Mál 18 2005

Ár 2007, mánudaginn 29. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2005:

 

G ehf.

gegn

O, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R

  Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 7. desember 2005 frá G ehf., kæranda, sem varðar ágreining um vaxtaútreikning og innheimtukostnað í innheimtumáli sem O, hrl., kærði, rak gegn kæranda.

 Afstaða kærða liggur fyrir í bréfi, dags. 7. apríl 2006, en af persónulegum ástæðum fékk hann viðbótarfrest til að skila greinargerð sinni. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 17. maí 2006. Kærði hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í október 2004 fól A-sjóður starfsmanna H kærða að innheimta kröfu sjóðsins á hendur kæranda, sem var í vanskilum. Krafa þessi var samkvæmt skuldabréfi er kærandi hafði gefið út í apríl 2001, upphaflega að fjárhæð 4.150.000 krónur, með fyrsta gjalddaga 20. september 2001. Krafan var tryggð með veði í fasteign. Kærandi lenti í vanskilum með greiðslur afborgana og vaxta af bréfinu á gjalddaga þann 20. desember 2001.

 Rúmu ári eftir að kærði hóf innheimtu kröfunnar, nánar tiltekið þann 27. janúar 2005, var hún greidd að fullu 8.085.382 krónum. Þar af nam höfuðstóll kröfunnar, ásamt samningsvöxtum til 20. desember 2004, alls 4.606.691 krónu, dráttarvextir námu 3.165.937 krónum, og innheimtukostnaður nam alls 412.754 krónum. Tekið var tillit til innborgunar að fjárhæð 100.000 krónur þann 31. desember 2001.

 Erindi kæranda lýtur að vaxtaútreikningi og innheimtukostnaði.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar kvartar kærandi yfir of háum innheimtukostnaði kærða og ofreiknuðum vöxtum. Hann kveðst hafa greitt kröfuna að fullu þann 27. janúar 2005, með fyrirvara um réttmæti útreiknings og réttmæti innheimtuþóknunar. Kveðst hann hafa fengið starfsmann hjá tilteknum lífeyrissjóði til þess að reikna út vexti á höfuðstólinn og samkvæmt þeim útreikningi væru vextirnir ofreiknaðir um 137.246 krónur. Þá telur kærandi innheimtuþóknun kærða vera óeðlilega háa. Væri vinnuframlag hans í engu samræmi við þóknunina auk þess sem kröfuhafanum hefði staðið til boða þjónusta innheimtuaðila er tækju mun lægri þóknun, svo sem Intrum og Momentum.

 Kærandi krefst þess að fá hina ofreiknuðu vexti endurgreidda, svo og lækkun á innheimtukostnaði kærða.

 III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveðst kærði hafa fengið í október 2004 til innheimtu kröfu A-sjóðs starfsmanna H á hendur kæranda, en krafan hefði verið í vanskilum frá 20. desember 2001. A-jóðurinn hefði upplýst að uppfærðar eftirstöðvar kröfunnar þann dag hefðu numið 4.574.548 krónum auk áfallinna samningsvaxta að fjárhæð 32.143 krónur. Kærandi hefði greitt 100.000 krónur inn á kröfuna og væri sú greiðsla bókfærð í árslok 2001.

 Kærði kveðst hafa sent kæranda innheimtubréf þann 15. október 2004, þar sem hann var krafinn um greiðslu kröfunnar auk innheimtuþóknunar samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu sinnar. Þar sem engin viðbrögð hefðu borist við bréfinu hefði verið birt greiðsluáskorun samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Eftir árangurslausar tilraunir kæranda til að fá eftirgjöf kröfuhafans á dráttarvöxtum og skilmálabreytingar á kröfunni hefði kærandi greitt kröfuna að fullu þann 27. janúar 2005 með 8.085.382 krónum. Þar af hafi krafa A-sjóðsins, með áföllnum dráttarvöxtum en að frádreginni innborgun, numið 7.672.628 krónum. Hafi krafan verið gerð upp við sjóðinn daginn eftir, þann 28. janúar 2005.

 Kærði kveður kæranda hafa greitt innheimtuþóknun að fjárhæð 405.470 krónur samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu sinnar, sem afhent hefði verið kæranda. Gjaldskráin tæki mið af hagsmunum við innheimtu á vanskilakröfum, en slíkt væri almennt tíðkað af lögmönnum og væri í samræmi við tíðkanlega viðskiptaskilmála.

 Kærði vísar um dráttarvexti til útreiknings er fylgdi greinargerð hans til nefndarinnar. Krafan hefði verið gjaldfallin þann 20. desember 2001 samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins. Dráttarvextir væru reiknaðir samkvæmt birtri vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands á eftirstöðvar kröfunnar frá 20. desember 2001 til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgunar 30. desember 2001.

 IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða er m.a. vakin athygli á misræmi sem kærandi telur vera á upplýsingum frá kærða um kröfufjárhæðina. Í greinargerð kærða komi fram að höfuðstóll kröfunnar og áfallnir samningsvextir hafi numið 4.574.548 krónum þegar krafan fór í vanskil í desember 2001. Í fylgiskjali með greinargerðinni sé krafan hins vegar sögð nema 4.606.691 krónu miðað við sama dag. Þá kveðst kærandi telja innheimtuþóknun kærða ekki vera í neinum takti við raunveruleikann. Venjulegt innheimtufyrirtæki, sem sérhæfi sig í innheimtum, svo sem Intrum eða Momentum, hefði tekið 10-15.000 krónur fyrir innheimtubréf, ekki 405.470 krónur.

 Niðurstaða.

 I.

Því hefur hvorki verið haldið fram í málinu að krafa sú, sem kærða var falið að innheimta hjá kæranda, sé ólögmæt né að beitt hafi verið óréttmætum aðgerðum við innheimtu kröfunnar. Að mati úrskurðarnefndar lögmanna benda gögn málsins ekki til annars en að eðlilega hafi verið staðið að innheimtu kröfu sem nýtur réttarverndar lögum samkvæmt.

 Óumdeilt er að A-sjóður starfsmanna H átti kröfu á hendur kæranda samkvæmt veðskuldabréfi og að kærandi lenti í vanskilum með greiðslu afborgunar þann 20. desember 2001. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins var heimilt að gjaldfella alla kröfuna við vanskil af hálfu skuldara.

 Kærði kveðst hafa fengið upplýsingar frá Sparisjóði S, þar sem veðskuldabréfið hafði verið í innheimtu, og A-sjóði starfsmanna H um uppfærðar eftirstöðvar bréfsins, miðað við þann gjalddaga þegar vanskil hófust. Miðaðist innheimtumeðferð hans á kröfunni, þ. á m. útreikningur dráttarvaxta, við þessar upplýsingar.

 Eins og fyrr greinir hefur kærandi lagt fyrir nefndina útreikning starfsmanns tiltekins lífeyrissjóðs á höfuðstól kröfunnar og dráttarvöxtum. Eru þeir útreikningar gerðir um 10 mánuðum eftir að kærandi greiddi upp kröfuna. Úrskurðarnefnd lögmanna tekur ekki afstöðu til réttmætis þessa útreiknings, enda liggja ekki fyrir fullnægjandi forsendur til slíks. Telji kærandi sig eiga rétt á endurgreiðslu ofreiknaðra vaxta ber honum að beina kröfu sinni þar að lútandi til kröfuhafans, A-sjóðs starfsmanna H, sem fékk kröfu sína uppgerða daginn eftir fullnaðargreiðslu hjá kærða.

 II.

Samkvæmt veðskuldabréfinu skuldbatt skuldarinn, kærandi, sig til þess að greiða allan kostnað er kynni að leiða af vanskilum, þar með talið réttargjöld, lögmannslaun og vátryggingagjöld, er kröfuhafi kynni að greiða. Innheimtuþóknun kærða styðst við gjaldskrá lögmannsstofu hans og miðast við fjárhagslega hagsmuni málsins.

 Um áratuga skeið hefur tíðkast að þóknun fyrir innheimtu vanskilakrafna miðist við þá fjárhagslegu hagsmuni, sem hagsmunagæsla hlutaðeigandi lögmanns lýtur að. Að teknu tilliti til þeirra fjárhagslegu hagsmuna, sem kærða var falið að annast við innheimtu kröfunnar á hendur kæranda, telur úrskurðarnefndin innheimtukostnað þann, sem kærði krafði kæranda um í umboði kröfuhafans, vera innan hæfilegra marka.

 III.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin kærða, í innheimtuaðgerðum sínum, ekki hafa gert á hlut kæranda með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

  Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, O, hrl., hefur við innheimtu kröfu á hendur kæranda, G ehf., ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA