Úrskurðarnefnd lögmanna

Úrskurðarnefnd lögmanna fjallar um

  • Ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.
  • Kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ

Erindi til nefndarinnar verður að berast innan árs eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísar nefndin erindinu frá. 

Við framlagningu erindis til nefndarinnar skal málshefjandi greiða málagjald, kr. 12.500 sem þarf að millifæra inn á reikning félagsins 0334-26-1207, kt. 450269-2209 og senda kvittun á netfangið urskurdarnefnd@lmfi.is. Sé grundvöllur fyrir erindinu staðreyndur með úrskurði nefndarinnar er málagjaldið endurgreitt til málshefjanda.

Senda inn kvörtun

Til þess að senda inn kvörtun þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og er því ekki nauðsynlegt að undirrita kæruna.

Smelltu hér til þess að senda kvörtun.

Einnig er hægt að senda kvörtun með tölvupósti á urskurdarnefnd@lmfi.is og þarf kvörtun þá að vera undirrituð eigin hendi. Ef fleiri en einn kvarta þurfa allir að skrifa undir kvörtunina nema sá sem skrifar undir hana leggi fram umboð um að hann hafi heimild til að undirrita kvörtunina fyrir hönd annarra. Sé kvörtun, greinargerð eða gögnum skilað á pappír skal slíkt einnig sent nefndinni á rafrænu formi á netfang hennar urskurdarnefnd@lmfi.is

Senda inn gögn vegna máls hjá úrskurðarnefnd

Notast skal við formið hér fyrir neðan til þess að senda inn greinargerðir, athugasemdir og önnur gögn til úrskurðarnefndar.

Senda inn gögn til úrskurðarnefndar lögmanna

Ferill máls hjá úrskurðarnefnd lögmanna

  • Kvörtun berst.
  • Þeim sem kvörtun beinist gegn (varnaraðila) er gefinn kostur á að skila greinargerð um efni kvörtunarinnar (algengur tími 1-2 mánuðir).
  • Þeim sem kvartaði (sóknaraðila) er gefinn kostur á að svara greinargerð varnaraðila (algengur tími 1-2 mánuðir).
  • Varnaraðila er gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svar sóknaraðila (algengur tími 1-2 mánuðir).
  • Mál tekið til úrskurðar (algengur tími 2-5 mánuðir).

Úrskurðarnefnd lögmanna heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði, að undanteknum júlí og ágúst. Algengur afgreiðslutími kvartana er 8-10 mánuðir.

Fyrri úrskurðir úrskurðarnefndar