Mál 12 2004
Ár 2006, fimmtudaginn 23. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 12/2004:
V
gegn
K, hdl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi S, fyrir hönd V, sóknaraðila, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 6. júní 2004 og mótteknu þann 7. sama mánaðar, er kvartað yfir því að K, hdl., varnaraðili, hafi ekki staðið að fullu skil á innheimtum slysabótum og yfir reikningsgerð vegna vinnu hans í þágu sóknaraðila. Einnig kemur fram í tölvupósti frá sóknaraðila, dags. 16. maí 2004, að hann leggur bann við því að vörslufé hans verði notað til greiðslu á meintri reikningsskuld sinni við varnaraðila.
Þann 20. september 2004 barst nefndinni greinargerð varnaraðila.
Þann 13. október 2004 voru nefndinni sendar óundirritaðar greinargerðir frá sóknaraðila, systur hans, H, og A, fyrrum ritara varnaraðila.
Þann 27. desember 2004 bárust greinargerðir sóknaraðila og H undirritaðar til nefndarinnar.
Varnaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um viðbótargreinargerðir sóknaraðila en engar athugasemdir hafa borist frá honum.
I.
Málsatvik eru þau að þann 8. apríl 2002 gaf sóknaraðili varnaraðila umboð til að annast slysamál vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir þann 2. apríl 2001. Málið hafði áður verið til meðferðar hjá öðrum lögmanni. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð varnaraðila móttók hann slysabætur þann 4. mars 2004 að fjárhæð 4.678.936 krónur, að meðtalinni innheimtuþóknun lögmanns. Daginn eftir lagði hann 500.000 krónur inn á bankareikning sóknaraðila og þann 9. mars 2004 greiddi hann sóknaraðila 3.755.000 krónur með bankaávísun. Jafnframt gerði hann reikning fyrir 325.069 krónum. Kveður varnaraðili sóknaraðila þannig hafa átt inneign upp á 98.867 krónur sem varnaraðili ráðstafaði með þeim hætti sem síðar greinir. Samkvæmt gögnum málsins voru innheimtar 250.053 krónur úr hendi tryggingarfélagsins vegna lögmannsþóknunar, að meðtöldum virðisaukaskatti. Reikningur varnaraðila var því hin innheimta lögmannsþóknun að viðbættu 30% álagi.
Þann 16. maí 2004 kvartaði sóknaraðili yfir því í tölvupósti að varnaraðili hefði ekki staðið full skil á innheimtum tryggingarbótum. Í þessum tölvupósti lagði sóknaraðili blátt bann við því að tryggingabætur yrðu nýttar til að greiða reikninga vegna annarrar vinnu varnaraðila fyrir aðstoð í skilnaðarmáli sóknaraðila við konu sína. Kom fram í tölvupóstinum sá skilningur sóknaraðila að öll vinna væri uppgerð utan eins fundar. Tveimur dögum síðar, eða þann 18. maí, gaf varnaraðili út reikning að fjárhæð 15.000 krónur vegna umrædds skilnaðarmáls. Kom fram á reikningnum að um væri að ræða þóknun vegna fundar.
Í gögnum málsins kemur fram að þann 17. september 2003 greiddi sóknaraðili 3.000 krónur inn á umrætt skilnaðarmál og þann 1. október sama ár voru greiddar 24.550 krónur inn á málið.
Þann 20. september 2004 barst úrskurðarnefndinni greinargerð varnaraðila. Þar lýsti hann vinnu sinni við hjónaskilnaðarmálið á þann veg að hann hefði mætt hjá sýslumanninum í K og gert grein fyrir kröfum varnaraðila um forsjá og fjárhagslegt uppgjör. Síðan hefði verið haldinn fundur hjá lögmanni konunnar og lýsti varnaraðili þeim umræðum sem fram fóru á fundinum. Taldi varnaraðili fjárhagsuppgjörið mjög flókið af ástæðum sem hann tilgreindi.
Með greinargerð varnaraðila fylgdi gjaldskrá, sem í orði kveðnu er gjaldskrá annars tilgreinds lögmanns, en varnaraðili kvað vera sína gjaldskrá. Þar lýsti hann hvernig hann ráðstafaði eftirstöðvum slysabótanna sem hann sundurliðaði þannig:
Reikningur v/erfðaskrár, grunngjald kr. 18.000
Vsk. v/sama kr. 4.410
Reikningur v/skilnaðarmáls, grunngjald kr. 72.000
Vsk. v/sama kr. 17.640
Frádráttur innborgun á skilnaðarmál kr. - 15.000
____________
Samtals kr. 97.050
Mismunurinn á þessari niðurstöðu og þeirri fjárhæð, sem varnaraðili taldi vera inneign sóknaraðila hjá sér, 98.867 krónum, eða 1.817 krónur, er ekki skýrður sérstaklega. Með greinargerðinni fylgdu tveir reikningar, dagsettir sama dag og greinargerðin. Var annar reikningurinn fyrir gerð erfðaskrár, að fjárhæð 22.410 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Hinn reikningurinn var vegna hjónaskilnaðarmálsins, að fjárhæð 89.640 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Tímaskýrsla vegna slysamálsins fylgdi greinargerð varnaraðila til úrskurðarnefndar en hvorki tímaskýrsla vegna skilnaðarmálsins né tímaskýrsla er varðar gerð erfðaskrár. Hins vegar liggja fyrir í málinu drög að erfðaskrá, sem sóknaraðili kveðst sjálfur hafa samið. Hefur varnaraðili ekki mótmælt þeirri staðhæfingu.
II.
Í erindi sínu kvartar sóknaraðili í fyrsta lagi yfir því að varnaraðili láti hann greiða 75.016 krónur umfram þá lögmannsþóknun sem varnaraðili innheimti úr hendi tryggingarfélagsins í slysamálinu. Telur hann óréttmætt að gera slíka kröfu fyrir gagnaöflun og bendir á að búið hafi verið að afla hluta gagnanna áður en varnaraðili fékk málið til meðferðar.
Sóknaraðili krefst þess að fá þessa fjárhæð greidda.
Sóknaraðili krefst þess að eftirstöðvar slysabótanna að öðru leyti, 98.867 krónur, verði greiddar til sín. Í því felst að hann telur framangreinda ráðstöfun bótanna óréttmæta. Telur hann sig ekki hafa skuldað varnaraðila neitt. Vinna við hjónaskilnaðarmálið hafi verið fullborguð utan vinnu við einn fund. Sóknaraðili bannar að væntanlegum reikningi vegna þess fundar verði skuldajafnað við eftirstöðvar slysabóta.
III.
Varnaraðili kveður 30% álag á innheimtukostnað vera í samræmi við gjaldskrá sína og honum hafi verið að fullu heimilt að beita henni í viðskiptum sínum við sóknaraðila. Jafnframt vísar hann til tímaskýrslu um vinnuframlag sitt þótt hann styðji ekki reikninginn við hana. Varnaraðili styður reikning vegna gerðar erfðaskrár við grunngjald samkvæmt gjaldskrá. Sama gildir um skilnaðarmálið. Í hvorugu tilfellanna er tímaskýrsla lögð til grundvallar.
IV.
Í máli þessu liggur ekki fyrir að varnaraðili hafi áskilið sér 30% álag á innheimtuþóknun þegar hann tók málið að sér eða að samið hafi verið um það á síðari stigum. Í samræmi við fyrri úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna telur hún að ekki sé heimilt af þessum sökum að krefja sóknaraðila um hærri greiðslu en varnaraðili móttók fyrir hans hönd hjá tryggingarfélaginu. Er því fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi oftekið 75.016 krónur af innheimtum slysabótum.
Í framhaldi af tölvupósti sóknaraðila þann 16. maí 2004 var gerður reikningur fyrir umræddan fund í skilnaðarmálinu. Verður það vart skilið á annan veg en að um lokareikning hafi verið að ræða, í samræmi við sjónarmið sóknaraðila í tölvupósti tveimur dögum fyrr. Í þeim tölvupósti kom skýrlega fram að öll frekari vinna við málið væri stöðvuð. Verður að líta svo á að nýr reikningur, löngu síðar, er byggist á grunngjaldi, breyti þar engu um. Ekki hefur verið skýrt hvernig varnaraðili ráðstafaði fyrri innborgunum inn á málið.
Samkvæmt framansögðu viðurkennir sóknaraðili rétt varnaraðila til að krefja sig um þóknun vegna eins fundar. Ekki er dregið í efa að reikningurinn, sem er að fjárhæð 15.000 krónur, sé innan þeirra marka að teljast hæfilegt endurgjald. Úr því þarf að leysa hvort varnaraðila hafi verið heimilt, gegn andmælum sóknaraðila, að skuldajafna fjárhæðinni við fé sóknaraðila sem varnaraðili hafði í vörslum sínum.
Ekki liggur fyrir að varnaraðili hafi samið erfðaskrá fyrir sóknaraðila og er því þar af leiðandi hafnað að varnaraðili eigi rétt á þóknun fyrir slíkt verk.
Það leiðir af 14. gr. siðareglna lögmanna, sem stoð á í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, að lögmanni sé heimilt að ráðstafa vörslufé skjólstæðings síns upp í ógreidda lögmannsþóknun, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Heimild þessi hefur verið fyrir hendi um langan aldur og telst hluti af samningssambandi lögmanns og skjólstæðings hans. Slíkum samningi verður ekki sagt upp með afturvirkum hætti nema með samþykki beggja aðila. Sóknaraðili sagði ekki upp samningssambandi sínu við varnaraðila fyrr en í fyrsta lagi með tölvupósti þann 16. maí 2004. Hafði varnaraðili þegar innheimt slysabæturnar og telur nefndin með vísan til framangreinds að honum sé ráðstöfunin heimil.
Samkvæmt framansögðu ber varnaraðila að greiða sóknaraðila 75.016 krónur vegna oftekinnar þóknunar við innheimtu slysabóta og 98.867 krónur vegna eftirstöðva slysabóta að öðru leyti, að frádregnum 15.000 krónum vegna vinnu við umrætt skilnaðarmál. Samtals ber varnaraðila því að greiða sóknaraðila 158.883 krónur.
Ákvörðun um greiðslu dráttarvaxta er ekki innan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, K, hdl., greiði sóknaraðila, V, 158.883 krónur.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA