Mál 24 2006

Ár 2007, þriðjudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2006:

 

K

gegn

B, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 12. september 2006 frá K, kæranda, þar sem kvartað var yfir aðferðum B, hdl., kærða, við innheimtu krafna í vanskilum. Kærandi sendi nefndinni viðbót við erindi sitt þann 2. nóvember 2006.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindi kæranda þann 14. nóvember 2006 og tjáði sig einnig um viðbótargögn kæranda í bréfi, dags. 29. nóvember 2006. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 27. desember 2006. Aðilar hafa til viðbótar framangreindum gögnum tjáð sig lítillega við nefndina um málið í tölvupóstum til hennar.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 1999 flutti kærandi frá Danmörku til Íslands. Hún hafði tekið þrjú lán hjá H í Danmörku en þau lentu í vanskilum. Lögmannsstofa í Danmörku, sem hafði kröfurnar í innheimtu þar í landi, fól kærða að annast innheimtu þeirra hér á landi. Kærði fékk kröfurnar í innheimtu á fyrri hluta árs 2001, en réttarsátt var gerð um þær þá um haustið. Kærandi gat ekki staðið við skilmála réttarsáttanna en greiddi þó til kærða 412.000 krónur á tímabilinu frá 9. apríl 2001 til 1. september 2003.

 Um miðjan október 2005 fékk kærandi tilkynningu frá sýslumanninum í Reykjavík um að búið væri að gera fjárnám í fasteign hennar. Kærandi greiddi eftirstöðvar krafnanna til kærða þann 31. ágúst 2006, alls 456.877 krónur.

 Kærandi leitaði til úrskurðarnefndar lögmanna vegna óánægju með innheimtuaðferðir kærða gegn sér.

 II.

Kærandi kveðst gera athugasemdir við ýmislegt í starfsaðferðum kærða. Kærandi kveðst t.d. hafa talið að skuldin hefði verið að fullu greidd, en hún hefði skilið viðbrögð kærða við fyrirspurn sinni á árinu 2003 svo að skuldin væri úr sögunni eftir allmargar innborganir frá sér. Hún hefði þá alls verið búin að greiða alls 412.000 krónur til kærða.

 Kærandi kveður kærða hafa svert mannorð sitt við sýslumannsembættið með ósannindum, ef marka mætti orð fulltrúa sýslumanns. Þá kveðst kærandi vera þess fullviss að fjárnámið í íbúð sinni hefði verið ólöglegt þar sem hún hefði átt að fá einhverja tilkynningu um hvað væri í vændum. Kærandi telur réttarstöðu sína hafa verið þverbrotna vegna þessa. Kærandi kveðst hafa talað við tvo fulltrúa á sýslumannsembættinu en sér hefði eiginlega verið vísað á dyr, eða svo gott sem.

 Kærandi kveðst hafa hætt að tala við kærða eftir fjárnámsgerðina og fengið sinn lögmann, S, hrl., til þess að taka málið að sér.

 Kærandi telur nafn sitt og viðskiptaleg heilindi hafa skaðast verulega vegna málsins. Það hefði valdið sér óþægindum við fjármögnun og tafið framþróun fyrirtækisins síns að miklum mun.

 Kærandi kveðst telja innheimtukostnaðinn vera feitan bita og kveður þann kostnaðarlið ekki vera í samræmi við það sem tíðkaðist í öðrum löndum.

 Kærandi krefst skaðabóta úr hendi kærða vegna þeirra verkhátta sem beitt var. Þá krefst kærandi þess að kærði endurgreiði sér hluta skuldarinnar sem búið hefði verið að greiða að fullu samkvæmt hans útreikningi.

 III.

Kærði kveðst hafa fengið þrjár kröfur H á kæranda til innheimtu frá lögmanni þess fyrirtækis. Greiðslur hafi verið sendar frá sér til þeirrar lögmannsstofu. Kærði vísar um feril innheimtumálanna til yfirlits er fylgir greinargerð hans.

 Kærði kveður það rangt að hann hafi jánkað því að skuld kæranda væri að fullu greidd, áður en hún var að fullu greidd. Þá kveður hann það rangt að hann hafi svert nafn kæranda við sýslumannsembættið í Reykjavík. Kærði kveðst telja fjárnámið í íbúð kæranda hafa verið löglegt. Kærði kveðst ekki hafa skaðað nafn eða viðskiptaleg heilindi kæranda. Kærði kveðst hafna kröfu kæranda um skaðabætur.

 Kærði kveður kæranda hafa að fullu greitt þær kröfur H sem voru til innheimtu hjá sér og sem réttarsátt var gerð um. Kveður hann kæranda hafa fengið fullnaðarkvittun þar um. Kærði kveður fullnaðaruppgjör hafa verið sent hinni dönsku lögmannsstofu og hefði þeim verið tilkynnt um að málin væru að fullu greidd og þeim hefði þar með lokið. Kærði kveður sér vera ókunnugt um hvenær lögmannsstofan skilaði innheimtufénu til H.

 Kærði kveður hinn danska lögmann hafa beðið sig að innheimta innheimtukostnað, er féll til í Danmörku, auk höfuðstóls og vaxta. Kærði kveðst ekki hafa talið stætt á því að innheimta slíkan kostnað. Innheimta sín hefði snúið að höfuðstól, vöxtum og innheimtukostnaði á Íslandi og væri það að fullu greitt.

Niðurstaða

 I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

 Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin getur fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

 Það fellur ekki undir lögbundið valdsvið nefndarinnar að kveða á um skaðabótaskyldu lögmanns eða að úrskurða hann til greiðslu skaðabóta. Sömuleiðis fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða lögmann til þess að endurgreiða að hluta eða öllu leyti fé sem hann hefur innheimt fyrir umbjóðanda sinn og staðið honum skil á því fé. Þessum þáttum í erindi kæranda er því vísað frá.

 II.

Að virtum þeim gögnum, sem liggja fyrir í málinu, er afstaða úrskurðarnefndar lögmanna til einstakra umkvörtunaratriða eftirfarandi.

 Nefndin telur hvorki hafa verið sýnt fram á að kærði hafi svert nafn kæranda við sýslumannsembættið í Reykjavík né að hann hafi skaðað nafn eða viðskiptaleg heilindi kæranda með innheimtuaðgerðum sínum. Telur nefndin í því sambandi kæranda ekki hafa sýnt fram á að óréttmætt hefði verið að gera fjárnám í íbúð hennar fjórum árum eftir að gerð var dómsátt um kröfurnar og tveimur árum eftir að hún hætti að greiða inn á þær.

 Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi greitt að fullu kröfurnar þrjár fyrr en þann 31. ágúst 2006.

 Kærandi naut aðstoðar lögmanns síns við fullnaðaruppgjör innheimtumálanna þriggja. Kærandi fékk fullnaðarkvittun frá kærða við lokagreiðslu og samkvæmt almennum reglum um umboð teljast kröfur H á hendur henni að fullu greiddar. Gögn málsins bera ekki með sér að lokagreiðsla kæranda hafi verið gerð með nokkrum fyrirvara.

 Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar lögmanna að kærði hafi, í innheimtustörfum sínum gegn kæranda, ekki gert á hennar hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B, hdl., hefur í störfum sínum við innheimtu vanskilakrafna gegn kæranda, K, ekki gert á hennar hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA