Mál 22 2004

Ár 2006, fimmtudaginn 9. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 22/2004:

  O

gegn

T, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 21. október 2004 frá O, sóknaraðila, sem varðar ágreining um áskilda þóknun T, hdl., varnaraðila, fyrir störf hennar að skilnaðarmáli í þágu sóknaraðila.

 Afstaða varnaraðila liggur fyrir í ódagsettu bréfi hennar til nefndarinnar. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila, en engar athugasemdir bárust nefndinni.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í ársbyrjun 2003 leitaði sóknaraðili til varnaraðila vegna skilnaðarmáls. Er umboð sóknaraðila dagsett 14. janúar 2003. Varnaraðili hófst fljótlega handa við verkið, meðal annars með könnun á eignastöðu hjónanna. Bréfasendingar varnaraðila til eiginmanns sóknaraðila báru ekki árangur en upp úr miðjum mars 2003 hófust samskipti varnaraðila og lögmanns eiginmannsins um skilnaðarmálið, skiptingu eigna o.fl.

 Af trúarástæðum treysti eiginmaðurinn sér ekki til að veita atbeina sinn til skilnaðarins en lagðist aftur á móti ekki gegn aðgerðum sóknaraðila í því sambandi. Sótt var um gjafsóknarleyfi fyrir sóknaraðila til reksturs skilnaðarmáls fyrir dómstólum. Mál gegn eiginmanninum var þingfest 18. mars 200X, þar sem þess var m.a. krafist að sóknaraðila yrði veittur skilnaður að borði og sæng. Af hálfu eiginmannsins var skilnaðarkröfunni ekki mótmælt en þess krafist að kröfum sóknaraðila um fjárframlög til framfærslu og hlutdeild í skírri hjúskapareign eiginmannsins yrði vísað frá dómi. Útivist varð af hálfu sóknaraðila þann 23. september 200X.

 Mál var höfðað að nýju nokkrum dögum síðar og með dómi héraðsdóms, uppkveðnum X. febrúar 200X, var sóknaraðila veittur skilnaður að borði og sæng við eiginmanninn. Gjafsóknarkostnaður var ákveðinn 120.000 krónur.

 Frá því samningaumleitanir hófust um eignaskiptingu, upp úr miðjum mars 2003, gekk á með tillögum og gagntillögum framan af árinu, án þess þó að samningar tækjust. Þann 18. september 2003 fór sóknaraðili fram á opinber skipti og var kveðinn upp úrskurður um þá kröfu 9. október. Fyrir milligöngu skiptastjóra var gengið frá samningi um fjárskipti vegna skilnaðar þann 29. apríl 200X.

 Auk aðstoðar við skilnaðinn og fjárslitin var varnaraðili sóknaraðila innan handa vegna kaupa á íbúð.

 Varnaraðili gaf út reikning fyrir vinnu sína 20. september 200X. Byggðist reikningurinn á tímaskýrslu varnaraðila þar sem skráðar voru 39,15 klst. vegna vinnu að fjárslitunum. Reikningsfjárhæðin nam alls 418.804 krónum, þar með talinn útlagður kostnaður að fjárhæð 4.500 krónur og virðisaukaskattur. Reikningur þessi varð sóknaraðila tilefni erindis hennar til úrskurðarnefndar lögmanna.

 II.

Í erindi sínu til nefndarinnar gerir sóknaraðili þær athugasemdir að hún hafi ekki fengið réttar upplýsingar hjá varnaraðila um kostnað af skilnaðarmálinu. Þá gerði sóknaraðili þá athugasemd að aðrir aðilar, henni óviðkomandi, kæmu fram í skjölum málsins.

 Úrskurðarnefndin telur að skilja verði erindi sóknaraðila svo að ágreiningur sé með henni og varnaraðila um áskilda þóknun varnaraðila fyrir aðstoð við fjárskipti hjónanna og að varnaraðili hafi ekki veitt henni upplýsingar um verkkostnað.

 III.

Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar gerir varnaraðili ítarlega grein fyrir rekstri málsins. Með bréfinu fylgdi nokkur fjöldi skjala, þ. á m. gögn er vörðuðu samningaumleitanir vegna fjárslita hjónanna.

 Varnaraðili kveðst í upphafi, eða þann 14. janúar 2003, hafa upplýst sóknaraðila um tímagjald sitt. Einnig hafi sóknaraðili verið upplýst um að gjafsókn fengist vegna sjálfs skilnaðarmálsins. Varnaraðili kveðst hafa upplýst sóknaraðila um það í september 2003 að þá yrði óskað eftir opinberum skiptum til fjárslita milli hjónanna en ekki yrði unnt að fá gjafsókn í því tilviki. Varnaraðili kveður verkkostnaðinn hafa borið á góma í nokkur skipti á árunum 2003 og 2004. Kveðst varnaraðili hafa upplýst sóknaraðila um það í febrúar 200X að kostnaðurinn væri þá orðinn um 250.000 krónur.

 Að því er nöfn annarra aðila varðaði, er ekki tengdust máli sóknaraðila, kveðst varnaraðili, í bréfi til sýslumanns þann 9. júní 200X, hafa fjallað um málefni sóknaraðila. Í sama bréfi hafi varnaraðili óskað eftir upplýsingum um hagi annarra skjólstæðinga sinna. Kveðst varnaraðili stundum hafa þennan háttinn á þegar hún eigi fleiri en eitt erindi við tiltekið embætti. Hins vegar hafi það verið mistök af sinni hálfu að senda sóknaraðila afrit þessa bréfs.

 Niðurstaða.

 Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

 Í erindi sóknaraðila er því haldið fram að ekki hafa verið veittar réttar upplýsingar í málinu hvað varðar verkkostnað í máli því sem varnaraðili tók að sér. Varnaraðili heldur því á hinn bóginn fram að hún hafi frá upphafi verksins upplýst sóknaraðila um þennan þátt málsins. Hefur sóknaraðili ekki mótmælt lýsingu varnaraðila að þessu leyti. Telur úrskurðarnefnd lögmanna að leggja megi til grundvallar að veittar hafi verið upplýsingar um verkkostnaðinn undir rekstri málsins.

 Samkvæmt reikningi þeim, sem ágreiningsmál þetta snýst um, áskilur varnaraðili sér þóknun fyrir vinnu í 39,15 klst. Til grundvallar þeim vinnustundafjölda liggur tímaskýrsla varnaraðila. Tímagjaldið nemur 8.500 krónum á tímann auk virðisaukaskatts. Áskilin þóknun varnaraðila nemur þannig 332.775 krónum auk virðisaukaskatts eða alls 414.304 krónum. Þá bætist við 4.500 króna útlagður kostnaður. Þannig nemur heildarreikningsfjárhæðin 418.804 krónum.

 Nefndin telur ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við tímagjald varnaraðila.

 Engar athugasemdir hafa borist frá sóknaraðila um útskýringar varnaraðila á vinnu sinni. Þá hefur sóknaraðili ekki gert sérstakar athugasemdir við skráðar tímaeiningar varnaraðila, hvorki að því er varðar tímafjölda eða það sem unnið var hverju sinni.

 Að virtum þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu um umfang þess verks, sem varnaraðili sinnti fyrir sóknaraðila vegna fjárslitanna við skilnaðinn, telur úrskurðarnefnd lögmanna að áskilin þóknun varnaraðila sé hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 Bréf það með nöfnum aðila, er ekki tengdust máli sóknaraðila, sem vísað er til í erindinu til úrskurðarnefndar, var sent sýslumanninum í Reykjavík. Í því var varnaraðili að spyrjast fyrir um nokkur mál sem hún rak fyrir embættinu. Nefndin telur varnaraðila með þeirri fyrirspurn ekki hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Sóknaraðili, O, greiði varnaraðila, T, hdl., alls 418.804 krónur vegna vinnu að fjárslitum vegna skilnaðar, þar með talinn virðisaukaskattur og útlagður kostnaður.

 Með fyrirspurnarbréfi sínu til sýslumannsins í Reykjavík gerði varnaraðili ekki á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA