Mál 9 2005
Ár 2006, fimmtudaginn 9. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 9/2005:
M ehf.
gegn
S, hrl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi F, forsvarsmanns M ehf., kæranda, dags. 8. mars 2005, er kvartað yfir meintri vanrækslu S, hrl., kærða, á því að áfrýja dómi í héraðsdómsmáli til Hæstaréttar Íslands. Kærði svaraði erindinu með greinargerð, dags. 3. maí 2005. Aðilar hafa tjáð sig frekar um málið með bréfi kæranda þann 31. maí 2005 og bréfi kærða þann 23. ágúst 2005. Ennfremur hefur kærandi sent nefndinni bréf 30. september 2005 og 8. febrúar 2006. Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um efni þessara bréfa en kaus að gera það ekki.
I.
Málsatvik eru þau að með dómi Héraðsdóms T, uppkveðnum 17. mars 200X í málinu nr. E-X/200X, var felldur úr gildi samningur um skólavist tiltekins nemanda, stefnanda, er stundaði nám í I, sem kærandi rak. Kærandi var jafnframt dæmdur til að endurgreiða nemandanum hluta námsgjaldanna, 240.111 krónur, og 303.631 krónu í málskostnað.
Kærandi hugðist láta áfrýja dóminum til Hæstaréttar Íslands og var af því tilefni leitað til kærða. Ekki varð af áfrýjun málsins. Kærandi reyndi í nokkurn tíma að fá skýringar frá kærða um hverju það sætti að málinu var ekki áfrýjað. Naut kærandi aðstoðar lögmanns þess, er hafði flutt málið í héraði, svo og annars hæstaréttarlögmanns í samskiptum sínum við kærða.
Samskipti og/eða samskiptaleysi kæranda og kærða urðu kæranda tilefni kvörtunar þessarar til úrskurðarnefndar lögmanna.
II.
Í erindi kæranda er kvartað yfir vanrækslu kærða á því að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar Íslands, eins og lögmaður kæranda í héraði fór fram á við kærða að gert yrði. Telur kærandi kærða hafa brotið gegn siðareglum lögmanna með því einfaldlega að hafa aldrei sótt um áfrýjunarleyfi. Fer kærandi fram á að kærði sæti þeim viðurlögum sem lög og siðareglur lögmanna kveða á um.
Í málsatvikalýsingu kæranda kemur m.a. fram að lögmaður hans í héraði, V, hdl., fól kærða að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Kærandi lýsir samskiptum sínum við kærða haustið 2004 en samkvæmt þeirri lýsingu fékk hann óljósar og ófullnægjandi upplýsingar frá kærða um stöðu málsins. Hann kveðst hafa fengið þær upplýsingar frá Hæstarétti að ekki hefði verið sótt um áfrýjunarleyfi og frestur til þess væri runninn út. Kærandi kveður annan lögmann sinn, K, hrl., ítrekað hafa reynt að fá upplýsingar frá kærða um málið, án árangurs.
III.
Í greinargerð kærða kemur m.a. fram að lögmaður kæranda, V, hdl., hafði samband við hann í júní 2004 vegna málsins og hugsanlega áfrýjun þess. Að beiðni lögmannsins útbjó hann og sendi Hæstarétti áfrýjunarstefnu til útgáfu, þar sem frestur til þess var að renna út. Kærði kveðst hafa tjáð lögmanninum að hann myndi ekki leita eftir áfrýjunarleyfi teldi Hæstiréttur þess þörf, þar sem hann áleit að leyfi yrði ekki veitt. Kærði kveður áfrýjunarstefnu ekki hafa verið gefna út og hafi verið upplýst um það. Þar með hafi lokið afskiptum sínum af málinu.
Kærði kveður forsvarsmann kæranda hafa komið á skrifstofu sína haustið 2004 og haft uppi rangar staðhæfingar er virtust hafa verið byggðar á misskilningi.
Kærði kveður áfrýjunarstefnu hafa verið senda Hæstarétti í tíma og ætla mætti að áfrýjunarfrestur hefði þar með verið rofinn. Afstaða forsvarsmanns kæranda hafi verið með þeim hætti að ekki hefði komið til álita að taka málið að sér, enda hefði annar lögmaður þá verið kominn að því. Kærði kveður það fráleitt að hann hafi valdið kæranda fjártjóni.
IV.
Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2005, eru ítrekuð fyrri sjónarmið og gerð grein fyrir málinu að öðru leyti, þar sem m.a. er mótmælt ýmsum staðhæfingum kærða. Með bréfinu fylgdi tölvupóstur V, hdl., dags. 30. maí 2005, þar sem lögmaðurinn upplýsir að í kjölfar uppkvaðningar héraðsdóms hafi þótt rétt að koma málinu fyrir Hæstarétt, m.a. þar sem dómsniðurstaðan væri á skjön við aðra dóma sem fallið höfðu. Kærði hafi verið beðinn um að koma málinu fyrir Hæstarétt og sækja um undanþágu til þess. Lögmaðurinn kveðst ekki vita annað en að það hefði átt að ganga eftir innan lögmælts frests.
Með svari kærða þann 23. ágúst 2005 fylgdi bréf Hæstaréttar Íslands frá 25. júní 2004, þar sem kærða var tilkynnt að hann hefði þann 16. júní 2004 afhent skrifstofu réttarins til útgáfu áfrýjunarstefnu. Hinn 18. júní hefði honum verið tilkynnt símleiðis að stefnan yrði ekki gefin út þar sem skilyrði 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, væru eigi uppfyllt. Hefði kærði þá sagst ætla að skila inn beiðni um áfrýjunarleyfi síðast liðinn mánudag. Þar sem engin beiðni um áfrýjunarleyfi hefði borist endursendist áfrýjunarstefnan.
Með bréfi kærða fylgdi einnig tölvupóstur V, hdl., til kærða, dags. 23. ágúst 2005, þar sem lögmaðurinn upplýsir að við frekari upprifjun á málinu hafi kærði verið beðinn um að útbúa og senda áfrýjunarstefnu í málinu til Hæstaréttar þar sem frestur var að renna út, sem og hann hefði gert, en málið hefði ekki náð áfrýjunarfjárhæð. Lögmaðurinn kveður kærða hafa talið að ekki þýddi að sækja um áfrýjunarleyfi og hafi hann þar með hætt afskiptum af málinu.
Kærandi sendi úrskurðarnefnd bréf, dags. 8. febrúar 2006, en með því fylgdi bréf V, hdl., dags. 6. febrúar 2006, þar sem lögmaðurinn kveðst staðfesta atvikalýsingu þá, sem fylgdi upphaflegu erindi kæranda til nefndarinnar að því er sig varðaði. Kveður lögmaðurinn kærða hafa talað síðast um það, þann 1. desember 2004, þegar hann átti fund með þeim kæranda, að hann ætlaði að reyna að fá áfrýjunarleyfi. Eftir það hafi hann talið að ekki þýddi að sækja um áfrýjunarleyfi og væri hann hættur afskiptum af málinu.
Niðurstaða.
I.
Kærandi tekur fram í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna að kvörtunin beinist að vanrækslu kærða á því að áfrýja dómi í héraðsdómsmálinu nr. E-x/200X til Hæstaréttar, eins og lögmaður sinn í héraði, V, hdl., hafi beðið um.
Í málinu liggur fyrir staðfesting Hæstaréttar Íslands á því að þann 16. júní 2004 afhenti kærði skrifstofu réttarins til útgáfu áfrýjunarstefnu vegna umrædds héraðsdóms. Áfrýjunarfrestur rann út daginn eftir. Kærði mun föstudaginn 18. júní 2004 hafa upplýst skrifstofustjóra Hæstaréttar um að hann myndi skila inn beiðni um áfrýjunarleyfi mánudaginn 21. júní 2004, en engin beiðni var send réttinum.
Samkvæmt framburði V, hdl., eins og hann birtist í tölvupósti hans til kærða þann 23. ágúst 2005, var kærði beðinn um að útbúa og senda áfrýjunarstefnu í málinu til Hæstaréttar þar sem frestur var að renna út, sem og hann gerði. Hafi kærði upplýst V um það að ekki þýddi að sækja um áfrýjunarleyfi og hafi hann þar með hætt afskiptum af málinu. Í öðru bréfi lögmannsins, frá 6. febrúar 2006, kveðst hann staðfesta málsatvikalýsingu kæranda að því er sig varðaði. Ekki kemur fram hvort lögmaðurinn sé með þessari yfirlýsingu að leiðrétta áður veittar upplýsingar um samskipti sín við kærða eða hvort líta eigi á hana sem viðbót við fyrra bréfið.
II.
Kærði kveðst hafa tekið að sér að senda Hæstarétti Íslands til útgáfu áfrýjunarstefnu þar sem áfrýjunarfrestur var að renna út. Var stefnan send réttinum þann 16. júní 2004, daginn áður en fresturinn rann út. Jafnframt kveðst kærði hafa tjáð V, hdl., að hann myndi ekki leita eftir áfrýjunarleyfi reyndist þess þörf. Hefur V staðfest þessar upplýsingar, eins og að framan greinir.
Samkvæmt því sem fram er komið í málinu er það álit úrskurðarnefndar lögmanna að ekki hafi verið sýnt fram á að kærði hafi tekið að sér að gera annað og meira fyrir kæranda en hann sjálfur staðhæfir, þ.e. að senda Hæstarétti Íslands áfrýjunarstefnu til útgáfu. Að þessu leyti hefur kærði ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, S, hrl., hefur í störfum sínum fyrir kæranda, M ehf., vegna áfrýjunar héraðsdómsmálsins nr. E-x/200X, ekki gert á hans hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA