Mál 25 2006

Ár 2007, mánudaginn 11. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 25/2006:

  P

gegn

R, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 19. september 2006 frá P, kæranda, þar sem kvartað var yfir störfum R, hdl., kærðu, vegna gerðar erfðaskrár fyrir föður kæranda.

 Kærða sendi nefndinni greinargerð um erindið þann 23. nóvember 2006. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 27. desember 2006. Kærða tjáði sig frekar um málið í bréfi, dags. 12. febrúar 2007.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Erindi kæranda lýtur að störfum kærðu við gerð erfðaskrár fyrir föður kæranda. Kveður kærandi kærðu hafa neitað föður sínum, 90 ára gömlum, um að breyta erfðaskránni þar sem hann væri búinn að breyta henni svo oft. Þá kveður kærandi kærðu hafa ráðlagt föður sínum að skella á börnin sín ef þau væru að skipta sér af þessu máli, sem hann og hefði gert. Kærandi kveður föður sinn vera með miklar ranghugmyndir og er því lýst nánar í erindinu. Kveðst kærandi vera ósátt við það að kærða, sem ekki þekki föður sinn, skuli hafa vottað um heilbrigði hans og einnig að hún hafi fengið tiltekna konu til þess að votta erfðaskrána, en kærandi kveðst vita að þessi kona væri að notfæra sér veikindi föður síns.

 Kærandi kveðst vera ósátt við vinnubrögð kærðu og telur þau vera mjög ófagleg og að siðferði hennar sé ámælisvert.

 II.

Í greinargerð sinni lýsir kærða störfum sínum fyrir föður kæranda, S, við gerð erfðaskrárinnar. Kveður hún S hafa leitað eftir aðstoð við gerð erfðaskrárinnar, á þeim tíma sem kærða starfaði á lögmannsstofu G, hrl. Kveðst kærða hafa farið á heimili S, rætt við hann og veitt honum ráð þegar hann lýsti vilja sínum um efni erfðaskrárinnar. Kærða kveðst hafa ritað erfðaskrána á skrifstofu sinni en jafnframt hafi hún talað nokkrum sinnum við S í síma meðan á því stóð. Hún kveðst síðan hafa farið með erfðaskrána heim til S og hann hafi undirritað skjalið eftir að hafa lesið það yfir. Kærða kveðst hafa vottað undirritunina ásamt tiltekinni konu, sem hefði þekkt S mest allt sitt líf.

 Kærða kveðst hafa metið það svo að S væri fyllilega fær um að undirrita erfðaskrána. Kveðst kærða ekki hafa verið í vafa um það, eftir að hafa talað við S í síma og eftir að hafa hitt hann tvívegis, að hann væri með gerð erfðaskrárinnar að setja vilja sinn á blað.

 Kærða kveður ávirðingar kæranda í sinn garð vera rangar og með ólíkindum. Kærða kveðst hafa veitt þá þjónustu sem S leitaði eftir, þ.e. að gera fyrir hann erfðaskrá og að hún hafi unnið það verk eftir bestu samvisku. Kærða kveðst engan hag hafa haft af því að gera erfðaskrá, sem ekki stæðist lög, og hún myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum fallast á að votta slíka erfðaskrá. Þrátt fyrir nokkuð háan aldur Ásgeirs kveður kærða það hafa verið sitt mat að það væri raunverulegur vilji hans sem skráður var í erfðaskrána og því væru öll skilyrði erfðalaga uppfyllt.

 III.

Í athugasemdum kæranda eru m.a. rakin dæmi um atriði sem hún telur sýna að faðir sinn hefði ekki gert sér grein fyrir efni erfðaskrárinnar og ekki skilið um hvað málið snerist. Kærandi kveðst ætla að vefengja erfðaskrána þar sem sér findist hún hvorki standast lög né siðareglur.

 Kærða mótmælir ýmsu því sem fram kom af hálfu kæranda, sérstaklega að því er varðaði lýsingu kæranda á samskiptum kærðu við S. Þá kveðst kærða hafa tjáð kæranda að hún gæti ekki rætt mál skjólstæðinga sinna við kæranda, til þess hefði hún enga heimild.

 Niðurstaða

 Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Um skyldur lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum eru nánari fyrirmæli í siðareglum lögmanna, einkum 2. kafla þeirra.

 Kærandi er dóttir S, þess er kærða aðstoðaði við að gera erfðaskrá. Kærandi er þannig skylduerfingi S samkvæmt erfðalögum. Kærandi var ekki skjólstæðingur kærðu og á kærðu hvíldu ekki sömu skyldur gagnvart kæranda eins og gagnvart skjólstæðingi hennar, S.

 Ekki er fyllilega ljóst af erindi kæranda hvort verið sé að kvarta yfir meintum brotum kærðu gagnvart kæranda eða föður hennar. Engin gögn hafa verið lögð fram er styðja þá fullyrðingu kæranda að efni erfðaskrárinnar hafi verið í ósamræmi við vilja S eða að kærða hafi haft óeðlileg afskipti af málinu eða óeðlileg áhrif á S að því er varðar tengsl hans við börn sín.

 Að virtum þeim gögnum er liggja fyrir í málinu er það mat úrskurðarnefndar að ekkert hafi komið fram í því sem bendir til þess að kærða hafi í störfum sínum fyrir S við gerð og frágang erfðaskrárinnar gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, R, hdl., hefur í störfum sínum við gerð erfðaskrár fyrir S ekki gert á hlut kæranda, P, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA