Mál 28 2006

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2006:

 

G

gegn

S, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 20. nóvember 2006 frá G, kæranda, þar sem kvartað var yfir starfsaðferðum S, hrl., kærða, í tengslum við rekstur dómsmáls fyrir kæranda.

 Kærða var veittur frestur til 29. desember 2006 til að skila nefndinni greinargerð af sinni hálfu um erindið. Að undangengnum ítrekunum nefndarinnar þann 23. janúar og 2. febrúar 2007 sendi kærði nefndinni bréf þann 8. febrúar 2007 en með því fylgdi tölvupóstur hans til kæranda, dags. 10. nóvember 2006. Kvaðst kærði engu hafa við tölvupóstinn að bæta.

 Í tölvupósti kæranda til nefndarinnar þann 12. febrúar 2007 krafðist hann þess að nefndin kvæði upp efnislegan úrskurði í málinu og í tölvupósti þann 27. mars 2007 gerði hann nokkrar athugasemdir við bréf og tölvupóst kærða frá 8. febrúar. Kærði fékk sendar athugasemdir kæranda en hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

 Úrskurðarnefndin klofnaði í afstöðu sinni til niðurstöðu í málinu. Sératkvæði B, hrl., er birt neðan við álit meirihluta nefndarmanna.

Málsatvik og málsástæður

 

I.

Málsatvik eru þau að haustið 2005 höfðaði kærandi dómsmál gegn P, lagaprófessor, þar sem krafist var ómerkingar ummæla er féllu í fjölmiðlum þá um sumarið, en stefndi taldi trúnað hafa verið brotinn með afhendingu tiltekinnar skýrslu til L og að varla væri öðrum til að dreifa en kæranda í því sambandi. Jafnframt krafðist kærandi miskabóta úr hendi stefnda, tiltekinnar peningafjárhæðar úr hans hendi til að kosta birtingu dómsins, svo og málskostnaðar. Kærði rak dómsmálið fyrir kæranda.

 Málið var sótt og varið fyrir Héraðsdómi K og dómur kveðinn upp í því þann X. júní 2006, þar sem stefndi var sýknaður af öllum kröfum kæranda.

 Kærandi sendi kærða tölvupóst þann 28. júní 2006 og ræddi þar dómsniðurstöðuna og möguleikann á því að áfrýja dóminum. Í svari kærða sama dag kvað hann dóminn ekki góðan. Hins vegar hefðu þeir 3 mánuði til að áfrýja dóminum og skyldu þeir leggjast undir feld fram á haustið.

 Kærandi sendi kærða tölvupóst þann 25. ágúst 2006 og kvaðst gjarnan vilja heyra frá honum að því er áfrýjun málsins varðaði. Í framhaldi þessa reyndi kærandi árangurslaust að ná sambandi við kærða í september, fram yfir þann tíma er þriggja mánaða áfrýjunarfresturinn rann út. Hann sendi ítrekað tölvupósta og hringdi á lögmannsstofu kærða og skildi eftir skila­boð til hans. Nokkrum dögum eftir að áfrýjunarfresturinn rann út, eða þann 26. september, svaraði kærði tölvupósti kæranda og kvaðst biðjast forláts á því að þeir hefðu ekki náð saman. Kvaðst kærði, eftir að hafa hugsað málið, vera orðinn fráhverfur áfrýjun og taldi rétt að láta kyrrt liggja.

 Í framhaldi þessa ritaði kærandi nokkrum sinnum tölvupóst og bréf til kærða, svo og annarra lögmanna hjá T, og fór m.a. fram á aðstoð við að sækja um áfrýjunarleyfi á grundvelli 153. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, en án árangurs.

 Í kjölfar þessara samskipta við kærða leitaði kærandi til úrskurðarnefndar lögmanna með erindi það, sem hér er til úrlausnar.

II.

Kærandi kveðst hafa verið óánægður með niðurstöðu héraðsdóms og talið þörf á að áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Hann kveðst hafa fengið reikning frá kærða vegna málarekstursins í héraðsdómi og væri búinn að greiða hann. Kærandi telur hvorki reikninginn né önnur atriði hafa falið í sér verklok af hálfu kærða. Engin skil á gögnum, tilkynning til dómstóla eða annað hafi gefið til kynna verklok af hans hálfu.

 Kærandi kveðst ekki geta unað við hin stórundarlegu vinnubrögð kærða, að svara ekki margítrekuðum skilaboðum á tölvupósti og í símtölum við ritara á lögmannsstofu kærða, fyrr en eftir að áfrýjunarfrestur var liðinn. Hafi kærða þótt ólíklegt til árangurs að áfrýja undir­réttardóminum þá hafi honum verið í lófa lagið að segja sig tímanlega frá málinu þannig að kæranda gæfist kostur á að fá annan lögmann til starfsins. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir réttarspjöllum, sem hann líti mjög alvarlegum augum, enda geti hann ekki séð að kærði eigi sér nokkrar málsbætur. Telur hann þessi vinnubrögð vera skýrt brot á lögmannalögum og siðareglum lögmanna.

 Kærandi gerði strax athugasemdir við afstöðu kærða og taldi sig hafa getað leitað annað með aðstoð við áfrýjun héraðsdómsins hefði svar kærða borist fyrr. Taldi kærandi kærða hafa svipt sig möguleikanum á áfrýjun málsins.

 Í erindi sínu krefst kærandi þess að kærði verði áminntur. Hann krefst þess jafnframt að kærði og T verði úrskurðuð skyldug til þess að sækja um áfrýjunarleyfi fyrir sig, sér að kostnaðar­lausu. Kærandi krefst þess að kærða verði gert að greiða sér málskostnað við að hafa kæruna uppi. Loks fer kærandi fram á álitsgerð úrskurðarnefndar um það hvort aðgerðarleysi kærða teljist uppfylla skilyrðið í 2. mgr. 153. gr. laga um meðferð einakamála um að dráttur á áfrýjun máls sé nægilega réttlætanlegur, svo og skilyrði 4. mgr. 152. gr. fyrir áfrýjun máls.

 Til stuðnings umkvörtunarefnum málsins vísar kærandi til allmargra ákvæða siðareglna lögmanna, nánar tiltekið 2., 8., 10., 12., 14., 16., 19., 23., 28., 38., 40., 41., 43. og 44. greina reglnanna. Þá vísar kærandi einnig til 1., 13., 14., 18., 25., 26., og 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 III.

Eins og áður greinir tjáði kærði sig einungis um erindi kæranda með því að senda afrit tölvupósts síns til kæranda, dags. 10. nóvember 2006, en kvaðst að öðru leyti ekki hafa neinu við bréfið að bæta.

 Í tölvupóstinum til kæranda vísar kærði til samtals þeirra sumarið 2006 þar sem hann kveðst hafa gert kæranda grein fyrir því að sér hugnaðist ekki að áfrýja. Kærði kveðst, eftir á að hyggja, ef til vill hafa átt að gera kæranda grein fyrir því skriflega. Það sé hins vegar ljóst að hann hafi gert kæranda grein fyrir áfrýjunarfrestinum og að á frestinum hafi kærandi aldrei falið sér að áfrýja málinu. Vilji kærandi sækja um áfrýjunarleyfi sé rétt að hann feli það öðrum lögmanni, en kærði kveðst reiðubúinn til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að slíkt leyfi fengist. Kærði kveður það mat sitt standa að hann telji áfrýjun ekki skynsamlega.

 IV.

Í athugasemdum sínum kveður kærandi sér hafa verið ókunnugt um tölvupóst kærða þann 10. nóvember 2006. Það sé hins vegar aukaatriði og telur kærandi tölvupóstinn engu máli skipta. Kærandi kveðst muna samtal þeirra sumarið 2006 öðru vísi en fram kemur í frásögn kærða. Það skipti þó litlu máli, enda hafi engin ákvörðun að því er áfrýjun varðaði verið tekin. Kærandi kveður kærða aldrei hafa sagt neitt sem útilokaði áfrýjun af hans hálfu, þótt hann kynni að hafa verið svartsýnn á einhverjum tímapunkti.

 Kærandi telur orð kærða, um að hann hafi aldrei falið kærða áfrýjun málsins, vera á svig við staðreyndir málsins. Hann hafi ítrekað reynt að ná sambandi við kærða frá því 2 mánuðir voru liðnir af áfrýjunarfrestinum, í því skyni að fá kærða til að taka að sér áfrýjun héraðsdómsins, eða til þess að hann hefði ráðrúm til að fela öðrum lögmanni verkið. Engin verklok hefðu átt sér stað og það gæti vart hafa farið fram hjá reyndum lögmanni.

 Kærandi telur það, að kærði hafi ekki fært fram röksemdir og útskýringar, fela í sér óvirðingu, ekki bara gagnvart sér heldur einnig gagnvart úrskurðarnefndinni, Lögmannafélagi Íslands, siðareglum lögmanna og lögmannalögum.

 Niðurstaða

 I.

Í kröfugerð kæranda kemur fram, eins og áður er getið, að hann krefst þess að kærða og/eða T verði gert skylt að sækja um áfrýjunarleyfi fyrir sig, sér að kostnaðarlausu. Einnig er farið fram á álit nefndarinnar um tiltekin atriði er varða skilyrði fyrir áfrýjunarleyfi samkvæmt 152. og 153. gr. laga um meðferð einkamála.

 Það fellur utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998 að taka afstöðu til framangreindra atriða í kröfugerð kæranda. Var kæranda gerð grein fyrir þessari stöðu mála undir rekstri málsins fyrir nefndinni. Verður því ekki tekin afstaða til þessara kröfuliða kæranda í úrskurði þessum.

 II.

Kærði rak dómsmál fyrir kæranda og lauk því með uppkvaðningu dóms þann x. júní 2006. Kærði gaf í kjölfar þess út reikning fyrir verklaunum sem kærandi greiddi skömmu síðar. Að mati úrskurðarnefndar lögmanna liggur ekkert fyrir um það í gögnum málsins að kærði hafi tekið að sér áfrýjun dómsins til Hæstaréttar Íslands fyrir kæranda, eða lofað að slíkt yrði gert. Telur nefndin þannig orðalag kærða í tölvupósti hans til kæranda þann 28. júní 2006 fremur benda til þess að ætlunin hafi verið sú að nota áfrýjunarfrestinn til að hugleiða möguleikann á eða kosti þess að áfrýja dóminum heldur en að ákvörðun þar að lútandi hafi beinlínis verið tekin.

 III.

Í erindi kæranda er lýst ítrekuðum tilraunum hans við að ná sambandi við kærða, í því skyni að ræða um áfrýjun málsins. Fram hafi komið í tölvupósti hans til kærða þann 25. ágúst 2006 að hann vildi gjarnan heyra frá kærða um hug hans til áfrýjunar héraðsdómsins, um möguleika og líkindi almennt og loks vilja kærða til þess að fara út í áfrýjun málsins. Í framhaldi af tölvupóstinum hafi kærandi ítrekað reynt að ná sambandi við kærða síðasta mánuðinn af áfrýjunarfrestinum, sérstaklega þó síðustu vikuna áður en fresturinn rann út.

 Kærði hefur ekki gert athugasemdir við þessa lýsingu kæranda á málsatvikum. Þá hefur kærði ekki gert neina grein fyrir því hvers vegna hann svaraði ekki skilaboðum kæranda.

 Kærandi átti þess kost að fá útgefna áfrýjunarstefnu fyrir 23. september 2006, án atbeina kærða, og forða þannig réttarspjöllum, t.d. með því að leita til annars lögmanns. Hins vegar mátti kærða ekki dyljast að á grundvelli fyrra samstarfs í málinu leitaði kærandi sérstaklega til hans um ráðgjöf og aðstoð, enda verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir lægi skýr afstaða kærða til áfrýjunarinnar þann 25. ágúst 2006 eða síðar. Að mati meirihluta úrskurðarnefndar lögmanna bar kærða að svara skilaboðum kæranda og taka af öll tvímæli um það hvort hann hygðist taka að sér áfrýjun málsins eða ekki, áður en áfrýjunarfresturinn rann út. Lutu hagsmunir kæranda að því að fá um þetta skýr svör með hæfilegum fyrirvara. Að mati úrskurðarnefndar braut kærði á þennan hátt starfsskyldur sínar gagnvart kæranda með því að svara ekki án ástæðulauss dráttar erindum hans og fyrirspurnum er lutu að áfrýjun héraðs­dómsins. Felur vanræksla kærða að þessu leyti í sér brot gegn 41. gr. siðareglna lögmanna og er aðfinnsluverð að mati nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 IV.

Kærða var veittur frestur til 29. desember 2006 til að gera úrskurðarnefndinni grein fyrir sinni hlið málsins, eftir að erindi kæranda barst henni. Engin svör bárust frá kærða fyrr en 8. febrúar 2007, að undangengnum ítrekuðum tilmælum nefndarinnar um að hann skilaði greinargerð sinni um málið. Engar skýringar voru gefnar af hálfu kærða um umkvörtunaratriði í erindi kæranda, en látið nægja að vísa til tölvupósts hans til kæranda. Nefndin telur þessa framkomu kærða gagnvart sér og kæranda aðfinnsluverða, en hún felur í sér brot á skyldum kærða samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, S, hrl., að svara ekki skilaboðum og fyrirspurnum kæranda, G, sem lutu að möguleikum á áfrýjun héraðsdóms, áður en áfrýjunarfrestur rann út, er aðfinnsluverð.

Sú háttsemi kærða, að svara seint og á ófullnægjandi hátt tilmælum úrskurðarnefndar lögmanna um að gera grein fyrir máli sínu um erindi kæranda, er aðfinnsluverð.

Málskostnaður fellur niður.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

SÉRATKVÆÐI B, HRL.

Fyrir liggur í málinu að kærði og kærandi töluðu saman um hugsanlega áfrýjun málsins einhvern tímann um sumarið 2006, þótt aðila greini á um efni samtalsins. Ef horft er til sam­skipta aðila að öðru leyti virðist sem ákveðin umskipti hafi orðið að undirréttardóminum gengnum. Styðst þetta m.a. við framburð kæranda sjálfs. Loks liggur fyrir að kærandi óskaði ekki formlega eftir því við kærða á áfrýjunarfresti að hann áfrýjaði málinu fyrir hans hönd, en um það hafði hann síðasta orðið.

Að öllu þessu virtu verður að telja að kæranda hljóti að hafa verið það ljóst nægjanlega snemma að hann yrði annað tveggja að fela kærða formlega áfrýjun málsins eða fá annan til þeirra starfa. Kærði hefur haldið því fram að hann hafi greint kæranda munnlega frá því um sumarið 2006, í fyrrnefndu samtali, að sér hugnaðist ekki að áfrýja. Breytingin á samskiptum aðila þykir styðja þá fullyrðingu. Gegn þeirri staðhæfingu verður kærði ekki beittur viður­lögum samkvæmt 2. mgr. 27. greinar lögmannalaga nr. 77/1998, fyrir að svara ekki ítrekuðum orðsendingum kæranda síðar um haustið, þótt telja megi á hinn bóginn að æskilegt hefði verið að skýr, skrifleg og afdráttarlaus afstaða af hans hálfu hefði legið fyrir.

Ítrekað og óútskýrt skeytingararleysi kærða um tímafresti gagnvart úrskurðarnefnd lögmanna og síðbúið og ófullnægjandi svar hans er aðfinnsluvert.

Eftir þessari niðurstöðu fellur málskostnaður niður.

Rétt endurrit staðfestir:

___________________________

Marteinn Másson