Mál 10 2005

Ár 2006, mánudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 10/2005:

 H

gegn

P, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi H, kæranda, dags. 29. mars 2005, er kvartað yfir vinnubrögðum P, hrl., kærðu, í nokkrum málum er hún tók að sér að sinna fyrir kæranda. Erindi var fylgt eftir með bréfi kæranda til nefndarinnar, dags. 3. maí 2005. Greinargerð kærðu er dags. 7. nóvember 2005. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerðina með bréfi, mótteknu þann 22. nóvember 2005. Kærða taldi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um málið.

 I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í ágúst 2003 leitaði kærandi til kærðu með nokkur mál og fól henni að annast þau fyrir sig. Veitti kærandi kærðu umboð til að annast frágang samkomulags um breytingu á forsjá tveggja barna sinna, umboð til að gæta hagsmuna sinna og annast málflutning fyrir sig í deilumáli við fyrrverandi sambýlismann um fjárskipti vegna sambúðarslita, og loks umboð til þess að kanna réttarstöðu sína vegna uppsagnar á ótímabundnum ráðningarsamningi um stöðu leiðbeinanda í grunnskóla í sveitarfélagi fyrir austan fjall.

 Vinnu við forsjármálið lauk fljótlega með gerð samkomulags við föður tveggja elstu barna kæranda um sameiginlega forsjá þeirra.

 Vinna við könnun á réttarstöðu kæranda vegna uppsagnar ráðningarsamningsins hófst í september 2003 með ritun bréfs til sveitarfélagsins þar sem óskað var eftir gögnum um málið. Kröfubréf var sent sveitarfélaginu þann 1. júlí 2004, sótt var um gjafsókn vegna áformaðs dómsmáls á hendur sveitarfélaginu þann 13. október 2004 og stefna gefin út í ársbyrjun 2005 og þingfest x. febrúar það ár.

 Vinna kærðu vegna fjárslitamálsins fólst m.a. í því að reyna að fá kyrrsetta kaupsamningsgreiðslu vegna sölu íbúðar er kærandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar höfðu átt. Hafði sambýlismaðurinn fengið kæranda til að undirrita skiptayfirlýsingu vegna íbúðarinnar og lét þinglýsa henni. Skömmu síðar seldi sambýlismaðurinn fyrrverandi íbúðina og var þess freistað af hálfu kæranda að kyrrsetja kaupsamningsgreiðslu meðan leyst væri úr ágreiningi um lögmæti skiptayfirlýsingarinnar, en kærandi hélt því fram að sambýlismaðurinn hefði tekið yfirlýsinguna úr sínum vörslum á ólögmætan hátt. Kyrrsetningarbeiðninni, sem dagsett var 4. nóvember 2003, var hafnað með bréfi sýslumannsins í B þann x. nóvember 2003, þar sem kærandi var ekki talin eiga lögvarða kröfu um greiðslu peninga úr hendi gerðarþola.

 Síðar, eða þann 27. febrúar 2004, höfðaði kærða, fyrir hönd kæranda, mál gegn sambýlismanninum fyrrverandi með kröfu um skaðabætur vegna hlutdeildar hennar í andvirði íbúðarinnar og kröfu um hlutdeild í leigutekjum af íbúðinni. Útivistardómur gekk þann 8. júlí 2004 þar sem fallist var á stefnukröfur kæranda sem námu rúmlega 1,7 milljón króna. Þá var kæranda dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda, að fjárhæð 194.000 krónur. Reynt var að tryggja greiðslu dómkröfunnar með fjárnámsgerð, en erfiðlega gekk að fá gerðinni framgegnt vegna bágrar eignastöðu sambýlismannsins fyrrverandi og þar sem erfiðlega gekk að hafa uppi á honum.

 Tengd fjárslitamálinu var vinna kærðu við samningaumleitanir við Glitni hf. um lækkun eða niðurfellingu láns, sem var á nafni kæranda en sem sambýlismaður hennar fyrrverandi hafði ætlað að yfirfæra á sitt nafn samhliða yfirfærslu eignarheimildar á bifreið á sitt nafn. Hafði aldrei verið sótt um heimild til skuldskeytingar og var því sótt á kæranda um greiðslu kröfunnar þegar hún fór í vanskil. Einnig tengdist fjárslitamálinu krafa kæranda á hendur manninum um greiðslu kostnaðar fyrir tannviðgerðir, en hann hafði með líkamlegu ofbeldi nokkrum árum fyrr valdið henni skaða með því að slá úr henni framtennur.

 Þann 1. apríl 2004 gaf kærða út 5 reikninga vegna vinnu sinnar í þágu kæranda á árinu 2003, einn reikning fyrir hvern mánuð á tímabilinu ágúst til desember. Samanlögð fjárhæð reikninganna nam 222.233 krónum, þ.m.t. virðisaukaskattur. Kærandi greiddi, fram til þess að hún sendi erindi sitt til úrskurðarnefndarinnar, inn á viðskiptaskuld sína við kærðu þannig:

 14.05.2004        kr.     5.000

08.06.2004        kr.   15.000

16.08.2004        kr.   11.500

08.10.2004        kr.   50.000

03.02.2005        kr.   20.000

                        _________

alls                   kr. 101.500

 Eftir að kærandi sendi erindi sitt til nefndarinnar, eða þann 15.07.2005, greiddi hún 156.917 krónur til kærðu.

 Óánægja kæranda með áskilið endurgjald kærðu og vinnubrögð urðu til þess að hún sendi úrskurðarnefnd lögmanna erindi það sem hér er til umfjöllunar.

 II.

Í erindi kæranda er kvartað yfir því sem hún telur vera slæleg vinnubrögð kærðu vegna óeðlilegs hægagangs í málarekstrinum, en kærandi telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða vegna þess. Kærandi telur sig ekki hafa fengið umbeðin gögn eða reikninga frá kærðu, og að ekki hafi verið sótt um gjafsókn í málum sínum. Telur hún sig einnig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess. Fer kærandi fram á að málið verði skoðað hjá nefndinni og ásakanir sínar á hendur kærðu verði metnar. Þá fer kærandi fram á að kveðið verði á um hvað teljist vera hæfileg þóknun kærðu, með tilliti til vinnubragða og einnig með tilliti til þess að ekki hafi verið sótt um gjafsókn eins og um var talað.

 Í bréfi til nefndarinnar, dags. 3. maí 2005, felldi kærandi niður ágreiningsefnið um endurgjald lögmannsstofunnar. Þar var jafnframt dregin í efa heimild kærðu til að fela starfsmanni sínum málið, án samþykkis kæranda. Einnig var óskað eftir áliti nefndarinnar um það hvort heimilt hefði verið að halda gögnum vegna ógreiddra reikninga þegar kærða sagði sig sjálf frá málinu sem gjafsókn var í, viku fyrir fyrirtöku þess í héraðsdómi.

 Meðal gagna málsins, er fylgdu erindi kæranda, er geisladiskur með nánast öllum samskiptum hennar og lögmannsstofu kærðu með tölvupósti, alls tæplega 90 blaðsíður.

 III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar gerir kærða grein fyrir málinu frá sinni hálfu. Hún rekur þar vinnu sína og starfsmanna sinna að einstaka verkefni í þágu kæranda og þann árangur sem náðist. Telur kærða að eins og málið sé vaxið hafi verið unnið vel og samviskulega að málum kæranda og að henni hafi verið gerð skilmerkilega grein fyrir því að vegna vangetu hennar til innborgana yrði unnið með tilteknum hætti í hennar málum. Því vinnulagi hafi verið algerlega fylgt. Stöðugt hafi verið unnið fyrir kæranda á tímabilinu ágúst 2003 til febrúar 2005, þegar kærandi kaus að slíta sambandi við lögmannsstofuna.

 Kærða kveður kæranda hafa verið gerð grein fyrir því að ekki væri unnt að fá gjafsóknarleyfi við rekstur kyrrsetningarmáls fyrir sýslumanni. Hins vegar hafi verið rætt um að fá gjafsókn við rekstur dómsmáls gegn fyrrverandi sambýlismanni kæranda, þar sem krafist var hlutdeildar hennar í söluandvirði íbúðar þeirra og hlutdeildar í leigutekjum. Útivist hafi orðið í málinu af hálfu stefnda og því hafi ekki reynst unnt að sækja um gjafsókn undir meðferð málsins. Hins vegar hafi kærandi ekki verið og yrði ekki krafin um greiðslu málskostnaðar og því væri ekki unnt að tala um að hún hefði orðið fyrir fjártjóni af þessum sökum.

 Kærða kveður kæranda ekki verða krafða um greiðslu endurgjalds vegna vinnu á lögmannsstofunni eftir 1. janúar 2004, sem þó hefði verið töluverð.

 Kærða kveður samkomulag hafa tekist í bótamáli kæranda gegn sveitarfélaginu vegna uppsagnar ráðningarsamningsins, eftir að málið hafði verið þingfest. Sá lögmaður sem tók við málinu hafi upplýst að lögmannsstofu kærðu hefðu verið úrskurðaðar 150.000 krónur í málflutningsþóknun. Ekki stæði til að gera kæranda frekari reikning vegna vinnu í þessu máli.

 Kærða telur fullyrðingar kæranda um fjártjón vera órökstuddar. Hefði kæranda verið gerð grein fyrir því, strax í upphafi, að hún ætti á brattann að sækja þar sem hún hefði sjálf undirritað skjölin um íbúðina sem sambýlismaður hennar fyrrverandi síðan lét þinglýsa. Kærða kveðst ekki hafa gefið neina ábyrgð fyrir því að sambýlismaðurinn greiddi kröfuna sem höfð var uppi á hendur honum. Kærða kveður kæranda ekki hafa staðið við gefin loforð um innborganir vegna útgefinna reikninga.

 Niðurstaða.

 I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu.

 Það fellur utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að fjalla um hvort lögmaður hafi bakað sér skaðabótaábyrgð vegna vanrækslu í starfi.

 II.

Í upphaflegu erindi kæranda til nefndarinnar er þess krafist að skorið verði úr um hvað teljist vera hæfileg þóknun til kærðu vegna starfa hennar í þágu kæranda. Í bréfi kæranda til nefndarinnar, dags. 3. maí 2005, er þessi þáttur erindisins hins vegar dreginn til baka, þar sem óþarfi sé að skera úr um hvað sé hæfileg þóknun. Verður samkvæmt þessu ekki fjallað frekar um þennan þátt málsins á vettvangi nefndarinnar.

 III.

Kærðu er heimilt að fela starfsmönnum sínum einstaka verkefni, eftir því sem menntun þeirra og starfsreynsla segir til um, og þarf almennt ekki að bera það undir umbjóðendur sína. Ber kærða ábyrgð á störfum starfsmanna sinna, sem vinna undir hennar umsjón og eftirliti.

 IV.

Í tölvupósti kærðu til kæranda, dags. 30. mars 2005, tilkynnti hún að vegna trúnaðarbrests milli þeirra væri ekki hægt að vinna frekar fyrir kæranda. Í tölvupóstinum var farið fram á greiðslu eftirstöðva þeirra reikninga, sem kærða hafði gefið út 1. apríl 2004 vegna vinnu sinnar í þágu kæranda mánuðina ágúst til desember 2003. Kvaðst kærða ekki ætla að afhenda málsgögn í skaðabótamálinu, sem höfðað hafði verið vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi, fyrr en reikningarnir hefðu verið greiddir.

 Samkvæmt 16. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert honum full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsrétturinn gildir þó ekki ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef umboð lögmanns hefur verið afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.

 Reikningarnir fimm, sem höfðu verið gefnir út, voru einkum vegna vinnu kærðu að málinu gagnvart fyrrverandi sambýlismanni kæranda, en ekki nema að mjög óverulegu leyti vegna vinnu kærðu að skaðabótamálinu gegn A- og B-hreppi, og þá einungis tveir þessarra reikninga. Samkvæmt framangreindu ákvæði siðareglna lögmanna gat kærða af þeim sökum ekki beitt haldsrétti og neitað að afhenda kæranda eða viðtakandi lögmanni gögn dómsmálsins.

V.

Kærða vann að nokkrum verkefnum fyrir kæranda, eins og að framan er lýst. Mat úrskurðarnefndar á starfsháttum kærðu að því er einstaka verkefni varðar er eftirfarandi:

 a) Kærða aðstoðaði kæranda við gerð samkomulags um forsjá barna hennar og er ekki kvartað yfir vinnubrögðum kærðu í því verkefni.

 b) Kærða heldur því fram að kæranda hafi verið kunnugt um ákveðna forgangsröðun verkefna og að málshraði hafi m.a. ráðist af því að kærandi gæti ekki greitt inn á áfallinn kostnað. Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessa skýringu kærðu. Engin gögn eru til staðar um að kærandi hafi verið krafin um greiðslu fyrr en kærða gaf út 5 reikninga þann 1. apríl 2004 vegna vinnu mánuðina ágúst til desember 2003. Samkvæmt gögnum málsins var það ekki fyrr en í byrjun október 2004 sem af hálfu kærðu er gert að umtalsefni að ógreiddir reikningar kynnu að hafa áhrif á vinnsluhraða á verkefnum.

 c) Kærða fékk þann 19. ágúst 2003 skriflegt umboð kæranda til þess að gæta hagsmuna hennar og til málshöfðunar vegna deilu við fyrrverandi sambýlismann hennar um fjárskipti vegna sambúðarslita. Taldi kærandi manninn hafa á óheiðarlegan hátt fengið vörslur tveggja skiptayfirlýsinga, þar sem fram kom að maðurinn einn væri eigandi íbúðar er þau höfðu búið í, og eigandi bifreiðar, en á henni hvíldi lán sem kærandi var skuldari að.

 Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslum ritaði kærða bréf til sambýlismannsins fyrrverandi í byrjun september 2003. Bréfasamskipti við hann virðast þó hafa verið erfiðleikum háð vegna óvissu um dvalarstað hans. Í október átti kærða í nokkrum samskiptum við kæranda, gagna var aflað og bréf ritað til lögmanns mannsins og annað bréf til fasteignasölu þeirrar, sem annast hafði sölu á íbúðinni fyrir hann. Tók kærandi m.a. þátt í gagnaöflun vegna málsins.

 Í nóvember var kyrrsetningarbeiðni send sýslumanni og þess freistað að kyrrsetja kaupsamningsgreiðslu vegna íbúðarinnar, til tryggingar kröfum kæranda á hendur manninum. Þeirri beiðni var hafnað af sýslumanni með bréfi, dags. x. nóvember. Kaupendum var ritað bréf og í desember fóru fram ýmis samskipti við kaupendur, lögmann þeirra og nýjan lögmann mannsins, þ. á m. á fundum og með bréfaskriftum.

 Loks var höfðað mál gegn manninum í lok febrúar 2004, þar sem þess var krafist að maðurinn greiddi kæranda skaðabætur er næmu hlutdeild hennar í söluandvirði íbúðarinnar og skuld vegna leigutekna sem hann hafði haft af íbúðinni, en ekki gert henni skil. Málið var þingfest x. mars 200x. Útivist varð af hálfu mannsins og var dómur kveðinn upp x. júlí 200x. Þess var freistað að ná fram fjárnámsgerð hjá manninum og voru fjárnámsbeiðnir sendar sýslumanni af því tilefni í ágúst 200x.

 Undirbúningur málshöfðunarinnar tók nokkurn tíma og verður ekki annað séð af fyrirliggjandi töluvpósti kæranda til lögmannsstofu kærðu þann 12. febrúar 2004 en að hún hafi verið mjög ánægð með vinnubrögð starfsmanns kærðu, er sinnti málinu. Var tölvupósturinn sendur í kjölfar yfirlestrar kæranda á drögum að stefnu í málinu og nokkrum athugasemdum er hún hafði fram að færa.

 Það er mat úrskurðarnefndar að eins og atvikum var háttað hafi ekki orðið óeðlilegur dráttur á rekstri málsins gagnvart fyrrverandi sambýlismanni kæranda. Verður ekki annað séð en að kærða hafi unnið að málinu í samráði við kæranda, en samkvæmt tímaskýrslum kærðu áttu þær allnokkur samskipti um málið í síma og á fundum.

 Rekstur máls fyrir sýslumannsembættum landsins eða öðrum stjórnvöldum fellur utan lagaheimilda um veitingu gjafsóknarleyfis.

 Telur nefndin samkvæmt framangreindu að kærða hafi við rekstur málsins gegn sambýlismanninum fyrrverandi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 d) Þann 27. ágúst 2003 veitti kærandi kærðu umboð til að kanna réttarstöðu sína gagnvart A- og B-hreppi vegna uppsagnar á ótímabundnum ráðningarsamningi og uppsagnar á leiguhúsnæði, en kærandi hafði þá starfað sem leiðbeinandi í grunnskóla í sveitarfélaginu. Kærða ritaði sveitarfélaginu af þessu tilefni bréf í lok ágúst og óskaði eftir gögnum um málið. Samkvæmt tímaskýrslu kærðu bárust einhver gögn um málið frá sveitarfélaginu í lok september 2003.

 Ekki er að sjá af gögnum málsins að meira hafi verið unnið í málinu fyrr en síðla vetrar 2004. Undir lok apríl lágu fyrir drög að kröfubréfi til sveitarfélagsins og gengu þau drög á milli lögmannsstofunnar og kæranda nokkrum sinnum. Samhliða fór fram gagnaöflun og var það liður í undirbúningi kröfugerðarinnar.

 Kröfubréfið var sent lögmanni sveitarfélagsins þann 1. júlí 2004 en kröfunni var hafnað þá síðar um sumarið. Gjafsóknarbeiðni var send vegna málsins þann 13. október 2004 og dómsmál síðan höfðað gegn sveitarfélaginu x. febrúar 200x.

 Samkvæmt bréfaskriftum milli kæranda og lögmannsstofu kærðu fór í lok febrúar 2004 að gæta mikillar óþolinmæði af hálfu kæranda vegna seinagangs sem hún taldi vera á rekstri þeirra mála sem hún hafði falið kærðu að sinna fyrir sig, þ. á m. bótamálsins gagnvart sveitarfélaginu. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi upplýsingum að mikil gagnaöflun, ef þá nokkur, hafi upp úr þessu farið fram til undirbúnings að framsetningu kröfugerðar gagnvart sveitarfélaginu. Alllangur tími leið þar til kröfubréfið var sent í byrjun júlí. Þá liðu 5-6 mánuðir frá því afstaða sveitarfélagsins til kröfugerðar kæranda lá fyrir og þar til stefna var gefin út og málið þingfest. Rúmlega 17 mánuðir liðu frá því kærandi veitti kærðu umboð til að gæta hagsmuna sinna í málinu og til málshöfðunar.

 Að mati úrskurðarnefndar lögmanna er sá tími, sem leið frá því kærða tók að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda í máli gegn sveitarfélaginu og þar til kröfugerð lá fyrir, eða um 10 mánuðir, og svo, frá því afstaða sveitarfélagsins lá fyrir og þar til stefna var gefin út og málið þingfest, óþarflega langur og liggja engar fullnægjandi skýringar fyrir um hvað hafi tafið málið. Telur nefndin að málið hafi ekki verið rekið áfram með hæfilegum hraða, svo sem lögmanni er skylt að gera samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna. Verða þessar tafir á rekstri málsins að teljast vera aðfinnsluverðar.

 e) Eins og kemur fram í gögnum málsins gat fyrrverandi sambýlismaður kæranda látið umskrá bifreið á sitt nafn, á svipaðan hátt og íbúð þeirra, þ.e. með gerningi sem undirritaður var af kæranda. Áhvílandi lán frá Glitni var hins vegar á nafni kæranda og fór skuldskeyting ekki fram samhliða umskráningunni. Maðurinn hélt láninu í skilum fram í mars 2004.

 Samkvæmt gögnum málsins leituðust kærandi og kærða við að fá kröfu Glitnis á hendur kæranda fellda niður. Þá var reynt að koma því svo fyrir að bætur frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjóns er varð á bifreiðinni yrðu notaðar til að greiða upp kröfu Glitnis. Afstaða Glitnis virtist vera ljós í byrjun sumars 2004, þegar kærandi leitaði upplýsinga þaðan um stöðu sína sem skuldara að áhvílandi láni, sem þá var nýlega komið í vanskil. Kærandi fékk upplýsingar um að hún bæri ábyrgð á greiðslu lánsins.

 Það var ekki á færi kærðu að ná fram skuldskeytingu á láninu frá Glitni eða niðurfellingu þess, nema með samþykki lánveitanda. Gögn málsins bera ekki með sér að lánveitandinn hafi tekið undir beiðnir þar að lútandi. Verður ekki séð að kærða hafi vanrækt starfsskyldur sínar gagnvart kæranda þegar unnið var að því að fá lánið niðurfellt og síðar, þegar reynt var að fá útborgaðar eða kyrrsettar bætur frá VÍS vegna tjóns á bifreiðnni til að greiða lánið.

 f) Fyrrverandi sambýlismaður kæranda skaðaði framtennur hennar með ofbeldi og varð hún fyrir nokkrum kostnaði vegna tannviðgerða sem frá þessu stöfuðu. Yfirlit um kostnaðinn var sent til kærðu í lok nóvember 2003. Kvörtun kæranda lýtur m.a. að því að ekkert hafi verið gert til að innheimta þennan kostnað hjá tjónvaldinum. Taldi hún sig hafa upplýsingar um það að hún fengi ekki greiðslu úr Tryggingastofnun ríkisins nema fullreynt væri að tjónvaldurinn væri ógjaldfær.

 Hagsmunir kæranda að því er þessa kröfu varðaði voru því þeir að geta sýnt fram á ógjaldfærni tjónvaldsins, sambýlismannsins fyrrverandi, með árangurslausri fjárnámsgerð. Árangurslaus fjárnámsgerð í málinu um fjárkröfur kæranda vegna sambúðarslitanna gat gagnast kæranda í þessu skyni.

 Samkvæmt skjölum málsins upplýsti kærandi kærðu, á fundi í janúar 2004, að hún gæti ekki greitt reikninga vegna lögmannsaðstoðar fyrr en eitthvað kæmi út úr þeim málum, sem kærða vann að fyrir hana. Í þessu ljósi gat verið óvarlegt að stofna til mikils kostnaðar fyrir kæranda með rekstri dómsmáls gagnvart tjónvaldinum, þegar árangurslaus fjárnámsgerð í öðru máli, sem lengra var komið í rekstri, gagnaðist að þessu leyti. Fram er komið í málinu að eftir að dómur gekk þann x. júlí 200x auðnaðist ekki að ná sambýlismanninum fyrrverandi í fjárnámsgerð, þannig að hægt væri að gera hjá honum árangurslaust fjárnám. Með vísan til þessa verður ekki talið að kærða hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart kæranda að því er þennan þátt málsins varðar.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Dráttur á rekstri skaðabótamáls vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi, sem kærða, P, hrl., tók að sér fyrir kæranda, H, er aðfinnsluverður.

 Kærða hefur í öðrum verkefnum er hún vann að fyrir kæranda ekki gert á hennar hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.