Málsmeðferðarreglur

Reglur um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna

I. kafli   Almenn ákvæði

1. gr.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998 og leysir úr málum eftir ákvæðum þeirra laga.

Um skipan nefndarinnar fer eftir 3. mgr. 3. gr. lögmannalaga.

Nefndin hefur aðsetur hjá Lögmannafélagi Íslands, sem greiðir kostnað af störfum hennar og sér henni fyrir nauðsynlegri aðstöðu.

2. gr.

Um hæfi nefndarmanna til þátttöku í meðferð einstaks máls fer eftir reglum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

3. gr.

Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ.
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

4. gr.

Hafi ágreiningsefni samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga verið lagt fyrir dómstóla getur nefndin, að ósk annars eða beggja aðila, látið í té álitsgerð sem nota má í dómsmálinu.

Ef dómsmáli er lokið um ágreiningsefni, en það síðan borið undir nefndina, vísar hún málinu frá sér.

5. gr.

Aðila máls er heimilt að fela umboðsmanni sínum að gæta hagsmuna sinna fyrir nefndinni. Heimilt er að krefjast skriflegs umboðs til erindreksturs fyrir nefndinni.

II. kafli   Um málsmeðferð og úrskurði

6. gr.

Erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verður að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísar nefndin erindinu frá.

7. gr.

Erindi til nefndarinnar skal vera skriflegt og í því skal greint frá nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem sendir erindið. Einnig skal koma fram hvaða lögmaður á í hlut, málsatvik þau, sem eru tilefni erindisins og hvaða kröfur séu gerðar. Erindi skulu fylgja sönnunargögn þau, sem á er byggt.

Við framlagningu erindis til nefndarinnar skal málshefjandi greiða málagjald. Sé grundvöllur fyrir erindinu staðreyndur með úrskurði nefndarinnar skal endurgreiða málagjaldið til málshefjanda.

Í erindi til nefndarinnar skal upplýsa um bankareikning og kennitölu málshefjanda þannig að hægt verði að endurgreiða málagjald komi til þess, sbr. ákvæði 2. mgr.

Erindi ásamt fylgigögnum er hægt að koma á framfæri við úrskurðanefndina með rafrænum hætti í gegnum ‏þjónustugátt nefndarinnar. Notkun rafrænna skilríkja við innskráningu kvörtunar jafngildir undirritun hennar. Einnig er hægt að senda eða afhenda erindi ásamt viðeigandi gögnum á skrifstofu Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, 108 Reykjavík eða senda á netfangið urskurdarnefnd@lmfi.is. Kjósi málshefjandi að koma erindi á framfæri með öðrum hætti en í gegnum rafræna þjónustugátt úrskurðarnefndar skal erindið undirritað af málshefjanda eða umboðsmanni hans.

Nefndin lætur útbúa sérstakt eyðublað, sem nota má til að senda erindi til hennar.

Greinargerð og viðbótargreinargerðir aðila má senda nefndinni í þar til gerða gagnagátt á vefsíðu Lögmannafélagsins eða á netfangið urskurdarnefnd@lmfi.is.

8. gr.

Ef nefndarmenn eru einhuga um að ljúka beri máli þegar í upphafi, þar sem augljóst sé að vísa beri því frá eða að það sé augljóslega ekki á rökum reist, vísar hún máli frá. Tilkynna skal málsaðilum þegar um slíka niðurstöðu.

Að öðrum kosti skal leggja erindi fyrir hlutaðeigandi lögmann til skriflegrar umsagnar, enda liggi ekki þegar fyrir, í gögnum málsins, afstaða hans og rök fyrir henni.

9. gr.

Ef kæru er ekki vísað frá skv. 8. gr. ákveður nefndin hvort frekari gagna skuli aflað, eftir að umsögn lögmanns, sem erindið varðar, hefur borist eða svarfrestur líður án þess að lögmaður sendi umsögn. Gefa skal aðilum kost á að leggja fram viðbótargreinargerðir.

Nefndin getur krafið aðila um frekari gögn eða aflað þeirra. Nefndin getur kallað aðila fyrir sig til skýrslugjafar eða munnlegs málflutnings. Skýrslur aðila skal bóka í aðalatriðum.

Málsaðilum skulu að jafnaði kynnt gögn máls eftir því sem þau berast, nema slíkt sé bersýnilega óþarft eða réttmætar ástæður mæla gegn því að mati nefndarinnar, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Frestur til að skila skriflegum greinargerðum eða athugasemdum skal að jafnaði vera 15 dagar, en heimilt er nefndinni að framlengja slíkan frest, ef sérstaklega stendur á.

Sinni málsaðilar ekki tilmælum um skriflegar greinargerðir eða athugasemdir innan tilskilins frests skulu þau ítrekuð með nýjum fresti, sem skal að jafnaði ekki vera lengri en ein vika.

Sinni málshefjandi ekki tilmælum nefndarinnar um framlagningu gagna er henni heimilt að vísa máli frá. Ef lögmaður sinnir ekki tilmælum nefndarinnar um skriflega umsögn eða framlagningu annarra gagna getur nefndin byggt úrlausn máls á framlögðum gögnum og öðrum upplýsingum, sem hún sjálf aflar um málið.

Nefndinni er heimilt, hvenær sem er við meðferð máls, að leita sátta með aðilum.

Málflutningur fyrir nefndinni skal að jafnaði vera skriflegur.

10. gr.

Nefndin tekur afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls.

Ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, getur nefndin vísað máli frá.

Ef í máli er réttarágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísar hún málinu frá.

11. gr.

Úrskurðir nefndarinnar skulu kveðnir upp svo fljótt sem verða má eftir að gagnaöflun telst lokið. Úrskurðirnir skulu vera skriflegir og rökstuddir.

Þess skal getið hvort allir nefndarmenn eru sammála um niðurstöðu. Ef nefndin er ósammála um niðurstöðuna skal getið um það hvaða atriði nefndarmenn eru ósammála um og jafnframt skal þess getið hverjir nefndarmenn eru ósammála meirihlutanum.

12. gr.

Í úrskurði skal eftirfarandi koma fram:

  1. hverjir séu aðilar máls
  2. kröfugerð og málavaxtalýsing
  3. helstu málsástæður og röksemdir málsaðila
  4. rökstuðningur og niðurstaða nefndarinnar
  5. sératkvæði minnihluta, ef um slíkt er að ræða.

Erindum sem nefndinni berast skv. c-lið 3. gr. lýkur með áliti, án úrskurðarorðs.

13. gr.

Nefndin sendir málsaðilum staðfest endurrit álitsgerða og úrskurða jafnskjótt og þeir hafa verið kveðnir upp.

III. kafli   Réttaráhrif málsmeðferðar og úrskurða

14. gr.

Fyrningu kröfu er slitið þegar nefndinni hefur borist erindi um hana.

15. gr.

Komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að lögmaður hafi ekki hagað sér í samræmi við lög eða góða lögmannshætti getur hún fundið að vinnubrögðum hans eða háttsemi eða veitt honum áminningu.

Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin, í rökstuddu áliti, lagt til við sýslumann að réttindi lögmanns verði felld niður um stundarsakir eða ótímabundið.

Nefndinni er heimilt að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir henni. Nefndinni er heimilt, er sérstaklega stendur á, að ákveða að málsaðilar greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndarinnar við mál þeirra.

16. gr.

Úrskurði nefndarinnar eða sátt má fullnægja með aðför eins og dómsúrskurði eða dómsátt.

17. gr.

Ákvarðanir nefndarinnar sæta hvorki stjórnsýslukæru né málskoti innan Lögmannafélags Íslands.

Málsaðili getur fyrir dómi leitað ógildingar eða breytinga á úrskurði nefndarinnar eða sátt, sem gerð er fyrir henni.

IV. kafli   Ýmis ákvæði

18. gr.

Nefndin heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði, að undanteknum júlí og ágúst. Ef brýn nauðsyn krefur getur nefndin haldið fundi oftar til úrlausnar einstakra mála.

19. gr.

Í gerðarbók skal færa meginefni þess, sem fram kemur á fundum nefndarinnar. Endurrit úr fundargerðarbók má afhenda þeim, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta.

20. gr.

Fullskipuð nefnd kveður upp úrskurði eða gefur frá sér álitsgerðir. Skulu úrskurðir og álitsgerðir undirritaðar af þeim, sem þátt tóku í afgreiðslu viðkomandi máls.

Afl atkvæða ræður úrslitum.

21. gr.

Nefndin lætur birta úrskurði og álitsgerðir sínar á prenti eða með öðrum hætti. Nafnleyndar skal að jafnaði gætt. Þó er heimilt að birta í úrskurði eða álitsgerð nafn viðkomandi lögmanns samkvæmt ákvæðum siðareglna LMFÍ.

22. gr.

Að öðru leyti en að framan greinir gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um erindrekstur fyrir nefndinni.

23. gr.

Reglur þessar eru settar með heimild í 1. mgr. 4. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998 og taka þegar gildi.

---------------------

Málsmeðferðarreglur þessar voru upphaflega samþykktar á fundi úrskurðarnefndar lögmanna 15. febrúar 1999, en breytt 4. nóvember 2002, 22. desember 2004 og 13. desember 2024.

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.