Mál 14 2008

Ár 2009, fimmtudaginn 12. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2008:

 

E ehf. (F)

gegn

G, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 26. júlí 2008 frá F, fyrir hönd fyrirtækis síns, E ehf., kæranda, þar sem kvartað var yfir störfum G, hdl., kærða, í tveimur dómsmálum er hann rak gagnvart kæranda. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 26. september 2008. Af hálfu kæranda voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða, í bréfi, dags. 19. nóvember 2008, sem kærði svaraði í bréfi til nefndarinnar, dags. 17. desember 2008.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í nóvember 2007 var kærða falið að innheimta lífeyrissjóðsiðgjöld sem H lífeyrissjóður taldi kæranda vera í vanskilum með. Mál var höfðað gegn kæranda fyrir Héraðsdómi I en í dómi, uppkveðnum x. apríl 200x, var kærandi sýknaður af kröfum lífeyrissjóðsins.

Kærði höfðaði einnig dómsmál fyrir Héraðsdómi I fyrir hönd skipverja er starfað hafði hjá kæranda, vegna meintra vangoldinna launa. Málið var þingfest x. mars 200x, en það var fellt niður í september 200x, samkvæmt beiðni stefnanda.

Málsóknir þessar urðu kæranda tilefni erindis þessa til úrskurðarnefndar lögmanna.

II.

Kærandi heldur því fram að í dómsmálum þeim, sem kærði höfðaði fyrir hönd umbjóðenda sinna gagnvart sér, hafi hann ekki haft skriflegt umboð til málsóknar. Telur kærandi þennan málarekstur hafa kostað forsvarsmann fyrirtækisins háar fjárhæðir, bæði í lögfræðikostnað og vegna vinnutaps, en forsvarsmaðurinn hafi þurft að taka sér frí til þess að mæta fyrir dómi.

Kærandi krefst þess að síðara dómsmálið verði fellt niður og að kærði borgi sér tap sitt.

Með erindi kæranda til úrskurðarnefndar fylgdi meðal annars skrifleg staðfesting erlends, fyrrverandi starfsmanns kæranda, um að kærandi skuldaði sér ekki nein laun vegna ársins 2006. Þessi skriflega yfirlýsing er dagsett 29. apríl 2008.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður kærði lögmannsstofu sína hafa um árabil annast innheimtu fyrir H lífeyrissjóð (áður Lífeyrissjóð J) á vangoldnum iðgjöldum sjómanna á íslenskum skipum. Kærði kveður kæranda hvorki hafa skilað lífeyrissjóðsgreiðslum né skilagreinum til sjóðsins vegna ársins 2006. Kæranda hafi verið send greiðsluáskorun í maí 2006 en nokkru síðar hafi borist skilagreinar í fyrsta skipti og greiðslur. Strax hafi komið í ljós að greiðslurnar hafi ekki staðist, þar sem einungis hafi verið greiddur hluti iðgjaldanna. Kærði kveður lífeyrissjóðinn hafa falið sér að innheimta hin vangoldnu lífeyrissjóðsiðgjöld þann 8. nóvember 2007. Hann telur jafnframt vera augljóst að þau gögn sem sér hafi verið send frá lífeyrissjóðnum, hafi verið send í þeim tilgangi að innheimta ógreidd iðgjöld.

Að því er hitt dómsmálið varðar kveður kærði fyrrverandi skipverja hjá kæranda hafa komið ásamt starfsfélaga á skrifstofu sína í janúar 2007 og falið sér að innheimta vangoldin laun á árinu 2006. Vísaði kærði til skriflegrar yfirlýsingar starfsfélagans, sem fylgdi greinargerð hans til nefndarinnar, en þar kemur fram að þessir tveir menn hafi komið á skrifstofuna í tilgreindum mánuði og falið kærða að innheimta fyrir sig hin vangoldnu laun.

Kærði kveðst ekki vita hvaða aðferðum kærandi beitti hinn erlenda starfsmann, en eftir símtal við eiginkonu þessa starfsmanns hafi dómsmálið gegn kæranda verið fellt niður í september 2008.

Kærði kveðst vísa á bug tilhæfulausum og rakalausum ásökunum kæranda enda sýni meðfylgjandi gögn að hann, kærði, hafi haft fulla heimild til innheimtu þeirra krafna sem um ræddi.

Kærði krefst þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað vegna erindis þessa fyrir úrskurðarnefndinni, en hann kveðst hafa þurft að eyða um það bil 2,5 klst. í þetta mál, við yfirlestur kvörtunarinnar, samantekt gagna og ritun greinargerðarinnar til nefndarinnar.

IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða til nefndarinnar kemur meðal annars fram að í dómsmálinu vegna lífeyrissjóðsiðgjaldanna hafi áhafnarmeðlimir lýst því yfir að þeir ættu engar kröfur á hendur kæranda. Telur kærandi kærða hafa farið heimildarlaust af stað með dómsmálið gegn sér, þótt enginn hafi beðið hann um það.

Að því er síðara dómsmálið varðar mótmælir kærandi því að hann hafi fengið skriflega yfirlýsingu frá fyrrverandi starfsmanni sínum á ólögmætan hátt. Kærandi bendir m.a. á að yfirlýsingin hafi verið vottuð af tveimur mönnum. Í athugasemdum kæranda kemur einnig fram að hann telur kærða hafa farið rangt að með því að fara í málaferli gagnvart sér án þess að hafa umboð til þess.

Með síðara bréfi kærða fylgdu tölvupóstsamskipti hans og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins er vörðuðu dómsmálið um lífeyrissjóðsiðgjöldin. Þá sendi kærði gögn er hann kvað sýna fram á að hann hefði áður innheimt vangoldin laun fyrir hinn erlenda starfsmann kæranda, en það hafi verið gagnvart öðru útgerðarfyrirtæki.

Niðurstaða.

 

I.

Um störf og hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er kveðið í lögmannalögum nr. 77/1998. Það fellur utan lögbundins valdsviðs hennar að fella niður dómsmál, eins og kærandi krefst í erindi sínu til nefndarinnar. Það fellur einnig utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að skera úr um hvort kærandi eigi rétt til þess að fá kostnað eða tap bætt, svo sem kærandi krefst í erindinu. Er þessum tveimur kröfuliðum kæranda því vísað frá.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. lögmannalaga skal lögmaður eða fulltrúi hans, sem sækja dómþing fyrir málsaðila, talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans, nema hið gagnstæða sé sannað. Ákvæði þetta hefur verið skýrt svo að lögmaður, sem mætir á dómþingi og heldur því fram að honum hafi verið falið að gæta hagsmuna annars hvors eða einhvers málsaðila, þarf ekki að framvísa skriflegu umboði til þess að sanna að honum hafi verið falin hagsmunagæslan. Með öðrum orðum, þá eru taldar löglíkur fyrir því að lögmaður hafi umboð, svonefnt málflutningsumboð, til þess að gæta hagsmuna málsaðila í dómsmáli, nema hægt sé að sýna fram á annað.

Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal tölvupóstsamskiptum kærða og framkvæmdastjóra H lífeyrissjóðs, var kærða falið að gæta hagsmuna lífeyrissjóðsins gagnvart kæranda vegna ætlaðra vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda. Verður ekki annað ráðið af gögnunum en að kærða hafi verið falið að innheimta iðgjöldin af þar til bærum aðila, lífeyrissjóðnum, með málsókn, þyrfti þess með. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði var kærða heimilt að reka málið fyrir dómi án þess að hann þyrfti að framvísa skriflegu umboði lífeyrissjóðsins. Verður þannig ekki talið að kærði hafi að þessu leyti brotið starfsskyldur sínar.

Hið sama gildir um síðara dómsmálið. Fyrir liggur skrifleg yfirlýsing fyrrverandi starfsmanns kæranda, sem heldur því fram að hann hafi, ásamt tilgreindum erlendum starfsmanni kæranda, komið á skrifstofu kærða og falið honum að innheimta fyrir þá vangoldin laun hjá kæranda. Einnig í þessu tilviki var ekki nauðsynlegt fyrir kærða að framvísa skriflegu umboði til málarekstursins. Löglíkur voru fyrir því að kærði hefði heimild til þess að höfða dómsmálið. Yfirlýsing hins erlenda, fyrrverandi starfsmanns kæranda, er dagsett nokkru eftir að kærða var falin hagsmunagæslan fyrir hinn erlenda starfsmann.

Samkvæmt framangreindu er það álit úrskurðarnefndar lögmanna að kærði hafi í störfum sínum við innheimtu lífeyrissjóðsiðgjalda og við innheimtu launa gagnvart kæranda, ekki gert á hans hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda, E ehf., annars vegar um niðurfellingu tilgreinds dómsmáls og hins vegar um að sér verði bætt tap vegna starfa kærða, er vísað frá.

Kærði, G, hdl., hefur, með því að leggja ekki fram skrifleg umboð stefnenda undir rekstri tveggja dómsmála gegn kæranda, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA