Mál 19 2007

Ár 2008, föstudaginn 11. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2007:

  K

gegn

L, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 4. desember 2007 frá K, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum L, hdl., kærðu, vegna starfa hennar í þágu kæranda í forsjármáli. Kærða tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 17. janúar 2008. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu, með fresti til 18. apríl 2008, en engar athugasemdir bárust frá honum.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kærir kærandi kærðu fyrir meinta vanrækslu í forsjármáli gegn fyrrverandi sambýliskonu hans. Kærandi kveðst hafa leitað til kærðu og óskað liðsinnis hennar, en kærandi kveðst þá hafa ætlað að kæra sambýliskonuna fyrrverandi fyrir ofbeldi gagnvart syni þeirra. Telur kærandi að kærða hafi komið í veg fyrir að kæra sín næði fram að ganga. Í stað þess hefði sambýliskonan fyrrverandi kært sig og væri hann nú í stöðu sakbornings af þessum sökum. Þá hafi kærða sagt sér að hún myndi ræða við barnaverndarnefnd og jafnframt hafi hún fullyrt að hún hefði tök inn í barnaverndarnefnd og hjá sýslumanninum í F. Kærða hafi hins vegar aldrei mætt hjá sýslumanni eða barnaverndarnefnd og væri kærandi því á byrjunarreit í dag með mál sitt.

 Kærandi telur kærðu ekki standa sig sem lögmaður og að hún gangi þvert á hagsmuni skjólstæðings síns. Telur kærandi að hún eigi ekki að hafa réttindi sem lögmaður.

II.

Kærða lýsir málavöxtum svo að kærandi hafi leitað til hennar 12. mars 2007 í þeim tilgangi að fá lögfræðiaðstoð í forsjármáli og einnig vegna fjárslita gagnvart sambýliskonu sinni fyrrverandi. Kærða kveðst hafa unnið fyrir kæranda frá 12. mars 2007 til loka apríl 2007. Það hafi líklega verið í byrjun apríl 2007 sem kærandi hafi greint sér frá því að sambýliskonan fyrrverandi hyggðist kæra hann vegna ofbeldis gagnvart barni þeirra. Hafi kærandi borið það undir sig hvort hann ætti að kæra sambýliskonuna fyrir ofbeldi gagnvart barninu, þar sem hann teldi hana hafa brotið gegn barninu. Kveðst kærða hafa ráðlagt kæranda að skýra frá þessu og eftir atvikum að leggja fram kæru, þegar og ef hann yrði kallaður til lögreglu vegna kæru konunnar.

 Kærða telur kæranda halda að þegar tveir deili, eins og í þessu tilviki, hljóti sá, sem fyrr leggi fram kæru, ekki stöðu sakbornings og skapi sér þannig betri stöðu en sá, sem síðar kærir. Kærða kveður það ekki vera á færi lögmanna að koma í veg fyrir að einstaklingar verði kærðir eða að koma í veg fyrir að þeir hljóti stöðu sakbornings.

 Kærða kveðst hafna því að ráðgjöf hennar gagnvart kæranda hafi orðið til þess að hann hafi fengið stöðu sakbornings vegna kæru barnsmóður hans. Kærða kveðst jafnframt hafna því að hafa komið í veg fyrir að kærandi legði sjálfur fram kæru á hendur barnsmóður sinni eða að hafa með einhverjum hætti átt þátt í stöðu hans vegna kæru konunnar.

  Niðurstaða.

  Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

 Lýsingu málsaðila á störfum kærðu og ráðgjöf hennar til kæranda ber að einhverju leyti saman. Kærandi hefur ekki gert athugasemdir við lýsingu kærðu á málsatvikum. Af þeirri lýsingu verður ekki ráðið, að mati úrskurðarnefndar lögmanna, að kærða hafi vanrækt starfsskyldur sínar gagnvart kæranda eða að þær ályktanir, sem kærandi dregur af málsatvikum í erindi sínu til nefndarinnar, eigi við rök að styðjast.

 Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærða hafi ekki í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærða, L, hdl., hefur í störfum sínum í forsjármáli fyrir K, kæranda, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA