Mál 11 2007

Ár 2008, fimmtudaginn 17. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 11/2007:

 

X

gegn

Y, hdl., og

Z, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 25. júlí 2007 frá Þ, hrl., fyrir hönd fyrirtækisins X í Bremen í Þýskalandi, kæranda, þar sem kvartað var yfir framgöngu Y, hdl., og Z, hrl., kærðu, við innheimtu  yfirdráttarkröfu umbjóðanda síns hjá fyrirtækinu Æ ehf. Kærðu tjáðu sig um erindið í bréfi, dags. 30. október 2007. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu og bárust athugasemdir frá honum í bréfi, dags. 5. desember 2007. Kærðu sendu nokkrar athugasemdir til nefndarinnar í bréfi, dags. 8. janúar 2008.

 Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru þau að í febrúar 2007 fól kærandi Þ, hrl., að innheimta fyrir sig reikningskröfur sem stöfuðu einkum frá sölu tveggja bifreiða af gerðinni BMW. Bifreiðarnar voru fyrst skráðar á nafn einstaklings hér á landi, A, um miðjan desember 2006, en nokkrum dögum síðar voru þær umskráðar á nafn fyrirtækisins Æ ehf. Sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti bifreiðarnar að kröfu kæranda þann 27. febrúar 2007 og var höfðað dómsmál í kjölfarið til staðfestingar á gerðinni og til innheimtu reikningskrafnanna.

 Þann x. mars 200x var undirrituð réttarsátt um kröfu V á hendur Æ ehf. vegna yfirdráttarskuldar. Kærði Y undirritaði sáttina fyrir hönd V, en L, þar sem kærði Y starfar og sem kærði Z veitir forstöðu, hafði verið falið að innheimta kröfuna. Var réttarsáttin staðfest í Héraðsdómi P þann x. mars 200x, með gjalddaga daginn eftir, x. mars. Vegna greiðslufalls var útbúin aðfararbeiðni á grundvelli réttarsáttarinnar þann 8. mars 2007 og fjárnám gert í áðurnefndum bifreiðum þann x. apríl 200x. Bifreiðarnar voru seldar nauðungarsölu þann x. júní 200x á 4,5 milljónir króna hvor um sig. Uppboðsandvirðið, að frádregnum sölulaunum uppboðshaldara, rann að langmestu leyti til V upp í fjárnámskröfu sjóðsins. Ekkert greiddist upp í kyrrsetningarkröfu kæranda.

 Fyrirtækið Æ ehf. var sýknað í Héraðsdómi P af kröfu kæranda þann x. september 200x, vegna aðildarskorts.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar kveðst kærandi telja augljóst að tilgangurinn með réttarsátt V og Æ ehf. hafi verið sá að V öðlaðist veð í bifreiðunum, sem hefði tryggari stöðu en krafa sín og nyti þeirrar stöðu að vera uppboðsgrundvöllur. Telur kærandi hafa verið gengið fram með mjög afbrigðilegum hætti og á sinn kostnað, því fjárnám njóti sterkari stöðu en kyrrsetningargerð. Telur kærandi lögin hafa verið misnotuð í þeim tilgangi að skapa sparisjóðnum betri stöðu og ríkari rétt.

 Kærandi kveðst ekki geta staðið frammi fyrir aðgerðum V, sem yrðu að teljast vera löglegar en óeðlilegar með öllu, og horfa aðgerðarlaus á þá misnotkun aðfararheimildar sem V og lögmaður hans gerðu sig seka um.

 Kærandi óskar þess að úrskurðarnefndin leggi mat á framgöngu kærðu við þessar aðstæður og að þeim verði gert að sæta þyngstu viðurlögum sem lög heimila, auk þess sem ályktað verði um bótarétt sinn á hendur kærðu vegna þessa.

 Kærandi telur það hljóta að vera réttlætismál að lögmenn gæti hófs í því að gæta réttar umbjóðenda sinna við innheimtu krafna og geri sig ekki seka um að misnota lög með þeim hætti sem sýnt þykir að gert hafi verið.

 Kærandi telur að ástæða sé til að ætla að sparisjóðurinn hafi haft einhver önnur veðandlög eða ábyrgðir til að tryggja kröfu sína á hendur A og Æ ehf. Vegna bágrar fjárhagsstöðu þessara aðila hljóti sparisjóðurinn að hafa fengið ábyrgðir frá þeim. Telur kærandi að kærðu hafi átt að grennslast fyrir um þetta og kynna sér vandlega.

 Kærandi krefst málskostnaðar úr hendi kærðu.

 III.

Kærðu kveða V hafa falið L að innheimta kröfu vegna yfirdráttar á tékkareikningi. Innheimtan hafi byggst á víxli sem hafi verið lagður fram til tryggingar greiðslu á yfirdrættinum, en víxilskuldarar hafi verið Æ ehf. og A.

 Víxilskuldararnir hafi haft greiðsluvilja en ekki greiðslugetu. Af þeim sökum hafi verið gert samkomulag við þá um greiðslu, með réttarsátt sem var undirrituð x. mars 200x. Fullnaðaruppgjör samkvæmt réttarsáttinni hafi átt að fara fram x. mars 200x. Þegar ekki hafi verið staðið við það samkomulag hafi verið krafist aðfarar, en aðfarargerð hafi farið fram þann x. apríl 200x.

 Kærðu gera nokkra grein fyrir tilurð yfirdráttarlánsins sem þeir kveða hafa verið tekið til þess að fjármagna kaup á bifreiðunum tveimur. Söluverð þeirra hafi átt að ganga til greiðslu yfirdráttarlánsins.

 Kærðu kveða fjárnámið, sem gert hafi verið í bifreiðunum, hafa leitt til efnda á kröfu sparisjóðsins. Kærðu kveðast vera stoltir af framgangi sínum í málinu. Þeir hafi náð árangri fyrir umbjóðanda sinn.

 Kærðu kveðast ekki skilja bollalengingar kæranda um misnotkun á lögum frekar en þeir fallist á að hafa farið fram með óeðlilegum eða afbrigðilegum hætti. Kærðu telja sig hafa gætt hófs í að innheimta kröfu sem var óumdeild.

 Kærðu krefjast þess að málinu verði vísað frá nefndinni, enda sé því ekki beint til hennar. Þá telja kærðu að ekki verði séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu í málinu, en samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms P í málinu nr. E-xxxx/200x hafi Æ ehf. verið sýknað af kröfum kæranda vegna aðildarskorts. Þar hafi farið grundvöllur kyrrsetningargerðarinnar.

 Kærðu krefjast þess að synjað verði kröfu kæranda um viðurlög vegna framgöngu sinnar í málinu, sem hafi verið eðlileg, lögleg og í samræmi við góða lögmannshætti.

 Kærðu krefjast hæfilegs málskostnaðar vegna tilefnislausrar kæru, aðallega úr hendi Þ, hrl., eða óskipt með kæranda.

 Kærðu gera athugasemdir við það að erindi kæranda er beint til Lögmannafélags Íslands, siðanefndar. Þá telja þeir erfitt að átta sig á því hvort Þ, hrl., sé að reka erindið í eigin nafni eða í nafni X í Bremen, en engin grein sé gerð fyrir því fyrirtæki.

 

                                                            Niðurstaða.

  I.

Úrskurðarnefnd lögmanna telur engan vafa ríkja um það að Þ, hrl., gætir hagsmuna kæranda, X, í máli þessu, en er ekki sjálfur kærandi. Er nægileg grein gerð fyrir kæranda í gögnum málsins.

 Erindi kæranda er samkvæmt orðalagi sínu beint til Lögmannafélags Íslands, siðanefndar. Telur úrskurðarnefnd lögmanna ekki fara milli mála að erindinu sé beint til sín, enda er ekki annarri nefnd fyrir að fara samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998 sem gegnir því hlutverki að fjalla um slíkt erindi. Í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sendi Lögmannafélagið erindið réttilega til úrskurðarnefndarinnar. Er frávísunarkröfu kærðu að þessu leyti því hafnað.

 II.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 getur sá, sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefndina kvörtun á hendur lögmanninum.

 Kærandi gerði reka að því að innheimta kröfu sem hann taldi sig eiga á hendur tveimur aðilum hér á landi. Á sama tíma gættu kærðu hagsmuna umbjóðanda síns við innheimtu kröfu á hendur öðrum þessara aðila. Hagmunir kröfuhafanna sköruðust við innheimtuaðgerðirnar. Að mati úrskurðarnefndar á kærandi rétt til þess samkvæmt fyrrnefndu ákvæði lögmannalaga að senda kvörtun á hendur kærðu telji hann þá hafa í starfi sínu við innheimtu kröfunnar fyrir V gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögmannalögum eða siðareglum lögmanna. Á kærandi að þessu leyti lögvarða hagsmuni í málinu. Er frávísunarkröfu kærðu vegna þessa atriðis því hafnað.

 III.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

 Kærðu var falið að innheimta yfirdráttarskuld, en til tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar hafði kröfueigandinn víxil. Fólst innheimtan í málsókn gegn víxilskuldurunum, gerð réttarsáttar um kröfuna og í fjárnámsgerð vegna greiðslufalls. Úrskurðarnefnd lögmanna telur ekki hafa verið sýnt fram á að kærðu hafi í innheimtustörfum sínum beitt óeðlilegum aðferðum þótt málið hafi verið rekið með nokkrum hraða. Fellst nefndin ekki á það sjónarmið kæranda að þeir hafi í störfum sínum misnotað ákvæði laga um kyrrsetningu og lögbann í þeim tilgangi að skapa umbjóðanda sínum betri stöðu eða ríkari rétt en kæranda. Lögum samkvæmt eigi kyrrsetningarhafar það ávallt á hættu að fjárnámskröfuhafar komist fram fyrir þá í réttindaröð að tiltekinni eign, lausafé eða fasteign.

 Eftir skoðun á gögnum er fyrir nefndina hafa verið lögð er það niðurstaða hennar að kærðu hafi ekki í störfum sínum við innheimtu á kröfu V gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Synjað er frávísunarkröfum kærðu, Y, hdl., og Z, hrl.

 Kærðu hafa í innheimtustörfum sínum fyrir V ekki gert á hlut kæranda, X, með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 

Málskostnaður fellur niður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA