Mál 30 2006

Ár 2007, þriðjudaginn 16. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 30/2006:

  H, hrl.

gegn

F, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 13. desember 2006 frá H, hrl., kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum F, hdl., kærða, við öflun viðskiptavina í slysamálum. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 13. febrúar 2007. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 2. maí 2007, sem kærði gerði athugasemdir við í bréfi, dags. 12. júní 2007.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna heldur kærandi því fram að kærði nái til sín viðskiptavinum, sem áður hafi veitt kæranda umboð til þess að annast fyrir sig rekstur slysamála, með vinnubrögðum sem séu í andstöðu við góða lögmannsháttu og siðareglur lögmanna.

 Kveðst kærandi hafa orðið fyrir því í fjögur skipti síðustu 2-3 ár að umboð, sem honum hafi verið veitt til þess að reka slysamál fyrir tjónþola, oft sjómenn, voru afturkölluð og hlutaðeigandi tjónþoli hafi leitað annað. Í öll skiptin hafi tjónþolinn leitað til kærða með mál sitt. Í engu tilviki hafi verið gerðar athugasemdir við vinnu kæranda. Hann telur að í öll skiptin hafi verið ljóst að kærði væri að bjóða eitthvað betur en hann sjálfur. Kærandi kveður fleiri lögmenn hafa orðið fyrir þessu.

 Í erindinu tilgreinir kærandi tilvik þar sem umboð hans hafði verið afturkallað 7. nóvember 2006 og hann upplýstur um að kærða hefði verið falið málið til meðferðar með umboði, dags. 16. júní 2006.

 Kærandi nefnir, máli sínu til stuðnings, meðal annars tilvik þar sem starfsmaður tryggingarfélags á að hafa bent sjómanni á að leita til kærða í stað þess að leita til lögmannsstofu kæranda. Sjómaðurinn hafi ekki hlítt því ráði en kærandi kveðst hafa kvartað yfir þessu við aðalstöðvar tryggingarfélagsins.

 Þá kveður kærandi því hafa verið haldið fram meðal lögmanna að kærði segði mönnum að hann væri betur að sér í slysamálum en aðrir lögmenn, eða þá að hann segðist eiga greiðari aðgang að tryggingarfélögunum en aðrir lögmenn.

 Kærandi telur það vera ósiðlegt og óheiðarlegt að stinga undan kollegum sínum, hvað þá að stunda slíka iðju. Hann kveðst hafa reynt að leiða þetta hjá sér en að þegar tilvikin hrannist upp þá vilji hann ekki una því lengur. Hann kveðst áætla tekjutap lögmannsstofu sinnar á bilinu 1,5 – 3 milljónir króna vegna þeirra fjögurra mála, sem kærði hafi hirt af sér. Með slíkum vinnubrögðum sé verið að raska fjárhagsafkomu lögmannsstofunnar.

 Kærandi telur vinnubrögð kærða vera í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna. Telur hann að verði þessi vinnubrögð liðin áfram skapist fordæmi um það að lögmenn geti stungið undan starfsbræðrum sínum í öllum tilvikum og þar með væri lögmál frumskógarins ríkjandi í stétt lögmanna. Á þessu þurfi Lögmannafélag Íslanda að taka og stoppa. Þessi vinnubrögð séu ólíðandi.

 II.

Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara krefst kærði þess að  nefndin úrskurði að hann hafi í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst kærði greiðslu ómaksþóknunar úr hendi kæranda vegna tilhæfulauss málareksturs.

 Til stuðnings frávísunarkröfu sinni bendir kærði á að ávirðingar þær, sem á hann séu bornar í erindi kæranda, þ.e. að hafa stungið undan kæranda varðandi slysamál, að fleiri lögmenn hafi misst viðskiptavini til kærða, að kærði stundi svarta atvinnustarfsemi og að hann umbuni starfsfólki tryggingarfélaga sérstaklega fyrir að vísa slösuðum einstaklingum til hans, séu sérlega alvarlegar, enda til þess fallnar að vega að starfsheiðri hans og sverta æru hans. Til þess að til greina komi að fallast á kröfu sem byggist á þessum atriðum hljóti að þurfa að færa fram fullnægjandi sönnun fyrir hinum ætluðu ávirðingum auk þess sem sanna þurfi að ávirðingarnar séu þess eðlis að þær réttlæti slíkt.

 Kærði telur verulega skorta á að kærandi uppfylli sönnunarskyldu sína. Ekkert sé lagt fram í málinu sem gefi tilefni til að ætla að kærði hafi beinan aðgang að starfsfólki tryggingarfélaganna eða að hann beri á það fé. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða vegna starfa kærða. Þá mótmælir kærði því sem röngu að hann bjóði viðskiptavinum sínum eitthvað betur en kærandi og stundi svarta atvinnustarfsemi. Engin gögn frá kæranda styðji staðhæfingar hans að þessu leyti. Kærði bendir á að hér sé um að ræða sérlega alvarlega ásökun enda sé raunverulega verið að saka sig um glæpsamlegt athæfi.

 Kærði telur ekki vera uppfyllt skilyrði 10. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna hvað sakarefni varðar. Verði af þessum sökum að vísa málinu frá nefndinni.

 Til stuðnings varakröfu sinni bendir kærði á að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings og verði hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Telur kærði útilokað að leggja dóm á vinnubrögð sín sem lögmanns, eins og atvikum sé háttað í málinu. Kærði kveður mikla eljusemi og atorku hafa skilað sér ágætis árangri í slysa- og skaðabótamálum og að vegna þess hafi hann mátt þola gagnrýni frá einstaka lögmanni. Í sjálfu sér sé ekkert við slíkt að athuga enda sé öllum frjálst að gagnrýna störf sín. Það verði hins vegar að gera á málefnalegan hátt. Málatilbúnaður kæranda byggist hins vegar ekki á málefnalegum sjónarmiðum.

 Að því er varðar tilvik það, sem kærandi tilgreinir í erindi sínu til nefndarinnar, kveður kærði atvik málsins hafa verið þau að á vormánuðum 2006 hafi komið til sín sjómaður ásamt eiginkonu sinni og óskað eftir liðsinni vegna vinnuslyss. Kærði kveður sjómanninn hafa látið þess ógetið að hann hefði falið öðrum lögmanni að reka málið fyrir sig. Kærði kveðst fyrst hafa fengið upplýsingar um að sjómaðurinn hefði veitt tveimur lögmönnum umboð til að reka fyrir sig slysamálið þegar hann ritaði hlutaðeigandi tryggingarfélagið kröfubréf haustið 2006. Viðbrögð sjómannsins hefðu orðið þau að afturkalla umboð sitt til kæranda. Sú ákvörðun hafi verið tekin án íhlutunar af sinni hálfu. Telur kærði röð mistaka hafa valdið þeim misskilningi sem varð í málinu, sem engum verði um kennt.

 Kærði skorar á kæranda að gera nánari grein fyrir þeim fjórum málum sem hann á að hafa tekið frá kæranda, útreikningi vegna áætlaðs tekjutaps, tilvika þar sem umboð kæranda hafi verið afturkölluð og ný veitt kærða, tilvika þar sem viðskiptavinir kærða greiði lögmannsþóknun án virðisaukaskatts, tilvika þar sem kærði greiði starfsfólki tryggingarfélaganna sérstaka þóknun fyrir að vísa slösuðum einstaklingum til sín og loks tilvika þar sem kærði hafi gert lítið úr persónu kæranda eða getu hans til þess að annast slysamál.

 III.

Í bréfi kæranda, þar sem gerðar voru athugasemdir við greinargerð kærða, kemur m.a. fram að tilgangurinn með erindinu til úrskurðarnefndar hafi fyrst og fremst verið sá að vekja athygli á vinnubrögðum kærða, ef það mætti verða til þess að hann hætti þeim einhvern tímann. Í eftirmála bréfsins nefnir kærandi dæmi um að starfsmaður tryggingarfélags hafi vísað tilteknum tjónþola, sem slasaðist í bílslysi, til kærða.

 Í athugasemdum kærða bendir hann m.a. á að kærandi haldi áfram að ásaka sig um óheiðarleg vinnubrögð við öflun viðskiptavina án þess að færa rök fyrir þeirri staðhæfingu eða gögn. Af þeim sökum séu staðhæfingar kæranda um þetta efni ósannaðar. Kærði telur kæranda, í síðara bréfi sínu, ekki hafa tekist að bæta úr þeim óskýrleika sem einkennt hefði málatilbúnað fyrir nefndinni. Ógerlegt sé því fyrir kærða að taka til varna í málinu. Verði því ekki hjá því komist að vísa erindi kæranda frá nefndinni.

 Niðurstaða.

  I.

Erindi kæranda varðar nokkur tilvik, þar sem hann telur kærða hafa á ósiðlegan og óheiðarlegan hátt fengið umbjóðendur kæranda til þess að afturkalla umboð sín í slysamálum og fela kærða innheimtu slysabóta. Kærði telur kæranda ekki hafa lagt fram nein sönnunargögn máli sínu til stuðnings vegna hinna alvarlegu ávirðinga í garð kærða. Þannig hafi ekkert verið lagt fram sem gefi minnsta tilefni til að ætla að kærði hafi beinan aðgang að starfsfólki tryggingarfélaganna eða beri fé á það. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða vegna starfa kærða. Loks hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn er styðji staðhæfingar um að kærði stundi svarta atvinnustarfsemi og er þeim staðhæfingum mótmælt sem alröngum. Af þessum sökum telur kærði að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni og er í því skyni vísað til 2. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna fyrir nefndina.

 Í málinu eru settar fram staðhæfingar um ýmis atriði, sem ágreiningur er um. Einnig er vikið sérstaklega að einu tilviki, þar sem umboð kæranda var afturkallað. Kærði kannaðist við tilvikið og gerði grein fyrir og útskýrði sína hlið málsins. Að mati úrskurðarnefndar verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hann telji meðal annars í tengslum við þetta tilvik kærða hafa gerst brotlegan við ákvæði siðareglna lögmanna. Telur nefndin því rétt að fjalla efnislega um erindi kæranda. Er frávísunarkröfu kærða af þessum sökum hafnað.

 II.

Kærandi nefnir einkum þrjú tilvik í erindi sínu. Í einu tilviki var umboð kæranda til reksturs slysamáls afturkallað, en tjónþoli hafði veitt tveimur lögmönnum umboð sitt til reksturs sama málsins. Var tjónþolanum það heimilt samkvæmt 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Þykir kærandi ekki hafa hrakið skýringar kærða á atburðum er leiddu til afturköllunar umboðsins.

 Hin tvö tilvikin snerust um það að starfsmenn tryggingarfélaga áttu að hafa ráðlagt tjónþolum að leita fremur til kærða en kæranda um hagsmunagæslu fyrir sig við rekstur slysamála. Mun það hafa gengið eftir í öðru tilvikinu en ekki hinu. Kærandi telur þá háttsemi starfsmanna tryggingarfélaganna, sem þannig er lýst, kunna að eiga sér skýringar, sem hann gerir nánari grein fyrir í erindinu. Kærði hafnar öllum skýringum kæranda er að þessu lúta. Gegn neitun kærða þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á réttmæti staðhæfinga og/eða skýringa sinna á ætlaðri framkomu starfsmanna tryggingarfélaganna.

 Það er mat úrskurðarnefndar að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærði hafi gerst brotlegur við 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 33. gr. siðareglnanna. Að því er 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna varðar, þá þykir kærandi ekki, eins og áður hefur komið fram, hafa hrakið útskýringu kærða á því hvers vegna hann tók að sér að gæta hagsmuna sjómannsins vorið 2006 er einnig hafði veitt kæranda umboð sitt til sama málareksturs en sem síðar afturkallaði umboð sitt til kæranda. Þykir kærði að þessu leyti ekki hafa gerst brotlegur við 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna.

 Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd lögmanna kærða ekki hafa í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

  Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, F, hdl., hefur í störfum sínum við hagsmunagæslu í slysamálum ekki gert á hlut kæranda, H, hrl., með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA