Mál 5 2008

Ár 2008, mánudaginn 8. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2008:

  H

gegn

I, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 29. febrúar 2008 frá H, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum I, hrl., kærðu, fyrir störf hennar í forsjármáli fyrir kæranda. Að auki krafðist kærandi endurgreiðslu á hluta þóknunar kærðu sem hann hafði greitt henni. Kærða tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 18. maí 2008. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 19. júní 2008, sem svarað var í bréfi kærðu, dags. 17. júlí 2008.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

 Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 2001 eignaðist kærandi dóttur með þáverandi sambýliskonu sinni. Þau slitu samvistir vorið 2004 og gerðu þá með sér samkomulag um sameiginlega forsjá með barninu, en það skyldi búa hjá og eiga lögheimili hjá móður sinni. í árslok 2005 varð ágreiningur með foreldrunum um samskipti við barnið um jólin. Kærandi krafðist af þessu tilefni úrskurðar sýslumannsins í B um umgengni við barnið. Úrskurður var kveðinn upp í júní 2006 og fól hann í sér minni umgengni kæranda við dóttur sína en áður hafði verið. Móðir barnsins fór fram á úrskurð um viðbótarmeðlag með því og í október 2007 var ákveðið að kærandi skyldi greiða 75% af einföldu meðlagi til viðbótar lágmarksmeðlagi með dóttur sinni. Flutningur móður og dóttur úr B í vesturbæ C varð kæranda meðal annars tilefni til þess að höfða mál gegn barnsmóður sinni með kröfu um að honum einum yrði dæmd forsjá dóttur þeirra, þar sem forsendur fyrir  sameiginlegri forsjá væru brostnar. Móðirin fyrir sitt leyti krafðist þess að samkomulagið um sameiginlegu forsjána yrði fellt úr gildi og henni einni yrði falin forsjáin.

 Kærða gætti hagsmuna kæranda í málsókninni og flutti málið fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð þess. Dómur var kveðinn upp þann x. nóvember 200x, þar sem ákveðið var að móðirin færi ein með forsjá barnsins. Staðfestur var úrskurður sýslumannsins í B frá júní 200x um umgengni kæranda og barnsins, svo og úrskurður sýslumanns um meðlagsgreiðslur. Kæranda var auk þess gert að greiða konunni 300.000 krónur í málskostnað.

 Fljótlega eftir dómsuppkvaðninguna áttu kærandi og kærða með sér fund þar sem rætt var um hvort áfrýja skyldi málinu. Kærandi taldi rétt að málinu yrði áfrýjað og upplýsti kærða hann þá um það að áfrýjunarfrestur væri þrír mánuðir. Um mánaðamótin janúar-febrúar 2007, eftir nokkur tölvupóstsamskipti við kæranda, sendi kærða skriflegar athugasemdir sínar og vangaveltur um hvort rétt væri að áfrýja málinu, meðal annars í ljósi dómafordæma í forsjármálum. Niðurstaða kærðu var sú að ekki væri rétt að halda málinu áfram, engin lagaleg rök væru fyrir því.

 Af hálfu kærðu voru gefnir út þrír reikningar fyrir verklaunum. Sá fyrsti var gefinn út 31. mars 2007, að fjárhæð 135.394 krónur. Sá næsti var gefinn út 29. júní 2007, að fjárhæð 139.752 krónur. Síðasti reikningurinn var gefinn út 9. nóvember 2007, að fjárhæð 540.953 krónur. Alls námu umkrafin verklaun 816.099 krónum, þar með talinn útlagður kostnaður að fjárhæð 22.411 krónur og virðisaukaskattur. Samkvæmt reikningunum varði kærða 41,5 tímum í verkefnið.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar krefst kærandi þess að kærðu verði gert að greiða sér 300.000 krónur, sem er sú fjárhæð sem honum var gert að greiða í málskostnað samkvæmt dómi héraðsdóms. Þá krefst kærandi þess að kærðu verði gert að endurgreiða sér þá þóknun, sem hann hefði greitt henni, vegna réttarspjalla, en til vara að úrskurðarnefnd tæki afstöðu til þess hvort áskilin þóknun kærðu væri eðlileg og ef ekki, hversu háa fjárhæð kærða yrði að endurgreiða.

 Kærandi fer einnig fram á að úrskurðarnefnd taki afstöðu til þess hvort vinnubrögð kærðu í málinu hafi verið réttlætanleg. Loks fer kærandi fram á að kærði verði látin sæta þeim viðurlögum sem lög og siðareglur lögmanna kveða á um.

 Kærandi telur kærðu hafa eyðilagt fyrir sér möguleikann á því að áfrýja málinu, með því að hafa dregið sig á asnaeyrum í tvo mánuði, og láta sig halda að hún væri að vinna í málinu allan tímann. Nú hafi komið í ljós að áfrýjunarfrestur í svona málum er einn mánuður, ekki þrír eins og kærða upplýsti hann um. Kærandi telur kærðu hafa átt að segja sér það strax vildi hún ekki áfrýja málinu, þannig að færi gæfist á að fá annan lögmann í verkið. Kærandi telur ljóst vera að kærða hafi gert mistök, en ekki sýnt nokkra tilburði til þess að viðurkenna þau, bæta fyrir þau eða afsaka.

 Kærandi kveður kærðu hafa upplýst sig um það að forsjármálið gæti kostað um það bil 500.000 krónur. Reikningur hennar hafi hins vegar hljóðað upp á 816.299 krónur, eða 63% meira en uppgefið var. Þar sem málið hafi ekki verið óvenjulegt að vöxtum telur kærandi þóknunina ekki vera í neinu samræmi við vinnuframlag, sérstaklega miðað við þau vinnubrögð sem lýst sé í erindinu.

 Kærandi telur það vera ljóst að hann þurfi að höfða mál á ný fyrir héraðsdómi þar sem hann uni ekki niðurstöðu héraðsdóms, en kærða hafi fyrirgert rétti til þess að áfrýja málinu.

 III.

Í greinargerð sinni kveður kærða hvorki sér né kæranda hafa komið niðurstaða héraðsdóms á óvart, enda hafi við aðalmeðferð málsins ekki tekist að sýna fram á það sem lagt hafi verið upp með í því, þ.e. að sýna fram á einhverja vanrækslu móður. Kærða kveðst ítrekað hafa farið yfir það með kæranda hvaða atriði væru lögð til grundvallar við mat á því hvað sé barni fyrir bestu. Kærandi hafi vitað vel að á brattann væri að sækja.

 Kærða kveður það ekki vera rétt að á fundi þeirra kæranda skömmu eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafi verið ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Þau hafi farið yfir málið vítt og breitt og hún hafi þá upplýst kæranda að áfrýjunarfrestur væri þrír mánuðir. Kærða kveður sér hafa yfirsést breyting á áfrýjunarfresti sem gerð hafi verið með barnalögunum frá árinu 2003. Slíkt væri auðvitað aðfinnsluvert.

 Kærða kveður sitt lögfræðilega mat hafa verið það að málið ætti ekkert erindi til Hæstaréttar. Kæranda hafi verið fullkunnugt um það. Rökstuðningur héraðsdóms og málskostnaðurinn hafi hins vegar setið í honum, hann hafi verið mjög ósáttur við að vera dæmdur til að greiða málskostnaðinn. Kærða kveður kæranda hafa viljað fá að skoða hvort ekki væri hægt að áfrýja málinu til að freista þess að fá málskostnaðarákvörðuninni breytt og hafi hún sagst skyldu skoða það. Ekkert hafi hins vegar verið ákveðið á þessum fundi um áfrýjun málsins. Kærða kveðst hafa margsagt kæranda að eitthvað nýtt þyrfti til að koma í málinu svo einhverjir möguleika væru á annarri niðurstöðu við áfrýjun til Hæstaréttar.

 Kærða vísar til fylgiskjals 3 með erindi kæranda, máli sínu til stuðnings, en það er afstaða hennar til áfrýjunar málsins sem hún sendi kæranda um mánaðamótin janúar-febrúar 2008. Kærða kveðst ekki fallast á að réttarspjöll hafi verið unnin í málinu.

 Kærða kveður kæranda aldrei hafa mótmælt reikningum sínum. Honum hafi verið gerð grein fyrir tímafjöldanum í málinu og honum hafi jafnframt verið gerð grein fyrir því að kostnaðurinn gæti orðið á bilinu 500-800 þúsund krónur, eftir umfangi málsins. Í þeirri áætlun hafi ekki verið gert ráð fyrir öllum samskiptum, bréfaskriftum við fulltrúa sýslumanns vegna meðlagsmálsins, sem hafi komið til eftir að stefna var gefin út og greinagerð skilað í forsjármálinu. Kærða kveður þóknun sína ná meðal annars til þessa þáttar. Kærða kveður síðasta reikning sinn ná til loka október-mánaðar, en ekkert hafi verið reikningsfært eftir það.

 Kærða vísar til yfirlits um tölvupóstsamskipti sín og kæranda, sem hún kveður meðal annars sýna að á tímabilinu frá júní til október 2007 voru fjölmörg samskipti aðila og fulltrúa sýslumanns vegna meðlagsmálsins. Kærða telur að þóknun sín hafi ekki verið of mikil miðað við málavexti og vinnuframlag.

 IV.

Í síðari bréfum málsaðila til nefndarinnar gera þeir nokkrar athugasemdir hvor um annars skrif, en ekki þykir ástæða til að rekja þær sérstaklega hér.

 Niðurstaða.

  I.

Erindi kæranda til úrskurðarnefndar lýtur annars vegar að vinnubrögðum kærðu eftir uppkvaðningu héraðsdóms í forsjármáli því sem kærandi sótti gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og hins vegar að þóknun kærðu.

 Kærandi krefst þess meðal annars að kærðu verði gert að greiða sér 300.000 krónur, nánar tiltekið málskostnað þann sem kærandi var dæmdur til að greiða sambýliskonu sinni fyrrverandi með dómi héraðsdóms. Krafa þessi er í eðli sínu skaðabótakrafa kæranda á hendur kærðu, en hann telur líklegt að Hæstiréttur hefði snúið við að minnsta kosti þessum hluta héraðsdóms, hefði málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar. Það fellur utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna, svo sem það er skilgreint í lögmannalögum nr. 77/1998, að taka afstöðu til skaðabótakrafna á hendur lögmönnum og úrskurða um bótagreiðslur úr þeirra hendi. Af þessum sökum verður ekki tekin afstaða til þessarar kröfu kæranda og er henni vísað frá.

 II.

Að mati úrskurðarnefndar liggur ekki ljóst fyrir af gögnum málsins hvort kærðu hafi verið falið að áfrýja héraðsdómi í forsjármálinu til Hæstaréttar á fundi hennar og kæranda skömmu eftir uppkvaðningu dómsins, eða að hún hafi tekið slíkt verkefni að sér. Af samskiptum málsaðila að dæma, sem birtast í tölvupóstsamskiptum þeirra í desember 2007 og janúar 2008 má hins vegar ráða að kærandi hafi haft ástæðu til að ætla að kærða myndi áfrýja fyrir sig dóminum til Hæstaréttar. Þannig upplýsti kærða meðal annars í tölvupósti til kæranda þann 13. desember 2007 að lögmaður konunnar hefði spurst fyrir um hvort til stæði að áfrýja málinu og hún, kærða, hefði svaraði því játandi. Fram kom í tölvupósti kærðu að farið yrði strax í þetta á nýju ári.

 Í tölvupósti kærðu til kæranda þann 18. janúar 2008 kom fram að áfrýjunarstefna færi í Hæstarétt næst komandi mánudag. Síðar sama dag kvað kærða aðspurð í tölvupósti til kæranda enga sérstaka útlistun á efnisatriðum koma fram í stefnunni, slík útlistun kæmi í greinargerð og þau þyrftu að leggjast vel yfir það.

 Kærða sendi kæranda tölvupóst þann 1. febrúar 2008 og lét fylgja greinargerð sína um málið, þar sem hún réði kæranda frá því að áfrýja málinu. Fyrir áfrýjun væru engin lagaleg rök.

 Ekki er upplýst í málinu hvort sótt hafi verið um áfrýjunarleyfi hjá Hæstarétti, að liðnum áfrýjunarfrestinum.

 Samkvæmt 44. gr. barnalaga nr. 76/2003 er áfrýjunarfrestur í forsjármálum einn mánuður. Áfrýjunarfrestur í máli kæranda rann þannig út x. desember 200x. Úrskurðarnefnd lögmanna telur að gera verði þá kröfu til lögmanns að hann þekki reglur um áfrýjunarfresti, bæði almennar reglur sem og sérreglur eins og þá sem gildir samkvæmt barnalögum. Að mati nefndarinnar bar kærðu að taka af skarið um hvort hún hygðist áfrýja málinu fyrir kæranda innan áfrýjunarfrests, en láta hann ella vita með hæfilegum fyrirvara ef hún ætlaði ekki að áfrýja fyrir hann héraðsdóminum, enda mátti henni vera það ljóst að hann hafði mikinn hug á því að láta áfrýja málinu. Það, að hafa látið áfrýjunarfrestinn líða án þess að hafast nokkuð að, er aðfinnsluvert að mati nefndarinnar.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

 Ekki liggur fyrir í málinu skriflegur samningur aðila um endurgjald til kærðu fyrir málflutningsstörfin. Aðilar eru hins vegar sammála um að rætt hafi verið um kostnað af málaferlunum í upphafi, en ágreiningur er með þeim um hvað var upplýst við það tækifæri. Kærandi kveður kærðu hafa tjáð sér að kostnaðurinn gæti numið um það bil 500 þúsund krónum, en kærða kveðst hafa nefnt að kostnaður gæti orðið á bilinu 500-800 þúsund krónur, eftir umfangi málsins.

 Kærandi greiddi þá þrjá reikninga, sem kærða gaf út, án sérstakra athugasemda um tilgreindan tímafjölda, tímagjald eða heildarfjárhæð. Eins og áður greinir miðast áskilin verklaun kærðu við 41,5 tíma vinnu. Ekki er ágreiningur með aðilum um að inni í þeim tímafjölda er einhver vinna kærðu að meðlagsmálinu fyrir embætti sýslumannsins í B, þótt þau greini á um umfang þess verkþáttar. Ekki liggur fyrir tímaskýrsla kærðu, en önnur gögn, svo sem yfirlit hennar um tölvupóstsamskipti sín og kæranda og endurrit héraðsdóms í forsjármálinu gefa vísbendingu um þau álitaefni sem við var að fást og um umfang verksins.

 Nefndin telur að við mat á hæfilegu endurgjaldi kærðu beri að líta til þess að forsjármál eru í eðli sínu að jafnaði hvorki einföld né fljótunnin mál, enda eru mikilvægir hagsmunir málsaðila í húfi.

 Að öllu framangreindu virtu telur nefndin heildatímafjölda í verkinu ekki vera meiri en búast má við í rekstri dómsmáls af þessu tagi. Samkvæmt þessu er það mat úrskurðarnefndar að áskilið endurgjald kærðu sé hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 fyrir málflutningsstörf hennar.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kröfu kæranda, H, um að kærðu, I, hrl., verði gert að greiða honum 300.000 krónur, er vísað frá.

 Það, að kærða lét áfrýjunarfrest líða án þess að gefa kæranda kost á því að fá forsjármálinu áfrýjað til Hæstaréttar innan frestsins er aðfinnsluvert.

 Áskilið endurgjald kærðu fyrir málflutningsstörf í þágu kæranda í forsjármálinu er hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA