Mál 16 2007

Ár 2008, fimmtudaginn 17. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 16/2007:

  R

gegn

S, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 16. október 2007 frá R, kæranda, þar sem kvartað var yfir meintum vanefndum S, hrl., kærða, um að reka meiðyrðamál fyrir kæranda. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 30. október 2007. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða og bárust athugasemdir frá honum í bréfi, dags. 23. nóvember 2007. Kærði sendi nokkrar athugasemdir til nefndarinnar í bréfi, dags. 22. janúar 2008.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kærir kærandi kærða fyrir það að hafa ekki stefnt tilgreindum einstaklingi fyrir dómstóla vegna meiðyrða, sem kærandi telur þann mann hafa viðhaft í sinn garð í viðtölum í A og á B í nóvember 200x.

 Kveðst kærandi, ásamt nágranna sínum á sömu hæð í fjöleignarhúsi, hafa tvívegis átt fund með kærða á skrifstofu hans, í annað skiptið þann 25. júní 2007, þar sem hann var beðinn að taka málið að sér. Hafi kærði samþykkt þá málaleitan. Kveður kærandi enn ekkert hafa gerst í málinu, þrátt fyrir margítrekaðar fyrirspurnir sínar til kærða símleiðis og með tölvupósti og endurtekin loforð kærða um að fara að gera eitthvað í málinu.

 Kærandi kveður ekkert hafa verið rætt um greiðslu lögmannsþóknunar á fundum sínum með kærða. Kveðst kærandi hafa reiknað með að kærði rukkaði fyrir vinnu sína. Kærandi kveðst hafa afhent kærða ljósrit frá Sjóvá, þar sem staðfest væri réttaraðstoðartrygging kæranda.

 Kærandi kveður kærða aldrei hafa tilkynnt sér að hann væri hættur með málið. Í þau mörgu skipti sem hringt hefði verið í kærða hefði hann tjáð kæranda að hann væri að vinna í málinu og myndi hringja eftir nokkra daga, sem hann síðan gerði aldrei.

 Kærandi kveðst hafa aflað upplýsinga um að sennilega væri fjárkrafa sín í slíku máli fyrnd en meiðyrðaþáttur málsins væri enn virkur.

 Kærandi kveður kærða hafa verið mjög dónalegan í síma og hann hafi ekki svarað skilaboðum, hvað þá tölvupósti. Telur kærandi framkomu kærða ekki vera í samræmi við siðareglur lögmanna og að hann ætti að fá ávítur fyrir þessa framkomu.

 Kveðst kærandi krefjast þess að kærði skýri þá ákvörðun sína um að standa ekki við gefin loforð um að taka málið að sér. Þá krefst kærandi þess að kærði beri fulla ábyrgð ef fjárkrafa sín hafi fyrnst vegna trassaskapar hans.

 II.

Kærði kveðst ekki hafa annað um málið að segja en að kærandi hafi komið á skrifstofu sína ásamt konu sinni og beðið sig um að fara yfir málið vegna hugsanlegs meiðyrðamáls. Kveðst kærði hafa farið yfir málið og næst þegar kærandi kom til hans hafi verið rætt um það hvernig greitt yrði fyrir vinnuna. Hafi kærandi þá talið sig hafa réttaraðstoðartryggingu og að þangað skyldi sækja lögmannslaunin. Kærði kveður kæranda hafa fengið að vita að ekki yrði byrjað á málinu fyrr en greitt hefði verið inn á það. Kærandi hafi ekki boðið fram greiðslu fyrir vinnuna og því hafi kærði hætt við málið. Telur kærði að kæranda hafi verið það ljóst. Það, að kærandi hafi rætt um réttaraðstoðartryggingu sína á fundum þeirra bendi til þess að rætt hafi verið um lögmannskostnað vegna málsins.

 Kærði kveðst taka fram að hann hafi ekki orðið var við tölvupóstinn frá kæranda, enda væri hann lítið á þeim miðum. Hann kynni einungis að senda til baka. Oft kæmi mikill tölvupóstur og kveðst kærði þá ekki líta á hann allan, enda væri hann eitthvað á eftir tímanum í þessu efni.

                                                            Niðurstaða.

  I.

Í málinu er deilt um það hvort kærði hafi tekið að sér rekstur meiðyrðamáls fyrir kæranda. Kærði kveðst sjálfur hafa fallist á að fara yfir málið fyrir kæranda, en hann hafi hætt með það þar sem engin greiðsla hafi verið boðin fram. Telur hann kæranda hafa verið þetta ljóst.

 Í málinu nýtur engra gagna við um það hvort kærði hafi tekið að sér rekstur meiðyrðamáls fyrir kæranda, annarra en skrifa málsaðila sjálfra. Telur úrskurðarnefnd lögmanna ekki unnt að fullyrða að kærði hafi tekið annað og meira að sér fyrir kæranda en að fara yfir málið fyrir hann, svo sem fram kemur í greinargerð kærða.

 II.

Með erindi kæranda fylgdi afrit tölvupósta hans til kærða. Allir voru tölvupóstarnir sendir á netfangið c.is, sem skráð er við nafn kærða í félagaskrá Lögmannafélags Íslands. Engin svör eða viðbrögð kærða við tölvupóstum kæranda liggja fyrir, en kærði telur að tölvuskilaboð kæranda til sín hafi farið fram hjá sér, enda kunni hann ekki almennilega á tölvupóst.

 Kærði býður upp á þá samskiptaleið, sem felst í tölvupóstsendingum til hans, með því að hafa skráð netfang og með því að hafa upplýsingar um það aðgengilegar, meðal annars á félagaskrá Lögmannafélags Íslands sem birtist á heimasíðu þess. Að mati úrskurðarnefndar lögmanna má gera þá kröfu til lögmanna, sem bjóða upp á samskiptamáta af þessu tagi, að þeir lesi eða sjái til þess að tölvupóstur, sem berst á netfang þeirra, verði lesinn og eftir atvikum að fyrirspurnum eða öðrum erindum til þeirra verði svarað, á svipaðan hátt og erindum er berast í almennum pósti, sbr. 41. gr. siðareglna lögmanna. Telur nefndin yfirlýst kunnáttuleysi kærða í notkun tölvupósts ekki réttlæta það að erindum kæranda með tölvupósti til hans var ekki svarað. Verður ekki komist hjá því að finna að slíkum vinnubrögðum kærða.

 Það liggur ekki á valdsviði úrskurðarnefndar að tjá sig um hvort ábyrgð hvílir á kærða að því er varðar fyrningu á kröfu kæranda.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Vanræksla kærða, S, hrl., að svara ekki fyrirspurnum kæranda, R, sem hann sendi kærða með tölvupósti, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA