Mál 9 2007

 

Ár 2009, fimmtudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið málið nr. 9/2007:

F

gegn

S, hrl. 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

Í erindi F, kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 16. maí 2007, er kvartað yfir vinnubrögðum S, hrl., kærða, sem hafi engar upplýsingar veitt um rekstur dómsmála, sem hann hafi annast fyrir kæranda. Hann hafi neitað að hitta kæranda til þess að eiga við hann samráð um málareksturinn og skýra fyrir honum stöðu mála. Þá hafi kærði ekki svarað bréfum kæranda og ekki kynnt honum niðurstöður (dómana) í málunum. Loks hafi kærði ekki fengist til þess að sundurliða verkkostnað sem reikningar hafi verið gerðir fyrir.

Greinargerð barst frá kærða 30. nóvember 2007.

Með framhaldskæru dagsettri 28. desember 2007 kvartar kærandi undan því að kærði hafi hætt að mæta fyrir dómi í hjónaskilnaðarmáli sem hann tók að sér fyrir kæranda. Þetta hafi hann gert án nokkurs samráðs við kæranda og án þess að hafa sagt honum frá því. Hafi kærði ekki skilað greinargerð og útivist hans leitt til þess að dómur hafi gengið án þess að sjónarmið kæranda kæmust að í málinu. Dómur hafi gengið í málinu x. mars 200x. Samkvæmt endurriti dómsins hafi verið sótt þing af hálfu kæranda við þingfestingu en þingsóknin síðar fallið niður án þess að skýringar á því komi fram í endurritinu. Í framhaldskærunni kveðst kærandi fyrst hafa fengið vitneskju um þessi atvik 13. desember 2007 þegar hann frétti af dómsniðurstöðunni frá frönskum stjórnvöldum. Hafi hann því ekki getað kvartað fyrr.

Kærandi sendi nefndinni athugasemdir við greinargerð kærða 27. júlí 2008.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að kærandi kvæntist franskri konu á Íslandi árið 1996. Settust þau að á Íslandi og áttu hér lögheimili frá 1998. Þau eignuðust dóttur 1999. Um mitt ár 2001 slitu hjónin samvistum og leitaði konan þá skilnaðar að borði og sæng hjá Sýslumanninum í A. Ágreiningur var m.a. um forsjá dótturinnar og höfðaði konan mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í júní 2001 gegn kæranda og krafðist forsjár dótturinnar. Haustið 2001 höfðaði kærandi mál vegna skilnaðarins og forsjárinnar fyrir dómstóli í F. Konan fylgdi kröfu sinni um skilnað að borði og sæng eftir með málshöfðun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í mars 2002. Kærandi virti ekki bann við að fara með dóttur sína úr landi og fór með hana til F, án samráðs við móðurina, í byrjun september 2003. Með dómi, uppkveðnum x. október 200x, féllst héraðsdómur á skilnaðarkröfu konunnar. Með héraðsdómi, uppkveðnum x. janúar 200x, var konunni dæmd forsjá dótturinnar. Móðirin fór til F í mars 2004 og náði dótturinni til sín og komst með hana úr landi og til Íslands. Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur kæranda fyrir brottnám barnsins x. apríl 200x. Héraðsdómnum um skilnað að borði og sæng var svo áfrýjað til Hæstaréttar x. maí 200x.

Í framangreindum deilum naut kærandi aðstoðar annarra lögmanna en kærða. Þegar hér var komið sögu leitaði kærandi til kærða sem samkvæmt gögnum málsins tók að sér að gæta hagsmuna kæranda í forsjármálinu, hjónaskilnaðarmálinu og refsimálinu. Flutti kærði skilnaðarmálið fyrir Hæstarétti í október 200x. Með dómi Hæstaréttar x. október 200x var staðfest niðurstaða héraðsdóms um skilnað að borði og sæng og tekin afstaða til þess að íslenskir dómstólar hefðu lögsögu í málinu. Þann x. febrúar 200x var dæmt í héraði í refsimálinu á hendur kæranda og hann sakfelldur. Kærði var verjandi kæranda í málinu. Að ósk kæranda lýsti kærandi yfir áfrýjun refsidómsins og gaf saksóknari út áfrýjunarstefnu x. apríl 200x.

Þann x. desember 200x var kæranda stefnt fyrir héraðsdóm vegna lögskilnaðarkröfu eiginkonunnar. Við þingfestingu málsins x. desember 200x mætti kærði fyrir kæranda og fékk greinargerðarfrest til x. janúar 200x, sem hann fékk þá framlengdan til x. febrúar 200x. Þá synjaði lögmaður stefnanda um viðbótarfrest og var frestssynjunin tekin fyrir hjá dómara 14. febrúar án þess að kærði mætti til þinghaldsins. Málið var dæmt sem útivistarmál x. mars 200x og fallist á kröfur konunnar. Í málinu liggja frammi tölvupóstar sem gengu milli málsaðila x., x. og x. desember 200x þar sem kærði svarar spurningum kærða um gang lögskilnaðarmálsins og kærandi lætur í ljós þá ósk að málið frestist sem lengst því hann geri sér vonir um að franskur dómstóll muni dæma í málinu. Þá liggja fyrir bréf frá kæranda til kærða dagsett x. mars 200x og x. apríl 200x þar sem kærandi kveðst nauðsynlega þurfa að fá upplýsingar um stöðu hjónaskilnaðarmálsins, sem þingfest hafi verið í desember 200x. Engin viðbrögð virðast hafa komið frá kærða við þessum bréfum. Greinir kærandi svo frá í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. desember 200x, að daginn áður, þann 13. desember 200x, hafi hann fregnað frá frönskum stjórnvöldum að þann x. mars 200x hafi gengið dómur á Íslandi um lögskilnað hans og eiginkonunnar. Um þetta hafi hann engar fréttir fengið frá lögmanni sínum né neinum öðrum aðila. Kveðst kærandi engin svör hafa fengið frá kærða eða Lögfræðistofu S um gang eða úrslit mála frá miðjum janúar 200x og því ekki haft hugmynd um dómsniðurstöðuna.

Þann x. mars 200x féll dómur Hæstaréttar í refsimálinu og var refsing þyngd og kærandi dæmdur til greiðslu miskabóta og sakarkostnaðar.

II.

Í greinargerð kærða kemur fram að kærandi hafi fengið í hendur annað eintak ágripsins í sakamálinu eins og það hafi borist frá ríkissaksóknara. Þá hafi hann fengið í hendur greinargerð ákærða til Hæstaréttar auk þess sem fundur hafi verið haldinn með honum um niðurstöðu héraðsdóms. Kærði kveðst ekki geta fullyrt hvort hann hafi látið kæranda vita um dagsetningu málflutnings í sakamálinu fyrir Hæstarétti. Sakarkostnaður sem felldur var á kæranda komi fram í dómsorði. Kveðst kærði margoft hafa reynt að skýra reglur um sakarkostnað fyrir kæranda en það hafi verið án árangurs.

Kærði kveður Lögfræðistofu S hafa gert reikning á hendur kæranda vegna vinnu hans og T, hrl., við skilnaðar- og forsjármálið. Kærandi hafi greitt eitthvað inn á reikninginn og hafi það ekki virst hindrun að hann hefði ekki fengið reikninginn sendan.

Kærandi hafi fengið öll gögn sem hafi þurft fyrir franska lögmenn, sem hafi kært niðurstöðu sakamálsins til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann hafi hins vegar bent kæranda á að hann legði ekki á sig vinnu fyrir hann meðan reikningsskuld væri ógreidd.

Kærði kveður mjög erfitt hafa verið að átta sig á kæranda og hafi hann sýnt honum einstakt langlundargerð. Yfir hann hafi rignt tölvupóstum og bréfum, sem iðulega hafi verið send í afriti til forsetans, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, Hæstaréttar, Alþingis, MDE, SÞ og Guð megi vita hvert.

Kærði bendir á að hluti af kvörtunum kæranda beinist að samskiptum við T, hrl., þótt kvörtunin til úrskurðarnefndarinnar beinist ekki að henni.

III.

Í umsögn kæranda um greinargerð kærða 27. júlí 200x er því andmælt að hann hafi fengið í hendur greinargerð ákærða til Hæstaréttar, eins og kærði heldur fram. Þá hafi þeir aldrei hist til þess að ræða áfrýjun sakamálsins. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafi kærði neitað að eiga með sér fund eins og gögn málsins sýni. Slíkt hafi þó verið sérstaklega mikilvægt í þessu tilviki þegar skjólstæðingur lögmanns sé útlendingur sem hvorki tali né skrifi íslensku að því marki að geta skilið það sem fram kemur í málsgögnum hvað þá heldur dómana sjálfa. Þá hafi kærði hvorki svarað bréfum né tölvupóstum og ekki látið kæranda vita hvenær málið yrði flutt fyrir Hæstarétti. Kærandi vísar til þess að hann hafi fengið tölvupóst frá kærða 2. janúar 200x þar sem hann hafi verið spurður að því hvort eitthvað nýtt hefði gerst í F sem skipti máli við samningu greinargerðar í refsimálinu („Are there any news regarding the criminal case against you in F?"). Greinargerðinni hafi lögmaðurinn átt að skila Hæstarétti 4. janúar 200x. Kveðst kærandi hafa tekið saman tveggja síðna svarbréf til kærða þar sem hann m.a. kvartar yfir þeim litla fyrirvara sem honum hafi gefist og getur þess að hann hafi aldrei fengið héraðsdóminn í hendur á máli sem hann skilji.

Kærandi segir að frá miðjum janúar 200x hafi hann aldrei náð til kærða þrátt fyrir ótal tilraunir sjálfs sín og milligöngu annarra. Þetta sé óafsakanlegt því kærði hafi verið lögmaður sinn og annast þrjú mikilvæg mál sem rekin voru fyrir dómi. Ábending kærða um að T, hrl., hafi verið lögmaður kæranda í hluta málanna kveður hann ranga. Kærði hafi sjálfur falið henni að vinna að málum sem hann hafði tekið að sér. Þetta hafi hann gert án samráðs við kæranda.

Kærandi mótmælir því sem röngu að hann hafi ekki greitt reikninga Lögfræðistofu S. Reikningar dagsettir 31.12.200x, að fjárhæð 422.678 krónur, og 31.03.200x, að fjárhæð 452.931 króna, séu að fullu greiddir. Það sama gildi um reikning að fjárhæð 183.300 krónur, sem kærði hafi sent til F og síðar til innheimtu þar, þótt honum hafi verið ljóst að kærandi var búsettur á Íslandi. Kveðst kærandi hafa greitt kærða reikninga hans að fullu og reyndar 9.344 krónur umfram reikningsfjárhæðirnar. Hann hafi hins vegar aldrei fengið í hendur kvittanir fyrir greiðslum né frumrit reikninganna eins og eðlilegt væri.

Niðurstaða.

Í erindi kæranda til nefndarinnar er ekki vísað til einstakra ákvæða siðareglna lögmanna eða ákvæða lögmannalaga nr. 77/1998. Kvörtun kæranda lýtur að störfum kærða fyrir hann við rekstur fjögurra dómsmála á Íslandi. Þá lýtur kvörtunin almennt að því að kærði hafi ekki svarað erindum og fyrirspurnum frá kæranda eftir miðjan janúar 200x og ekki látið af hendi gögn og upplýsingar þótt eftir þeim hafi verið leitað. Loks hafi reikningar kærða á hendur kæranda ekki verið í réttu horfi. Telur kærandi að kærði hafi ekki sinnt skyldum sínum sem lögmaður og sýnt af sér háttsemi sem ekki samrýmist góðum lögmannsháttum.

Dómsmálin fjögur sem um ræðir voru:

  • 1. Einkamál um skilnað að borði og sæng. Lauk með dómi Hæstaréttar x. október 200x.
  • 2. Einkamál um forsjá. Lauk með dómi Hæstaréttar x. febrúar 200x.
  • 3. Opinbert mál á hendur kæranda. Lauk með dómi Hæstaréttar x. mars 200x.
  • 4. Einkamál um lögskilnað. Lauk með útivistardómi í Héraðsdómi Reykjavíkur x. mars 200x.

Kvörtun kæranda var lögð fram 16. maí 200x. Þá var í öllum tilvikum liðið meira en ár frá endanlegri niðurstöðu í málunum fjórum. Samkvæmt 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 skal nefndin vísa kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Af bréfum kæranda til kærða, dagsettum 30. mars 200x og 10. apríl 200x, sem fylgdu kvörtuninni til úrskurðarnefndar 16. maí 200x, má ráða að kæranda var ljóst að Hæstiréttur hafði dæmt í einkamálunum um skilnað að borði og sæng og forsjármálinu meira en tveimur árum áður en kvörtunin til úrskurðarnefndar var lögð fram. Ber því að vísa þeim hluta kvörtunarinnar er lýtur að málsmeðferðinni í þessum málum frá nefndinni.

