Námssjóður

Hlutverk sjóðsins er að styrkja rekstur bókasafns félagsins með fjárframlögum ár hvert og sinna fræðslu- og endurmenntunarmálum lögmanna.

Í stjórn sitja fimm lögmenn. Fjórir þeirra eru kosnir til þriggja ára í senn en fimmti maður situr í stjórn LMFÍ.

Stjórn Námssjóðs skipa:

  • Ari Karlsson lögmaður
  • Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður (LOGOS)
  • Magnús Hrafn Magnússon lögmaður
  • Þorbjörg Ásta Leifsdóttir lögmaður.
  • Þórunn Helga Þórðardóttir lögmaður

Hér fyrir neðan er annars vegar skipulagsskrá Námssjóðs og hins vegar vinnureglur stjórnar vegna styrkja til fræðistarfa.

SKIPULAGSSKRÁ NÁMSSJÓÐS LÖGMANNAFÉLAGS ÍSLANDS

1. gr.

Sjóðurinn heitir Námssjóður LMFÍ. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.  

Hlutverk sjóðsins er að styrkja bókasafn LMFÍ með því að veita styrki til kaupa á bókum og búnaði á safnið og sinna fræðslu- og endurmenntunarmálum lögmanna í því skyni að auka hagnýta og fræðilega þekkingu þeirra á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar. Auk þess er heimilt að veita fé úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að aukinni menntun lögmanna, ef sérstakar ástæður eru til að mati sjóðsstjórn­ar.

Skal unnið að fræðslu- og endurmenntunarmálum m.a. með eftirgreindum hætti:

a) Með því að halda reglulega endurmenntunarnámskeið um hagnýt lögfræðileg efni.

b) Með því að standa fyrir stuttum fyrirlestrum um áhugaverð lögfræðileg efni, sem efst eru á baugi hverju sinni.

c) Með því að standa fyrir námsferðum lögmanna innanlands og utan.

d) Með því að miðla upplýsingum til lögmanna um námskeiðahald erlendis.

3. gr.  

Fjárhagur Námssjóðs skal vera aðskilinn frá fjárhag LMFÍ og félagsdeildar LMFÍ.

Tekjur sjóðsins eru:

a)  Vextir og verðbætur af innistæðum sjóðsins.

b)  Tekjur af námskeiðum.

c)  Gjafir og önnur framlög, enda séu slík framlög fyrirfram skilgreind til náms- eða fræðslustarfa

d) Aðrar tekjur.

4.  gr. 

Stjórn Námssjóðs LMFÍ skipa fimm lögmenn. Skulu fjórir stjórnarmenn kosnir til þriggja ára á aðalfundi félagsdeildar LMFÍ, auk þess sem meðstjórnandi í stjórn Fél­agsdeildar LMFÍ skal eiga fast sæti í stjórn sjóðsins.

Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn Námssjóðs skulu tilkynna það til stjórnar Félagsdeildar LMFÍ ekki síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum.

5. gr. 

Stjórn Námssjóðs LMFÍ hefur umsjón með sjóðnum í samræmi ákvæði skipulagsskrár þessarar.

Stjórn Námssjóðs hefur ákvörðunarvald um það hvort og þá að hve miklu leyti tekið verður við gjöfum til sjóðsins, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. Séu gjafir í formi peninga/reiðu­fjár, skal stjórn sjóðsins jafnframt hafa ákvörðunarvald um hvernig slíkum framlögum verði ráðstafað út frá tilgangi sjóðsins.

Stjórn Námssjóðs tekur ákvörðun um ávöxtun á fé sjóðsins.

6. gr. 

Skoðunarmenn LMFÍ eru jafnframt skoðunarmenn  sjóðsins.

7. gr. 

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Stjórn sjóðsins skal leggja reikninga hans fyrir endurskoðendur til endurskoðunar eigi síðar en 20. febrúar ár hvert. Lokið skal endur­skoðun reikninga fyrir 1. mars ár hvert. Skulu endurskoðendur senda stjórninni reikn­ingana með áritun sinni og athugasemdum fyrir þann dag.

Stjórnin gerir grein fyrir störfum sjóðsins á aðalfundi félagsdeildar LMFÍ.

Sjóðurinn greiðir allan kostnað af starfsemi sinni. Félagsdeild LMFÍ sér um fram­kvæmd og útfærslu á verkefnum Námssjóðs í samráði við sjóðsstjórn.

8. gr. 

Framlög úr sjóðnum skulu ekki nema meiru samanlagt ár hvert en 90% af tekjum sjóðsins ársins á undan. Heimilt er þó stjórn sjóðsins að víkja frá þessu ef hrein eign sjóðsins nemur meira en tvöföldum árstekjum hans.

9. gr. 

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt á aðalfundi félagsdeildar LMFÍ og ræður afl atkvæða úrslitum.

10. gr. 

Skipulagsskrá þessi tekur þegar gildi.

----------------------

Skipulagsskrá Námssjóðs Lögmannafélags Íslands var samþykkt á aðalfundi félagsins 18. apríl 1970 og síðan breytt á aðalfundum 29. mars 1985, 12. mars 1999 og 10. mars 2006.

---

Vinnureglur stjórnar Námssjóðs vegna styrkja til fræðistarfa

Samkvæmt 2. gr. skipulagsskrár námssjóðs Lögmannafélags Íslands er hlutverk sjóðsins meðal annars að sinna fræðslu- og endurmenntunarmálum lögmanna í því skyni að auka hagnýta og fræðilega þekkingu þeirra á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar. Auk þess er heimilt að veita fé úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að aukinni menntun lögmanna, ef sérstakar ástæður eru til að mati sjóðsstjórnar. Stjórnin geti í því skyni styrkt lögfræðilegar rannsóknir og hefur eftirfarandi atriði í huga við veitingu styrkja: 

  1. Að um sé að ræða höfundaverk sem er verulegt að umfangi, með ótvírætt fræðilegt gildi og nýtist í daglegum störfum lögmanna. 
  2. Að höfundur/höfundar verði með námskeið á vegum LMFÍ í tengslum við höfundaverkið og veiti félaginu einkarétt á þeim í ákveðinn tíma. 
  3. Að umsækjendur sendi verk-, og kostnaðaráætlun með umsókn 
  4. Eitt af þeim atriðum sem horft verður til er að verkefni séu komin af stað við veitingu styrks.  
  5. Ef verk hefur ekki komið út innan þriggja ára eftir ætluð verklok, og námskeið um efni þess hafa ekki verið haldin,  þá getur sjóðurinn farið fram á endurgreiðslu styrksins 
  6. Ekki er tekið við styrkbeiðnum vegna verkefna sem tengjast grunn- eða meistaranámi í lögfræði.  
  7. Höfundur og námssjóður gera skriflegan samning sín á milli. 

Stjórn námssjóðs samþykkti reglurnar á fundi 19. maí 2020. 

Umsóknum um styrki skal komið á netfangið lmfi@lmfi.is 

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.