Mál 16 2008
Ár 2009, fimmtudaginn 12. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 16/2008:
K
gegn
L, hdl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 18. ágúst 2008 frá K, kæranda, þar sem kvartað var yfir framkomu L, hdl., kærða, í samskiptum þeirra í forsjár- og umgengnisréttarmáli. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 18. september 2008. Af hálfu kæranda voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða, í bréfi, dags. 22. október 2008, sem kærði svaraði í bréfi til nefndarinnar, dags. 22. desember 2008.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að undir rekstri forsjár- og umgengnisréttarmáls kæranda gegn barnsföður sínum kom fram ósk af hálfu mannsins um umgengni við barn þeirra síðast liðið sumar. Kærði gætti hagsmuna mannsins í málinu og kom meðal annars fram fyrir hans hönd vegna óskarinnar um umgengnina.
Kærði átti í samskiptum við lögmann kæranda af þessu tilefni og fór meðal annars fram á það að geta átt beint samband við kæranda til að ræða eða ákveða umgengni umbjóðanda síns við barnið. Kærði reyndi síðan ítrekað að ná sambandi við kæranda, með símhringingum, sms-skilaboðum og í tölvupósti, en kærandi mun ekki hafa svarað skilaboðum kærða. Þá hafði kærði samband við fulltrúa sýslumannsins í Ö, sem er vinkona kæranda, til að leita upplýsinga um hvenær kærandi kæmi úr sumarleyfi sínu.
II.
Kærandi heldur því fram að kærði hafi með framkomu sinni brotið gegn 26. gr. siðareglna lögmanna. Ekki sé unnt að telja að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða. Engir hagsmunir hefðu glatast við það að bíða með ákvörðun um umgengni þar til kærandi og lögmaður hennar kæmu úr sumarleyfum sínum. Telur kærandi kærða hafa sýnt af sér óeðlilega hegðun og mikið áreiti gagnvart sér. Krefst kærandi þess að úrskurðarnefnd lögmanna áminni kærða fyrir brotið.
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveðst kærði, í símtali við M, hrl., lögmann kæranda, þann 22. júlí 2008, hafa óskað sérstaklega eftir því að mega í fjarveru lögmannsins hafa samband við skjólstæðing hans. Í svari lögmannsins hafi komið skýrt fram að ekki væru gerðar athugasemdir við það. Þegar samtal þetta hefði átt sér stað hefði staðið þannig á að kærandi var farinn til útlanda og lögmaðurinn einnig á leið í frí erlendis. Von hafi verið á kæranda eftir verslunarmannahelgina en lögmaðurinn hafi ekki verið væntanlegur úr fríi fyrr en 13. ágúst. Kærði kveður erindi það, sem hann hugðist ræða við kæranda, hafa snúist um hvort umbjóðandi sinn gæti hitt dóttur sína þann 10. ágúst 2008.
Kærði kveður viðbrögð lögmanns kæranda í bréfi þann 18. ágúst hafa komið sér mjög á óvart, en lögmaðurinn hafi þar sagst hafa sagt við sig að kærandi hefði samband við við sig ef hann samþykkti umgengni föður þann 10. ágúst. Kærði kveðst ekki vita hvað lögmanninum hafi gengið til með þessum skrifum. Það hafi verið alveg ljóst í sínum huga, eftir þetta samtal, að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu af hálfu lögmannsins að hann, kærði, hefði samband við kæranda. Hvaða orð lögmaðurinn hafi nákvæmlega viðhaft muni kærði ekki, en sig minni að lögmaðurinn hafi sagt að hann gæti reynt að hafa samband við kæranda eða lögmaðurinn hafi sagt að hann stæði ekki í vegi fyrir því að kærði gerði það. Í sjálfu sér hafi kærði ekki gert annað en að reyna að ná símsambandi við kæranda en það hafi ekki borið árangur. Kærði kveður það líka vera rétt að hann hafi hringt í fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík og spurt meðal annars um það hvenær von væri á kæranda til landsins.
Kærði kveður ástæðu þess að símtalið 22. júlí 2008 átti sér stað, hafa verið þá að aðilar færu sameiginlega með forsjá barns þeirra. Erfiðlega hefði gengið fyrir föðurinn að fá að umgangast barnið og hefði móðirin hvað eftir annað neitað honum um eðlilega umgengni. Þegar símtalið hefði átt sér stað hafði komið fram skýr ósk um það að umgengni færi fram helgina áður, þ.e. 20. júlí, en skilaboð milli kæranda og lögmannsins hefðu farist á mis. Þess vegna hefði verið rætt um það að umgengnin færi fram um leið og kærandi kæmi frá útlöndum. Kærði kveðst ekki hafa getað merkt annað í samtalinu 22. júlí en að lögmaðurinn væri samþykkur umgengninni og kærandi líka. Kveðst kærði raunar hafa talið það fastmælum bundið að svo yrði, enda hefðu aðilar lýst því yfir fyrir dómi að þeir myndu stuðla að umgengni.
IV.
Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða til nefndarinnar kveðst kærandi vilja árétta að umgengni hafi aldrei verið tálmuð af sinni hálfu á þann hátt sem kærði lýsir. Kærandi kveður kærða hafa gengið hart fram í málinu og að hann hafi farið út fyrir öll skynsamleg mörk sem ættu að ríkja milli lögmanns og skjólstæðings hans. Nefnir kærandi sem dæmi að kærði hafi boðið að umgengni föður við barnið færi fram á heimili hans, undir eftirliti eiginkonu hans.
Kærandi kveður enga bráða nauðsyn hafa borið til að kærði gengi svo hart fram í málinu. Samkvæmt uppkasti að réttarsátt, sem lögmenn aðila unnu að, hafi komið skýrt fram að kærandi yrði í sumarleyfi 21. júlí til 21. ágúst 2008 og þar af leiðandi yrði engin umgengni á þeim tíma. Sumarleyfisferðin hafi verið löngu ákveðin og hefði ekki átt að koma neinum á óvart.
Í síðara bréfi sínu til nefndarinnar bendir kærði á að lögmaður kæranda hafi staðfest að kærði hafi óskað eftir því að fá að tala við kæranda. Það bendi óneitanlega til þess að svar lögmannsins hafi að minnsta kosti mátt túlka sem svo að lögmaðurinn stæði ekki því í vegi að kærði hefði beint samband við kæranda. Ekki hafi verið um annað að ræða en að ákveða umgengni þann 10. ágúst 2008 og hafi lögmanninum verið það fullkunnugt þar sem að af umsaminni umgengni 20. júlí hafi ekki orðið.
Kærði kveðst telja 26. gr. siðareglna lögmanna ekki geta átt við í málinu. Ákvæðið ætti einungis við um samskipti lögmanna innbyrðis en ekki samskipti lögmanns við gagnaðila. Kærandi eigi því ekki aðild að meintu broti á 26. gr. siðareglnanna. Þá kveður kærði það vart geta talist ósiðleg hegðun og brot á siðareglum að senda tölvupóst með fyrirspurn um það hvort umgengni mætti fara fram á umsömdum degi. Kærði kveður erindið hafa verið brýnt enda hefði umbjóðandi sinn ekki séð dóttur sína í 2 mánuði.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýna nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.
Grein 26 er í 4. kafla siðareglnanna, sem fjallar um samskipti lögmanna innbyrðis. Með ákvæðinu er reynt að tryggja að lögmaður sýni ekki öðrum lögmanni virðingarleysi með því að hafa beint samband við umbjóðanda þess lögmanns, án vitneskju hans. Ákvæðinu er einnig ætlað að koma í veg fyrir að aðili verði fyrir réttarspjöllum fái hann ekki notið aðstoðar og ráðgjafar lögmanns síns í máli. Úrskurðarnefndin telur að þótt ákvæðið sé hluti þess kafla siðareglnanna, þar sem fjallað er um samskipti lögmanna innbyrðis, feli það þannig í sér reglu er varðar beint hagsmuni skjólstæðings lögmanns. Nefndin telur því kæranda geta borið undir nefndina meint brot kærða gegn ákvæðinu.
Sem fyrr segir telur kærandi kærða hafa brotið gegn þessu ákvæði siðareglnanna með því að hafa reynt að hafa samband við sig beint, með símhringingum, sms-skilaboðum og með tölvupósti. Fyrir liggur að erindi kærða var að koma á framfæri við kæranda þeirri ósk að umbjóðandi hans, sem hafði sameiginlega forsjá ásamt kæranda með dóttur þeirra, fengi umgengni við barnið tiltekinn dag í ágústmánuði. Einnig er fram komið að kærði ræddi erindið við lögmann kæranda um það leyti sem kærandi fór í sumarfrí og áður en lögmaðurinn fór sjálfur í frí.
Að virtum þeim gögnum og upplýsingum er liggja fyrir í málinu, þar á meðal bréfaskrifum milli kærða og lögmanns kæranda, er það mat úrskurðarnefndar lögmanna að það eitt, að freista þess að koma á framfæri beint við kæranda ósk umbjóðanda kærða um umgengni við dóttur sína, teljist ekki vera brot á 26. gr. siðareglna lögmanna. Er þá meðal annars horft til þess að þótt kærða og lögmann kæranda greini að nokkru leyti á um efni símtals þeirra 22. júlí 2008 var engin launung um erindið eða reynt að sniðganga lögmann kæranda. Ekkert liggur fyrir um að það hafi vakað fyrir kærða að ræða um efnisþætti forsjár- og umgengnisréttarmálsins við kæranda. Það er mat nefndarinnar að í máli þessu hafi ekki verið vegið að þeim verndarhagsmunum eða sjónarmiðum er liggja til grundvallar ákvæðinu, svo sem það snýr að kæranda.
Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærði hafi ekki í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, L, hdl., hefur með beiðni umbjóðanda síns beint til kæranda, K, um umgengni við dóttur þeirra, ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA