Mál 23 2006

Ár 2006, mánudaginn 18. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 23/2006:

  X

gegn

Y, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 15. ágúst 2006 frá X, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum Y, hdl., kærðu, sem skiptastjóra við opinber skipti við fjárslit milli kæranda og fyrrum eiginmanns hennar.

 Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í mars 1998 var kærða skipuð skiptastjóri vegna opinberra skipta við fjárslit milli kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar. Kærða var leyst frá störfum sem skiptastjóri, að kröfu kæranda, og nýr skiptastjóri skipaður í desember 2002. Skiptum lauk með úthlutunargerð þann 1. október 2004. Skömmu áður, eða þann 29. september 2004, kvað Héraðsdómur A upp úrskurð vegna ágreinings um áskilda þóknun skiptastjóra. Í greinargerð kæranda til héraðsdóms í ágreiningsmálinu voru kröfur hennar m.a. studdar rökum er lutu að vinnubrögðum kærðu sem skiptastjóra. Niðurstaðan var sú að fallist var á kröfur kærðu og seinni skiptastjórans um þóknun.

 Krafa kæranda á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum vegna fjárslitanna, að fjárhæð 3.955.400 krónur, var sótt með kyrrsetningargerð, staðfestingardómi og fjárnámsgerð, en árangurslaust fjárnám var gert hjá manninum vegna eftirstöðva kröfu kæranda þann 5. desember 2005.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við störf kærðu sem skiptastjóra. Telur hún kærðu hafa valdið skaða og óþægindum með ólíðandi handvömm og að kærða beri ábygð á því tjóni sem af hlaust. Kærandi krefst þess að kærðu verð gert að greiða sér eftirstöðvar kröfu sinnar á hendur fyrrverandi eiginmanninum, að fjárhæð 3,3 milljónir króna. Þá setur kærandi fram vaxtakröfur og kröfu um endurgreiðslu á lögmannsþóknun, sem hún þurfti að greiða. Kærandi krefst einnig endurgreiðslu kostnaðar vegna starfa skiptastjóranna að fjárslitunum. Loks krefst kærandi þess að kærðu verði gert að greiða henni 16 milljónir króna í miska- og skaðabætur.

 III.

Í bréfi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 7. desember 2006, var gerð grein fyrir lögskipuðu valdsviði nefndarinnar og fresti til að koma kvörtun á framfæri við hana samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Bent var á að samkvæmt gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að alllangt væri um liðið frá því kærða lauk störfum sem skiptastjóri, eða í nóvember 2002. Þá var bent á að ágreiningsmál um þóknun skiptastjóra hefði verið rekið fyrir Héraðsdómi A á árinu 2004, þar sem m.a. hefði verið teflt fram málsástæðum er lutu að störfum kærðu. Með vísan til 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga var þess óskað að kærandi upplýsti hvort einhver sérstök atvik hefðu valdið því að kvörtun hennar var ekki komið á framfæri við nefndina fyrr en með erindi þessu.

 Þá benti nefndin á að fyrir lægi í gögnum málsins úrskurður Héraðsdóms A frá 29. september 2004 vegna ágreinings um þóknun skiptastjóra. Yrði af þeim sökum ekki skorið úr þeim þætti erindis kæranda á vettvangi nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 26. gr. lögmannalaga.

 V.

Í bréfi kæranda til nefndarinnar, dags. 15. desember 2006, kemur m.a. fram að hún telur afskiptum kærðu af máli sínu ekki hafa lokið í nóvember 2002. Telur kærandi kærðu hafa sett skiptamálið í þann farveg, sem stýrt hefði því til enda. Málsmeðferðin í upphafi hefði mótað framhaldið. Kærandi kveður það skoðun sína að eignaskiptamáli sínu og afskiptum kærðu af því hafi lokið með árangurslausu fjárnámi hjá fyrrum eiginmanni kæranda þann 5. desember 2005. Þá fyrst hafi orðið ljóst hvernig fór um eignir kæranda.

 Kærandi kveðst hafa fengið þau ráð hjá Lögmannavaktinni og frá öðrum fagaðilum að málalok yrðu fyrst ljós við endanlega úthlutun, þ.e. hvað kæmi úr skiptum, fjárnámi og nauðungarsölu. Fyrr væri ekki hægt að hafast að. Ef í ljós kæmi að fjárvarsla hefði ekki verið með eðlilegum hætti þá væri hægt að kvarta og höfða skaðabótamál á hendur kærðu.

 Kærandi kveðst hafa sent kvörtun sína til nefndarinnar þegar í ljós var komið hverjar afleiðingarnar urðu. Kvörtuninni hefði verið skilað innan árs frá þeim tíma.

 Niðurstaða.

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum Lögmannafélags Íslands, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

 Samkvæmt 2. mg. 27. gr. lögmannalaga getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar.

 II.

Erindi kæranda til nefndarinnar beinist að málsmeðferð kærðu sem skiptastjóra í skiptamáli milli kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar. Telur kærandi kærðu hafa valdið sér miklum óþægindum og skaða, bæði fjárhagslega og tilfinningalega. Eins og að framan greinir krefst kærandi þess að kærðu verði gert að greiða sér eftirstöðvar kröfu sinnar á hendur fyrrverandi eiginmanninum, að fjárhæð 3,3 milljónir króna. Þá setur kærandi fram vaxtakröfur og kröfu um endurgreiðslu á lögmannsþóknun, sem hún kveðst hafa þurft að greiða. Kærandi krefst endurgreiðslu kostnaðar vegna starfa skiptastjóranna að fjárslitunum og krefst loks þess að kærðu verði gert að greiða sér 16 milljónir króna í miska- og skaðabætur.

 Meðal gagna málsins er endurrit úrskurðar Héraðsdóms A í málinu nr. Q-xx/200x: C, hdl., gegn X og Z, uppkveðnum xx. september 200x, þar sem sóknaraðili, sem tók við störfum skiptastjóra af kærðu, gerði kröfur á hendur varnaraðilum um þóknun sína og þóknun fyrri skiptastjórans, þ.e. kærðu. Annar varnaraðila, kærandi, féllst á kröfur sóknaraðila um þóknun en gerði ýmsar athugasemdir við umkrafða þóknun kærðu. Tilgreindi kærandi í því sambandi ýmsar athugasemdir sínar við tímaskráningu kærðu. Afstaða kæranda byggðist jafnframt á því að kærða hefði með aðgerðarleysi sínu við skiptastjórn og drætti valdið sér miklum fjárhagslegum skaða og fyrirgert öllum rétti til þóknunar. Í úrskurðinum kom einnig fram að til ágreinings hefði komið með störf kærðu á árinu 2001 en að tiltekin niðurstaða hefði fengist vegna þess á skiptafundi þann 7. maí 2001.

 III.

Kröfur kæranda, um að kærðu verði gert að greiða sér eftirstöðvar kröfu sinnar á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum, vexti, útlagðan kostnað vegna lögmannsþóknunar og miska- og skaðabætur, falla utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ber því að vísa þessum þáttum í erindi kæranda frá nefndinni.

 Ljóst er af gögnum málsins að kærandi gerði margvíslegar athugasemdir við störf kærðu, bæði meðan hún gegndi starfi skiptastjóra, en einnig eftir að nýr skiptastjóri tók við, eins og kemur m.a. fram í fyrrgreindum úrskurði Héraðsdóms A frá xx. september 200x. Eins og mál þetta er lagt fyrir úrskurðarnefndina má ljóst vera að töluvert meira en eitt ár leið frá því kærandi átti þess kost að koma kvörtun sinni á framfæri við nefndina vegna starfa kærðu sem skiptastjóra. Telur nefndin ekki skipta máli í þessu sambandi þótt ekki hafi fengist niðurstaða um kröfu kæranda á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum fyrr en í desember 2005, enda hefði umfjöllun um störf kærðu, ef til hennar hefði komið, ekki þurft að bíða þeirrar niðurstöðu eða verið háð útkomu kröfumálsins. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga ber að vísa kvörtun kæranda frá nefndinni.

 IV.

Að því marki sem í erindi kæranda felst ágreiningur um þóknun kærðu vegna starfa hennar sem skiptastjóra, þá hefur verið leyst úr þeim ágreiningi með úrskurði Héraðsdóms A, uppkveðnum xx. september 200x, í málinu nr. Q-xx/200x. Samkvæmt niðurlagi 3. mgr. 26. gr. lögmannalaga ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa þessum þætti málsins frá nefndinni.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Erindi kæranda, X, á hendur kærðu, Y, hdl., er vísað frá.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA