Mál 13 2006
Ár 2007, þriðjudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 13/2006:
A
gegn
B, hrl.,
C, hdl.,
og D, hrl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi A, kæranda, dags. 16. apríl 2006, er kvartað yfir meintri aðstoð A, hrl., kærða, við þjófnað á bát frá kæranda á árinu 1999 eða 2000. Einnig er kvartað yfir vinnubrögðum B, hdl., sem kærandi kveður hafa tekið að sér mál fyrir sig af sama tilefni. Loks er kvartað yfir vinnubrögðum C, hrl., sem tók að sér mál fyrir kæranda á árinu 1997.
Í tilefni af erindi kæranda var af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna ritað bréf til hans þann 23. maí 2006, þar sem gerð var grein fyrir lögbundnu hlutverki nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 77/1998, um lögmenn, og jafnframt að nefndin vísaði kvörtun frá ef lengri tími en eitt ár væri liðinn frá því kostur var á að koma henni á framfæri.
Bent var á að erindinu væri m.a. beint að A, hrl., en að fyrir nefndinni lægi annað erindi kæranda vegna sama lögmanns. Þess var óskað að kærandi upplýsti hvort síðara erindi kæranda lyti að öðrum umkvörtunaratriðum en þeim sem fram kæmu í fyrra erindinu. Ef svo væri, þá óskaðist upplýst hvaða atriði það væru sem nýrra málið varðaði og hvort það varðaði samskipti kæranda við lögmanninn síðustu 12 mánuði.
Í bréfi nefndarinnar var einnig bent á að af erindi kæranda yrði ekki annað ráðið en að alllangt væri um liðið frá því C, hdl., hefði unnið fyrir kæranda. Með vísan til 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, væri þess óskað að upplýst yrði hvort einhver sérstök atvik hefðu valdið því að kvörtun kæranda að því er varðaði lögmanninn hefði ekki verið komið fyrr á framfæri við nefndina.
Loks var bent á að erindi kæranda bæri ekki glögglega með sér hvaða umkvörtunaratriði kærandi færði fram vegna D, hrl. Þess væri óskað að kærandi gerði nánari grein fyrir kvörtuninni og jafnframt frá hvaða tíma hún stafaði.
Kærandi svaraði fyrirspurnum úrskurðarnefndar í bréfi, dags. 3. júní 2006. Þar kom m.a. fram að aðeins fáir mánuðir væru liðnir frá því B, hrl., hefði komið kæranda í vandræði, sem kostað hefðu hann 440.000 krónur. Ekki var þess glögglega getið hvers eðlis þessi vandræði hefðu verið eða hvernig þau tengdust hinu upphaflega umkvörtunarefni. Þó taldi kærandi lögmanninn hafa hótað sér og ögrað sér.
Kærandi kvað C, hdl., ekki hafa stefnt tveimur vottum á kaupsamningi fyrir skjalafals, þótt hann hefði farið þess á leit við lögmanninn.
Kærandi kvað D, hrl., hafa tekið að sér tvö mál fyrir sig á árinu 1997. Hann hafi sagt sig frá öðru málinu vegna frændsemi við O og Ó en hitt málið væri ófarið í stefnu. Ekki gat kærandi þess hvers eðlis málin væru eða um atvik að öðru leyti.
Niðurstaða.
Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.
Samkvæmt hinu upphaflega erindi kæranda áttu þau atvik, sem kæra hans gagnvart B, hrl., laut að, sér stað um áramótin 1999-2000. Fyrra erindi kæranda í málinu nr. 11/2006 fyrir nefndinni laut að sömu atvikum, en því var vísað frá með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, þar sem liðin voru rúmlega 6 ár frá þeim atvikum. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber einnig að vísa kvörtun þessari frá nefndinni að því er varðar B, hrl.
Kærandi hefur ekki gert grein fyrir því hvers vegna sá þáttur erindis hans er varðar C, hdl., var ekki fyrr sendur nefndinni, en hann varðar sömu atvik og þau er sneru að B, hrl. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber að vísa kvörtun þessari frá nefndinni að því er varðar C, hdl.
Því var beint til kæranda að hann gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því hver umkvörtun hans væri vegna D, hrl., og jafnframt frá hvaða tíma hún stafaði. Að mati nefndarinnar hefur kærandi ekki gert nægjanlega grein fyrir þessum þætti málsins eða lagt erindi sitt á þann hátt fyrir nefndina að það sé tækt til efnismeðferðar. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa þessum þætti málsins einnig frá nefndinni, sbr. m.a. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. málsmeðferðareglna nefndarinnar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Erindi kæranda, A, er vísað frá.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA