Mál 6 2008
Ár 2008, miðvikudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 6/2008:
F
gegn
G, hrl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 29. febrúar 2008 frá A, hrl., fyrir hönd F, kæranda, þar sem kvartað var yfir framkomu G, hrl., kærða, er hann sendi innheimtubréf til kæranda í lok janúar 2008. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 25. apríl 2008. Af hálfu kæranda voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða, í bréfi, dags. 2. júlí 2008, sem kærði svaraði í bréfi til nefndarinnar, dags. 12. ágúst 2008.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 2006 höfðaði kærandi tvö dómsmál, annað gegn fyrirtækinu R ehf. en hitt gegn
Dómsmálin voru felld niður í október 2007 að ósk kæranda. Málið gegn R ehf. var fellt niður án kostnaðar en í málinu gegn S var kærandi úrskurðaður til að greiða stefnda 100.000 krónur í málskostnað.
Þann 31. janúar 2008 sendi kærði, fyrir hönd S, bréf til kæranda þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu á 10 milljónum króna auk dráttarvaxta vegna fyrri viðskipta þeirra, ellegar yrði höfðað dómsmál gegn honum til innheimtu kröfunnar. Að auki var krafist greiðslu á hinum úrskurðaða málskostnaði, ásamt dráttarvöxtum, með hótun um fullnustugerð hjá kæranda fyrir kröfunni, yrði hún ekki greidd fyrir 8. febrúar 2008. Bréf kærða varð kæranda tilefni erindis þessa til úrskurðarnefndar lögmanna
II.
Kærandi heldur því fram að kærða hafi verið fullkunnugt um það að hann naut lögmannsaðstoðar í málinu við
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður kærði ágreiningi kæranda og S hafa verið þannig háttað að báðir hafi talið sig eiga kröfu á hendur hinum. Hafi S, í greinargerð sinni til héraðsdóms, áskilið sér rétt til þess að hafa uppi kröfu á hendur kæranda við tilgreindar aðstæður.
Kærði kveðst hafa verið nokkuð sannfærður um það, þegar hann vann að ritun stefnu í máli Guðmundar gegn kæranda í janúar og febrúar 2008, að B, hdl., væri hætt með mál kæranda. Kveðst kærði hafa dregið þá ályktun meðal annars af því að ekkert hefði þá heyrst frá B, þrátt fyrir að úrskurður um málskostnað og niðurfellingu máls kæranda gegn S hefði gengið þann 12. október 2007. Þegar bréfið hafi verið sent kæranda þann 31. janúar 2008 hafi verið liðnir þrír og hálfur mánuður frá því úrskurðurinn gekk. Kveður kærði það hafa verið ólíkt B, eftir því sem hann hafi kynnst henni í málarekstrinum, að hún skyldi ekki hafa lokið málunum og séð um að koma málskostnaðarfjárhæðinni til sín. Fyrst svo hafi ekki verið gert og þar sem kærandi væri lögfræðingur að mennt hafi kærði talið kæranda fara sjálfan með sín mál og að enginn lögmaður væri lengur með hans mál. Kærði telur það styðja þessa skoðun sína að B hafi virst fegin þegar málunum lauk með afturköllun þeirra. Kærði bendir jafnframt á að B fari ekki með það mál sem S hafi höfðað á hendur kæranda.
Kærði kveðst telja að um nýtt mál sé að ræða, sem kynnt hafi verið í bréfinu í lok janúar, enda hefði engin krafa verið áður gerð í dómsmáli þar að lútandi. Einungis hefði verið nefnt í greinargerð að áður hefði verið farið fram á greiðslu á fjórðungi þeirrar fjárhæðar sem nefnd hefði verið í bréfinu, 10 milljóna króna, og að áskilinn væri réttur til þess síðar að sækja alla fjárhæðina á hendur kæranda.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur kærði sig ekki hafa brotið gegn 26. gr. siðareglna lögmanna.
IV.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða til nefndarinnar kemur meðal annars fram sú skoðun að kærða hefði verið í lófa lagið að leita af sér grun um hvort kærandi nyti lögmannsaðstoðar með því að senda fyrirspurn þar að lútandi til B, hdl. Tekið er fram í athugasemdunum að annar lögmaður hjá C lögmannsstofu annist málsvörn kæranda í máli S gegn honum, enda sé það annað mál en það sem varð tilefni kærunnar til úrskurðarnefndar lögmanna.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýna nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.
Sem fyrr segir telur kærandi kærða hafa brotið gegn þessu ákvæði siðareglnanna með því að hafa sent sér innheimtubréf í lok janúar 2008, þar sem meðal annars var krafið um greiðslu málskostnaðar samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Ö þann x. október 200x, auk þess sem krafist var greiðslu tilgreindrar fjárhæðar sem umbjóðandi kærða taldi sig eiga rétt á úr hendi kæranda.
Grein 26 er í 4. kafla siðareglnanna, sem fjallar um samskipti lögmanna innbyrðis. Með ákvæðinu er reynt að tryggja að lögmaður sýni ekki öðrum lögmanni virðingarleysi með því að hafa beint samband við umbjóðanda þess lögmanns, án vitneskju hans. Ákvæðinu er einnig ætlað að koma í veg fyrir að aðili verði fyrir réttarspjöllum fái hann ekki notið aðstoðar og ráðgjafar lögmanns síns í máli.
Dómsmáli kæranda gegn S lauk þann x. október 200x er málið var fellt niður. Samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, gjaldféll hinn úrskurðaði málskostnaður 15 dögum eftir uppkvaðningu úrskurðarins, eða þann x. október 200x. Ekkert liggur fyrir í málinu um að boðin hafi verið fram greiðsla af hálfu kæranda að fyrra bragði eða að reynt hafi verið að semja um greiðslu eða að ágreiningur hafi komið upp um hinn úrskurðaða málskostnað. Þá liggur ekki fyrir að kærandi hafi kvatt lögmann sér til aðstoðar og ráðgjafar við uppgjör málskostnaðarkröfunnar eða að kærða eða umbjóðanda hans hafi verið tilkynnt um slíka hagsmunagæslu. Að mati úrskurðarnefndar braut kærði því ekki gegn ákvæði 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna með því að innheimta málskostnaðarkröfu umbjóðanda síns hjá kæranda í bréfinu þann 31. janúar 2008.
Sá hluti bréfs kærða er fól í sér kröfu á hendur kæranda um greiðslu 10 milljóna króna var upphafið að nýju máli S gegn kæranda. Telur úrskurðarnefnd lögmanna að við þær aðstæður sem raktar eru hér að framan hafi það ekki verið andstætt ákvæðinu í 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna að kynna kröfu S á þann hátt sem gert var, enda um nýtt mál að ræða.
Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærði hafi ekki í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, G, hrl., hefur með ritun bréfs þann 31. janúar 2008 til F, kæranda, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA