Reglur um félagsdeild

Í tengslum við Lögmannafélag Íslands er starfrækt sérstök félagsdeild. Um skipulag hennar og starfsemi fer samkvæmt neðanskráðum reglum.

  

HEITI

1. gr. Heiti deildarinnar er Lögmannafélag Íslands - félagsdeild. 

TILGANGUR - VERKEFNI

2. gr. Tilgangur félagsdeildar LMFÍ er að sinna ýmsum þjónustuverkefnum fyrir þá, sem aðild eiga að henni. Deildinni er m.a. ætlað að sinna eftirgreindum verkefnum:

  • a) Útgáfustarfsemi ýmis konar, sem félagsmenn njóta með aðild sinni eða með áskrift.
  • b) Fræðslustarfsemi ýmis konar, svo sem námskeið, ráðstefnur, málþing o.fl.
  • c) Orlofsmál félagsmanna.
  • d) Þjónusta við félagsmenn af bókasafni LMFÍ og við leit í gagnabönkum.
  • e) Aðstoð við innkaup á rekstrarvörum, sameiginleg kaup á tryggingum og annarri þjónustu.
  • f) Verkefni, sem aðalfundur eða stjórn deildarinnar ákveða hverju sinni.

AÐILD

3. gr. Allir lögmenn geta átt aðild að félagsdeildinni. Aðild að félagsdeildinni geta einnig átt sérgreinafélög og hagsmunafélög, enda séu félagsmenn slíkra félaga jafnframt aðilar að félagsdeild. Sérgreinafélög fjalla um málefni hinna ýmsu sérgreina lög­fræðnnar en hagsmunafélög gæta hagsmuna félagsmanna sinna og geta í því skyni, að fengnu samþykki stjórnar félagsdeildarinnar, átt aðild að öðrum samtökum. Sér­reina- og hagsmunafélög sem æskja aðildar að félagsdeildinni skulu senda um það umsókn til stjórnar svo tímanlega að hennar sé hægt að geta í fundarboði aðalfundar. Með umsókninni skal fylga staðfesting þess efnis að allir félagsmenn sérgreina- eða hagsmunafélagsins, séu aðilar að félagsdeild. Stjórninni er skylt að leggja slíka umókn fyrir aðalfund og geta hennar í fundarboði. Til samþykktar á slíkri aðild þarf einfaldan meirihluta atkvæða á aðalfundi.

FÉLAGSFUNDIR

4. gr. Félagsfundir hafa æðsta vald í málefnum félagsdeildarinnar. Félagsfundi, aðra en aðalfundi, skal halda, þegar stjórn deildarinnar þykir við þurfa, samkvæmt fundarályktun, eða þegar minnst 50 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda segi þeir til um, hvers vegna þeir æskja fundar. Þá er lögmæt krafa um fundarhald er fram komin, skal fund halda eigi síðar en á mánaðar fresti. Til félagsfunda skal stjórnin boða með hæfilegum fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála, er fyrir eiga að koma á fundinum. Hverjum félagsfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Atkvæðagreiðsla um málefni á félagsfundi fer eftir því sem fundarstjóri kveður nákvæmar á um. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal fara fram ef einhver fundarmanna krefst þess.

5. gr. Aðalfund félagsdeildar skal halda í tengslum við aðalfund LMFÍ. Hann er lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Aðalfund skal boða með rafrænni tilkynningu til sérhvers félagsmanns með minnst hálfs mánaðar fyrirvara, talið frá og með útsendingardegi fundarboðs. Félagsmenn geta þó óskað eftir að fá sent fundarboð í pósti. Aðalfund skal jafnframt auglýsa innan sömu tímamarka á heimasíðu félagsdeildar.

6. gr. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  • 1.         Ársskýrsla félagsdeildar fyrir liðið starfsár og ársreikningur fyrir liðið reikningsár.
  • 2.         Önnur mál, er upp kunna að verða borin.

7. gr. Hverjum aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann rannsakar í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan, hvort svo sé. Atkvæðagreiðsla fer eftir því, sem fundarstjóri kveður nákvæmar á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess.  

STJÓRN FÉLAGSDEILDAR

8. gr. Stjórn LMFÍ er jafnframt stjórn félagsdeildar. Stjórninni er heimilt að velja úr röðum aðal- eða varastjórnarmanna þriggja manna framkvæmdastjórn, er hafi umsjón með starfsemi deildarinnar.

9. gr. Stjórn félagsdeildar ræður deildinni framkvæmdastjóra og eftir þörfum annað starfsfólk, sem annast daglegan rekstur hennar og framfylgir ákvörðunum stjórnarinnar hverju sinni.  

NEFNDIR

10. gr. Á aðalfundi félagsdeildar skal kjósa fimm manna stjórn Námssjóðs LMFÍ. Stjórn Námssjóðs LMFÍ skipa fimm lögmenn. Skulu fjórir stjórnarmenn kosnir til þriggja ára, auk þess sem meðstjórnandi í stjórn Félagsdeildar LMFÍ skal eiga fast sæti í stjórn sjóðsins. Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn Námssjóðs LMFÍ skulu tilkynna það til stjórnar Félagsdeildar LMFÍ ekki síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum. Stjórn "Námssjóðs" er sjálfstæð gagnvart stjórnum LMFÍ og Félagsdeildar LMFÍ. 

REIKNINGSÁR - ENDURSKOÐUN

11. gr. Reikningsár félagsdeildar er almanaksárið.

12. gr.Tveir skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsdeildar fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar um þá. Skoðunarmenn LMFÍ eru jafnframt skoðunarmenn félagsdeildar.

REKSTUR

13. gr. Fjárhagur félagsdeildar skal aðskilinn frá fjárhag LMFÍ.

14. gr. Félagar greiða árgjald, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við rekstur félags­deildar. Gjalddagi árgjaldsins er 1. janúar ár hvert. Stjórninni er heimilt að veita afslátt af árgjaldi þeirra félaga, sem sérstaklega stendur á um, enda verði um það sótt skriflega. Árgjaldi verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf helmingur fundarmanna að greiða atkvæði með breytingunni. Félagsmenn, 70 ára og eldri, greiða ekki árgjald. Ennfremur greiða nýir félagar ekki árgjald á því almanaksári, sem þeir verða félagsmenn. Félagsdeild aflar sér annarra tekna með sölu á ýmis konar þjónustu til félagsmanna.

ÝMIS ÁKVÆÐI

15. gr. Firma félagsdeildar rita formaður hennar og einn stjórnarmanna. Framkvæmdastjóri félagsdeildar hefur prókúruumboð.

16. gr. Reglum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni. Tillögur að breytingum þurfa að hafa borist stjórninni svo tímanlega að þeirra sé hægt að geta í fundarboði.

17. gr. Reglur þessar öðlast gildi 15. mars 2002.

---

Reglur félagsdeildar LMFÍ tóku fyrst gildi 1. janúar 1999, en gerðar voru breytingar á þeim á aðalfundi 15. mars 2002 (2. mgr. 5. gr. og 1., 3. og 4. mgr. 13. gr.) 26. mars 2004 (3. gr.),10. mars 2006 (10. gr., 11. gr., 12. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr., 16. gr. og 17. gr.), 13. mars 2008 (3. gr.), 30. maí 2012 (1. mgr. 14. gr.) og 24. maí 2017 (2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr.).