá þegar verið unnin. Kæranda hafi auk þess verið boðinn ríflegur afsláttur af greiðslunni gegn því að hún yrði gerð upp á tilteknum tíma. Því boði hafi kærandi tekið og viðurkennt greiðsluskylduna. Hins vegar hafi engar greiðslur borist frá kæranda.

Kærði vísar til þess að innheimtumál hafi verið rekið um kröfu lögmannsstofu hans á hendur kæranda. Hafi það verið þingfest í héraðsdómi þann x. febrúar 20xx og því nokkru áður en kvörtun kæranda í máli þessu var lögð fram. Undir rekstri málsins hafi kærandi hafnað sáttaboðum kærða. Þá hafi málinu lokið með dómi uppkveðnum x. júlí 20xx þar sem fallist hafi verið á kröfu lögmannsstofunnar gegn kæranda.

Kærði kveðst hafna alfarið öllum kröfum og sjónarmiðum kæranda. Bendir kærði á að mál þetta lúti í öllum atriðum að sömu atvikum og fjallað hafi verið um í fyrrgreindu dómsmáli. Efast kærði um að nefndinni sé stætt á að fjalla um mál þegar svo ber undir og að því sé réttast að vísa málinu frá nefndinni.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að kærandi fari rangt með í máli þessu varðandi fjölmörg atriði. Sé þó óþarft að rekja þau öll enda snúist málið eingöngu um samning sem kærandi hafi undirritað og vanefnt. Um það hafi dómsmálið einnig snúist en niðurstaða þess sé endanleg. Kærði bendir þó á að það sé rangt að kærandi hafi undirritað samninginn í fljótfærni á skrifstofu kærða. Vísar kærði til málsgagna um það að kærandi hafi haft fimm daga til að lesa samninginn. Hafi samningurinn þannig fyrst verið sendur í tölvubréfi þann 21. október 2020 en kærandi sent undirritað eintak til baka þann 26. sama mánaðar.

Niðurstaða

                                                                          I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur annars vegar að því endurgjaldi sem kærði áskildi sér vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda samkvæmt reikningi að fjárhæð 296.360 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti sem útgefinn var þann 27. október 2020.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Í 2. mgr. 26. gr. laganna er tiltekið að hafi dómsmál ekki verið höfðað um slíkt ágreiningsefni áður en það er lagt fyrir nefndina verði það ekki borið undir dómstóla á meðan málið er þar rekið. Þá segir í 3. mgr. 26. gr. laganna að ef lagt er fyrir nefndina ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um geti hún að ósk annars eða beggja aðila látið í té álitsgerð til afnota þar. Hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefnið vísi nefndin því frá sér.

Kærandi lagði mál þetta fyrir nefndina með erindi sem móttekið var þann 12. mars 2021. Þá þegar hafði verið þingfest í héraðsdómi innheimtumál lögmannsstofu kærða á hendur kæranda vegna hins umþrætta reiknings frá 27. október 2020, sbr. málið nr. E-xxx/20xx sem þingfest var þann x. febrúar 20xx. Í erindi kæranda til nefndarinnar var hvorki vikið að tilgreindu dómsmáli né óskað eftir álitsgerð til afnota í því svo sem heimilt hefði verið eftir 1. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan var dómur kveðinn upp í málinu nr. E-xxx/20xx þann x. júlí 20xx. Var þar fallist á allar kröfur lögmannsstofu kærða, sem stefnanda, gagnvart kæranda, sem stefnda, og kæranda gert að greiða stefnufjárhæð málsins auk dráttarvaxta og málskostnað. Kærði hefur upplýst fyrir nefndinni að tilgreindur dómur sé endanlegur enda áfrýjunarfjárhæð hvorki náð né áfrýjunarleyfis leitað af hálfu kæranda.

Í samræmi við framangreint liggur fyrir endanlegur dómur vegna þess ágreiningsefnis sem kærandi hefur lagt fyrir nefndina á grundvelli 26. gr. laga nr. 77/1998. Er sá dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því og með vísan til skýlauss ákvæðis 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kröfum kæranda um niðurfellingu eða lækkun reiknings vegna lögmannsstarfa kærða vísað frá nefndinni.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Líkt og áður er rakið hefur kærandi byggt á því fyrir nefndinni að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 8. og/eða 9. gr. siðareglna lögmanna vegna hagsmunatengsla sem hann hafi haft við einn af gagnaðilum kæranda. Hafi kærði þannig gengið erinda viðkomandi gagnaðila fremur en erinda kæranda þrátt fyrir að kærði hafi farið með hagsmunagæslu í þágu kæranda í viðkomandi máli. Kærði hefur á hinn bóginn hafnað þessum málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Í 9. gr. siðareglna lögmanna er tiltekið að lögmanni sé skylt að gera skjólstæðingi sínum kunnugt hvaðeina, er kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan annaðist kærði hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna viðkomandi máls um stutt skeið, eða í um 15 daga á tímabilinu frá 15.- 30. október 2020. Ágreiningslaust er að kærði átt fund með lögmanni gagnaðila kæranda vegna málsins þann 26. október 2020. Á þeim fundi mun kærði hafa áttað sig á vinatengslum við einn af gagnaðilum kæranda sem kærandi hafði áður kært til lögreglu fyrir ætlað skjalafals. Jafnframt er ágreiningslaust að kærði upplýsti kæranda um þau tengsl beint í kjölfar fundar sem og um það efni að honum yrði erfitt um vik að annast hagsmunagæsluna áfram í þágu kæranda af þeim sökum. Var það efni jafnframt ítrekað í tölvubréfi kærða til kæranda, dags. 4. nóvember 2020.

Ekkert í málsgögnum bendir til þess að kærða hafi verið kunnugt um tilgreind tengsl við viðkomandi gagnaðila kæranda fyrr en á fyrrgreindum fundi þann 26. október 2020. Í samræmi við áskilnað 9. gr. siðareglna lögmanna gerði kærði kæranda grein fyrir þeim tengslum strax í kjölfar þeirrar vitneskju og sagði sig í framhaldinu frá málinu. Samræmdist sú háttsemi kærða góðum lögmannsháttum.

Að mati nefndarinnar verður á engan hátt leitt af málsgögnum að kærði hafi ekki lagt sig fram um að gæta hagsmuna kæranda í skilningi 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, svo sem kærandi byggir á fyrir nefndinni. Jafnframt er til þess að líta að kærandi tefldi fram þessum sömu málsástæðum fyrir héraðsdómi í málinu nr. E-xxx/20xx en í forsendum dómsins var talið að kærandi hefði hvorki lagt fram gögn né stutt fullyrðingar sínar um að kærði hefði ekki unnið í þágu kæranda á meðan hagsmunagæslunni stóð. Er því sama fyrir að fara í máli þessu fyrir nefndinni.

Samkvæmt því verður ekki talið að kærandi hafi leitt í ljós í málinu að kærði hafi í lögmannsstörfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi verið andstæð lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Verður því að hafna kröfu kæranda um það efni í málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, A, um að hann þurfi ekki að greiða fyrir lögmannsþjónustu kærða, B lögmanns, eða að áskilin þóknun sæti lækkun, er vísað frá nefndinni.

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson