Mál 14 2005

Ár 2006, mánudaginn 2. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 14/2005:

 A

gegn

R, hdl.,

og

S, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi B, hdl., fyrir hönd A, kæranda, dags. 14. september 2005, er kvartað yfir meintu broti R, hdl., og S, hrl., kærðu, á trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart kæranda.

 T, hrl., skilaði greinargerð fyrir hönd kærðu, dags. 11. nóvember 2005. Af hálfu kæranda voru gerðar athugasemdir við greinargerðina þann 20. desember 2005. Þeim athugasemdum var svarað með bréfi lögmanns kærðu, dags. 12. janúar 2006.

 Málsatvik, kröfur og málsástæður

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að frá árinu 2000 starfaði kærandi sem framkvæmdastjóri hjá Bílaleigu C ehf. Vorið 2004 hóf hann störf hjá annarri bílaleigu og lét hann af störfum hjá fyrri vinnuveitanda sama dag og hann tilkynnti vistaskiptin.

 Skömmu áður en kærandi lét af störfum hjá C þáði hann lögfræðilega ráðgjöf frá starfsmanni U, um einkamálefni sín. Samskipti hans og starfsmanns lögmannsstofunnar fóru m.a. fram með tölvupósti.

 Bílaleiga C ehf. taldi kæranda hafa gerst sekan um brot á nokkrum ákvæðum í starfssamningi sínum og bílaleigunnar er vörðuðu trúnað og bann við samkeppni. Af þessum sökum var ákveðið að höfða mál gegn kæranda og var kærða S hjá U falinn málareksturinn. Dómsmál var höfðað þann x. júní 200x og það þingfest í Héraðsdómi V tveimur dögum síðar, þann x. júní. Samkvæmt stefnu málsins fór kærði S með málið fyrir hönd C, en undir stefnuna ritaði kærði R fyrir hans hönd.

Meðal gagna sem lögð voru fram við þingfestingu málsins af hálfu C var tölvupóstur, alls um 54 blaðsíður, sem kærandi hafði sent sjálfum sér um það leyti er hann lét af störfum hjá C, en í tölvupósti þessum voru ýmsar upplýsingar sem C taldi sanna trúnaðarbrot kæranda gagnvart sér. Í tölvupósti þessum, sem lagður var fram sem dómskjal nr. 15, var einnig tölvupóstur sá, sem farið hafði milli kæranda og lögmannsstofunnar þegar honum var veitt ráðgjöfin um sín persónulegu málefni.

 Kærandi kvartaði til Persónuverndar vegna meðferðar C og kærðu á tölvupóstinum í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins. Persónuvernd ákvað að aðhafast ekki að svo stöddu um kvörtunina, þar sem rekið væri héraðsdómsmál um ágreiningsefnið og þar kynni að verða tekin efnisleg afstaða til lögmætis á meðferð tölvupóstsins.

 Kærandi taldi kærðu hafa rofið trúnað gagnvart sér með því að leggja tölvupóstinn um sín persónuleg málefni fram í héraðsdómsmálinu og kærði þá þess vegna til úrskurðarnefndar lögmanna með erindi, er barst henni þann 29. september 2005.

 Við fyrstu fyrirtöku héraðsdómsmálsins, þann x. október 200x, sammæltust lögmenn aðila um að taka út úr tölvupóstinum á dskj. 15 tiltekin atriði, sem vörðuðu hin persónulegu málefni kæranda.

 Með úrskurði Héraðsdóms V, uppkveðnum þann x. nóvember 200x, var máli C gegn kæranda vísað frá dómi þar sem kröfugerð í stefnu fullnægði ekki meginreglum einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar kvartar kærandi yfir því að kærðu hafi brotið trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart sér. Vísar kærandi m.a. til þess að kærðu hafi ekki aðeins fjallað um málefni sín við annan skjólstæðing, þ.e. C, heldur hafi hinar viðkvæmu upplýsingar, sem aflað hafi verið með ólögmætum hætti með því að brjótast inn í pósthólf kæranda, án hans samþykkis, verið gerðar opinberar með framlagningu í dómsmáli. Gögnin hafi farið um fjöldamargar hendur og jafnvel fjölfaldaðar til framlagningar í dómsmálinu. Þinghöld séu opinber og dómsendurrit séu aðgengileg almenningi, m.a.s. birt á veraldarvefnum færi málið fyrir Hæstarétt.

 Kærandi heldur því fram að það séu lögmenn sem ákveði og ráðleggi skjólstæðingum sínum um framlagningu gagna. Að minnsta kosti hafi hvílt á herðum kærðu þær skyldur að koma í veg fyrir að gögn, sem innihalda viðkvæmar einkalífsupplýsingar um kæranda, komi fyrir sjónir annarra aðila, hvort sem það eru dómarar eða aðrir starfsmenn Héraðsdóms, mætingalögmenn, starfsfólk ljósritunarstofa, almenningur sem fylgist með dómsmálinu eða aðrir aðilar sem kynnu að sjá upplýsingarnar. Þetta hafi sérstaklega átt við þar sem um var að ræða upplýsingar er stöfuðu frá þeirra eigin lögmannsstofu og vörðuðu ráðgjöf þaðan til kæranda.

 Telur kærandi vera ljóst að með háttsemi sinni hafi kærðu brotið gróflega gegn þagnar- og trúnaðarskyldu, sem ríkja skal milli lögmanna og skjólstæðinga þeirra. Kærandi tekur fram að umræddar upplýsingar höfðu ekkert erindi inn í héraðsdómsmálið og höfðu ekkert gildi fyrir það mál.

 Kærandi telur kærðu hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs, gegn lögum um persónuvernd nr. 77/2000 og gegn ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998, og siðareglna lögmanna. Telur kærandi háttsemina jafnvel geta varðað refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum, einkum 228. og 229. grein.

 Kærandi kveðst sérstaklega vísa til ákvæða lögmannalaga, einkum 18. og 22. gr. laganna, en samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu beri lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Telur kærandi þetta ákvæði varða öll atriði á skrifstofu lögmanns og alla starfsmenn. Lögmanni sé þannig óheimilt að skýra frá atriðum er hann kann að komast að varðandi umbjóðendur samstarfsmanna sinna á skrifstofunni, sama hvernig hann komist að þeim upplýsingum.

 Kærandi telur í öllu falli að a.m.k. megi gera þær kröfur til hinna kærðu lögmanna að þeir stuðli ekki að því að ráðgjöf samstarfsmanns þeirra á sömu skrifstofu, veitt kæranda í nafni sömu lögmannsstofu, sé gerð opinber með framlagningu í dómsmáli gegn sér þar sem kærðu gæti annarra hagsmuna. Telur kærandi að kærðu hefðu getað með lítilli fyrirhöfn fjarlægt atriðin um einkalíf sitt úr tölvupóstinum, áður en þeir lögðu gögnin fram.

 Kærandi vísar einnig til 6. og 17. gr. siðareglna lögmanna. Vafalaust sé að samkvæmt 17. gr. reglnanna beri kærðu einnig þagnarskyldu um upplýsingar er stafa frá félaga þeirra á stofunni, er veitti kæranda lögfræðilegu ráðgjöfina um einkamálefni sín.

 Kærandi kveðst byggja mál sitt á því að skoðun og umfjöllun gagnanna við starfsmenn C og framlagning gagnanna í dómsmálinu samsvari því að láta óviðkomandi aðilum gögnin í té. Einnig eigi 35. gr. siðareglna lögmanna við í þessu máli.

 Kærandi telur ljóst vera að hinir kærðu lögmenn hafi með háttsemi sinni brotið gegn góðum lögmannsháttum og krefst þess að úrskurðarnefndin kveði úr um það hvort háttsemin sé aðfinnsluverð og að kærðu verði eftir atvikum veittar áminningar.

 III.

Kærðu krefjast þess aðallega að kröfum kæranda verði hafnað og að ekki verði aðhafst frekar í málinu af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Til vara er þess krafist að kærðu verði ekki beittir viðurlögum í málinu.

 Aðalkrafa kærðu byggist á eftirgreindum málsástæðum:

 1. Kærðu telja kærða R hafa starfað á ábyrgð kærða S að dómsmálinu, sem starfsmaður á lögmannsstofunni. Hafi hann ekki borið persónulega ábyrgð á lögmannsstörfum sínum, heldur hafi sú ábyrgð hvílt á vinnuveitanda hans, sbr. m.a. 11. gr. og 2. töluliður 2. mgr. 12. gr. lögmannalaga og 1. mgr. 38. gr. siðareglna lögmanna.

 2. Kærðu kveðast hafa gætt ítrustu varúðar og góðra og vandaðra lögmannshátta við framlagningu hins umdeilda dómskjals. Þeir benda á að í stefnu málsins hafi verið vakin sérstök athygli á því að óhjákvæmilegt hafi verið að leggja skjalið fram í heild sinni, en að tölvupósturinn hafi í raun falið í sér marga tölvupósta. Í stefnunni hafi verið tekið fram að fyllilega kæmi til greina af hálfu stefnanda, í samráði við lögmann stefnda, að strika út tölvupósta sem ekki vörðuðu dómsmálið sérstaklega.

 Sérstök athygli kæranda og lögmanns hans hafi þannig verið vakin á því að skjalið yrði lagt fram en þess hefði jafnframt verið getið að til greina kæmi að strika út þá tölvupósta sem ekki vörðuðu málið sérstaklega. Kærðu hafi þannig gætt fagmennsku er þeir vöktu athygli kæranda og lögmanns hans á framlagningunni. Lögmaður kæranda hefði skrifað upp á stefnuna og tekið við gögnum málsins þann x. júní 200x, tveimur dögum fyrir þingfestingu málsins, án þess að gera athugasemdir þar við. Kærðu hafi því verið í góðri trú er þeir létu þingfesta málið þann x. júní 200x, en að áfram hafi staðið boðið um að strika út hluta dómskjalsins.

 3. Kærðu kveða sammæli hafa verið með aðilum um útstrikun hluta dómskjals nr. 15 við meðferð málsins. Skjalið og málið í heild hafi þannig verið í þeim farvegi sem í upphafi var stefnt að. Með samþykki sínu fyrir framlagningu skjalsins í breyttri mynd yrði að telja kæranda hafa samþykkt þann hátt, sem á var hafður við framlagninguna. Vart yrði séð hvernig kærandi gæti haldið kæru þessari til streitu samhliða slíku samþykki.

 4. Kærðu mótmæla þeirri staðhæfingu kæranda, að upplýsingar þær, sem fram kæmu í dskj. 15, hafi verið gerðar opinberar með framlagningu skjalsins. Framlagningin fæli ekki í sér opinbera birtingu þeirra, handhöfn kærðu á upplýsingunum gæti ekki talist opinber birting og það, að þinghöld væru opin, fæli ekki í sér aðgang almennings að gögnum máls. Efni dómskjals nr. 15 yrði ekki aðgengilegt þótt dómsendurrit kynni að vera aðgengilegt á veraldarvefnum, að því leyti sem upplýsingar í því vörðuðu ekki efnislega niðurstöðu málsins.

 Kærðu mótmæla þeirri röksemd kæranda að þær skyldur hvíli á herðum lögmanna að koma í veg fyrir að gögn, sem innihaldi viðkvæmar einkalífsupplýsingar, komi fyrir sjónir annarra aðila, hvort sem það eru dómarar eða aðrir starfsmenn dómstóla, mætingalögmenn o.s.frv. Þessi röksemdafærsla, ef rétt væri, leiddi til þess að ófært væri að reka mál og leggja fram gögn fyrir dómstóla landsins. Kærðu benda á þagnarskyldu starfsfólks á lögmannsstofum og þagnarskyldu mætingalögmanna. Einnig benda þeir á skyldur dómara og starfsmanna dómstólanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

 5. Kærðu benda á að þungamiðja málatilbúnaðar C gegn kæranda lúti að meintum brotum hans á trúnaðarskyldum sínum og samkeppnisbanni gagnvart C. Í því tilliti sé tölvupósturinn á dskj. 15 grundvallarsönnunargagn, enda væri skjalinu ætlað að leiða í ljós að kærandi hefði afritað viðskipta- og trúnaðarupplýsingar úr rekstri C. Dómskjalið væri að uppistöðu til tölvupóstur, sem kærandi sendi sjálfum sér, en með honum hefðu fylgt samningar bílaleigunnar við önnur fyrirtæki, form að samningi, tölur úr rekstri bílaleigunnar o.fl.

 Kærðu telja það hafa verið alfarið á ábyrgð kæranda sjálfs að nýta tölvupósthólf sitt hjá C með þeim hætti sem hann gerði. Það breyti hins vegar ekki því að tölvupósthólfið og framangreindar upplýsingar væru í eigu C. Kærðu vísa því á bug að tölvupóstsins hefði verið aflað með ólögmætum hætti, enda hefði tölvan verið í eigu C. Ákvæði 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga ættu því ekki við í málinu.

 Kærða telja það hafa verið ákvörðun kæranda sjálfs að senda sér tölvupóst, þar sem tilteknar persónulegar upplýsingar hans fylgdu með. Fráleitt væri að telja að með því að afrita persónulegar upplýsingar inn í tölvupóst sinn hafi kærandi gert umræddan tölvupóst óaðgengilegan eða ónothæfan til framlagningar í dómsmálinu. Ef sú væri raunin, væri það hægðarleikur fyrir þá, sem vildu stela eða skjóta undan trúnaðarupplýsingum, að skeyta við þær upplýsingum persónulegs eðlis. Sú niðurstaða væri einfaldlega ekki tæk.

 Kærðu kveðast ekki hafa getað gert annað en að leggja tölvupóstinn fram í heilu lagi, eins og hann barst þeim frá tæknimönnum C. Ekki hafi verið gerlegt að eiga við tölvupóstinn að eigin frumkvæði, enda hefði það getað bitnað á trúverðugleika skjalsins. Að auki hefðu hvorki þeir né starfsmenn C verið í aðstöðu til að meta á því stigi hvaða atriði væri rétt að strika út og hver ekki. Því hafi verið farin sú eðlilega leið að koma skjalinu óbreyttu á framfæri við héraðsdóm og kæranda, en með því boði að skjalinu yrði breytt í samráði við lögmann hans.

 6. Kærðu kveða málatilbúnað kæranda byggjast að hluta á þeim misskilningi að störf Y, hdl., í þágu kæranda vörðuðu með einhverjum hætti framlagningu dómskjals nr. 15. Þetta væri ekki rétt. Skjalið hefði borist frá C í þeirri mynd, sem það var lagt fram þann x. júní 200x. Skjalið væri þannig ekki komið frá kærðu eða starfsmönnum á lögmannsstofunni.

 Kærðu kveða störf Y engu breyta hér um, enda hefði staða málsins verið sú sama, óháð því hvaða lögmaður hefði unnið í persónulegum málum kæranda á fyrri stigum málsins, hvort sem væri innan eða utan U. Það væri því bæði rangt og ósanngjarnt að gefa í skyn að kærðu hefðu gert ráðgjöf samstarfsmanns síns gagnvart kæranda opinbera í máli gagnvart honum. Þá væri rétt að nefna að ráðgjöf Y varðaði ekki deiluefnið í héraðsdómsmálinu. Ekki væri með neinum hætti byggt á hinum persónulegum upplýsingum til hagsbóta fyrir C, heldur væri það tilvist tölvupóstsins sem slíks og viðskiptaupplýsingarnar tengdar C sem mestu vörðuðu við sönnunarfærsluna í héraðsdómsmálinu.

 Kærðu kveðast aldrei hafa rætt ráðgjöf Y til kæranda við C eða nokkurn annan.

 Með vísan til alls þessa væri því alfarið mótmælt að kærðu hefðu brotið gegn 18. eða 22. gr. lögmannalaga eða 6., 17. eða 35. gr. siðareglna lögmanna.

 7. Kærðu telja þær persónulegu upplýsingar, sem væri að finna í tölvupóstinum á dskj. 15, ekki fela í sér viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 Kærðu kveðast ekki hafa brotið gegn góðum lögmannsháttum, gegn ákvæðum lögmannalaga eða siðareglna lögmanna, með framlagningu dómskjals nr. 15 í héraðsdómsmálinu gegn kæranda. Því síður hefðu þeir brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga.

 Varakrafa kærðu byggist á því að komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að þeir hafi með einhverjum hætti brotið gegn góðum lögmannsháttum, ákvæðum siðareglna lögmanna eða gegn ákvæðum lögmannalaga, þá sé vísað til þeirra röksemda og málsástæðna, sem aðalkrafan byggist á.

 Kærðu benda á að þeir hafi vakið sérstaka athygli kæranda og lögmanns hans á fyrirhugaðri framlagningu dómskjals nr. 15 í stefnu og að skjalið hafi verið lagt fram í góðri trú tveimur dögum síðar. Það hafi komið kærðu algjörlega í opna skjöldu að kærandi skyldi velja þá leið að kvarta yfir því verklagi til úrskurðarnefndar lögmanna, þegar málið var í raun sjálfleyst.

 Kærðu telja sig hafa iðkað góða lögmannshætti en ekki brotið gegn þeim. Telji úrskurðarnefndin þá hafa gerst brotlega þá sé hins vegar ljóst að um minniháttar brot sé að ræða.

 IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærðu kemur m.a. eftirfarandi fram:

 1. Kærandi telur báða hina kærðu lögmenn bera ábyrgð. Kærði R hafi skrifað stefnuna í málinu og undirritað hana. Hann hafi séð um öll samskipti vegna málsins og hafi starfað að málinu í umboði kærða S. Báðir séu því kærðir og báðir teljist hafa brotið gegn siðareglum lögmanna, kærði R fyrir háttsemi sína og kærði S sem eigandi að lögmannsstofunni, en sem slíkur beri hann ábyrgð á störfum kærða R.

 2. Kærandi mótmælir því að í aðdraganda framlagningar dómskjals nr. 15 hafi verið gætt góðra lögmannshátta. Lögmaður kæranda hafi fengið stefnu málsins afhenta einum og hálfum degi fyrir þingfestingu þess. Engin athygli hafi verið vakin á efni dómsskjals nr. 15 eða minnst á efni þess.

 3. Kærandi kveðst ekki hafa verið að samþykkja hina kærðu háttsemi með því að fallast á þá breytingu sem gerð var á dskj. 15, heldur hafi falist í þessu takmörkun á tjóni. Brotið hafi verið fullframið gagnvart sér og hafi verið það í raun strax við afhendingu dómskjalanna í héraðsdómi.

 4. Kærandi telur opinbera birtingu upplýsinga ekki eina og sér fela í sér brot gegn þagnarskyldu lögmanna. Lögmenn megi ekki segja neinum frá því sem þeir komast að í starfi sínu, hvorki opinberlega né á annan hátt. Kærandi bendir í þessu sambandi á að hin viðkvæmu gögn hafi orðið til við ráðgjöf sömu lögmannsstofu. Brot kærðu gegn þagnarskyldunni sé þannig margháttað. Kærðu hafi ekki einungis verið að upplýsa aðra aðila um einkamálefni kæranda heldur hafi þeir einnig verið að upplýsa um ráðgjöf sem orðið hafi til á þeirra eigin stofu. Yrði það að teljast vera sérstaklega ámælisvert, enda væri með þessu þverbrotinn trúnaður gagnvart kæranda sem móttekið hafi ráðgjöf frá sömu lögmannsstofunni í góðri trú um að sú ráðgjöf væri eins og önnur ráðgjöf háð þagnarskyldu lögmanna sem á stofunni störfuðu.

 5. Kærandi kveðst vísa því á bug að með því að senda sjálfum sér tölvupóst hafi hann á einhvern hátt samþykkt að kærðu mættu brjóta gegn hagsmunum sínum á þann hátt sem gert hafi verið. Hvernig tölvupósturinn var sendur geti ekki leyst kærðu undan þeirri skyldu að viðhafa góða lögmannshætti. Ef kærðu vildu ekki eiga við tölvupóstinn að eigin frumkvæði hefði þeim borið að senda lögmanni kæranda sérstakt erindi og kynna henni efni tölvupóstsins og óska eftir athugasemdum.

 6. Kærandi telur það felast í góðum lögmannsháttum að varðveita sérstaklega vel persónuupplýsingar sem stafa frá eigin stofu. Furðulegt verði að teljast að kærðu sjái ekkert athugavert við að upplýsa óviðkomandi aðila um efni trúnaðarskjala, sem verða til við ráðgjöf inni á þeirra eigin stofu.

 7. Kærandi áréttar að gagnanna hafi verið aflað með ólögmætum hætti og að kærðu hafi verið eða hafi mátt vera það ljóst.

 V.

Í athugasemdum kærðu kemur m.a. fram að athygli kæranda og lögmanns hans á dskj. 15 hafi verið vakin í stefnu málsins. Telja þeir sig hafa mátt vænta þess að kærandi eða lögmaður hans læsu stefnuna fyrir þingfestingu málsins.

 Þá benda kærðu á þann misskilning að þeir hafi hagnýtt sér með einhverjum hætti ráðgjöf eða trúnaðarupplýsingar, sem orðið hafi til á lögmannsstofu þeirra. Engu líkara sé en að þessi fullyrðing af hálfu kæranda sé sett fram gegn betri vitund, enda beri dskj. 15 með sér að það stafi frá C. Að auki hafi sérstök athygli verið vakin á því í greinargerð hvaðan skjalið hafi verið komið. Skjalið og upplýsingarnar í því hafi ekki komið frá kærðu eða samstarfsmönnum þeirra. Ráðgjöf fyrri lögmanns kæranda á U varði því þetta mál ekki á nokkurn hátt.

 Kærðu árétta að dskj. nr. 15 hafi orðið til hjá C og þaðan hafi það borist sér í þeirri mynd sem það var lagt fram sem dómskjal. Skjalið og upplýsingarnar í því séu ekki til komnar frá kærðu eða samstarfsmönnum þeirra.

 Niðurstaða.

 I.

Umsækjandi að leyfi til að vera héraðsdómslögmaður vinnur að því skriflegt heit, að viðlögðum drengskap, að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin sem lögmanni, sbr. 1. mgr. 8. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998 (LML).

 Sá, sem fengið hefur útgefið slíkt leyfi, héraðsdómslögmaður, getur ýmist starfað sjálfstætt, að uppfylltum þeim skilyrðum, sem fram koma í LML, sbr. t.d. 1. mgr. 12. gr. laganna, eða starfað hjá öðrum lögmanni eða lögmönnum og er hann þá undanþeginn skyldu að hafa opna skrifstofu og að hafa fjárvörslureikning og starfsábyrgðartryggingu. Sá lögmaður, sem hann starfar hjá, ber ábyrgð á fjárvörslum slíks starfsmanns síns og ber fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti, sbr. 3. mgr. 11. gr. LML.

 Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. LML getur sá, sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Í ákvæðinu er ekki greint milli þess hvort um sjálfstætt starfandi lögmann sé að ræða eða lögmann, sem starfar hjá öðrum lögmanni. Samkvæmt þessu er ekki útilokað að kvarta yfir háttsemi lögmanns vegna starfa hans, þótt hann starfi hjá öðrum lögmanni.

 Í stefnu C gegn kæranda kemur fram að það var kærði S sem fór með fyrirsvar í dómsmálinu. Kærði R ritaði undir stefnuna fyrir hönd kærða S og virðist að öðru leyti eingöngu hafa unnið að málinu í umboði hans. Úrskurðarnefndin telur rétt í þessu tilviki að líta svo á að kærði S hafi einn borið lögmannsábyrgð við málsóknina gagnvart kæranda, þ. á m. að því er varðaði ákvörðun um öflun, notkun og framsetningu gagna í dómsmálinu. Telst kærði R samkvæmt þessu ekki hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 II.

Skömmu áður en kærandi lét af störfum hjá C leitaði hann ráða hjá lögmannastofu kærða S um persónuleg málefni sín. Annar lögmaður á stofunni annaðist þá ráðgjöf. Kærandi mátti treysta því að með gögn og upplýsingar er tengdust þeirri ráðgjöf yrði farið á lögmannastofunni í samræmi við þær skyldur er hvíla á lögmönnum að þessu leyti samkvæmt LML og siðareglum lögmanna, sbr. m.a. 22. gr. LML og 6., 17. og 40. gr. siðareglnanna.

 Ekki liggur annað fyrir en að hið umdeilda dómskjal nr. 15 hafi sem slíkt borist kærða frá umbjóðanda hans, C. Ekki liggja fyrir nefndinni neinar upplýsingar um að kærði hafi á ólögmætan hátt aflað gagnanna til notkunar í dómsmálinu gegn kæranda.

 Ekki hefur verið sýnt fram á að varðveisla gagna og upplýsinga um hin persónulegu málefni kæranda, í því formi sem þau eru á lögmannastofu kærða eftir ráðgjöfina, sé ekki í samræmi við trúnaðarskyldur gagnvart kæranda.

 III.

Samkvæmt 22. gr. LML ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna.

 Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður aldrei, án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing. Hið sama gildir um fulltrúa lögmanns og annað starfslið, svo og félaga lögmanns á lögmannsskrifstofu og starfslið hans, sbr. 2. mgr. 17. gr. reglnanna.

 Ljóst er samkvæmt framangreindum ákvæðum að rík þagnarskylda og aðrar trúnaðarskyldur hvíla á lögmanni gagnvart skjólstæðingi sínum og flokkast þessar skyldur sem grundvallarskyldur í trúnaðarsambandi lögmanns og skjólstæðings hans. Skylda lögmanns til að halda upplýsingum frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni það ekki, byggist á 1. mgr. 6. gr. siðareglnanna. Nær skylda samkvæmt þessu ákvæði m.a. til upplýsinga, er lögmaður fær í starfi og sem geta varðað gagnaðila umbjóðanda hans eða aðra, sem lögmaðurinn er ekki í trúnaðarsambandi við á grundvelli 22. gr. LML og 17. gr. siðareglnanna.

 Dómskjal nr. 15 liggur fyrir í gögnum málsins. Það ber með sér að hafa verið tekið saman af verkefnastjóra hjá móðurfélagi C, samkvæmt beiðni starfsmanns bílaleigunnar. Skjalið er 54 blaðsíður að lengd. Þar af er tölvupóstur milli kæranda og lögmanns hans, þar sem fjallað er ítarlega um erfðamál og önnur mál, sifjaréttarlegs eðlis, á 13-14 blaðsíðum.

 Með vísan til framangreindra ákvæða lögmannalaga og siðareglna lögmanna telur nefndin þá skyldu hafa hvílt að kærða að leggja upplýsingarnar á dómskjali nr. 15 ekki fram á þann hátt sem gert var, enda var völ annarra kosta. Telur nefndin jafnframt að gera hafi mátt sérstaklega ríkar kröfur að þessu leyti til kærða þar sem um upplýsingar var að ræða er stöfuðu frá lögmannsþjónustu við kæranda sem veitt var á lögmannsstofu kærða. Nefndin telur úrræði þau, er felast í 10. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, einkum 1. og 2. mgr. 67. gr. og 1. mgr. 69. gr. laganna, hafa átt að duga til koma dómskjali nr. 15 að sem sönnunargagni í dómsmálinu gagnvart kæranda, þó svo upplýsingarnar um hin persónulegu málefni hans yrðu teknar úr skjalinu, án þess að með því væri rýrður trúverðugleiki þess sem sönnunargagns.

 Að þessu virtu telur nefndin að kærði hafi, með því að taka upplýsingarnar ekki út úr dómskjali nr. 15, eða að hafa ekki viðhaft aðrar ráðstafanir er miðuðu í sömu átt fyrir þingfestingu dómsmálsins, brotið gegn 6. og 17. gr. siðareglna lögmanna og 22. gr. LML.

 Á hitt ber að líta að í stefnu málsins kallaði kærði eftir samráði við kæranda um útstrikun upplýsinga úr skjalinu og veitti kæranda þannig tækifæri til að hafa áhrif á framsetningu skjalsins, áður en málið var þingfest. Kærandi nýtti sér ekki það boð fyrr en eftir þingfestingu málsins, en samráð tókst um útstrikun upplýsinga í fyrsta þinghaldi.

 Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin vinnubrögð kærða, S, hrl., við meðferð upplýsinganna á dómskjali nr. 15 aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Meðferð kærða, S, hrl., á upplýsingum um persónulega hagi kæranda, A, í dómsmáli C ehf. gegn kæranda, er aðfinnsluverð.

 

SÉRATKVÆÐI

Ég er sammála öðrum nefndarmönnum um annað en það sem lýtur að ábyrgð R, hdl. Staða hans er skv. 3. mgr. 11. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og að öllu leyti sambærileg við réttarstöðu annarra lögmanna með þeirri undantekningu að lögmaðurinn, sem hann starfar hjá, ber ábyrgð á fjárvörslu hans svo og fébótaábyrgð á störfum hans a.ö.l. Þetta er ólíkt stöðu lögmannsfulltrúa skv. 2. mgr. Starfa þeir í umboði vinnuveitanda síns og á ábyrgð hans. Samanburðarskýring á 2. og 3. mgr. sýnir að lögmenn, sem starfa hjá öðrum lögmönnum, gera það á grundvelli eigin starfsréttinda sem opinberir sýslunarmenn sbr. 2. mgr. 1. gr. lögmannalaga.

Umræddur lögmaður ber því sjálfstæðar skyldur sem opinber sýslunarmaður skv. lögum og breytir samningssamband hans við annan lögmann þar engu um. Leiðir þetta einnig af 1. mgr. 8. gr. lögmannalaga um að rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að vera falin sem lögmanni. Sjá og 18. gr. sl. Í 1. mgr. 27. gr. getur hver sá sem hefur tiltekin umkvörtunarefni á hendur lögmanni lagt þau fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Sú grein veitir lögmönnum ekkert skjól þótt þeir komi fram í umboði annars lögmanns. Breytir engu þótt sá gæti borið sjálfstæða ábyrgð á háttsemi hins.

Húsbóndavald eins lögmanns yfir öðrum í skjóli vinnusamnings er einkaréttarlegur samningur tveggja aðila. Sá samningur getur engu breytt um þær sjálfstæðu skyldur sem lögmaður ber sem opinber sýslunarmaður. Skiptir þar engu þótt sá lögmaður, sem hjá öðrum vinnur, geti komist í óþægilega aðstöðu ef hann fær skipun um að gera eitthvað sem ekki samræmist stöðu hans sem lögmanns. Allir sem bera réttindi og skyldur þurfa að axla þær, óháð þeim óþægindum sem slíku kunna að fylgja. Lögmaður má ekki hafast það að sem stríðir gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt framansögðu eru skyldur lögmanns ætíð sjálfstæðar. Reglur fjármunaréttarins um ábyrgðarleysi umboðsmanns sem starfar í krafti lögmæts umboðs eru annars eðlis. Þær gilda ekki gagnvart opinberum skyldum sem menn hafa unnið drengskaparheit að virða. Með einkaréttarlegum samningum getur lögmaður ekki fært slíkar skyldur yfir á annan lögmann. Í raun breytir engu hvort lögmaður, sem starfar í umboði annars, geri það sem starfsmaður hans eða sem undirverktaki. Í ýmsum tilvikum gæti lögmanni verið ókunnugt um að verið sé að leggja fram skjöl með þeim hætti að það stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. t.d. “mætingarlögmenn”. Ábyrgðarleysi þeirra myndi markast af staðreyndavillu (error facti) en ekki vegna þess að þeir starfi í umboði annars lögmanns. Væri slíkum lögmönnum kunnugt um staðreyndir máls bæri þeim sem opinberum sýslunarmönnum að neita að ljá atbeina sinn til slíkrar skjalaframlagningar og bregðast við samkvæmt því.

Hjá hvorugum lögmannanna, S eða R, er staðreyndavillum fyrir að fara. Má m.a. ráða það af greinargerð þeirra fyrir nefndinni dags. 11.11.2005 en þar segir undir lið 2 á bls. 3: „Skal þess getið að fyrir höfðun málsins fóru umbjóðendur mínir vandlega yfir málið ásamt öðrum lögmönnum U með tilliti til þess hvernig rétt væri að leggja umrætt skjal fram.” Báðir lögmennirnir tóku ákvörðun í sameiningu um að vinna að málinu með þeim hætti sem lýst hefur verið og bera persónulega ábyrgð á þeirri háttsemi.

Samkvæmt framansögðu tel ég að finna eigi að störfum R hdl. með sama hætti og fundið er að störfum S hrl.