Mál 8 2005

Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 8/2005:

 H

gegn

J, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi H, kæranda, dags. 8. febrúar 2005, er kvartað m.a. yfir vanrækslu J, hrl., kærða, á því að mæta í Héraðsdómi R við fyrirtöku á gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur kæranda. Kærði svaraði erindinu með greinargerð, dags. 9. mars 2005. Aðilar hafa tjáð sig frekar um málið með bréfi kæranda þann 3. maí 2005 og bréfi kærða þann 23. maí 2005.

 I.

Málsatvik eru þau að þann 21. janúar 200X var kæranda birt fyrirkall um að mæta í Héraðsdóm R þann 6. febrúar 200X, þegar fyrir yrði tekin gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur honum. Kærandi leitað af þessu tilefni til kærða og bað hann um að mæta fyrir sig og taka frest í málinu. Kærði mætti ekki við þingfestingu gjaldþrotaskiptabeiðninnar og var bú kæranda tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði, uppkveðnum 10. febrúar 200X.

 Á árinu 200X ákvað kærandi að kanna möguleika sína til þess að ná nauðasamningum við lánardrottna og fól kærða að kanna málið. Bréf var ritað skiptastjóra þrotabúsins í lok maí 200X þar sem leitað var upplýsinga um skiptameðferðina og stöðu lýstra krafna. Í bréfinu var tekið fram að kærði myndi annast nauðasamningaumleitanir við lánardrottna. Svar skiptastjórans barst skrifstofu kærða þann 23. ágúst 200X en vegna sumarleyfis fékk kærði það ekki í hendur fyrr en 6. september.

 Frumvarp að úthlutunargerð var gefið út 3. september 200X. Vegna þess hafnaði skiptastjóri því að fresta skiptalokum meðan leitað væri nauðasamninga fyrir kæranda. Skiptum lauk á skiptafundi þann 6. október 200X.

 II.

Í erindi kæranda er kvartað yfir því að kærði hafi ekki mætt við framlagningu gjaldþrotaskiptabeiðni í héraðsdómi þann 6. febrúar 200X. Kveðst kærandi hafa ætlað að fá frest til þess að ná samningum við lánardrottna sína og á gjaldþrotaskiptabeiðnina afturkallaða.

 Kærandi kveður kærða hafa fallist á beiðni sína og að vera sér innan handar við nauðasamningsumleitanir. Kærði hafi getið þess við þetta tækifæri að hann væri lögmaður Sparisjóðs B, sem var einn stærsti lánardrottinn kæranda, og væri hann, kærði, því eiginlega beggja vegna borðsins.

 Kærandi kveðst hafa leitað aftur til kærða um mitt ár 200X, en hann hefði tekið að sér að vera kæranda innan handar um fyrirhugaða nauðasamninga innan gjaldþrotaskiptanna. Þrátt fyrir nægan tíma hafi kærði ekki sent skiptastjóranum tilkynningu um slíkt fyrr en of seint, þ.e. eftir útgáfu frumvarps að úthlutunargerð þann 3. september 200X. Nauðasamningi hafi þannig ekki verið viðkomið og hafi gjaldþrotaskiptunum lokið 6. október 200X í samræmi við frumvarpið.

 Kærandi kveðst hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna framgöngu kærða. Hagsmunir sínir hafi verið fyrir borð bornir og hann sæti eftir sem þrotamaður, sem alls staðar kæmi að lokuðum dyrum hjá fjármálafyrirtækjum og víðar. Telur kærandi háttsemi þessa vera mjög ámælisverða. Þá kvartar kærandi yfir gjaldtöku skiptastjórans í þrotabúi sínu og telur áskilda þóknun hans ekki geta hafa verið í nokkru samræmi við þann tíma sem fór í skiptin.

 III.

Í greinargerð sinn til úrskurðarnefndar kveður kærði það vera rétt, að kærandi hafi beðið sig um að mæta við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar í héraðsdómi. Fyrir einhver óskiljanleg mistök hafi þetta ekki verið skráð í dagbók stofu sinnar og því hafi ekki verið mætt við fyrirtökuna. Þegar mistökin uppgötvuðust hafi gjaldþrotaúrskurður þegar verið kveðinn upp.

 Kærði kveður þessi mistök vissulega hafa verið skelfileg og að það eina sem hann hafi getað gert hafi verið að harma þau og bjóða kæranda fram aðstoð sína, ef einhver gæti orðið. Kærandi hafi eftir þetta leitað til annars lögmanns, sem ítrekað hafi verið í sambandi við skiptastjóra þrotabúsins vegna hugmynda kæranda um að leita nauðasamninga. Staða búsins hafi verið óskýr, einkum vegna óútkljáðra mála á hendur eiginkonu kæranda og fleirum.

 Kærði kveður það aldrei hafa komið til greina, að hann yrði beggja vegna borðsins, þ.e.a.s. að hann gætti hagsmuna Sparisjóðs B gegn kæranda, um leið og hann aðstoðaði kæranda við að leita nauðasamninga. Kærði kveðst aldrei hafa haft neina kröfu á hendur kæranda til meðferðar, hvorki fyrir sparisjóðinn eða aðra.

 Kærði kveður kæranda hafa haft samband við sig að nýju í maí 200X vegna hugmynda um nauðasamninga við kröfuhafa. Kærði kveðst hafa haft samband við skiptastjóra þrotabúsins og beðið um að fá sendar nauðsynlegar upplýsingar um eignir búsins, skiptakostnað, samþykktar kröfur o.fl., til þess að hægt væri að meta möguleika kæranda. Skiptastjórinn hafi neitað að afhenda upplýsingarnar nema hann fengi skriflega beiðni frá kæranda þar að lútandi. Kærði kveðst hafa útbúið bréf til skiptastjórans fyrir kæranda þann 28. maí 200X, þar sem tilkynnt var að kærði væri tekinn við málinu. Í bréfinu hafi komið fram berum orðum að kærði myndi annast um að leita nauðasamninga við skuldheimtumenn kæranda. Hafi skiptastjórinn verið beðinn um að senda kærða þau gögn, sem áður hafði verið beðið um. Þrátt fyrir ítrekanir hafi svar við bréfinu ekki borist fyrr en 23. ágúst 200X. Kærði kveðst hafa fengið bréfið í hendur 6. september 200X, er hann kom úr sumarfríi. Svarið hafi falist í því að skiptastjórinn hripaði upplýsingar um stöðu búsins á bréfið sem hafði verið sent honum. Í niðurlagi hafi komið fram að boðað yrði til skiptafundar fljótlega. Kveðst kærði hafa skilið það þannig að þann fund ætti að halda til þess að afhenda honum gögn um einstaka kröfur og kröfuhafa þannig að hann gæti byrjað á verkinu.

 Kærði kveðst næst hafa heyrt um málið í símtali frá kæranda, sem upplýsti að hann hefði verið boðaður á skiptafund. Kærði kveðst hafa haft samband við skiptastjórann, sem tilkynnti honum að hann hefði gefið út frumvarp að úthlutunargerð þann 3. september 200X. Kærði kveðst hafa sent skiptastjóranum um hæl nýtt bréf, þar sem beinlínis var tilkynnt um fyrirætlanir kæranda um nauðasamninga. Skiptastjórinn hafi þá tilkynnt að hann myndi ekki fresta skiptalokum, þar sem honum hefði borist bréfið eftir að frumvarpið var gefið út, sbr. 149. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Kærði kveður ekki hafa stoðað þótt hann  hefði vísað til bréfs kæranda frá 28. maí 2004, margra símtala sinna við skiptastjórann þar sem þessar fyrirætlanir komu fram, og erinda fyrri lögmanns kæranda sama efnis á árinu 200X. Skiptum hafi lokið 6. október 200X.

 Kærði kveðst í kjölfarið hafa átt fund með kæranda og farið yfir stöðuna með honum. Þrátt fyrir gríðarlegar breytingar á kröfuskrá, þar sem kröfur höfðu lækkað úr rúmlega 21 milljón króna í 6,3 milljónir, kveðst kærði hafa ráðlagt kæranda að láta kyrrt liggja og fara ekki út í það að krefjast endurupptöku skiptanna með það í huga að fara í nauðasamning. Við hafi blasað að kröfuhafar höfðu fengið úthlutað þeim fjármunum sem voru í búinu og þeir myndu þar af leiðandi vera tregir til að greiða atkvæði með nauðasamningi sem gæfi þeim aðeins óverulega viðbótargreiðslu.

 Kærði kveður kæranda hafa farið með þessa ráðleggingu frá sér og hafi hann engin önnur fyrirmæli hafa fengið frá kæranda. Kveðst kærði ekki hafa orðið var við annað en að kærandi væri sáttur við að hafa farið að sínum ráðum, þegar þeir ræddu saman um áramótin 200x-200x.

 IV.

Í síðara bréfi kæranda til úrskurðarnefndar mótmælir hann nokkrum atriðum í greinargerð kærða. Hann kveðst jafnframt sannfærður um að hann hefði annað hvort náð frjálsum samningum eða nauðasamningum við lánardrottna sína, ef rétt og eðlilega hefði verið staðið að málum af hálfu kærða og skiptastjórans. Kærandi krefst þess að kærði og skiptastjórinn, annar hvor eða báðir, fái viðurlög í samræmi við þau úrræði, sem nefndin hafi. Þá krefst hann þess að nefndin taki afstöðu til þess hvort þeir, annar hvor eða báðir, beri skaðabótaábyrgð gagnvart sér vegna þess tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

 Í síðara bréfi sínu til nefndarinnar ítrekar kærði m.a. að hann telji það ekki hafa ráðið úrslitum um málefni kæranda þótt hann hefði mætt við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar í héraðsdómi. Tækifæri kæranda hefðu falist í því að ná nauðasamningum undir skiptunum. Kærði kveðst hins vegar standa enn við það álit sitt að það hefði ekki verið líklegt til árangurs að ætla að reyna að ná nauðasamningum eftir að skiptastjórinn hafði úthlutað úr þrotabúinu.

 Niðurstaða.

 I.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, getur lögmaður eða umbjóðandi hans, annar þeirra eða báðir, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ágreining um rétt lögmannsins til endurgjalds eða fjárhæð þess. Skiptastjórinn í þrotabúi kæranda var skipaður til starfans af héraðsdómara þeim, er kvað upp gjaldþrotaskiptaúrskurðinn. Um hlutverk skiptastjóra er nánar kveðið í gjaldþrotaskiptalögum nr. 21/1991. Nefndin telur kæranda ekki vera umbjóðanda skiptastjórans í skilningi fyrrgreinds ákvæðis lögmannalaga. Er því þessum lið í erindi kæranda vísað frá nefndinni.

 II.

Í 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga er skilgreint hvaða úrræðum nefndin getur beitt þegar henni berst kvörtun samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Það fellur ekki undir lögbundið valdsvið nefndarinnar að fjalla um meinta skaðabótaábyrgð lögmanna. Er þessum lið í erindi kæranda því vísað frá nefndinni.

 III.

Kærandi ætlaði að freista þess að fá gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur sér afturkallaða og gátu þannig falist í því nokkrir hagsmunir fyrir hann að fá frest á uppkvaðningu gjaldþrotaskiptaúrskurðar. Óumdeilt er að kærði tók að sér að mæta fyrir kæranda í þessu skyni í héraðsdómi en fyrir mistök féll niður þingsóknin.

 Kærði útbjó fyrir kæranda bréf til skiptastjóra þrotabúsins í lok maí 200X. Kærði reyndi ítrekað að fá umbeðnar upplýsingar frá skiptastjóranum um sumarið en svör bárust til skrifstofu kærða þann 23. ágúst, meðan hann var í sumarleyfi. Upplýsingarnar komu honum fyrir sjónir 6. september, er hann kom úr leyfinu. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærði hafi fyrst, eftir símtal frá kæranda í lok september, haft samband við skiptastjórann, fyrst símleiðis en síðan um hæl með bréfi, dags. 28. september, þar sem hann tilkynnti skiptastjóranum að kærandi hygðist leita nauðasamninga við lánardrottna sína og að beiðni um heimild til samningaumleitana yrði lögð fram í héraðsdómi næstu daga. Skiptastjórinn tilkynnti kærða þá símleiðis að hann myndi ekki fresta skiptalokum þann 6. október, á skiptafundi sem boðað hafði verið til, en frumvarp að úthlutun hafði skiptastjórinn gefið út þann 3. september, eins og áður greinir.

 Að mati úrskurðarnefndar leið óþarflega langur tími þar til kærði hófst handa við undirbúning að nauðasamningsumleitunum, en hann virðist ekkert hafa aðhafst frá því honum bárust upplýsingarnar frá skiptastjóranum og þar til eftir að kærandi hafði samband við hann í lok september og upplýst var að skiptalok yrðu væntanlega þann 6. október.

 Telur úrskurðarnefnd lögmanna mistök kærða og drátt á aðgerðum af hans hálfu samkvæmt framangreindu aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Þeim þáttum í erindi kæranda, H, er varða þóknun skiptastjóra í þrotabúi hans og meintri skaðabótaábyrgð kærða og skiptastjórans, er vísað frá nefndinni.

 Mistök kærða, J, hrl., að mæta ekki í héraðsdómi við fyrirtöku á gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur kæranda, og dráttur af hans hálfu á að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana, eru aðfinnsluverð.

  ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA