Mál 13 2005

Ár 2006, mánudaginn 30. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn, Gestur Jónsson og Kristinn Bjarnason. Berglind Svavarsdóttir tók þátt í afgreiðslu málsins frá Húsavík gegnum síma. Allir nefndarmenn höfðu gögn málsins og drög að úrskurði við afgreiðslu þess.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2005:

 

H

gegn

P, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 27. apríl 2005 frá H, kæranda, þar sem kvartað var yfir starfsháttum P, hrl., í forsjármáli kæranda og barnsmóður hans, en kærða var lögmaður barnsmóðurinnar í málinu. Erindið tengdist fyrra erindi kæranda í máli nr. 11/2005 fyrir nefndinni, sem sætti frávísun í úrskurði, uppkveðnum 31. maí 2005.

Kærða sendi nefndinni greinargerð um erindi kæranda þann 18. október 2005. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 7. febrúar 2006. Kærða sendi nefndinni tölvupóst þann 28. mars 2006 þar sem hún kvaðst ekki mundu gera frekari athugasemdir en þegar hefðu komið fram.

Málsatvik, kröfur og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í apríl 2003 stefndi barnsmóðir kæranda honum fyrir dóm í forsjármáli vegna dóttur þeirra. Í lok apríl 2003 fór barnsmóðirin þess á leit við héraðsdóm að kveðinn yrði upp úrskurður þess efnis að henni yrði veitt bráðabirgðaforsjá þar til dæmt yrði um forsjána í forsjármálinu.

Undir rekstri forsjármálsins, nánar tiltekið í lok júlí 2003, var dómkvaddur matsmaður, sálfræðingur, til að meta forsjárhæfni foreldranna. Matsmaðurinn mun hafa óskað eftir því við héraðsdómarann í forsjármálinu, þann 10. október 2003, að fá að skila bráðabirgðaskýrslu sem lögð yrði fram í bráðabirgðaforsjármálinu. Þann xx. október s.á. var barnsmóðurinni veitt bráðabirgðaforsjá með úrskurði.

Kærandi taldi matsmanninn, í bráðabirgðaskýrslu sinni, hafa rofið trúnað við sig og vera sér að auki mjög andsnúinn. Hætti hann af þeim sökum samstarfi við matsmanninn í matsmálinu í lok október 2003. Endanleg matsgerð lá fyrir 28. nóvember 2003, en samkvæmt henni taldi matsmaðurinn kæranda óhæfan til forsjár dóttur sinnar og jafnframt brýnt að hún yrði vernduð fyrir honum. Á grundvelli matsgerðarinnar kærði barnsmóðirin kæranda þann 9. mars 2004 til lögreglu fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur þeirra. Að lokinni rannsókn málsins var það fellt niður af hálfu ríkissaksóknara þann xx. september 200x, enda þótti það sem kom fram við rannsóknina ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis.

Kærandi fór fram á yfirmat um forsjárhæfni sína og barnsmóður sinnar. Í yfirmatsgerð, sem lá fyrir þann 21. desember 2004, var komist að annarri niðurstöðu en í undirmati, en yfirmatsmenn töldu báða foreldra forsjárhæfa, héldu þeir sig frá misnotkun áfengis og lyfja.

Kærandi kærði undirmatsmanninn til siðanefndar Y-félags Íslands, sem í áliti sínu þann xx. apríl 200x komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki unnið í samræmi við siðareglur Y-félagsins á þann hátt, sem nánar var lýst í álitinu. Var hann því áminntur skriflega.

Undir rekstri forsjármálsins krafðist kærandi þess fyrir sýslumanninum í Reykjavík að barnsmóður hans yrði gert að greiða dagsektir vegna tálmana á umgengnisrétti hans við dóttur sína. Kærða greip til varna fyrir hönd móðurinnar með greinargerð til sýslumanns, dags. 24. febrúar 2005, þar sem færð voru fram ýmis rök fyrir því hvers vegna ætti að hafna kröfu kæranda. Var þar m.a. vísað til ásakana um kynferðislegt ofbeldi kæranda gagnvart dóttur sinni og atriða úr matsgerð C er lutu að forsjárhæfni foreldranna.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar telur kærandi að kærða hafi haft forgöngu um það að matsmaður í forsjármáli um dóttur hans yrði fenginn til að stunda sálfræðilega meðferð á dótturinni, en kærandi telur matsmanninn hafa stórskaðað samband sitt við dóttur sína.

Kærandi telur það mjög óeðlilegt að lögmaður skuli þannig leggja til að dómkvaddur matsmaður, sem á eftir að staðfesta skýrslu sína fyrir dómi, skuli verða tilnefndur sem meðferðaraðili barnsins, sérstaklega í ljósi þess sem á undan sé gengið. Kærandi bendir á að þetta sé sérstaklega fordæmt af siðanefnd Y-félagsins, þar sem fram komi að nauðsynlegt sé að forðast hlutverkaárekstra í starfi sálfræðinga. Þannig eigi sálfræðingur, sem vinni að matsgerð í forsjármáli, ekki undir neinum kringumstæðum að taka að sér sálfræðilega meðferð aðila í málinu.

Kærandi kvartar einnig yfir því að kærða hafi aldrei viljað neinar sættir í málinu. Hún hafi hafnað öllum tilraunum til að leysa málið í friði og spekt, sem auðvitað hafi bitnað illilega á barninu.

Loks telur kærandi að kærða hafi brotið gegn siðareglum lögmanna með því að breiða út rangar, ólöglegar og svívirðilegar ásakanir á hendur sér í málinu fyrir sýslumannsembættinu í Reykjavík, þar sem kærandi krafðist þess að barnsmóðir hans yrði beitt dagsektum vegna tálmana á umgengnisrétti. Bendir kærandi í þessu sambandi á að í yfirmatsgerð í forsjármálinu hafi allar þessar ásakanir verið hraktar og jafnframt að lögreglurannsókn hafi farið fram, sem leitt hafi í ljós að ekki hafi verið grundvöllur fyrir þessum ásökunum. Kærða hafi því ekki í góðri trú getað teflt fram þessum ásökunum í bréfi til sýslumannsembættisins.

III.

Í greinargerð kærðu til úrskurðarnefndar kveður hún umbjóðanda sinn hafa talið dóttur sína geta haft gagn af því að fara til sálfræðingsins, C, í frekari sálfræðimeðferð, þar sem hann hefði náð mjög vel til hennar. Kveðst kærða geta fullyrt að hún hafi bent umbjóðanda sínum á að ekki væri víst að matsmaðurinn í forsjármálinu treysti sér til að veita dóttur hennar sálfræðimeðferð með matsmálinu væri ólokið. Kærða kveðst ekki hafa beðið matsmanninn um að taka dótturina í viðtalsmeðferð. Um það hafi umbjóðandi hennar séð um ein og óstudd.

Í greinargerð sinni gerir kærða grein fyrir nokkrum öðrum atriðum málsins og telur sig m.a. geta fullyrt að staða dóttur umbjóðanda síns væri verulega lakari ef ekki hefði notið við þess stuðnings er barnið hefði fengið í sálfræðiviðtölunum hjá matsmanninum. Telur kærða kvörtun kæranda á misskilningi byggða.

Niðurstaða.

I.

Meðal gagna málsins er afrit af bréfi kærðu til barnaverndar Reykjavíkur, dags. 8. janúar 2004, þar sem m.a. kemur fram að af hálfu barnaverndar hafi verið gerð tillaga að áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002. Í bréfinu kemur m.a. einnig fram eftirfarandi:

„Fyrir hönd umbj. míns er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á áætluninni:

1. …

2. Lagt er til að barnið fái stuðningsviðtöl hjá C sálfræðingi, en hann hefur lýst sig reiðubúinn til að sinna barninu.“

Eins og áður er komið fram kveðst kærða ekki hafa beðið matsmanninn um að taka dótturina í stuðningsviðtöl, um það hafi umbjóðandi hennar séð.

Úrskurðarnefndin telur eðlilegt að skilja framsetningu í bréfi kærðu til barnarverndar Reykjavíkur svo að þar sé verið að leggja fram sérstaka ósk móður barnsins um að matsmaðurinn taki það í stuðningsviðtöl. Telur nefndin þannig ekki fram komið að kærða hafi að eigin frumkvæði eða hvatt til þess að leitað yrði frekari aðstoðar sálfræðingsins, utan starfa hans sem matsmanns. Að þessu leyti telur nefndin að kærða hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

II.

Sem lögmanni bar kærðu fyrst og fremst að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns, sbr. 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Gegn óskum eða fyrirmælum umbjóðanda síns gat hún ekki sætt málið. Ekki er fram komið að umbjóðandi hennar hafi falið henni að leita sátta í málinu. Að þessu leyti hefur kærða ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

III.

Í greinargerð kærðu til sýslumannsins í Reykjavík, þar sem fjallað var um kröfu kæranda til sýslumanns um að barnsmóðir hans yrði beitt dagsektum vegna tálmana á umgengnisrétti, voru færð fram ýmis rök fyrir því hvers vegna ætti að hafna kröfu kæranda. Var þar m.a. vísað til ásakana um kynferðislegt ofbeldi kæranda gagnvart dóttur sinni og atriða úr matsgerð C, sálfræðings, er lutu að forsjárhæfni foreldranna. Tilfærði kærða orðrétt nokkur atriði úr matsgerðinni, m.a. um hið meinta kynferðilega ofbeldi.

Greinargerðin var send sýslumanni þann 24. febrúar 2005. Fimm mánuðum áður, eða þann xx. september 200x, var ríkissaksóknari búinn að fella niður kæru barnsmóður kæranda vegna meints kynferðislegs ofbeldis hans gagnvart dóttur þeirra, þar sem það sem kom fram við rannsókn málsins þótti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Þann 24. febrúar 2005 lá einnig fyrir yfirmatsgerð, dags. 21. desember 2004, þar sem báðir foreldrar voru taldir hæfir til að fara með forsjá barnsins, að því tilskildu að þeir héldu sig frá misnotkun áfengis og lyfja. Í yfirmatsgerðinni voru gerðar margvíslegar athugasemdir við vinnubrögð og niðurstöður undirmatsmannsins, C.

Ásökun barnsmóður kæranda, um kynferðislegt ofbeldi af hans hálfu gagnvart dóttur þeirra, varðaði mjög alvarlegt brot gagnvart barninu, sem sætti rannsókn hjá þar til bæru yfirvaldi. Í ákvörðun ríkissaksóknara kemur fram að hann hafi, að undangenginni rannsókn málsins, komist að þeirri niðurstöðu að það sem fram væri komi þætti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis og málið því fellt niður. Að fenginni þeirri niðurstöðu mátti, að mati úrskurðarnefndar, gera þá kröfu til kærðu að halda ekki þessari alvarlegu ásökun fram fyrir umbjóðanda sinn á öðrum vettvangi nema að minnsta kosti að geta þess í leiðinni hver niðurstaðan hafði orðið í lögreglurannsókninni.

Að mati nefndarinnar var í greinargerðinni til sýslumanns að þessu leyti gengið lengra á lögmæta hagsmuni kæranda, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna, en réttmætir og lögmætir hagsmunir umbjóðanda kærðu vegna dagsektarkröfunnar gáfu tilefni til. Telur nefndin þessi vinnubrögð kærðu aðfinnsluverð, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Tilgreining kærðu, P, hrl., á ásökun í garð kæranda, H, um kynferðislegt ofbeldi gagnvart dóttur sinni, án þess að geta um niðurstöðu lögreglurannsóknar og niðurfellingu kæru í því sambandi, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA