Samþykktir LMFÍ

SAMÞYKKTIR  FYRIR LÖGMANNAFÉLAG ÍSLANDS

1. KAFLI
Heiti félagsins.

1. gr.

Félagið heitir Lögmannafélag Íslands og er það skammstafað LMFÍ. Heimili þess er í Reykjavík.

2. KAFLI
Tilgangur.

2. gr.

Tilgangur félagsins er

  • a)        að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi,
  • b)        að gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar,
  • c)        að stuðla að samheldni og góðri samvinnu félagsmanna,
  • d)        að standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar,
  • e)        að stuðla að framþróun réttarins og réttaröryggis.

3. KAFLI

Deildir – félagsaðild.

3. gr.

Allir lögmenn samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn, með síðari breytingum (lög­mannalög) eiga aðild að Lögmannafélagi Íslands. 

Afsali lögmaður sér málflutningsleyfi sínu eða falli leyfi hans niður af öðrum ástæðum, fellur hann af félagaskrá. 

Félagsmenn bera réttindi og skyldur samkvæmt lögmannalögum og öðrum lögum. Um rétt­indi þeirra og skyldur fer einnig eftir samþykktum félagsins og öðrum reglum þess, þ.á.m siðareglum.

Sérstök skrá skal haldin um lögaðila sem reka lögmannsstofur. Tilkynna skal til stjórnar LMFÍ hverjir eigi og reki lögmannsstofur.

4. KAFLI
Félagsfundir – aðalfundur.

4. gr.

Félagsfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Félagsfundi, aðra en aðalfundi, skal halda, þegar stjórn félagsins telur ástæðu til, samkvæmt ályktun félagsfundar, eða þegar minnst 50 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda komi fram í beiðninni hvers vegna þeir æskja fundar. Félagsfund skal halda innan mánaðar frá því lögmæt krafa um fundarhald er komin fram.

Félagsstjórn getur ákveðið að félagsmenn geti tekið þátt í félagsfundi rafrænt, þ.m.t greitt atkvæði án þess að vera á fundarstað, s.s. við stjórnar- og nefndakjör. Rafræn þátttaka fél­agsmanna á félagsfundi skal ávallt vera staðfest með viðurkenndum rafrænum auðkennum. Félagsstjórn er heimilt að ákveða að rafrænt stjórnar- og nefndakjör hefjist allt að tveimur dögum fyrir félagsfund. Félagsstjórn skal að öðru leyti ákveða hvaða kröfur skuli gerðar til tæknibúnaðar til nota á slíkum félagsfundi, þannig að m.a. verði unnt að tryggja rétt félags­manna til að sækja fundinn, sem og staðfesta með tryggilegum hætti mætingu á fundinn og niðurstöðu atkvæðagreiðslna. Í fundarboði til félagsfundarins skulu koma fram upplýsingar um tæknibúnaðinn auk upplýsinga um það hvernig félagsmenn geta tilkynnt um rafræna þátttöku sína og hvar þeir geta nálgast upplýsingar um framkvæmd rafrænnar þátttöku í fundinum. Það að félagsmaður nýti sér aðgang að tæknibúnaði til rafrænnar þátttöku á félagsfundi jafngildir undirskrift og telst viðurkenning á þátttöku hans á fundinum.

Hver félagsmaður á rétt á því að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á félagsfundi ef hann gerir skriflega eða rafræna kröfu um það til félagsstjórnar með það miklum fyrirvara að unnt sé að geta þess í fundarboði.

5. gr.

Aðalfundur LMFÍ skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert.

Aðalfund skal boða með rafrænni tilkynningu til sérhvers félagsmanns með minnst 14 daga fyrirvara, talið frá og með útsendingardegi fundarboðs.

Til félagsfunda, annarra en aðalfunda, skal stjórnin boða með rafrænni tilkynningu með hæfilegum fyrirvara.

Félagsfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Félagsmenn geta ávallt óskað eftir að fá sent fundarboð til félagsfundar í pósti. Samhliða boðun skal jafnframt auglýsa félagsfundi á heimasíðu félagsins. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála er fyrir eiga að koma á fundinum. Ef taka á til meðferðar á félagsfundi til­lögu til breytinga á samþykktum félagsins skal greina meginefni tillögunnar í fundarboði.

6. gr.

Hverjum félagsfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann rannsakar í fundarbyrjun hvort lög­lega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan, hvort svo sé.

Á félagsfundi fer hver félagsmaður með eitt atkvæði. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á félagsfundi, nema mælt sé fyrir um annað í samþykktum þessum.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu um málefni á félagsfundi fer eftir því sem fundarstjóri kveður á um. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal þó fara fram ef einhver fundarmanna krefst þess.

Hver félagsmaður á rétt til þess að taka til máls á félagsfundi, í samræmi við þá framkvæmd fundarins sem fundarstjóri ákveður hverju sinni.

7. gr.

Í gerðabók félagsins skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Fundarstjóra er heimilt, með samþykki fundarins, að fela fundarritara að ganga síðar frá fundargerðinni. Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum.

8. gr.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Ársskýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.
  2. Ársskýrsla úrskurðarnefndar lögmanna fyrir liðið starfsár.
  3. Yfirfarnir reikningar fyrir hið liðna reikningsár, með athugasemdum endurskoðanda, eru lagðir fram til úrskurðar.
  4. Ákvörðun um ávöxtun sjóða félagsins.
  5. Kosning stjórnar.
  6. Kosning endurskoðanda.
  7. Kosning fulltrúa félagsins í úrskurðarnefnd lögmanna og varamanna samkvæmt 3. gr. lögmannalaga.
  8. Kosning laganefndar.
  9. Önnur mál, er upp kunna að verða borin sbr. 4. mgr. 4. gr.

Þrátt fyrir áskilnað 7. tl. 1. mgr. getur stjórn félagsins tilnefnt fulltrúa félagsins ad hoc í úr­skurðarnefnd lögmanna.

9. gr.

Stjórn félagsins skipa fimm menn og skulu a.m.k. tveir þeirra vera lögmenn með réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti og/eða Hæstarétti.

Formaður stjórnar skal kosinn á aðalfundi til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir ár hvert, sbr. þó ákvæði 7. mgr. Í varastjórn skulu kjörnir þrír menn til eins árs. Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins eða varastjórn skulu tilkynna það til stjórnar ekki síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

Óheimilt er að endurkjósa sama mann til formanns oftar en tvisvar í röð. Óheimilt er að endurkjósa meðstjórnendur fyrr en ár er liðið frá því þeir gengu úr stjórn. Engar hömlur eru á endurkosningu varamanna.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera og ritara.

Stjórn félagsins er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Ef stjórnar­maður forfallast skal heimilt að kalla til varamann til þátttöku í stjórnarfundum meðan forföllin vara. Skal varamaður fullnægja sömu skilyrðum, sbr. 1. mgr., og sá aðalmaður sem hann kemur í stað fyrir. 

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

Stjórnarmaður getur hvenær sem er sagt starfa sínum lausum. Ef starfi stjórnarmanns lýkur áður en kjörtímabili er lokið eða ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði 1. mgr. og enginn vara­maður getur komið í hans stað skal stjórn efna til kjörs nýs stjórnarmanns fyrir þann tíma sem eftir er af kjörtíma hins fyrri. Heimilt er að fresta kjöri nýs stjórnarmanns til næsta aðalfundar, að því gefnu að stjórnin sé ákvörðunarbær með þeim stjórnarmönnum sem eftir eru, þ. á m. þeim varamönnum sem geta komið í stað aðalmanna.

5. KAFLI

Stjórn LMFÍ.

10. gr.

Hlutverk stjórnar er m.a.

  • a) að veita umsagnir og hafa eftirlit samkvæmt ákvæðum lögmannalaga og siðareglum félagsins,
  • b) að tilnefna í ráð og nefndir eftir því sem kveðið er á um í lögum eða samþykktum þessum.
  • c) að koma fram sem opinber talsmaður lögmannastéttarinnar í málum er hana varða.
  • d) að miðla upplýsingum til lögmanna og annarra, eftir því sem þörf er á, um það er varðar lögmannastéttina og hlutverk og starfsemi stjórnarinnar samkvæmt lögmanna­lögum.
  • e) að leysa úr ágreiningsmálum milli félagsmanna innbyrðis og gæta þess að fylgt sé góðum lögmannsháttum.
  • f) að vinna að hagsmunamálum félagsmanna.

Stjórn félagsins er heimilt að fela formanni stjórnar að koma fram fyrir hönd stjórnar í ein­stökum málum.

Stjórnin ræður félaginu framkvæmdastjóra og eftir þörfum annað starfsfólk, sem annast dag­legan rekstur þess og framfylgir ákvörðunum stjórnarinnar hverju sinni.

11. gr.

Innan LMFÍ skulu starfa a.m.k. eftirtaldar nefndir:

  • a) laganefnd.
  • b) siðareglunefnd.

Félagsfundir eða stjórn LMFÍ geta skipað nefndir ad hoc þegar fjalla þarf um sérstök mál­efni, sem ekki falla undir verksvið starfandi nefnda félagsins eða úrskurðarnefndar lög­manna.

6. KAFLI

Nefndir.

12. gr.

Á aðalfundi skal kjósa sjö manna nefnd, laganefnd.

Hlutverk laganefndar er að fylgjast með lögum, lagaframkvæmd, lagafrumvörpum og öðrum lögfræðilegum erindum frá Alþingi og ráðuneytum og veita umsögn um þau fyrir hönd félagsins. Í málum sem varða lögmannastéttina og störf lögmanna skal nefndin hafa samráð við stjórn félagsins um gerð umsagna.

Lagaefndin skal starfa að málum að eigin frumkvæði en jafnframt getur stjórn LMFÍ leitað umsagnar hennar um einstök mál ef henta þykir.

Við veitingu umsagnar um einstök mál er laganefnd heimilt að leita til lögmanna og/eða annarra sérfræðinga, sem búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á því sviði sem um ræðir.

Laganefnd skal setja sér starfsreglur um nánari framkvæmd starfa sinna.

13. gr.

Innan LMFÍ skal starfa þriggja manna siðareglunefnd sem stjórn félagsins tilnefnir.

Hlutverk siðareglunefndar er að fylgjast með þróun siðareglna LMFÍ og útbúa tillögur að breytingum á siðareglunum, telji nefndin þess þörf.

Breytingar á siðareglum félagsins skulu háðar samþykki félagsfundar.

7. KAFLI

Úrskurðarnefnd lögmanna.

14. gr.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögmannalögum.

Nefndin setur sér sérstakar málsmeðferðarreglur, sbr. 4. gr. lögmannalaga.

LMFÍ ber kostnað af störfum nefndarinnar.

8. KAFLI

Reikningsár – endurskoðun.

15. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

 16. gr.

Endurskoðandi félagsins skal endurskoða reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár. Hafi endurskoðandi athugasemdir við reikninga félagsins skal slíkum athugasemdum beint til stjórnar LMFÍ.

Endurskoðandi félagsins skal kosinn á aðalfundi og skal vera löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarfélag.

17. gr.

Fyrir lok marsmánaðar ár hvert skal gjaldkeri félagsins hafa lokið við samning reikningsins fyrir liðið reikningsár og sent hann endurskoðanda, en hann skal aftur hafa sent stjórninni reikninginn með athugasemdum sínum (ef við á) innan tveggja vikna.

Endurskoðandi staðfestir endurskoðun sína með undirskrift sinni og dagsetningu á reikn­inginn.

 9. KAFLI

Árgjald.

18. gr.

Félagsmenn greiða árgjald sem rennur í félagssjóð og er ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Gjalddagi árgjalds er 1. janúar ár hvert.

Stjórn félagsins er heimilt að veita afslátt af árgjaldi þeirra félagsmanna, sem sérstaklega stendur á um, enda verði um það sótt skriflega.

Árgjaldi verður aðeins breytt á aðalfundi og þurfa 2/3 fundarmanna að greiða atkvæði með breytingunni.

Félagsmenn, sem stjórn félagsins hefur samþykkt að veita undanþágu á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, greiða ekki árgjald.

Félaginu er óheimilt að leggja frekari fjárskuldbindingar á félagsmenn, umfram það sem að ofan greinir.

10. KAFLI

Félagsdeild.

19. gr.

Á vegum LMFÍ skal rekin sérstök deild, félagsdeild, sem allir lögmenn geta átt aðild að. Félagsdeildin hefur aðsetur í húsnæði LMFÍ.

Hlutverk félagsdeildar er að annast þau verkefni, sem henni eru falin af aðalfundi deildarinnar eða samkvæmt ákvörðun stjórnar deildarinnar hverju sinni og ekki falla undir lögbundin verkefni LMFÍ.

Á vegum félagsdeildar er rekinn Námssjóður LMFÍ, sem starfar samkvæmt sérstakri skipu­lagsskrá. Hlutverk sjóðsins er m.a. að styrkja bókasafn LMFÍ og sinna fræðslu- og endur­menntunarmálum lögmanna.

Stjórn LMFÍ er jafnframt stjórn félagsdeildar.

20. gr.

Aðalfund félagsdeildar skal halda í tengslum við aðalfund LMFÍ.

21. gr.

Fjárhagur félagsdeildar skal aðskilinn frá fjárhag LMFÍ.

Um skipulag félagsdeildar, verkefni, fjárhag og annað það, er lýtur að málefnum hennar, skal nánar kveðið í reglum um hana.

11. KAFLI

Ýmis ákvæði.

22. gr.

Firma félagsins ritar meirihluti stjórnar. Framkvæmdastjóri félagsins skal hafa prókúru­umboð fyrir félagið.

23. gr.

Stjórn LMFÍ skal velja félaginu heiðursfélaga í samræmi við sérstakar reglur sem stjórn setur um kjör heiðursfélaga. Val á heiðursfélaga skal kynnt á félagsfundi.

Stjórn LMFÍ skal setja reglur um notkun merkis félagsins.

24. gr.

LMFÍ tekur því aðeins við gjöfum að það samrýmist að mati stjórnar tilgangi félagsins. Öðrum gjöfum en hefðbundnum tækifærisgjöfum eða dánargjöfum skal beint til Námssjóðs LMFÍ. Stjórn Námssjóðs tekur ákvarðanir um hvort tekið skuli við slíkum gjöfum og hvernig þeim er ráðstafað, í samræmi við skipulagsskrá Námssjóðs.

25. gr.

Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum félagsfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni.

- - - o 0 o - - -

Samþykktir þessar voru fyrst gerðar á aukaaðalfundi félagsins 15. desember 1944, en í þær síðan bætt breytingum, er staðfestar hafa verið af dómsmálaráðherra 14. júlí 1965, 19. júní 1967, 21. maí 1970, 18. okt. 1976, 19. apríl 1978, 11. apríl 1979, 30. júní 1980, 21. apríl 1981, 6. apríl 1989, 26. mars 1993 (breyting á 2. mgr. 6. gr.) og 29. júní 1993 (breyting á 1. mgr. 4. gr.). Heildarendurskoðun fór fram á árinu 1998 og á framhaldsaðalfundi 12. nóvember það ár samþykktar viðamiklar breytingar á þeim. Breytingar voru gerðar á sam­þykktunum á aðalfundi 15. mars 2002 (2. mgr. 7. gr., 1. og 4. mgr. 17. gr.), á aðalfundi 21. mars 2003 (2. ml. 2. mgr. 10. gr.), á aðlafundi 11. mars 2005 (4. og 5. mgr. 12. gr.) á aðal­fundi 10. mars 2006 (12. gr., 23. gr., 24. og 25. gr.), á aðalfundi 13. mars 2008 (5. mgr. 3. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 16. gr.), á aðalfundi 30. maí 2012 (1. mgr. 17. gr.) á aðalfundi 30. apríl 2014 (2. mgr. 8. gr.) á aðalfundi 24. maí 2017 (2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 7. gr.), aðalfundi 10. maí 2019 (heildarendurskoðun) og aðalfundi 29. maí 2024 (3. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 18. gr.).

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.