Mál 3 2007
Ár 2008, mánudaginn 3. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2007:
J
gegn
I, hdl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 8. febrúar 2007 frá J, sóknaraðila, þar sem borinn er undir nefndina m.a. ágreiningur um endurgjald I, hdl., varnaraðila, fyrir málflutningsstörf. Varnaraðili tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 11. maí 2007. Sóknaraðili tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 19. júní 2007. Varnaraðili upplýsti nefndina um að hann teldi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um málið.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 23. febrúar 2004 keypti sóknaraðili einbýlishús í Xbæ. Húsið var byggt á árinu 1945. Ásett verð var 6,9 milljónir króna en kaupverð nam 6,6 milljónum króna. Húsið var afhent 25. febrúar 2004.
Þann 26. maí 2004 veitti seljandi sóknaraðila 400 þúsund króna afslátt af kaupverði vegna galla á vatnslögnum og öðrum minni háttar göllum. Greiðslufall varð af hálfu sóknaraðila þegar inna átti af hendi afborgun 1. október 2004, að fjárhæð 500.000 krónur, og einnig vegna afborgunar þann 1. desember 2004, að fjárhæð 410.000 krónur. Sóknaraðili svaraði innheimtubréfi frá seljanda með því að benda á að fleiri, alvarlegir gallar hefðu komið í ljós og yrði umfang þeirra galla metið.
Að beiðni sóknaraðila var dómkvaddur matsmaður þann 4. febrúar 2005 til þess að meta þá galla, sem hann taldi vera á húsinu, en hann taldi aðallega hafa verið um að ræða vatnsskemmdir á veggjum stigagangs sem klætt hefði verið yfir með nýjum gifsplötum. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns er dagsett 23. apríl 2005, en samkvæmt niðurstöðu hans kostaði það 551.000 krónur að bæta úr þeim annmörkum á húsinu sem matsbeiðnin laut að. Í kjölfar matsgerðar voru reyndar sættir með aðilum, en án árangurs. Seljandi eignarinnar höfðaði mál gegn sóknaraðila þann 29. nóvember 2005 til greiðslu eftirstöðva kaupverðsins. Í málsvörn sinni hafði sóknaraðili uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar vegna hinna meintu galla á eigninni.
Aðalmeðferð málsins var háð x. maí 200x og í dómi, uppkveðnum x. maí 200x var sóknaraðili dæmdur til að greiða eftirstöðvar kaupverðsins auk málskostnaðar að fjárhæð 360.000 krónur, en afsláttar- eða skaðabótakröfu hans á hendur seljanda var hafnað.
Varnaraðili gætti hagsmuna sóknaraðila í matsmálinu og dómsmálinu frá ársbyrjun 200x. Áskilið endurgjald varnaraðila fyrir málflutningsstörfin varð sóknaraðila tilefni erindis þessa, sem hér er til úrlausnar.
II.
Í erindi sínu til úrskurðarnefndar fer sóknaraðili fram á skoðun málsins, en hann telur sig ekki hafa fengið nægar skýringar á þeim tíma, sem endurgjaldskrafa varnaraðila miðast við. Nefnir hann í því sambandi að samkvæmt dómsskjölum hafi farið 17,75 tímar í málið en endurgjaldskrafan styðjist við 56,9 skráða tíma. Þá fer sóknaraðili fram á að skoðað verði hvort málinu hafi verið klúðrað áður en til dóms kom.
Sóknaraðili kveður aldrei hafa verið rætt um tímafjölda í málinu og heldur ekki annan kostnað við það. Hann kveður matsmann hafa tjáð sér að matsbeiðni hafi verið svo þröng að það hafi varla verið framkvæmanlegt að meta hina meintu galla. Sóknaraðili telur varnaraðila, sem lögfræðing, hafa átt að vita við hvern hafi átt að fara í mál og honum hafi átt að vera ljóst að kostnaður gat orðið mikill í málinu. Hann gerir einnig athugasemd við það að samið hafi verið um greiðslu kostnaðar frá Vátryggingafélagi Íslands, en greiðsla þaðan hafi verið langt frá kostnaði og varnaraðili hafi ekki haft heimild til að taka við greiðslunni.
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar gerir varnaraðili ítarlega grein fyrir málflutningsstörfum sínum í þágu sóknaraðila að gallamálinu og hvernig endurgjaldskröfu er háttað. Hann kveðst hafa gert sóknaraðila grein fyrir því að eina málsástæðan sem hefði einhverja þýðingu í málinu væri sú að seljandi hefði sýnt af sér saknæma háttsemi við kaupin, þ.e. vitað eða mátt vita um gallann, en leynt honum. Erfitt yrði að sanna það á grundvelli fyrirliggjandi gagna nema staðfesting fengist í skýrslutöku fyrir dómi. Þá kveðst varnaraðili hafa gert sóknaraðila grein fyrir því að hann teldi niðurstöðu matsgerðar nokkuð háa, einkum er varðaði smíði á nýjum stiga í stað eldri. Nær öruggt væri að ekki yrði fallist á niðurstöðu matsgerðarinnar að fullu þótt niðurstaðan yrði sú að um galla hefði verið að ræða. Þrátt fyrir þetta hefði sóknaraðili viljað taka til varna í dómsmálinu sem seljandi höfðaði. Varnaraðili kveðst einnig hafa gert sóknaraðila grein fyrir því að þrátt fyrir málskostnaðartryggingu yrði hann ávallt að bera 20% málskostnaðar sjálfur upp að 1 milljón króna, en allan málskostnað umfram það, tapaðist málið.
Varnaraðili kveður dómara hafa reynt að sætta málsaðila við aðalmeðferð málsins. Hafi embættisdómari og meðdómendur lagt hart að aðilum að ná sáttum og hafi sáttaumleitanir staðið í nokkurn tíma. Dómurinn hafi m.a. gert tillögu að sátt, sem fól í sér að eftirstöðvar kaupverðsins yrðu lækkaðar um 100-200 þúsund krónur og hvor aðili um sig bæri sinn kostnað af málinu. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa hafnað sáttatillögunni, þrátt fyrir að varnaraðili hafi lagt að honum að fallast á hana.
Varnaraðili kveðst hafa ráðlagt sóknaraðila, eftir dómsuppkvaðningu, að áfrýja ekki dóminum. Hafi sóknaraðili fallist á það.
Í greinargerð sinni gerir varnaraðili grein fyrir kröfugerð á hendur Vátryggingafélagi Íslands, annars vegar sem tryggingarfélags Xbæjar, en hluti af þeim göllum eða því tjóni sem sóknaraðili taldi sig hafa orðið fyrir stafaði frá vatnsleka úr leiðslum bæjarins, en hins vegar vegna málskostnaðartryggingar sem sóknaraðili var með. Er kröfum þessum nánar lýst í greinargerðinni og fylgiskjölum, meðal annars bótakvittunum og bréfaskriftum. Bætur úr málskostnaðartryggingu námu 668.306 krónum og var af þeirri fjárhæð ráðstafað 288.000 krónum upp í tildæmdan málskostnað í héraðsdómsmálinu, að sögn varnaraðila í samráði við sóknaraðila.
Þá greiddi VÍS, eftir bréfaskriftir og að kröfu varnaraðila, 300.006 krónur á árinu 2006 til viðbótar öðrum bótum til sóknaraðila vegna vatnstjónsins, en hann hafði áður fengið greiddar 400.000 krónur á árinu 2004 vegna þess. Varnaraðili tók við bótagreiðslunni og kveðst hafa haft samráð við sóknaraðila þar um. Hann hugðist ráðstafa henni til greiðslu áfallins kostnaðar. Hann kveður sóknaraðila hins vegar hafa verið ósáttan við þá ráðstöfun og að loknum viðræðum hafi verið ákveðið að endurgreiða fjárhæðina til VÍS. Varnaraðili kveður skuld sóknaraðila vegna lögmannsþóknunar og útlagðs kostnaðar vera 434.767 krónur.
Varnaraðili gerir einnig grein fyrir öðrum störfum sínum í þágu sóknaraðila, sem ekki hefur verið krafið um endurgjald fyrir.
Varnaraðili bendir á tímaskráningu er fylgdi greinargerð hans til nefndarinnar, til stuðnings endurgjaldkröfunni, en samkvæmt skránni fóru 56,9 tímar í verkefnið, þar með talið tilraunir við að fá bætur frá VÍS. Hann telur tímaskráninguna mjög hóflega miðað við bréfaskriftir og umfang málsins. Umtalsverð samskipti við VÍS, bæjarritara í Xbæ og sóknaraðila hafi ekki verið skráð nema að óverulegu leyti.
Vegna athugasemda sóknaraðila, um að einungis hafi farið 17,25 tímar í málið samkvæmt upplýsingum úr dómsskjölum, þá telur hann að um misskilning sé að ræða. Bendir hann í því sambandi á að hluti af gagnkröfu til skuldajafnaðar, sem höfð var uppi fyrir sóknaraðila í héraðsdómsmálinu, hafi verið krafa um lögmannskostnað vegna 17,25 tíma, sem fallin var á málið fyrir höfðun dómsmálsins. Hafi málskostnaðarreikningur varnaraðila í héraði tekið mið af þessu. Því hafi verið gerð krafa um lægri málskostnað sem nam þessum 17,25 tímum.
Niðurstaða.
I.
Krafa varnaraðila um endurgjald fyrir málflutningsstörfin styðst við tímaskýrslu hans. Samkvæmt henni eru skráðir 57,65 tímar á verkið en endurgjaldskrafan miðast við 56,9 tíma. Af þeim fóru 17,25 tímar í málið fram að málshöfðuninni í október-nóvember 2005, aðallega við rekstur matsmálsins. Nokkrar skráðar tímaeiningar eru vegna samskipta við VÍS. Samkvæmt tímaskránni var unnið í málinu frá 3. janúar 2005 til 21. nóvember 2006. Tímagjaldið sem endurgjaldskrafan miðast við er 10.925 krónur auk virðisaukaskatts.
Nefndin telur, að við heildarmat á eðli málsins og umfangi, megi telja tímaskýrslu varnaraðila gefa trúverðuga mynd af störfum varnaraðila og þeim tíma sem fór í málareksturinn. Telur nefndin þannig að tímaskýrsluna, eins og hún hefur verið lögð fyrir nefndina, megi leggja til grundvallar við ákvörðun á umfangi málsins og endurgjaldi varnaraðila.
Samkvæmt þessu er það mat úrskurðarnefndar að áskilið endurgjald varnaraðila, 621.642 krónur auk virðisaukaskatts, sé hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 fyrir málflutningsstörf hans.
II.
Með greinargerð varnaraðila fylgi yfirlit um innborganir og útlagðan kostnað í málinu, en yfirlit þetta er á fylgiskjali 19. Samkvæmt yfirlitinu bárust greiðslur frá VÍS á þeim tíma sem varnaraðili gætti hagsmuna sóknaraðila. Greiddur var hluti matskostnaðar, 126.094 krónur, hluti málskostnaðar úr málskostnaðartryggingu sóknaraðila, 668.306 krónur, og loks viðbótar skaðabætur vegna vatnstjóns, 300.006 krónur. Varnaraðili kveðst hafa endurgreitt VÍS síðast nefndu fjárhæðina vegna efasemda sóknaraðila um heimild sína til að taka við bótunum frá tryggingafélaginu.
Að mati úrskurðarnefndar lögmanna fela yfirlitið og skýringar varnaraðila í sér fullnægjandi greinargerð um móttekna fjármuni, ráðstöfun þeirra og kostnað vegna málsins.
III.
Ágreiningur sóknaraðila og seljanda hússins um hina meintu galla laut að lögfræðilegum álitaefnum, sem skorið var úr í héraðsdómi. Af gögnum þeim, sem lögð voru fyrir nefndina, þ. á m. gögn úr matsmálinu og gögn úr héraðsdómsmálinu, verður ekki ráðið að sérstakir annmarkar hafi verið á málatilbúnaði, sem hafður var uppi fyrir hönd sóknaraðila. Telur nefndin því ekki að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir sóknaraðila, við meðferð og flutning ágreiningsmáls vegna galla, gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Áskilið endurgjald varnaraðila, I, hdl., fyrir málflutningsstörf í þágu sóknaraðila, J, 621.632 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, er hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.
Varnaraðili hefur í störfum sínum fyrir sóknaraðila ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA