Mál 17 2005

Ár 2006, mánudaginn 4. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 17/2005:

 

A

gegn

B, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 14. október frá A, kæranda, þar sem kvartað var yfir ýmsum ummælum B, hrl., kærða, í greinargerð er hann í umgengnisréttarmáli ritaði til sýslumannsins í Reykjavík.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindi kæranda þann 11. júlí 2006. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina með bréfi til lögmanns hennar, en frestur til þessa var veittur til 12. september 2006. Engar athugasemdir bárust.

 Vegna misskilnings um að kærandi hefði dregið erindi sitt til baka varð dráttur á að kærði tjáði sig um það. Meðal annars það og viðbótarfrestur er kærða var veittur hefur orðið til þess að afgreiðsla málsins hefur dregist.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Kærandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar áttu barn saman á árinu 1999. Sambúð þeirra mun hafa lokið haustið 2004 er kærandi flutti af heimilinu með son þeirra. Sambýlismaðurinn fyrrverandi, barnsfaðir kæranda, hefur sótt það að fá umgengnisrétt með syni sínum og hafa staðið deilur um það milli hans og kæranda. Af þessu tilefni leitaði barnsfaðirinn til sýslumannsins í Reykjavík og óskaði eftir úrskurði um umgengnisrétt með syni sínum. Kærði hefur gætt hagsmuna barnsföðurins í umgengnisréttarmálinu. Nokkur ummæli hans í greinargerð til sýslumanns þann 7. júní 2005 urðu kæranda tilefni þeirra kvörtunar, sem hér er til afgreiðslu.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kveðst kærandi kvarta yfir persónulegum og ljótum ummælum kærða í bréfum til sýslumannsins í Reykjavík og barnaverndarnefndar.

 Kærandi telur framkomu kærða í málinu ekki við hæfi og tilgreinir nokkur ummæli í erindinu máli sínu til stuðnings:

 „… konan … beitir 6 ára barni fyrir sig í umgengnis- og fjárslitamáli …“

 Kveður kærandi þessi ummæli alröng og kveðst ekki skilja hvernig kærði fái þessa hugmynd.

 „Umbj. minn er umhyggjusamur faðir, jákvæður og uppbyggjandi í samskiptum við börn sem aðra. Konunni verður seint gefin sú einkunn.“

 Kærandi kveður hreint með ólíkindum að lögmaður skuli rita þessi orð. Kærði láti það hljóma eins og hann þekki persónulega hagi sína og einkenni, en það geri hann ekki. Telur kærandi að það hljóti að vera afar vítavert að lögmaður blandi slíkum persónulegum skoðunum sínum, sem ekki eigi við rök að styðjast, inn í mál, sérstaklega þar sem hann þekki ekki báða aðila. Með þessu sé kærði að reyna að hygla umbjóðanda sínum en sverta kæranda gagnvart barnaverndarnefnd, sem hugsanlega taki tillit til slíkra ummæla kærða sem lögmanns.

 Þá séu ummæli kærða einnig ámælisverð frá hinni hlið málsins, þ.e. að kærði lýsi umbjóðanda sínum með þeim orðum að hann sé umhyggjusamur, jákvæður og uppbyggjandi í samskiptum. Kærandi dregur í efa að kærði geti haft uppi slíkar fullyrðingar, þar sem hann hafi ekki búið með barnsföður sínum. Ástæða skilnaðarins hafi verið hið andlega og líkamlega ofbeldi sem barnsfaðirinn hafi beitt sig, en kærði reyni að gera lítið úr þeirri staðreynd með ummælum sínum. Hið sama eigi við um staðhæfingar kærða um líkamlega yfirburði kæranda þar sem hún sé fyrrum Íslandsmeistari í x, en meira en áratugur sé liðinn frá þeirri tíð. Sú staðreynd að hún hafi iðkað íþróttir hafi ekkert með það að gera að barnsfaðirinn hafi beitt sig ofbeldi og því sé óviðeigandi að lauma því inn í málið.

 Kærandi kveðst ekki þola það að vera sökuð um fjárdrátt þegar kærði hefði ekkert fyrir sér í þeim efnum, enda ætti það ekki við rök að styðjast. Hið sama eigi við um endurteknar fullyrðingar um að hún hafi tekið út af reikningi barnsföður síns í heimildarleysi, enda sé það fjarstæðukennt þar sem hún hafi hvorki haft prókúru á reikningi hans né vitað um leyninúmer í heimabanka hans.

 Kærandi telur fullyrðingar kærða hafa þann eina tilgang að reyna að sverta sig fyrir sýslumanni og barnaverndarnefnd. Hljóti það að teljast mjög ámælisverð vinnubrögð lögmanns. Telur kærandi kærða hafa gerst brotlegan við 34. gr. siðareglna lögmanna og krefst þess að honum verði veitt áminning vegna þessa.

 III.

Í greinargerð sinni til nefndarinnar rekur kærði þau atvik sem leiddu til beiðni umbjóðanda hans til sýslumannsins í Reykjavík um umgengnisréttarúrskurð. Kveður kærði greinargerð þá, sem kærandi vísar til, hafa verið varnarskjal umbjóðanda síns við röksemdafærslu kæranda, eins og hún birtist í bréfi lögmanns hennar til sýslumanns. Þar sé því m.a. haldið fram um umbjóðanda kærða

  • að barnið óttist hann
  • að hann hafi beitt kæranda líkamlegu og andlegu ofbeldi
  • að barnið hafi ekki farið varhluta af ofbeldi föður
  • að fyrst eftir sambúðarslit upplifi barnið öryggi og sé glatt
  • að barnið spyrji aldrei um föður sinn
  • að kærandi treysti föður ekki fyrir barninu
  • að faðir sé óreglusamur og hafi aldrei tekið á drykkjuskap sínum
  • að faðir sé ekki hæfur og sé 75% öryrki
  • að faðir sé ofbeldishneigður og ekki í andlegu jafnvægi.

 Kærði kveður þessi ummæli hafa verið ítrekuð af kæranda við fyrirtöku á skrifstofu sýslumanns þann 12. maí 2005. Kærandi hafi ekki látið hér við sitja heldur hafi hún bætt um betur í greinargerð sem hún afhenti á sýslumannsembættinu áður en málið var tekið fyrir í júní 2005. Þar sé að finna ummæli eins og að umbjóðandi kærða sé „krónískur lygari“ og „ekki viðbjargandi“, hann mati syni sína á geðtöflum og mismuni þeim „eftir því úr hvaða klofi þeir komu“.

 Kærði kveðst hafa þurft að svara þessum rökum kæranda, sem hún færði fram í umgengnisréttarmálinu. Greinargerð sín kunni að þykja harðorð en hana verði að skoða í tengslum við þær svívirðilegu ávirðingar sem bornar hafi verið á umbjóðanda sinn sem rök fyrir því að útiloka hann frá eðlilegum samskiptum við barn sitt.

 Kærði kveðst hafna því að sjónarmið og málsástæður umbjóðanda síns, sem hann lýsi í greinargerðinni, séu heimfærð upp á persónu sína. Greinargerðin hafi að geyma röksemdir og sjónarmið umbjóðanda síns og það beri engin nauðsyn til þess að skeyta framan við þau orðunum „umbjóðandi minn byggir á“ eða sambærilegum orðum. Kærði kveðst öðrum þræði skilja kvörtun kæranda þannig að það sé framsetning sín sem fari fyrir brjóstið á henni.

 Kærði telur að hafa beri í huga að mál á sviði barnaréttar, t.d. forsjármál og umgengnisréttarmál, snúist aðallega um persónur aðalleikenda, foreldranna. Játa verði lögmönnum svigrúm til að halda fram fullyrðingum um ágæti eða vankanta þeirra, án þess að þeir eigi yfir höfði sér kærur eða annan ófarnað.

 Að því er varði hin umkvörtuðu ummæli kveðst kærði vilja koma eftirfarandi á framfæri:

 1. Kærði kveður umbjóðanda sinn kalla það, að beita barninu fyrir sig í umgengnisréttar- og fjárslitamáli, þegar kærandi haldi því fram að barnið óttist föður sinn og vilji ekki hitta hann og að fyrir liggi yfirlýsing hennar um að fyrr þurfi að svipta hana forsjá en að hún samþykki umgengni þeirra feðga.

 2. Til stuðnings þeirri málsástæðu umbjóðanda síns, að kæranda verði seint gefin sú einkunn að vera jákvæð og uppbyggjandi í samskiptum, kveðst kærði vísa til þeirra svívirðinga og orðbragðs, sem kærandi viðhafi um manninn.

 3. Kærði kveður kæranda staðfesta það í kvörtun sinni að hún væri fyrrum Íslandsmeistari í x.

 4. Um fjárdráttarbrot, sem umbjóðandi sinn segir kæranda hafa framið, bendir kærði á greinargerð skoðunarmanna Y-félags Reykjavíkur, en þar sé m.a. tilgreint að gjaldkeri (kærandi) hafi notað á tilteknu tímabili til eigin nota fjármuni félagsins.

 Kærði bendir á að samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skuli lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg sé hagsmunum skjólstæðinganna. Kærði kveður ummæli sín tilkomin vegna hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns, sem kærandi hafi vegið að með ummælum sem örugglega eigi fá sína líka. Kærði kveðst hafa, í gæslu hagsmuna umbjóðanda síns, starfað óaðfinnanlega og í fullu samræmi við gildandi lög og reglur um störf lögmanna og í engu gert á hlut kæranda. Kærði krefst þess að nefndin hafni kröfu kæranda um að sér verði veitt áminning.

 Með greinargerð kærða fylgdu m.a. bréf lögmanns kæranda til sýslumanns, dags. 11. maí 2005, endurrit úr sifjamálabók vegna fyrirtöku í umgengnisréttarmálinu, óundirrituð greinargerð, greinargerð kærða vegna umbjóðanda síns, dags. 4. apríl 2006, til dómsmálaráðuneytisins, tölvupóstur kæranda til félagsmálaráðherra, dags. 23. október 2005 og greinargerð skoðunarmanna um bókhald Y-félags Reykjavíkur, dags. 10. febrúar 2004.

  Niðurstaða

 Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Um skyldur lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum eru nánari fyrirmæli í siðareglum lögmanna, einkum 2. kafla þeirra. Í reglunum er jafnframt kveðið á um ýmsar meginreglur er gilda um störf og háttsemi lögmanna, svo og um skyldur þeirra gagnvart öðrum lögmönnum, dómstólum og stjórnvöldum, gagnaðilum umbjóðenda sinna o.s.frv.

 Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna ber lögmönnum að sýna gagnaðilum umbjóðenda sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum umbjóðendanna. Kærandi telur kærða hafa brotið gegn þessu ákvæði siðareglnanna í skrifum sínum til sýslumanns vegna umgengnisréttarmáls sem þar var rekið.

 Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. siðareglnanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hann hefur kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Mikilvægt er, að mati nefndarinnar, að lögmenn gæti þess að greina eins og kostur er á milli eigin sjónarmiða og sjónarmiða og hagsmuna umbjóðenda þeirra, svo sem skylt er að gera samkvæmt þessu ákvæði. Nefndin telur orðaval og framsetningu í skrifum lögmanna skipta máli í þessu sambandi.

 Greinargerð þá, sem ummæli kærða birtust í, sendi hann sýslumanninum í Reykjavík þann 7. júní 2005. Í upphafi greinargerðarinnar kemur fram að umbjóðandi hans hafi falið honum að gæta hagsmuna sinna vegna beiðni um að fá að umgangast 6 ára son sinn, sem hann hefði vart séð frá samvistarslitum í ágúst 2004. Í greinargerðinni er á ýmsan hátt mótmælt málsástæðum kæranda í málinu en í lokin er gerð grein fyrir kröfum mannsins um hvernig hann vilji að umgengninni sé háttað.

 Að því er varðar einstaka ummæli, sem kært er út af, er mat nefndarinnar eftirfarandi:

 a) „… konan … beitir 6 ára barni fyrir sig í umgengnis- og fjárslitamáli …“

 Í greinargerð kærða er lýst hvaða ástæður búi að baki þessum orðum, sem hann kveður vera umbjóðanda síns. Það er mat úrskurðarnefndar að skoða verði þessi orð sem lýsingu á afstöðu umbjóðanda kærða og að ekki sé gengið lengra í orðavali en aðstæður gefa tilefni til í erfiðu umgengnisréttarmáli.

 b) „Umbj. minn er umhyggjusamur faðir, jákvæður og uppbyggjandi í samskiptum við börn sem aðra. Konunni verður seint gefin sú einkunn.“

 Fyrri málsliðurinn getur á engan hátt talist gagnrýniverður. Orðalag síðari málsliðarins verður að mati nefndarinnar að skoða í ljósi þess að orðin voru látin falla í harðvítugu umgengnisréttarmáli þar sem aðilar gerðu mikið úr ókostum hvors annars í skrifum til sýslumannsembættisins í Reykjavík. Nefndin telur að við slíkar aðstæður, þ.e. í forsjár- eða umgengnisréttarmálum, þar sem sjónum er sérstaklega beint að persónulegum eiginleikum foreldra, þurfi lögmaður ákveðið svigrúm til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Þótt orðalagið í málsliðnum verði að teljast óheppilegt er það mat nefndarinnar að kærði hafi ekki brotið gegn 34. gr. siðareglnanna.

 c) Ummæli um líkamsburði.

 Að mati nefndarinnar eru þessi ummæli ekki brot á 34. gr. siðareglnanna, en í þeim er hvorki verið að vísa til meints ofbeldis af hálfu umbjóðanda kærða né meints ofbeldis af hálfu kæranda.

 d) Ummæli um fjárdrátt.

 Ummæli um meint fjárdráttarbrot, í því samhengi sem þau eru sett fram, bera fremur með sér að lýsa skoðun umbjóðanda kærða heldur en kærða sjálfs. Styðst þessi skoðun umbjóðandans m.a. við skýrslu skoðunarmanna bókhalds Y-félags Reykjavíkur. Að mati nefndarinnar fela þessi ummæli í greinargerð kærða ekki í sér brot á 34. gr. siðareglnanna.

 Með vísun til framangreinds telur nefndin að kærði hafi ekki brotið gegn 34. gr. siðareglna lögmanna í skrifum sínum til sýslumannsembættisins í Reykjavík, fyrir hönd umbjóðanda síns. Telst kærði þannig ekki í ummælunum hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, B, hrl., hefur í skrifum til sýslumannsembættisins í Reykjavík, í umgengnisréttarmáli umbjóðanda síns gegn kæranda, A, ekki gert á hlut hennar með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA