Öflun málflutningsréttinda

Lögmenn eru lögfræðingar sem hafa aflað sér réttinda til að flytja mál fyrir dómstólum landsins. 

Munurinn á lögfræðingi og lögmanni

Allir lögmenn eru lögfræðingar, þ.e. þeir hafa lokið BA/BS prófi og meistaragráðu í lögfræði við lagadeild háskóla sem er viðurkenndur hér á landi.

Einungis lögfræðingar sem hafa aflað sér réttinda til að flytja mál fyrir dómstólum landsins mega kalla sig lögmenn. Allir lögmenn eru félagar í Lögmannafélagi Íslands og hér er hægt að skoða lista yfir þá.

Kröfur sem þeir sem vilja vera lögmenn þurfa að uppfylla

 1. Vera lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum lögmanns.
 2. Hafa aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta.
 3. Hafa aldrei hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.
 4. Hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.
 5. Hafa setið námskeið til undirbúnings prófi til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður og lokið prófraun. 

Réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi

Til þess að öðlast málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum þarf lögfræðingur að sækja sérstakt námskeið og standast bóklega og verklega prófraun, sem nær til þeirra þátta sem snúa að störfum lögmanna, þar á meðal til siðareglna lögmanna. Um framkvæmd námskeiðs og prófa er kveðið í reglugerð um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður.

Námskeið til undirbúnings prófi til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður eru alla jafna haldin tvisvar ár ári, að vori og að hausti.

Prófraunin skiptist í tvo hluta, auk verklegrar prófraunar og stendur að jafnaði yfir í átta vikur, fimm í fyrri hluta og þrjár í seinni hluta.

Kennsla á námskeiðinu fer fram í kennslusal Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, 108 Reykjavík. Gert ráð fyrir að þátttakendum bjóðist að taka þátt í gegnum fjarfundabúnað. Við skráningu verða þátttakendur beðnir um að tilgreina hvort þeir hyggist sitja námskeiðið í kennslusal eða gegnum fjarfundabúnað.

Gjald vegna þátttöku á fyrri hluta prófraunar árið 2023 er kr. 316.000 og greiðist við skrán­ingu. Gjald fyrir síðari hluta fer eftir fjölda þátttakenda. Prófgjald er innifalið í nám­skeiðsgjaldi.

Kennslugreinar í fyrri hluta eru:

 • Einkamálaréttarfar,
 • sakamálaréttarfar,
 • fullnustu­réttarfar,
 • samning lögfræðilegrar álitsgerðar og
 • lögfræðileg skjalagerð.

Kennslustundir í fyrri hluta skulu vera 55-65 og stendur kennsla yfir yfir allan daginn í tvær vikur. Að kennslu lokinni er upplestrarfrí sem er alla jafna ein vika. Þá tekur við tveggja vikna próftímabil þar sem tekin eru 5 próf. Próf í einkamálaréttarfari, sakamálaréttarfari og fullnusturéttarfari eru munnleg. Samning lögfræðilegrar álitsgerðar og lögfræðileg skjalagerð eru skrifleg próf. 

Markmið með prófraun er að tryggja að prófmaður hafi:

 • tileinkað sér almenna þekkingu á íslenskum lögum til að geta stundað lögmannsstörf,
 • öðlast þjálfun við að leysa úr helstu álitaefnum er koma til kasta lögmanna,
 • öðlast þjálfun við að flytja mál fyrir dómi og leysa af hendi önnur lögmannsstörf,
 • öðlast þekkingu á hlutverki lögmanna og réttindum þeirra og skyldum,
 • kynnst starfsemi Lögmannafélags Íslands og úrskurðarnefndar lögmanna.

Ekki eru gefnar einkunnir fyrir frammistöðu á prófum, en miðað skal við að próftaki standist því aðeins próf að árangur hans jafngildi því að hann hafi fengið að lágmarki einkunnina 6 á einkunnastiganum 0 til 10. Einungis þeir sem standast öll próf úr fyrri hluta námskeiðsins geta sótt námskeið í seinni hluta prófraunar.

Kennslustundir í síðari hluta prófraunar skulu vera 30-40 talsins og dreifast að jafnaði á átta virka daga. Próf úr seinni hluta námskeiðs eru tvö og fara alla jafna fram í vikunni eftir að kennslu lýkur.

Kennslu­greinar í síðari hluta eru:

 • Réttindi og skyldur lögmanna, þar á meðal siðareglur lögmanna og þóknun fyrir lögmannsstörf,
 • málflutningur og önnur störf lög­manna, svo sem samningsgerð og meðferð stjórnsýslumála.

Að auki skal prófmaður þreyta verklega prófraun. Verkleg prófraun er fólgin í því að veita lögmanninum aðstoð við flutning eins máls fyrir héraðsdómi þ. á m. að veita honum aðstoð við að afla sönnunargagna og undirbúning málflutningsræðu og aðra þætti aðalmeðferðar málsins. Prófmanni ber jafnframt að vera lögmanninum til aðstoðar við aðalmeðferð málsins.

Eftir að prófmaður hefur fengið útgefna staðfestingu Lögmannafélagsins þess efnis að hann hafi staðist prófraun getur hann sótt um útgáfu réttinda til málflutnings fyrir héraðsdómi til sýslumanns hér

Réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti

Til þess að öðlast málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þarf lögmaður að hafa haft málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum í fimm ár og hafa flutt minnst 25 mál fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli.

Réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti

Til þess að öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti, þarf lögmaður að hafa haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár og hafa flutt minnst 15 mál munnlega fyrir Landsrétti

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.