Mál 22 2008
Ár 2009, miðvikudaginn 23. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 22/2008:
O
gegn
P, hrl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 29. desember 2008 frá O, sóknaraðila, þar sem kvartað var yfir gjaldtöku P, hrl., varnaraðila, í máli sem snerist um innheimtu slysabóta. Varnaraðili tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 13. febrúar 2009. Sóknaraðili hefur ekki tjáð sig frekar um málið.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að í lok febrúar 2007 varð sóknaraðili, sem starfaði á öldrunarlækningadeild fyrir heilabilaða, fyrir líkamsmeiðslum á vinnustað sínum og leitað af því tilefni til varnaraðila um aðstoð við að kanna réttarstöðu sína og eftir atvikum að innheimta slysabætur. Varnaraðili lét sóknaraðila greiða fyrirfram 50.000 krónur sem tryggingu fyrir verklaunum.
Er umboð sóknaraðila til varnaraðila dagsett þann 14. apríl 2008. Varnaraðili annaðist gagnaöflun í málinu og lét meðal annars meta afleiðingar slyssins. Samkvæmt örorkumati læknis, dags. 11. október 2008, hlaut sóknaraðili 10% varanlega örorku vegna þess.
Tryggingastofnun ríkisins greiddi bætur samkvæmt örorkumatinu þann 4. desember 2008, alls 526.209 krónur. Uppgjör við sóknaraðila fór fram þann 11. desember 2008 með því að greiddar voru inn á bankareikning hennar 471.673 krónur.
II.
Sóknaraðili fer fram á það í erindi sínu til úrskurðarnefndar að fá upplýst hvort þóknun varnaraðila fyrir innheimtu slysabótanna sé eðlilegt og í samræmi við taxta Lögmannafélags Íslands. Sóknaraðili óskar ennfremur eftir upplýsingum um það hvort venja sé að tjónþoli sjálfur þurfi að greiða allan kostnað af kröfu sinni, eða með öðrum orðum: hvers vegna tryggingafélag vinnuveitandans greiði ekki þann kostnað.
Sóknaraðili kveðst hafa fengið um það upplýsingar við upphaf málsins að hún yrði að greiða 50.000 krónur fyrirfram inn á verkið, annars gæti varnaraðili ekki tekið verkið að sér. Sóknaraðili kveðst hafa fengið lánaða peninga vegna þessa og greitt til varnaraðila. Til viðbótar kveðst sóknaraðili hafa þurft að greiða öll læknisvottorð vegna málsins, sem og örorkumatið sjálft. Það eina sem tryggingafélagið hafi greitt hafi verið sjúkraþjálfunin. Þegar bæturnar hafi verið gerðar upp, en þær hafi numið 526.209 krónum, hafi hún ekki fengið greiddar nema 471.000 krónur. Mismuninn hafi varnaraðili reiknað sér í verklaun.
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður varnaraðili sóknaraðila hafa leitað til lögmannsstofu sinnar og fengið þar viðtal þann 14. apríl 2008. Málavextir hafi verið útskýrðir og kæmu þeir fram í umboð því sem sóknaraðili veitti varnaraðila. Þar sem sóknaraðili sjálf skilji litla íslensku hafi verið túlkur viðstaddur, sem þýtt hafi jafnóðum fyrir sóknaraðila á spænsku.
Varnaraðili kveður það hafa verið útskýrt fyrir sóknaraðila að þar sem hún hefði starfað hjá opinberri stofnun yrði að sækja bætur henni til handa til Tryggingastofnunar ríkisins. Þess vegna yrði hún sjálf að standa undir kostnaði vegna málsins, því Tryggingastofnun greiddi aldrei lögmannskostnað. Þá hafi sérstaklega verið farið yfir það með sóknaraðila að hún yrði sjálf að standa undir kostnaði vegna öflunar vottorða til sönnunar á meiðslum sínum og tjóni. Varnaraðili kveður þetta koma skýrt fram í umboðinu sem sóknaraðili undirritaði. Umboðið hafi verið þýtt af viðstöddum túlki, sem hafi staðfest þýðinguna með undirritun sinni.
Varnaraðili kveður 50.000 króna innborgun á málið vera í samræmi við starfsreglur lögmannsstofu sinnar. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þennan áskilnað og hafi tryggingin verið greidd. Kostnaður vegna málsins hafi svo verið gerður upp í lokinn, eftir að bætur frá Tryggingastofnun bárust.
Varnaraðili kveður vinnu að málinu hafa numið 8,5 tímum, sem yrði að teljast vera nokkuð hóflegt með tilliti til þess að talsverð gagnaöflun hafi þurft að fara fram til að sýna fram á tjón sóknaraðila. Þá hafi á vegum lögmannsstofunnar verið höfð milliganga um að sóknaraðili fengi endurgreiddan kostnað vegna sjúkraþjálfunar frá Tryggingastofnun.
Varnaraðili kveðst mótmæla harðlega að eitthvað athugavert sé við þóknun lögmannsstofu sinnar. Rukkað hafi verið fyrir 8,5 tíma vinnu eða rúmlega 108.000 krónur auk virðisaukaskatts. Farið hafi verið yfir það með sóknaraðila í upphafi hvernig kostnaði við málið yrði háttað og það ritað skilmerkilega í umboðið sem hún hafi sjálf undirritað og sem var þýtt fyrir hana.
Niðurstaða.
I.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Með samkeppnislögum nr. 8/1993 var lagt bann við leiðbeinandi gjaldskrám, þar á meðal gjaldskrá Lögmannafélags Íslands. Úrskurðarnefnd lögmanna hefur því ekki gjaldskrá félagsins til viðmiðunar þegar leyst er úr ágreiningsmálum um endurgjald lögmanna.
II.
Samkvæmt umboð því, sem sóknaraðili veitti varnaraðila til innheimtu slysabótanna, var fjallað um þann kostnað sem af kynni að hljótast. Í umboðinu var meðal annars ritað:
„Lögmaður minn hefur útskýrt fyrir mér kostnaðarhlið málsins. Ég mun greiða nú kr. 50.000 í tryggingu vegna málskostnaðar en annar kostnaður vegna málsins verður greiddur af mér í lokin. Útlagðan kostnað, ef einhver er, mun ég þó greiða sjálf skv. reikningum. Lögmaður minn hefur heimild mína til að móttaka þær bætur sem ég mögulega fæ frá TR vegna málsins.”
Samkvæmt áritun á umboðið var texti þessu þýddur af Y yfir á spænsku.
Varnaraðili áskildi sér þóknun fyrir 8,5 tíma vinnu, en tímagjaldið var 12.800 krónur auk virðisaukaskatts. Heildarverklaun námu þannig 135.456 krónum, þar með talinn virðisaukaskattur. Með greinargerð varnaraðila fylgdi tímaskrá og hreyfingalisti úr viðskiptamannabókhaldi yfir verkið. Samkvæmt hreyfingarlistanum og kvittun frá Tryggingastofnun fékkst útlagður kostnaður sóknaraðila vegna sjúkrahjálpar að nokkru leyti greiddur þaðan.
Engar athugasemdir hafa borist frá sóknaraðila, hvorki um tímaskráningu varnaraðila né hreyfingarlistann úr viðskiptamannabókhaldinu yfir verkið. Styðst tímaskráningin við önnur framlögð gögn í málinu. Að mati úrskurðarnefndar þykir sú skráning gefa trúverðuga mynd af umfangi málsins.
Að virtu öllu því sem liggur fyrir í málinu, þar á meðal tímaskýrslu varnaraðila, er það mat úrskurðarnefndar að áskilið endurgjald varnaraðila, 135.456 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sé hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Áskilið endurgjald varnaraðila, P, hrl., fyrir innheimtu slysabóta fyrir sóknaraðila, O, telst hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA