Siðareglur lögmanna

Codex Ethicus

1. gr. Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti.

 Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

2. gr. Lögmaður skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

3. gr. Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar.

 Lögmaður skal ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns.

Lögmaður ræður því sjálfur, hvort hann tekur að sér verk eða ekki, nema lög bjóði annað.

4. gr. Lögmaður má ekki ljá þeim nafn sitt eða lögmannsaðstoð, er stunda vilja lögmannsstörf, en hafa ekki til þess rétt að lögum.

Lögmaður má á engan hátt stuðla að því, að þeir er ekki hafa lögmannsréttindi, fái unnið verk, sem skulu lögum eða venju samkvæmt aðeins unnin af lögmanni.

5. gr. Í umræðu í fréttamiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi um mál, sem lögmaður hefur eða hefur haft til meðferðar, ber honum að virða óskir skjólstæðings síns um að ekki sé fjallað um málið af hans hálfu.

Lögmanni er jafnan rétt að koma á framfæri mótmælum og leiðréttingum við röngum og villandi fréttum af málum.

6. gr. Upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, skal haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu.

Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

7. gr. Lögmaður má ekki, án samþykkis hlutaðeigandi, hljóðrita eða taka upp í mynd, samskipti manna á milli svo sem samtöl, símtöl, fundi eða aðrar viðræður, hvort sem lögmaðurinn er sjálfur þátttakandi í þeim eða ekki. Upptökur sem aflað hefur verið í andstöðu við 1. málsl. þessarar málsgreinar má ekki nota sem sönnunargögn í dómsmálum.

Upp

II. Um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum

8. gr. Í samræmi við meginreglu 1. gr. skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð.. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Lögmaður skal ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans.

Lögmanni ber að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Lögmaður skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Lögmaður skal ekki taka að sér verkefni fyrir skjólstæðing, sem hann veit ekki hver er. Ber lögmanni í vafatilvikum að gera eðlilegar ráðstafanir til að afla vitneskju um skjólstæðing og að hann hafi heimild til að ráðstafa verkefninu. Þó er ávallt heimilt að taka að sér verk samkvæmt beiðni annars lögmanns eða opinberri skipan.

9. gr. Lögmanni er skylt að gera skjólstæðingi sínum kunnugt hvaðeina, er kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl.

10. gr. Lögmanni er rétt að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir.

Lögmanni er heimilt að áskilja sér þóknun í hlutfalli við fjárhagslegan ávinning af málarekstri.

Lögmaður skal upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Lögmaður skal leitast við að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir hver kostnaður af máli gæti orðið í heild sinni og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru.

Lögmanni er óheimilt að krefjast fyrirframgreiðslu úr hendi skjólstæðings síns umfram það sem ætla má að verði hæfileg þóknun vegna starfans.

Lögmanni ber að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Sama gildir ef leita þarf annarrar sérfræðiaðstoðar, svo sem mats- eða skoðunarmanna, ef verulegur kostnaður er því samfara.

Lögmanni ber að vekja athygli skjólstæðings á möguleika á gjafsóknarheimild eða annarri réttarstoð þar sem það á við.

11. gr. Lögmaður skal ekki aðstoða eða fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli ef hagsmunir þeirra rekast á, eða fara með hagsmuni skjólstæðings ef hagsmunir skjólstæðingsins rekast á við hagsmuni lögmannsins, nema ákvæði 5. mgr. eigi við. Hið sama gildir ef veruleg hætta er á hagsmunaárekstrum.

Lögmaður skal jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.

Lögmaður skal ekki fara með hagsmuni skjólstæðings þannig að fari í bága við trúnaðarskyldu hans gagnvart fyrrverandi skjólstæðingi.

Lögmanni er á hverjum tíma skylt að leggja mat á hættu á hagsmunaárekstrum.

Lögmanni er heimilt að aðstoða eða fara með hagsmuni skjólstæðinga þrátt fyrir hagsmunaárekstra eða mögulega hagsmunaárekstra í skilningi 1. mgr. ef:

     (a)       skjólstæðingarnir hafa gefið upplýst samþykki sitt; og

     (b)       gerðar eru tilhlýðilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að brotið sé gegn trúnaðarskyldu lögmannsins; og

     (c)       hagsmunaárekstrar eða mögulegir hagsmunaárekstrar komi ekki í veg fyrir að lögmaðurinn gæti hagsmuna skjólstæðinganna af einurð.

Ákvæði þessarar málsgreinar eiga ekki við um hagsmunagæslu í tengslum við rekstur ágreiningsmála fyrir dómstólum, gerðardómi, stjórnvöldum, úrskurðarnefnd lögmanna eða öðrum úrskurðaraðilum.

Komi upp hagsmunaárekstrar í störfum lögmanns eða skilyrði 5. mgr. eru ekki lengur fyrir hendi skal lögmaður án tafar gera ráðstafanir til úrbóta, eftir atvikum með því að láta af viðkomandi störfum fyrir þá skjólstæðinga sem í hlut eiga.

Ákvæðum þessarar greinar skal beitt um lögmenn sem reka lögmannstofu í félagi eða hafa með sér annars konar samstarf um rekstur lögmannsstofu.

12. gr. Lögmanni, sem tekur að sér verkefni, ber að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Lögmanni er heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

13. gr. Lögmaður skal halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé í samræmi við ákvæði  reglna um fjárvörslureikninga lögmanna.

Skal lögmaður ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum, er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn.

14. gr. Lögmanni ber án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns.

Ávallt er þó lögmanni rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála, sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði.

Uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð.

15. gr. Lögmanni ber að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

16. gr. Lögmanni er rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi.

Haldsréttur lögmanns skv. 1. mgr. gildir ekki, ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef umboð hans er afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.

Ef ágreiningur er um þá fjárhæð, sem lögmaður hefur sett upp, getur stjórn LMFÍ ákveðið, hvort hluti hennar skuli þegar greiddur og  trygging sett fyrir eftirstöðvunum, þar til ágreiningurinn hefur endanlega verið leiddur til lykta. Ber lögmanni þá að afhenda gögnin, enda hafi skjólstæðingur samþykkt og fullnægt skilmálum stjórnarinnar.

17. gr. Lögmaður er bundinn þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum vegna starfa sinna.

Þagnarskyldan gildir ótímabundið.

Allar upplýsingar um skjólstæðing eða málefni hans sem lögmaður tekur við eða verður áskynja í starfi eru háðar þagnarskyldu óháð því hvaðan upplýsingarnar eru komnar.

Öll skjöl og önnur gögn sem lögmaður útbýr eða afhendir skjólstæðingi sínum eru háð þagnarskyldu.

Þrátt fyrir þagnarskyldu er lögmanni heimilt að miðla upplýsingum sem ella væru háðar þagnarskyldu:

     (a)        á grundvelli skýlauss lagaboðs eða til að verða við endanlegri dómsúrlausn;

     (b)       í þágu skjólstæðings eða að hans ósk enda standi lög því ekki í vegi; eða

     (c)        í ágreiningsmálum milli lögmanns og skjólstæðings enda séu upplýsingarnar nauðsynlegar málarekstrinum. Með málarekstri er hér átt við ágreiningsmál sem rekin eru fyrir dómstólum, gerðardómi, stjórnvöldum, úrskurðarnefnd lögmanna eða öðrum úrskurðaraðilum.

Lögmaður skal gera tilhlýðilegar ráðstafanir til að tryggja að löglærðir fulltrúar sem starfa í hans umboði, starfsfólk á lögmannsstofu hans eða aðrir sem hann leitar til eða á samstarf við í tengslum við lögmannsstörfin gæti þagnarskyldu með sama hætti.  

18. gr. Ekki má lögmaður ganga í ábyrgð fyrir skjólstæðing sinn.

Upp

  

III. Um samskipti lögmanna og dómstóla

19. gr. Lögmaður skal sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu.

Lögmaður skal eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra.

20. gr. Lögmaður má aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

21. gr. Lögmaður má ekki stuðla að því, að sönnunargögnum sé spillt eða leynt, en óskylt er honum og óheimilt, gegn banni skjólstæðings, að láta dómstólum í té gögn og upplýsingar, sem skjólstæðingi eru til sakfellis.

Lögmanni er óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Lögmanni er heimilt að hafa samband við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um atvik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitna­leiðslu. Sé um að ræða vitni, sem eru í sérstökum tengslum við gagnaðila, er lögmanninum skylt að tilkynna lögmanni gagnaðila áður en haft er samband ef þess er nokkur kostur en ella jafn skjótt og kostur er. Hafi lögmaður samband við vitni ber honum að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins.

22. gr. Lögmaður skal kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.

23. gr. Lögmanni, sem fer með mál fyrir dómstólum, ber að tilkynna viðkomandi dómstól um fyrirsjáanleg forföll sín og fjarvistir frá málflutningsstarfi.

Láti lögmaður af starfi í einstöku dómsmáli eða hætti með öllu málflutningsstarfi skal hann og tilkynna það viðkomandi dómstólum.

24. gr. Ákvæði kafla þessa gilda einnig, eftir því sem við á, um framkomu lögmanna og málflutningsstörf þeirra fyrir gerðardómi, kæru- og úrskurðarnefndum og öðrum stjórnvöldum.

Upp 

IV. Um samskipti lögmanna innbyrðis

25. gr. Lögmenn skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

26. gr. Lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

Ef aðili, sem falið hefur mál sitt lögmanni, snýr sér sjálfur til lögmanns gagnaðila um það mál, skal lögmaður gagnaðila vísa aðila frá sér, nema brýnar ástæður bjóði annað.  Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni um það tilkynnt.

27. gr. Lögmaður má einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

28. gr. Ef lögmanni er falið verkefni, sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skal hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar.

Þrátt fyrir framangreint ákvæði er lögmanni þó heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að firra aðila réttarspjöllum.

29. gr. Lögmaður sem leitar aðstoðar eða álits annars lögmanns um tiltekna þætti verkefnis er hann vinnur að, er persónulega ábyrgur fyrir greiðslu á útlögðum kostnaði og þóknun þess lögmanns, nema um annað sé beinlínis samið.

30. gr. Lögmaður má ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.

[gr. 31 og 32 felldar brott árið 2023]

33. gr. Lögmanni er óheimilt að áskilja sér úr hendi annars lögmanns eða annars aðila sérstaka þóknun fyrir að vísa skjólstæðingi til lögmannsins.

Lögmanni er óheimilt að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín.

Upp 

V. Um skyldur lögmanns við gagnaðila

34. gr. Lögmaður skal sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

35. gr. Lögmaður má ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt:

‑ að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings,

‑ að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum,

‑ að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku. 

36. gr. Lögmaður skal jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi.

Þetta gildir þó ekki, ef lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar.

37. gr. Lögmanni, sem kemur fram fyrir hönd skjólstæðings síns í máli við gagnaðila, sem gætir hagsmuna sinna sjálfur, er eftir atvikum rétt að benda gagnaðila á að leita sér lögmannsaðstoðar, ef gagnaðila er augljós þörf á því.

Upp 

VI. Um lögmannsskrifstofu, auglýsingar o. fl.

38. gr. Hafi lögmenn með sér félag um rekstur sinn er þeim skylt að hafa aðgengilegar upplýsingar um hverjir eru eigendur félagsins og bera ábyrgð á lögmannsstörfum sem unnin eru á þess vegum. Slíkar upplýsingar skulu liggja fyrir á starfsstöð eða birtar á heimasíðu félagsins.

Firmanafn lögmannsskrifstofu má ekki gefa í skyn að þar sé veitt nein önnur þjónusta en lögmannsþjónusta.

Lögmaður skal tilkynna LMFÍ hverjir séu eigendur félags um rekstur lögmannsstofu.

39. gr. Lögmanni er óheimilt að tilkynna til dómstóla eða auglýsa aðra fulltrúa en þá, sem eru starfandi á lögmannsskrifstofu hans.

Skylt er lögmanni að tilkynna fulltrúa sína til skrifstofu félagsins og gæta að öðru leyti skyldna samkvæmt 11. gr. laga um lögmenn.

40. gr. Lögmaður skal hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum.

Ber lögmanni að sjá til þess, að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum.

Lögmaður skal ekki láta óviðkomandi hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum skrifstofunnar, er varðað geta skjólstæðinga hans.

Reki lögmaður lögmannsstofu í húsnæði með öðrum starfsstéttum með annars konar trúnaðarskyldur skal lögmaður sérstaklega gæta þess, að upplýsingar, sem leynt eiga að fara vegna hagsmuna skjólstæðings, berist ekki til annarra starfsstétta, t.d. vegna notkunar tækjabúnaðar.

Sama regla gildir um starfslið lögmannsins.

40. gr. a. Lögmanni er skylt að viðhalda fræðilegri þekkingu og faglegri hæfni, eftir atvikum með því að sækja sér endurmenntun, sem nauðsynleg er til að rækja starfann.

Lögmanni er skylt að tryggja að löglærðir fulltrúar hans fái viðeigandi þjálfun og leiðsögn í starfi.

41. gr. Lögmaður skal án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

42. gr. Lögmaður má auglýsa og kynna þjónustu sína svo sem samrýmist lögum og góðum lögmannsháttum.

Óheimilt er lögmanni að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum, kynningarefni eða á annan hátt. Lögmanni er jafnframt óheimilt að afla sér viðskipta með öðrum aðferðum sem sama marki eru brenndar svo sem með því að gefa til kynna að hann búi yfir sérþekkingu á réttarsviðum þar sem sérþekkingu skortir.

42. gr. a. Lögmanni er óheimilt að nota sér viðkvæmar aðstæður einstaklings til að afla sér verkefna. Lögmanni er jafnframt óheimilt í sama tilgangi, beint eða fyrir milligöngu annars manns, að beita einstakling þrýstingi eða hótunum.

Upp 

VII. Um viðurlög o. fl.

43. gr. Stjórn félagsins hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefir um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til.

Stjórn LMFÍ skal leitast við að leysa úr deilum lögmanna innbyrðis.

Úrskurðarnefnd lögmanna sker úr ágreiningi um skilning á reglum þessum.

Lögmanni er skylt, að boði stjórnarinnar eða, eftir atvikum, úrskurðarnefndar lögmanna, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum stjórnarinnar eða úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarnefnd lögmanna getur fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns, veitt honum áminningu eða beitt strangari viðurlögum lögum samkvæmt.

Nú gerist lögmaður sekur um brot á góðum lögmannsháttum samkvæmt úrskurði eða álitsgerð úrskurðarnefndar lögmanna og er þá úrskurðarnefnd heimilt, að tilgreina nafn lögmannsins við birtingu úrskurðarins eða álitsgerðarinnar í eftirgreindum tilvikum:

- ef lögmaðurinn hefur ítrekað brotið starfsskyldur sínar,

- ef lögmaðurinn hefur gerst sekur um gróf brot á góðum lögmannsháttum

eða

- ef aðrir, veigamiklir hagsmunir almennings eða lögmannastéttarinnar réttlæta slíkt.

44. gr. Framanskráðar reglur má ekki skoða sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.

45. gr. Siðareglur þessar eru bindandi fyrir alla lögmenn.

Lögmaður sem veitir þjónustu yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins er bundinn af hátternisreglum CCBE (CCBE Code of Conduct).

Upp

_____________________________________________________________________

Codex Ethicus fyrir LMFÍ var upphaflega samþykktur 24. júní 1960, en breytt 11. apríl 1975, 1. apríl 1977, 24. október 1978, 29. mars 1985 og 15. mars 1991. Reglurnar sættu heildarendurskoðun og voru nýjar siðareglur samþykktar á aðalfundi 17. mars 2000. Breytingar voru gerðar á siðareglunum á aðalfundi 26. maí 2015 (3. mgr. bætt við 21. gr.) og á félagsfundi 26. janúar 2023 (1. og . mgr. 7. gr., 1. ml. 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr.,10. gr., 11. gr., 17. gr., 24. gr., 31. gr., 32. gr., 1. mgr. 38. gr., 5. mgr. 43. gr. auk þ‏ess sem bætt var við 40. gr. a., 42., gr. a. og 45. gr.).