Mál 19 2006

Ár 2007, mánudaginn 5. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 19/2006:

 Þ

gegn

H, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 8. júní 2006 frá Þ, sóknaraðila, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun H, hrl., varnaraðila, fyrir hagsmunagæslu hans í þágu sóknaraðila í máli um galla í fasteign.

 Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð um erindið 10. ágúst 2006. Sóknaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerðina. Hann lést haustið 2006 og nokkru síðar óskaði ekkja hans þess að fjallað yrði um málið og úrskurðað í því.

 Málsatvik og málsástæður

 I.

Málsatvik eru þau á árinu 2004 seldi sóknaraðili raðhús í Seljahverfi í Reykjavík. Kaupendur töldu fasteignina vera gallaða vegna gólfsigs víða í húsinu og vegna steypuskemmda á svölum og gerðu kröfur á hendur sóknaraðila vegna þess. Sóknaraðili fól varnaraðila að gæta hagsmuna sinna í málinu.

 Kaupendur létu dómkveðja matsmenn til að meta hina meintu galla og höfðuðu síðan dómsmál gegn sóknaraðila í lok apríl 200x, þar sem þess var krafist að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 884.271 króna auk vaxta og kostnaðar.

 Aðalmeðferð málsins var háð x. febrúar 200x og dómur kveðinn upp nokkrum vikum síðar, þar sem sóknaraðili var dæmdur til að greiða kaupendunum 609.712 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta og 850.000 krónur í málskostnað.

 Meðan varnaraðili gætti hagsmuna sóknaraðila í málinu gaf hann út nokkra reikninga fyrir þóknun sinni:

 Dagsetn.           Fjárhæð

 31.01.05              289.089

30.04.05                28.106

30.06.05              329.396

25.08.05                  4.015

30.09.05                12.045

31.10.05                  8.030

31.01.06                58.826

28.02.06              277.324

22.03.06                21.009

                    _________

Alls krónur     1.027.840

 Samkvæmt þessu nam áskilin þóknun varnaraðila 825.574 krónum auk virðiasukaskatts. Sóknaraðili var ósáttur við þóknun varnaraðila og sendi af því tilefni erindi það til úrskurðarnefndar lögmanna, sem hér er til afgreiðslu.

 II.

Sóknaraðili kveðst hafa fengið reikning frá varnaraðila þann 15. mars 2005, að fjárhæð 289.089 krónur. Síðar, eða þann 20. júlí 2005, hafi hann fengið yfirlit upp á 329.396 krónur. Hafi hann af því tilefni hringt í varnaraðila og spurt hvort þetta væri yfirlit eða hvort verið væri að senda honum svo háan reikning aftur. Hafi varnaraðili játað því og í framhaldi þess sent sér reikning vegna fyrirspurnarinnar um fyrri reikninga. Einnig hafi verið rukkað fyrir vitnasamtöl, sem vitni í dómsmálinu hafi ekki kannast við.

 Sóknaraðili kveðst vera ósáttur við þessa tíma og reikninga frá lögmanni sínum, miðað við ekki umfangsmeira mál. Sóknaraðili kveðst hafa það eftir fjórum lögfróðum mönnum, sem hann ráðfærði sig við, að tímafjöldinn væri alltof mikill, eða 20-30 tímum of mikið.

 III.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa leitað til sín vorið 2004 vegna ágreinings við kaupendur raðhússins. Varnaraðili kveður vinnu sína í byrjun hafa falist í því að fara yfir málið og gögn þess með sóknaraðila, bæði á fundum þeirra og í símtölum. Inn í málið hafi einnig blandast athugasemdir sem sóknaraðili gerði vegna ástands fasteignar sem hann tók upp í kaupverðið á raðhúsinu. Kaupverð raðhússins hafi verið ógreitt að hluta til og hafi það valdið sóknaraðila vandræðum. Hafi varnaraðili átt samskipti við lögmann kaupendanna til þess að leysa það mál og hafi því lokið svo að kaupverðið hafi verið greitt með fyrirvara.

 Varnaraðili kveðst hafa leitað sátta í málinu, enda hafi hagsmunir sóknaraðila verið fólgnir í því. Sáttaviðræður hafi ekki borið árangur og hafi kaupendur þá látið dómkveðja tvo matsmenn til að meta tiltekin atriði í húsinu. Kveðst varnaraðili hafa gætt hagsmuna sóknaraðila í matsmálinu.

 Varnaraðili kveður þessa vinnu, sem fram fór á árinu 2004, hafa tekið 15 tíma og hafi tímaskráningu verið verulega í hóf stillt.

 Varnaraðili gerir nánari grein fyrir vinnu sinni á árinu 2005 og 2006, sem meðal annars fólst í athugun sinni á matsgerðinni og viðræðum við sóknaraðila og gagnaðila hans um niðurstöður matsmannanna. Þegar endanlega kom í ljós að ekki væri sáttagrundvöllur hafi kaupendurnir höfðað dómsmál gegn sóknaraðila. Hafi varnaraðili gætt hagsmuna sóknaraðila í málsvörninni, allt þar til eftir að dómur var kveðinn upp. Varnaraðili bendir á að á þeim tíma, er atvik málsins gerðust, höfðu þá nýlega tekið gildi lög um fasteignakaup. Óhjákvæmilegt hafi verið að huga vel að öllum dómafordæmum úr tíð eldri og yngri réttar, svo og þeim sjónarmiðum sem sem sérstaklega gátu komið til skoðunar með tilliti til hinnar nýju löggjafar.

 Varnaraðili kveður það koma sér á óvart að sóknaraðili skuli halda því fram að hann hafi greitt fyrir of margar vinnustundir, miðað við umfang málsins. Sóknaraðili hafi aldrei gert athugasemdir við sig meðan á rekstri málsins stóð. Hann hafi þó reglulega fengið senda reikninga og þeim hafi fylgt tímaskráningarblað.

 Í greinargerð sinni svarar varnaraðili tveimur athugasemdum sem sóknaraðili gerði í erindi sínu úrskurðarnefndar. Í fyrsta lagi hafi skýringar sínar um framhald málsins staðið einar og sér undir skráningu 0,25 tíma þann 8. ágúst 2005, þótt einnig hafi verið rætt um fyrirspurn sóknaraðila um hvort tiltekinn reikningur hefði verið greiddur eða ekki. Varnaraðili kveðst ekki muna eftir því að sóknaraðili hafi þá haft uppi kvörtun vegna reikningsgerðar. Í öðru lagi hafi skráðir tíma þann 31. janúar 2006, meðal annars vegna spurninga til vitna, falið í sér að hann var að undirbúa aðalmeðferð málsins nokkrum dögum síðar og hann hafi þá verið að semja spurningar sem lagðar yrðu fyrir vitni í aðalmeðferðinni.

 Varnaraðili kveður niðurstöðu í dómsmálinu hafa ráðist af því að dómurinn hafi talið að það stæðist ekki að sóknaraðili hefði hvorki vitað né mátt vita um gólfhallann í húsinu fyrir sölu þess. Þess vegna hefði hann verið dæmdur til að greiða kaupendum skaðabætur.

 Varnaraðili kveður samskipti sín og sóknaraðila ávallt hafa verið vinsamleg og að sóknaraðili hafi komið sér fyrir sjónir sem heiðarlegur og glöggur maður. Hann hafi hins vegar staðið fastur á þeirri afstöðu sinni að um gólfhalla á húsinu hefði hann ekki vitað og hann hafi raunar dregið lengi í efa að nokkur halli væri á gólfum. Þegar niðurstaða matsmanna hafi legið fyrir hafi tækifærið til að sætta málið verið liðið, ekki síst vegna þess mikla kostnaðar sem kominn var á málið vegna vinnu matsmanna og lögmanna beggja aðila. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa verið gerð grein fyrir þeirri áhættu sem í því fælist að reka málið áfram, en þá áhættu hafi hann viljað taka.

 Niðurstaða

 I.

Samkvæmt 1. mgr. 24.. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

 Ekki kemur fram í gögnum málsins að rætt hafi verið sérstaklega um þóknun varnaraðila fyrir störf sín í þágu sóknaraðila, í upphafi verksins. Fyrsta reikning sinn gaf varnaraðili út í lok janúar 2005, en samkvæmt framlagðri tímaskráningu var matsmálinu þá að mestu leyti lokið og viðræður höfðu farið fram um niðurstöðu matsgerðarinnar og þýðingu hennar fyrir sóknaraðila. Þá voru skráðir 18 tímar á málið, eins og fram kemur á reikningnum, þar af 15 tímar á árinu 2004. Varnaraðili gaf síðan reglulega út reikninga, alls 8 reikninga, eftir því sem unnið var í málinu, allt þar til dómsniðurstaða lá fyrir og uppgjör fór fram. Heildartíminn sem fór í verkefnið nam 63,25 klukkustundum, samkvæmt tímaskýrslu sem varnaraðili hefur lagt fram.

 Varnaraðili kvaðst hafa gert sóknaraðila grein fyrir þeirri áhættu sem í því fælist að reka málið áfram, þegar niðurstaða matsmannanna lá fyrir, en þá áhættu hafi hann viljað taka.

 Að mati úrskurðarnefndar liggur ekki fyrir, svo óyggjandi sé, að sóknaraðili hafi á verktímanum gert athugasemdir við varnaraðila um þann tíma, sem varið var til verksins. Telja verður að honum hafi frá útgáfu fyrsta reikningsins gefist tækifæri til að hafa uppi mótmæli vegna þessa, teldi hann þörf á því, og eftir útgáfu þriðja reikningsins í lok júní 2005, þegar greinargerð var lögð fram af hans hálfu í héraðsdómi, hafi hann mátt gera sér grein fyrir að hverju stefndi með umfang málsins.

 II.

Í málinu liggja fyrir dómsskjölin úr héraðsdómsmálinu, sem kaupendur ráku gegn sóknaraðila vegna gallanna. Þar á meðal eru bréfaskriftir varnaraðila við kaupendur og lögmann þeirra, yfirlýsingar fasteignasala sem höfðu afskipti af málinu, matsbeiðni og matsgerð dómkvaddra matsmanna, viðbótargreinargerð matsmanna vegna athugasemda matsbeiðanda, stefna og greinargerð í dómsmálinu og önnur gögn, sem lögð voru fram. Af þeim og tímaskýrslu varnaraðila fæst nokkuð heildstæð mynd af umfangi þess verkefnis, sem sóknaraðili fól varnaraðila að annast fyrir sig.

 Það er mat úrskurðarnefndar lögmanna, að virtum fyrirliggjandi gögnum og útskýringum, að sá tími, sem varið var til verksins, sé innan þeirra marka sem hagsmunagæsla og dómsmál af því tagi sem rekið var gegn sóknaraðila getur gefið tiltefni til.

 Eins og áður greinir telur úrskurðarnefnd lögmanna að gögn málsins beri ekki með sér að komið hafi fram athugasemdir frá sóknaraðila meðan á vinnslu málsins stóð. Þá hafa ekki verið gerðar sérstakar athugasemdir við áskilið tímagjald varnaraðila, sem nam 12.900 krónum á tímann auk virðisaukaskatts, en 13.500 krónum auk virðisaukaskatts á árinu 2006.

 Úrskurðarnefnd lögmanna telur samkvæmt framangreindu áskilda þóknun varnaraðila í verkefni því sem hann tók að sér fyrir sóknaraðila vera innan þeirra marka sem 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga setur og telst því vera hæfilegt endurgjald í skilningi ákvæðisins.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Áskilin þóknun varnaraðila, H, hrl., að fjárhæð 825.574 krónur auk virðisaukaskatts, fyrir hagsmunagæslu og málsvörn í málinu nr. E-xxxx/200x fyrir Héraðsdómi S, telst vera hæfilegt endurgjald.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA