Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með aðilum sem falla undir l.-u.-liði 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (hér eftir pþl.)

Undir það falla lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:

    1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
    2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
    3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
    4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
    5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
    6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.

Skyldur tilkynningarskyldra aðila

Áhættumat

Samkvæmt 5. gr. pþl. skulu tilkynningarskyldir aðilar framkvæma áhættumat á rekstri sínum og viðskiptum. Matið skal innihalda skriflega greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skal m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptalöndum eða -svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum. Við gerð áhættumats ber tilkynningarskyldum aðilum að hafa áhættumat ríkislögreglustjóra til hliðsjónar, sbr. 1. mgr. 5. gr. pþl. Nýjasta útgáfa áhættumats ríkislögreglustjóra má nálgast á vef Héraðssaksóknara. Áhættumat tilkynningarskyldra aðila skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi þeirra og margbreytileika starfseminnar. Tilkynningarskyldur aðili skal jafnframt styðjast við reglugerð ráðherra um framkvæmd áhættumats.

Tilkynningarskylda

Samkvæmt 21. gr. pþl. skulu tilkynningarskyldir aðilar, starfsmenn þeirra og stjórnendur tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tímanlega um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi. Tilkynningarskyldum aðilum er enn fremur skylt að gera skriflegar skýrslur um öll grunsamleg og óvenjuleg viðskipti sem eiga sér stað í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer skv. 28. gr. pþl.

Áreiðanleikakönnun

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum.

Með áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum er átt við að tilkynningarskyldir aðilar skulu afla viðeigandi upplýsinga og gagna sem gerir þeim kleift að kanna hvaða áhætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hver viðskiptamaður ber með sér.

Reglugerð um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Stjórnmálaleg tengsl

Samkvæmt 17. gr. peningaþvættislaga skulu tilkynningarskyldir aðilar hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamaður hans, eða raunverulegur eigandi viðskiptamanns, sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

Reglugerð um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Ábyrgðarmaður og þjálfun starfsmanna

Samkvæmt 34. gr. pþl. er tilkynningarskyldum aðilum skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við 21. gr. pþl. og hefur skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem skipt geta máli vegna tilkynninga. Tilkynna skal skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu um tilnefningu ábyrgðarmanns. Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að innleiddar séu stefnur, reglur og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna í starfsemi tilkynningarskyldra aðila.

Tilkynningarskyldum aðilum ber að fullnægja fræðsluskyldu gagnvart starfsmönnum sínum, sbr. 33. gr. pþl. Þjálfun starfsmanna skal innihalda leiðbeiningar um hvernig áreiðanleikakönnun skal framkvæmd, tilkynningarskyldu starfsmanna og að starfsmenn séu vel upplýstir um hvað felst í og hverjar birtingarmyndir peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka eru. Fræðsla þessi skal fara fram við upphaf starfs og síðan með reglubundnum hætti. Fræðslan skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi hins tilkynningarskylda aðila.

Tilkynningarskyldum aðilum ber að setja sér reglur um athugun á bakgrunni umsóknaraðila um ný störf. Þá skulu tilkynningarskyldir aðilar setja sér reglur um í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs og staðfestingu á ferli og fyrri störfum umsækjenda.

Leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi

Á vefsíðu skattsins má finna allar nánari leiðbeiningar.

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.