Mál 16 2005

Ár 2006, mánudaginn 25. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 16/2005:

 

S

gegn

H, hrl.,

I, hrl.

og J, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi S, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 14. júlí en mótteknu 29. september 2005, er kvartað yfir störfum og áskildu endurgjaldi fyrir lögmannsstörf er lögmenn á K lögmannsstofu inntu af hendi fyrir kæranda, við innheimtu tryggingarvíxils, sem kærandi hafði fengið við sölu á fyrirtæki sínu í febrúar 1998. Kærandi tilgreinir í kæru sinni lögmennina H, hrl., I, hrl. og J, hrl., sem öll eru meðal eigenda K lögmannsstofu.

 I.

Með erindi kæranda fylgdu afrit gagna er vörðuðu málareksturinn. Í síðasta þætti hans var kveðinn upp dómur í Hæstarétti Íslands þann x. september 200x, þar sem tekin var til greina krafa gagnaðila á hendur kæranda um endurgreiðslu þess, sem gagnaðilinn hafði áður greitt í víxilmáli kæranda gegn honum.

 Nokkrir lögmenn á K lögmannsstofu höfðu afskipti af málarekstrinum fyrir kæranda, þ. á m. kærða I við rekstur víxilsmálsins fyrir kæranda, og kærði H í málsvörn fyrir kæranda í endurkröfumálinu gegn honum.

 Þann 3. nóvember 2003 var gefinn út á vegum K lögmannsstofu reikningur að fjárhæð 1.078.967 krónur á nafn kæranda vegna lögmannsstarfa í hans þágu. Kærandi, sem bjó í Bandaríkjunum, greiddi reikninginn ekki, þrátt fyrir ítrekanir af hálfu lögmannsstofunnar. Þann x. maí 200x var gefin út stefna á hendur kæranda til innheimtu reikningsins og skyldi málið þingfest x. október 200x. Stefnan var birt kæranda þann x. júní 200x.

 Í tilefni af erindi kæranda var af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna ritað bréf til hans þann 10. nóvember 2005, þar sem honum var bent á að búið væri að höfða mál gegn honum vegna kröfu lögmannsstofu kærðu um greiðslu málskostnaðar. Var kæranda bent á að af þessum sökum yrði ekki úrskurðað um ágreininginn á vettvangi nefndarinnar. Ef hann hins vegar óskaði eftir því við nefndina að hún veitti álit sitt um ágreiningsefnið, til afnota í dómsmálinu gegn honum, væri farið fram á það að hann kæmi þeirri álitsbeiðni á framfæri við nefndina við fyrsta tækifæri. Þar kæmu jafnframt fram þau sjónarmið er málatilbúnaður hans byggðist á.

 Í bréfinu til kæranda var honum ennfremur bent á að umkvörtun hans virtist snúast um störf lögmannanna við rekstur tveggja dómsmála. Annars vegar víxilmáls kæranda gegn kaupanda fyrirtækisins og hins vegar skaðabótamál kaupandans gegn kæranda vegna endurgreiðslukröfu kaupandans. Dómur í síðarnefnda málinu hefði fallið í Hæstarétti Íslands þann x. september 200x. Af þessu  tilefni og þar sem það kynni að varða frávísun málsins samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, var kæranda gefinn kostur á að upplýsa úrskurðarnefndina um hvort einhver sérstök atvik hefðu valdið því að kvörtun hans hefði ekki verið komið á framfæri við nefndina fyrr.

 II.

Kærandi svaraði bréfi úrskurðarnefndar með tölvupósti þann 29. nóvember 2005. Þar kom m.a. fram að hann teldi málið gegn sér ekki hafa verið skráð hjá Héraðsdómi V þegar hann sendi nefndinni erindi sitt. Harmaði hann að hafa ekki heyrt neitt frá nefndinni fyrr en rúmum mánuði eftir að málið var tekið fyrir í héraðsdómi. Óskaði kærandi leiðbeiningar frá nefndinni um það hvernig hann ætti að byggja upp álitsgerð svo nefndin gæti veitt honum álit til afnota í ágreiningsmálinu við K lögmannsstofu.

 Kærandi kvað síðustu samskipti sín við K lögmannsstofu líklega hafa verið um mánaðamótin október-nóvember 200x.

 Tölvupósti kæranda var af hálfu úrskurðarnefndar svarað samdægurs. Þar var bent á að mál teldist höfðað við birtingu stefnu, þannig að mál Lex lögmannsstofu gegn honum hefði verið höfðað gegn honum þann x. júní 200x. Kæranda var jafnframt bent á að ekki væri óskað eftir álitsgerð frá honum heldur hefði honum verið gefinn kostur á að óska eftir áliti nefndarinnar, sem nota mætti í dómsmálinu. Var ítrekuð ósk nefndarinnar um afstöðu hans til þessa atriðis.

 Niðurstaða.

 I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

 Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga er hægt að bera ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess undir úrskurðarnefnd lögmanna. Ef lagt er fyrir nefndina ágreiningsefni, sem dómsmál er rekið um, getur nefndin, að ósk annars eða beggja aðila, látið í té álitsgerð til afnota þar, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna.

 Nefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann færi fram á að nefndin léti í té álitsgerð um ágreining hans við K lögmannsstofu og þá á hvaða sjónarmiðum málatilbúnaður hans byggðist. Engin skýr svör eða afstaða bárust nefndinni. Telur nefndin að skilja verði afstöðu kæranda svo að ekki hafi verið óskað eftir álitsgerð nefndarinnar til afnota í dómsmálinu. Vegna meðferðar ágreiningsmálsins um endurgjald til fyrrverandi lögmanna kæranda fyrir héraðsdómi verður á sama tíma ekki fjallað um ágreiningsmálið fyrir úrskurðarnefndinni. Er þessum þætti málsins því vísað frá nefndinni.

 II.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

 Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. tölvupósti kæranda til nefndarinnar þann 29. nóvember 2005, voru síðustu samskipti hans við lögmenn á K lögmannsstofu um mánaðamótin október-nóvember 200x. Þegar kærandi sendi nefndinni erindi sitt, sem móttekið var á skrifstofu Lögmannafélags Íslands 29. september 2005, voru þá liðin tæp 2 ár frá síðustu samskiptum kæranda við hina kærðu lögmenn. Eins og mál þetta er lagt fyrir úrskurðarnefndina verður þannig ekki annað ráðið en að töluvert meira en eitt ár hafi liðið frá því kærandi átti þess kost að koma kvörtun sinni á framfæri við nefndina. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber að vísa kvörtun þessari frá nefndinni.

  Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Erindi kæranda, S, er vísað frá.