Í bréfi kæranda til kærða, dagsettu 23. mars 200x, sem fylgdi kvörtuninni til nefndarinnar frá 16. maí 200x, segir kærandi: „And today, on the xrd  of March 200x, suddenly, I receive an SMS (being without any news from you since the 7th of January) which says: „Judgment in the penal case in Supreme Court today - on it´s website at 1630 hrs" . Kærandi vissi því að endanlegur dómur í refsimálinu hafði gengið meira en ári áður en hann lagði fram kvörtun sína. Ber því einnig að vísa þeim þætti kvörtunarinnar, er lýtur að málsmeðferðinni í sakamálinu, frá nefndinni.

Reikningarnir, sem kvartað er yfir, voru gefnir út 31.12.200x og 31.03.200x. Þótt kærandi kannist ekki við að hafa fengið send frumrit reikninganna kannast hann við að hafa vitað af tilvist þeirra og byrjað að greiða inn á þá löngu fyrir 16. maí 200x. Ber því að vísa þeim þætti kvörtunarinnar, er lýtur að reikningunum, frá nefndinni.

Þótt einkamálinu um lögskilnað hafi lokið með útivistardómi 27. mars 200x kveðst kærandi ekki hafa fengið upplýsingar um þau málsúrslit fyrr en 13. desember 200x, þ.e. rúmu hálfu ári eftir að hann lagði kvörtun sín fram. Í gögnum málsins er ekki að finna neitt sem bendir til þess að þessi staðhæfing kæranda sé röng. Fyrir liggja skrifleg erindi kæranda til kærða þar sem hann leitar upplýsinga um stöðu lögskilnaðarmálsins. Kærði svaraði þessum erindum ekki. Mátti honum þó vera ljóst, m.a. af fyrirspurnarbréfum kæranda 30. mars og 10. apríl 200x, þ.e. eftir að útivistardómur hafði gengið í málinu, að kærandi var í villu um stöðu málsins. Verður því lagt til grundvallar að þótt meira en ár hafi verið liðið frá því dómur féll í málinu, þegar kvörtun var lögð fram, þá hafi kærandi hvorki vitað né mátt vita um þau atvik og því ekki átt kost á því að koma kvörtun á framfæri fyrir 16. maí 200x. Verður þessi þáttur málsins því tekinn til efnismeðferðar.

Með tölvupóstum, sem gengu milli kærða og kæranda 11., 12. og 22. desember 200x, er sannað að kærði tók að sér sem lögmaður að gæta hagsmuna kæranda í máli sem fyrrum eiginkona hans þingfesti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur x. desember 200x. Kærði lét mæta við þingfestingu málsins og tók greinargerðarfrest til x. janúar 200x. Þá lét hann enn mæta og óskaði eftir viðbótarfresti til x. febrúar 200x. Í því þinghaldi synjaði stefnandi málsins um viðbótarfrest og var málið því tekið til úrskurðar hjá dómara x. febrúar 200x. Af endurriti dómsins má ráða að kærði mætti ekki til þess þinghalds. Í vottorði dómstólaráðs, dagsettu x. mars 200x, en afrit þess hefur verið lagt fram í málinu, er staðfest að dómari hafi ákveðið að lögmenn aðila skyldu tjá sig um framkomna frestsbeiðni í þinghaldi x. febrúar 200x. Við fyrirtöku málsins hafi ekki verið mætt af hálfu stefnda og málið því dómtekið og í því gengið útivistardómur.

Hvort sem útivist kærða í þinghaldinu x. febrúar 200x stafaði af mistökum eða öðrum ástæðum þá bar kærða þá þegar að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir því að þingsóknin féll niður og hverjar afleiðingar það hefði. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi látið skjólstæðing sinn vita um þessi málalok. Virðist engu hafa breytt þótt kærandi hafi sent kærða skrifleg erindi þar sem hann spurði um stöðu málsins. Þessi vanræksla felur í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum kærða.

Ámælisvert er að kærði sinnti í engu fjölmörgum bréfum og öðrum erindum, sem honum bárust frá skjólstæðingi sínum varðandi málareksturinn, frá miðjum janúar 200x. Hafa ber í huga að kærandi er erlendur ríkisborgari, sem hefur ekki fullt vald á íslenskri tungu og hefur takmarkaða þekkingu á íslensku réttarfari. Þessi atriði lögðu ríkar skyldur á kærða um að tryggja að kærandi hefði fullan skilning á stöðu mála hverju sinni.

Telst framangreind háttsemi kærða varða við 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, sem og 8., 10., 12. og 41. gr. siðareglna lögmanna og varða áminningu.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, S, hrl., sætir áminningu.

Vísað er frá nefndinni umkvörtun kæranda, F, er varðar málsmeðferð í einkamálunum um skilnað að borði og sæng og forsjá, og sakamálinu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA