Áfrýjun einka- og opinberra mála

Áfrýjun einkamála og opinberra mála nokkur minnisatriði

EINKAMÁL:

  1. Mikilvægt er að hefja undirbúning að gerð málsgagna á sama tíma og áfrýjun er ráðin.
  2. Mikilvægt er að almennt eru ekki veittir frekari frestir til þingfestingar máls en fram koma í áfrýjunarstefnu, nema sérstakar ástæður liggi til grundvallar.
  3. Mikilvægt er að lögmaður stefnda tilkynni Hæstarétti fyrir þingfestingardag að honum hafi verið falið að halda uppi vörnum í máli.
  4. Mikilvægt er að stefnda er almennt ekki veittur frekari frestur til framlagningar greinargerðar en tilkynnt hefur verið um frá Hæstarétti, nema sérstakar ástæður liggi til grundvallar.
  5. Mikilvægt er að lögmenn nýti vel sameiginlegan frest sem veittur er til gagnaöflunar fyrir HR. Að þeim fresti liðnum telst gagnaöflun sjálfkrafa lokið, nema áður hafi verið fallist á skriflega ósk aðila um lengri frest eða HR hafi beint því til þeirra að afla megi frekari gagna. Rétturinn getur enn heimilað framlagningu gagna, ef ekki var unnt að afla þeirra fyrr eða atvik eru breytt. Slík gögn verða þó að berast réttinum með nokkrum fyrirvara fyrir munnlegan málflutning.
  6. Mikilvægt er að tilvísanir í fræðirit og dóma, sem lögmenn ætla að styðjast við í málflutningi, séu glöggar og afdráttarlausar um það, hvað teljist einkum skipta máli. Slíkar tilvísanir þarf að leggja fyrir HR með góðum fyrirvara, svo dómarar geti kynnt sér efni þeirra fyrir málflutning.
  7. Mikilvægt er að tímaskrá fylgi málsgögnum eða greinargerð, þar sem fram komi með glöggum hætti helstu atvik málsins í tímaröð. Það er til fyrirmyndar þegar vísað er í slíkri skrá til viðeigandi blaðsíðna í málsgögnum. Hinu sama gegnir um yfirlit lögmanna um helstu atriði í ræðum þeirra.
  8. Mikilvægt er að lögmenn áætli vel málflutningstíma og standi við þá áætlun eða tímamörk, sem þeim kunna að verða sett. Styttri og hnitmiðaðri ræður eru að jafnaði betur til þess fallnar að varpa skýru ljósi á málið en hinar, sem lengri eru.
  9. Mikilvægt er að lögmenn tilkynni HR með eins góðum fyrirvara og kostur er fyrirhugaðar fjarvistir. Hver málaskrá tekur að jafnaði til næstu 6 vikna og breytingar vegna fjarveru lögmanna eftir gerð hennar geta verið miklum vandkvæðum bundnar.
  10. Regla sem á alltaf við: Skoða strax vel hvort þörf er á að gagnáfrýja.

OPINBER MÁL:

  1. Ákærði, sem hefur verið sakfelldur í héraði, getur áfrýjað dómi þegar refsing er varðhald eða fangelsi eða sekt og/eða eignaupptaka, er nemur hærri fjárhæð en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum, sem nú er kr. 337.616.
  2. Sé einungis um sektardóm að ræða og sekt lægri en ofangreindri áfrýjunarfjárhæð nemur verður áfellisdómi aðeins áfrýjað að fengnu leyfi Hæstaréttar. Hafi ákærði ekki sótt þing í héraði og mál verið dæmt að honum fjarstöddum verður dómi aðeins áfrýjað um lagaatriði eða viðurlög og að fengnu leyfi Hæstaréttar.
  3. Um áfrýjun og í hvaða skyni áfrýja má vísast til 147. gr., liða a-e, og 1. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 37/1994.
  4. Dómfelldi, sem óskar áfrýjunar, skal hafa lýst yfir áfrýjun dóms innan fjögurra vikna, þ.e. innan 28 daga, frá birtingu dóms, í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara. Í tilkynningunni skal tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þ. á m. varðandi bótakröfur, ef því er að skipta. Sé um að ræða sakfellingu fyrir mörg ákæruefni þarf skilgreining á áfrýjun að taka til hvers þeirra fyrir sig.
  5. Þurfi dómfelldi leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar skal hann senda skriflega og ítarlega rökstudda beiðni um það, sem berast þarf Hæstarétti innan sama frests, innan 28 daga frá birtingu dóms. Beiðninni skal beint til ríkissaksóknara ásamt tilkynningu um í hverju skyni áfrýjað sé.
  6. Ríkissaksóknara og öðrum ákærendum er skylt að veita leiðbeiningar um gerð tilkynningar, ef eftir því er leitað, en jafnframt er þó þeim, sem í áfrýjunarhugleiðingum eru, bent á að leita ráða hjá verjanda eða hjá lögmanni um framsetningu tilkynningar um áfrýjun eða beiðni um áfrýjunarleyfi.
  7. Berist ríkissaksóknara ekki tilkynning ákærða um áfrýjun innan áfrýjunarfrests, innan 28 daga frá birtingu dómsins, skal líta svo á, að ákærði vilji hlíta héraðsdómi.
 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.