Mál 13 2007

Ár 2007, föstudaginn 21. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 13/2007:

  F

gegn

G, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 29. ágúst 2007 frá F, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum G, hrl., kærða, vegna meintra hótana hans í garð kæranda. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 22. október 2007. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða, en engar athugasemdir bárust frá honum.

Málsatvik og málsástæður.

  I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kærir kærandi kærða vegna framgöngu hans og starfsaðferða, en kærandi kveður fullyrt í bréfi kærða að hann, kærandi, hafi gert innrás í einkalíf umbjóðanda kærða. Kveður kærandi þessar dylgjur kærða hafa valdið sér hugarangri og óþægindum, en hann kveðst ekki hafa sýnt af sér þá hegðun sem sér sé gefin að sök.

 Kærandi telur kærða hafa sett fram ósundurgreindar og órökstuddar kröfur sem ekki gætu stuðst við gögn frá sér, þar sem þær væru ekki sannar. Telur hann kærða beita ímyndaðri hræðslu kæranda við lögreglurannsókn til að fá eitthvað fram sem enginn fótur væri fyrir.

 Kærandi krefst þess að kannað verði hvort þær hótanir og óljósu kröfur, sem fram kæmu í bréfi kærða, samræmdust siðareglum lögmanna. Telur kærandi umbjóðanda kærða vera að reyna að hafa af sér fé ólöglega og að kærði ynni í því með henni.

II.

Kærði kveður bréf sitt til kæranda hafa verið ritað í umboði umbjóðanda síns. Hann kveður umbjóðanda sinn hafa leitað til sín vegna málsins og tjáð sér að kærandi hafi falast eftir því við hana að fá að taka af henni erótískar nektarmyndir í íslenskri náttúru. Kveður kærði umbjóðanda sinn hafa samþykkt erindið gegn loforði kæranda þess efnis að myndunum yrði ekki dreift.

 Kærði kveður umbjóðanda sinn hafa af tilviljun rekist á eina af myndunum í bók frá kæranda. Bókin hafi átt að geyma listrænar ljósmyndir. Hafi umbjóðandinn fengið áfall og krafið kæranda skýringa. Kærandi hafi í tölvupósti viðurkennt að hafa gengið á bak orða sinna vegna myndanna.

 Kærði kveður umbjóðanda sinn hafa falið sér að gera kröfur þær sem settar voru fram í bréfinu til kæranda á sínum tíma. Að sínu mati væru þær eðlilegar í ljósi þess að kærandi viðurkenndi brot sitt í tölvupóstinum til umbjóðandans.

                                                            Niðurstaða.

  I.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

 Samkvæmt siðareglum lögmanna hvíla á þeim skyldur meðal annars í samskiptum sínum við gagnaðila umbjóðenda sinna. Samkvæmt 34. gr. reglnanna skal lögmaður sýna gagnaðilum umbjóðenda sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum umbjóðendanna.

 Samkvæmt 35. gr. siðareglnanna má lögmaður ekki, til framdráttar málum skjólstæðings síns, beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings eða að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum.

 II.

Með erindi kæranda fylgdi bréf það, sem varð honum tilefni erindis þessa til úrskurðarnefndar lögmanna. Þar var rakinn aðdragandi málsins og það samkomulag að umbjóðandi kærða ætti ein myndina og að hana mætti hvorki fjölfalda né mætti dreifa henni. Kærði kvað umbjóðanda sinn hafa séð fyrir tilviljun myndina í bók sem komin væri frá kæranda. Þá kvað kærði kæranda hafa viðurkennt í tölvupósti að hafa gengið bak orða sinna um þann samning sem gerður var á sínum tíma og dreift myndinni á fleiri staði.

 Kærði setti svo í bréfinu fram kröfur umbjóðanda síns, en þær voru meðal annars að öllum myndum og öllum gögnum sem tengdust hinni tilteknu mynd í bók yrði fargað. Einnig var þess krafist að kærandi greiddi umbjóðandanum hæfilegar skaðabætur vegna þessarar árásar á einkalíf hennar, og loks að hann greiddi lögmannskostnað vegna málsins. Í niðurlagi bréfsins var þess óskað að kærandi hefði samband við kærða fyrir 1. september 2007, ella yrði málið kært til lögreglu.

 Auk þessa bréfs kærða liggur fyrir í málinu tölvupóstur, sem kærði kvað stafa frá kæranda, þar sem kemur meðal annars fram að hann hafi gengið bak orða sinna vegna myndarinnar af umbjóðanda kærða.

 Af orðalagi fyrrnefnda bréfsins verður ekki annað ráðið en að kærði reki þar erindi umbjóðanda síns. Málsatvikalýsing í bréfinu er sögð vera umbjóðandans og kynntar eru sérstaklega kröfur hennar í þremur töluliðum.

 Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að skoða framsetningu kærða í bréfinu í því ljósi að þar er hann að kynna málstað umbjóðanda síns, sem meðal annars byggist á frásögn hennar af málsatvikum. Nefndin telur að framsetning krafna umbjóðandans og viðbrögð, ef kærandi hafi ekki samband innan tiltekins frests, beri að skoða heildstætt sem lið í hagsmunagæslu kærða fyrir umbjóðanda sinn. Að mati nefndarinnar verður ekki séð, eins og atvikum er háttað, að framsetning erindisins feli í sér ótilhlýðilega þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður ekki séð að önnur ákvæði siðareglnanna eða lagaákvæði hafi verið brotin.

 Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd lögmanna kærða ekki hafa í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, G, hrl., hefur við hagsmunagæslu í máli umbjóðanda síns gegn F, kæranda, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA