Mál 20 2008
Ár 2009, miðvikudaginn 20. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 20/2008:
Þ
gegn
Æ, hrl., og
P, hdl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 4. desember 2008 frá Þ, kæranda, þar sem kvartað er yfir starfsaðferðum Æ, hrl., og P, hdl., kærðu, við rekstur innheimtumáls fyrir dómi gegn kæranda. Greinargerð barst frá kærðu þann 6. janúar 2009, sem kærandi gerði athugasemdir við í bréfi til nefndarinnar, dags. 26. febrúar 2009. Kærðu tjáðu sig ekki frekar um málið.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að um mitt sumar 200x var kærðum falið að innheimta kröfu Sparisjóðs Z gegn kæranda vegna vanskila hans. Innheimtubréf var sent kæranda þann 5. júní 2007. Þann 6. nóvember 200x var gefin út stefna á hendur kæranda, sem þingfesta átti í Héraðsdómi X þann x. nóvember samkvæmt fyrirkalli í skjalinu. Stefnan var hins vegar birt fyrir kæranda þann 4. desember, málið var þingfest þann 11. desember og stefnan árituð um aðfararhæfi þann 12. desember 200x.
Fjárnámsbeiðni var send sýslumanninum á Ö þann x. júní 200x. Við fyrirtöku hjá sýslumanni þann x. ágúst 200x var ákveðið að fresta gerðinni. Síðar náðu kröfuhafinn og kærandi samkomulagi um lyktir málsins og var það afturkallað úr innheimtumeðferð hjá kærðu.
II.
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna ávíti kærðu fyrir vinnubrögð við meðferð innheimtumálsins. Bendir kærandi á að sér hafi verið birt stefna kl. 11:49 þann 4. desember 2007, en á skjalinu hafi hann verið boðaður í Héraðsdóm X þann 27. nóvember 200x, kl. 14:00, þar sem málið yrði þingfest. Sér hafi verið gefinn kostur á að gera sátt í málinu eða leggja fram gögn í því af sinni hálfu. Kærandi kveður sér ekki hafa verið kunngerð breyting á dagsetningu fyrirtöku málsins í héraðsdómi, en á einu eintaki stefnunnar hafi verið búið að handskrifa breytingu á dagsetningu fyrirtökunnar í x. desember 200x.
Kærandi kveðst fyrst hafa verið ljóst að stefnan hafi verið árituð þann x. desember 200x þegar honum og eiginkonu hans hafi borist greiðsluáskorun þann x. febrúar 200x, en þar hafi áritaðrar stefnu verið getið sem heimildarskjals.
Kærandi kveðst í fjölmörgum símtölum og tölvupóstum til lögmannsstofu kærðu hafa bent á ólögmæti stefnunnar og hann hafi margsinnis verið búinn að óska eftir lagfæringu á málsmeðferð lögmannsstofunnar í málinu. Þrátt fyrir það hafi hann og eiginkona hans verið boðuð til fjárnámsgerðar hjá sýslumanninum á Ö þann x. ágúst 200x. Kærandi kveðst hafa lagt fram gögn máli sínu til stuðnings í fyrirtöku hjá sýslumanni. Sýslurmaður hafi frestað málinu til frekari skoðunar. Kærandi kveðst telja það hafa verið ásetning kærðu að nota hina árituðu stefnu við fullnustugerð í málinu, þrátt fyrir að hann hafi bent þeim á ólögmæti skjalsins.
Kærandi kveðst leita til úrskurðarnefndar lögmanna í því skyni að fá úrskurð nefndarinnar um það hvort lögmenn geti framvísað skjölum sem hafi verið breytt eftir viðtöku skuldara á þeim. Óskar kærandi eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort það flokkist undir fölsun þegar sér hafi verið birt stefna 7 dögum eftir fyrirkallið í henni, en dagsetningu hafi verið breytt eftir á. Skjalið hafi síðan verið notað sem heimildarskjal til aðfarargerðar hjá sýslumanni. Kveðst kærandi hafa átt rétt á því að halda uppi vörnum við þingfestingu málsins, með þeim gögnum sem hann kveðst hafa haft undir höndum.
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveða kærðu ekki hafa tekist að birta stefnu fyrir kæranda af einhverjum ástæðum fyrir lok stefnubirtingarfrests. Af þeirri ástæðu hafi starfsmaður lögmannsstofunnar haft samband við starfsmann Íslandspósts á Ö og ákveðið að fresta þingfestingu málsins til x. desember 200x. Var ætlunin að freista þess að ná birtingu stefnunnar innan stefnubirtingarfrests. Breyta hafi átt fyrirkalli í stefnunni og hafi starfsmaður lögmannsstofunnar breytt eintaki stofunnar og sett upphafsstafi sína við þær breytingar, en starfsmaður Íslandspósts hafi átt að breyta þeim eintökum stefnunnar sem hann hafði í sínum vörslum, eins og venja standi til í slíkum tilvikum. Við nánari skoðun málsins hafi komið í ljós að starfsmaður Íslandspósts breytti einungis birtingarvottorðinu en ekki fyrirkalli í stefnu. Því hafi fyrirkallið í stefnunni sem kæranda var birt verið ranglega með dagsetningunni x. nóvember í stað x. desember 200x. Við undirbúning þingfestingar málsins á lögmannsstofunni hafi verið gerð þau mistök að eintak stefnunnar, sem starfsmaður stofunnar hafði ritað inn á nýja dagsetningu fyrirkalls, var sent til dómstólsins og var það eintak áritað af héraðsdómaranum.
Kærðu kveða kæranda hafa verið í nokkur skipti í sambandi við lögmannsstofuna, þar sem hann hafi verið að leita leiða til þess að leysa málið. Aldrei hafi komið nokkuð fram um að hann hafi talið rétt vera á sér brotinn með röngu fyrirkalli í stefnu eða að hann teldi ekki vera um réttmæta kröfu að ræða gegn sér. Þegar kæranda hafi ekki tekist að leysa málið í maí 200x hafi verið óskað eftir fjárnámi hjá eiginkonu hans á grundvelli tryggingarbréfs í eign hennar. Við fyrirtöku á þeirri aðfararbeiðni x. ágúst 200x hafi fyrst komið fram athugasemdir hjá kæranda um tilgreindan þingfestingardag í stefnunni. Af þeirri ástæðu, og án athugasemda af hálfu lögmannsstofunnar, hafi sýslumaður ákveðið að fresta gerðinni meðan málið væri skoðað nánar. Í framhaldi þessa hafi kröfuhafi og kærandi rætt saman um lausn málsins og það hafi svo leitt til þeirrar niðurstöðu að samkomulag hafi tekist milli þeirra. Hafi krafan síðan verið afturkölluð úr innheimtu hjá lögmannsstofunni. Það hafi því aldrei komið til þess að hin áritaða stefna yrði notuð sem grundvöllur að fullnustugerðum á hendur kæranda. Þá hafi ekki reynst nauðsynlegt að óska eftir endurupptöku málsins á hendur kæranda og þá niðurfellingu þess í framhaldinu vegna þeirra mistaka sem ljóst er að urðu við þingfestingu þess.
Kærðu kveða lögmannsstofunni hafa borist tölvubréf frá kæranda, eftir að krafan hafi verið afturkölluð úr innheimtu, þar sem hann hafi gert stofunni tilboð um að hún félli frá öllum kostnaði vegna innheimtu á hendur sér gegn því að hann kærði ekki meinta fölsun á stefnu á hendur sér til lögreglu. Kærðu kveða þessu tilboði hafa verið hafnað með tölvupósti sama dag. Kærðu kveðast taka fram að kærandi hafi enga þjónustu keypt af þeim eða greitt þeim þóknun.
Með vísan til útskýringa sinna mótmæla kærðu því að þeir hafi aðhafst nokkuð það sem brjóti í bága við góða lögmannshætti. Fyrir liggi að við þingfestingu á stefnunni á hendur kæranda hafi verið gerð mistök, en að eftir að bent hafi verið á þau hafi frekari innheimtuaðgerðum verið frestað og í framhaldinu hætt, án þess að ranglega árituð stefna hafi verið nýtt til innheimtu á hendur kæranda. Ekki hafi heldur reynst nauðsynlegt að óska eftir endurupptöku málsins þar sem samkomulag hafi náðst milli aðila og málinu hafi lokið þar með.
Niðurstaða.
Sú útskýring í greinargerð kærðu á málsatvikum varðar stöðu sem getur komið upp við málshöfðun, þ.e. þegar ekki tekst að birta stefnu í tæka tíð, innan stefnubirtingarfrests.
Talið hefur verið heimilt að breyta dagsetningu fyrirkalls í stefnu, þannig að stefnubirting geti farið fram innan stefnubirtingarfrests. Tryggja þarf þó að viðeigandi breyting sé gerð á því eintaki stefnunnar sem afhent er stefnda, svo hann geti mætt eða látið mæta við þingfestingu málsins til að gæta hagsmuna sinna. Einnig þarf að tryggja að samhljóða breyting sé gerð á því eintaki sem er viðfest birtingarvottorði og öðrum eintökum stefnunnar sem notuð kunna að verða við þingfestingu dómsmálsins.
Ljóst er af gögnum málsins að mistök voru gerð við breytingar á dagsetningu fyrirkalls í stefnunni sem afhent var kæranda við birtingu hennar. Þá virðast hafa verið gerð mistök við frágang málsins til héraðsdóms, en það eintak sem starfsmaður lögmannsstofunnar breytti hjá sér mun hafa verið sent héraðsdómi. Á þeim mistökum ber kærði Æ ábyrgð sem einn af eigendum lögmannsstofunnar, þó svo að önnur mistökin megi hugsanlega að hluta til rekja til athafna starfsmanns Íslandspósts. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki hjá því komist að finna að vinnubrögðunum, enda gátu þau, hefði ekki annað komið til, skaðað hagsmuni kæranda gagnvart kröfuhafanum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Mistök við breytingu á fyrirkalli í stefnu við málshöfðun gegn kæranda, Þ, eru aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA