Mál 15 2008

Ár 2009, mánudaginn 27. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2008:

 

R og

S

gegn

T, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 8. ágúst 2008 frá R og S, sóknaraðilum, þar sem kvartað var yfir gjaldtöku T, hrl., varnaraðila, fyrir flutning dómsmáls um galla í fasteign fyrir sóknaraðila. Varnaraðili tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 25. september 2008. Af hálfu sóknaraðila voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð varnaraðila, í bréfi, dags. 25. nóvember 2008. Varnaraðili hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í lok maí 2005 keyptu sóknaraðilar einbýlishús á K og fengu það afhent nokkrum dögum síðar. Samkvæmt söluyfirliti var húsið í mjög góðu ástandi að utanverðu og þakið var nýstandsett. Nokkru eftir að hafa fengið húsið afhent, eða haustið 2005, töldu sóknaraðilar það haldið nokkrum, smávægilegum göllum. Leituðu þau af því tilefni til varnaraðila, sem samdi um bætur þeim til handa úr hendi seljenda í þessu fyrra gallamáli, að fjárhæð 250.000 krónur.

Í desember 2006 fauk krossviðarplata af einum af þremur kvistum á þaki hússins og við nánari skoðun kom í ljós mikill fúi í bitum á kvistinum.

Sóknaraðilar fólu varnaraðila að gæta hagsmuna sinna í þessu síðara gallamáli. Þeir töldu að um leyndan galla væri að ræða sem seljendur og fasteignasalinn, sem hafði annast milligöngu um kaupin á húsinu, bæru ábyrgð á. Að beiðni sóknaraðila var dómkvaddur matsmaður til að meta ástand kvista og þaks. Í matsgerð, dags. 30. maí 2007, var komist að þeirri niðurstöðu að of lítill halli væri á þaki kvistanna auk þess sem frágangi væri í ýmsu ábótavant. Kostnaður við endurbætur var metinn rúmlega 4,1 milljón króna.

Höfðað var dómsmál gegn seljendum og fasteignasalanum í ágúst 2007, þar sem krafist var skaðabóta og afsláttar að sömu fjárhæð og nam endurbótakostnaði samkvæmt matinu. Fasteignasalinn krafðist frávísunar málsins að því er sig varðaði og var sú krafa sótt og varin í héraðsdómi þann x. janúar 200x. Í úrskurði héraðsdóms þann x. febrúar 200x var fallist á frávísunarkröfuna með þeim rökum að fasteignasalinn hafði ekki verið aðili að matsmálinu og hafði hvorki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við dómkvaðninguna né við framkvæmd matsins. Að mati dómsins fór það í bága við 2. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þar sem krafa sóknaraðila byggðist eingöngu á niðurstöðum matsgerðarinnar hefði hún ekkert sönnunargildi gagnvart fasteignasalanum og yrði ekki á henni byggt við úrlausn um bótaábyrgð hans í málinu. Sóknaraðilum var gert að greiða fasteignasalanum 90.000 krónur í málskostnað.

Aðalmeðferð gallamálsins var háð x. maí 200x og í dómi héraðsdóms þann x. júní var fallist á að um galla hefði verið að ræða sem sóknaraðilar ættu rétt á að fá bættan. Ekki var þó fallist á heildarkröfu þeirra í málinu, en stefndu voru dæmd til þess að greiða þeim tæplega 2,8 milljónir króna auk dráttarvaxta og 650.000 krónur í málskostnað. Tekið var fram að í málskostnaðarákvörðun fælist virðisaukaskattur og útlagður kostnaður sóknaraðila við öflun matsgerðarinnar.

Varnaraðili gerði sóknaraðilum reikning að fjárhæð 61.005 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, vegna fyrra gallamálsins. Reikningurinn var dagsettur 10. febrúar 2006 og byggðist hann á 5 klst. vinnuframlagi.

Varnaraðili gaf út 5 reikninga fyrir störf sín undir meðferð síðara gallamálsins.

Þann 19. febrúar 2007 gaf varnaraðili út reikning að fjárhæð 83.650 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Reikningurinn var sagður vera vegna matsmáls vegna galla í fasteign og í honum var tilgreind þóknun vegna matsbeiðni, akstur og vettvangsskoðun.

Varnaraðili gaf næsta reikning út 31. maí 2007, að fjárhæð 335.030 krónur. Sá reikningur var einnig vegna reksturs matsmálsins og fól í sér 100.000 krónur auk virðisaukaskatts auk útlagðs kostnaðar vegna matsgerðar hins dómkvadda matsmanns. Með reikningnum fylgdi reikningur matsmannsins, að fjárhæð 210.530 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Þá gaf varnaraðili út reikning þann 25. júlí 2007, að fjárhæð 311.250 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, vegna stefnu meðferðar í gallamálinu. Tekið var fram að um innborgun væri að ræða.

Næsti reikningur varnaraðila var gefinn út 31. janúar 2008, að fjárhæð 173.864 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Um var að ræða þóknun fyrir undirbúning og flutning máls um frávísunarkröfu fasteignasala, vegna 10 tíma vinnu.

Síðasta reikning sinn gaf varnaraðili út 12. júní 2008, sama dag og efnisdómur var kveðinn upp í síðara gallamálinu. Sá reikningur var að fjárhæð 850.092 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Reikningurinn byggðist að hluta til á hagsmunatengdri þóknun en að hluta til á tímaskrá vegna matsþáttar málsins.

Í heildina nam áskilin þóknun varnaraðila í síðara gallamálinu 1.240.411 krónum, virðisaukaskattur nam 303.901 krónu og útlagður kostnaður vegna matsgerðar nam 210.530 krónum. Heildarmálskostnaður samkvæmt þessu nam 1.754.842 krónum. Upp í þá fjárhæð fengu sóknaraðilar tildæmdan málskostnað í héraði, að fjárhæð 650.000 krónur.

Sóknaraðilar gerðu athugasemdir við lokareikning varnaraðila. Aðilar reyndu sættir um lækkun reikningsins en náðu ekki samkomulagi. Af því tilefni leituðu sóknaraðilar til úrskurðarnefndar lögmanna með erindi það, sem hér er til úrlausnar.

II.

Sóknaraðilar krefjast þess að reikningar varnaraðila verði lækkaðir og færðir til samræmis við það sem eðlilegt má teljast á markaði. Fyrir kröfu sinni færa sóknaraðilar eftirgreind rök:

1. Sóknaraðilar telja óeðlilegt að áskilja sér þóknun á grundvelli stefnufjárhæðar. Eðlilegra hefði verið að miða þóknun til tímaskráningu. Þeir benda á að tímaskrá hafi ekki verið lögð fram.

2. Sóknaraðilar telja eðlilegt, ef notast er við hlutfall af þeim hagsmunum sem um er fjallað, að eingöngu verði byggt á prósentu en ekki jafnframt gerður reikningur fyrir tímavinnu í matsmáli.

3. Sóknaraðilar telja eðlilegt, ef miðað er við prósentu, að hún taki mið af dæmdri fjárhæð en ekki stefnufjárhæð.

4. Sóknaraðilar telja tímafjölda við rekstur matsmáls mikinn og að ekki hafi verið lögð fram tímaskrá.

5. Sóknaraðilar telja tilefni frávísunarþáttar málsins eingöngu hafa verið handvömm varnaraðila sjálfs, þar sem honum hafi láðst að boða einn málsaðila til matsfundar. Það hafi leitt til frávísunar málsins að því er þann aðila varðaði.

6. Sóknaraðilar segja að þeim hafi aldrei verið gerð grein fyrir gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila áður en málið hófst og þeim hafi aldrei verið gerð grein fyrir þeim kostnaði sem fallinn væri á málið meðan á rekstri þess stóð. Heildarkostnaður við rekstur málsins hafi verið óeðlilega mikill, sem hlutfall af þeim fjárhæðum sem um var fjallað.

7. Sóknaraðilar telja reikningsgerð ekki hafa verið tímabæra þar sem málið væri enn á áfrýjunarfresti og algerlega óvíst um málalyktir.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar skýrir varnaraðili lokareikning sinn svo:

a) Grunngjald er 116.571 króna.

b) Hlutfall af stefnufjárhæð, 15% af 4.124.273 krónum, án vaxta. Varnaraðili telur hagsmunatengingu hljóta ævinlega að taka mið af þeim hagsmunum sem í húfi séu og sem verið sé að sækja og verja, en ekki endilega því sem dómur að endingu hljóðar um.

c) Varnaraðili kveður grunngjald vegna matsbeiðni, 49.088 krónur, eiga sér stoð í gjaldskrá sinni.

d) Varnaraðili kveður áskilda þóknun fyrir rekstur matsmálsins, 310.880 krónur, byggjast á vinnuframlagi, 20 klst., enda sé erfitt að hagsmunatengja þá vinnu. Óumdeilanlega sé um að ræða vinnu sem falli utan hefðbundinnar vinnu við meðferð dómsmálsins sjálfs. Um sé að ræða vinnu við vettvangsskoðun, matsfund, samskipti við matsmann, aðila og lögmann gagnaðila, fyrirtökur í matsmáli, gagnaöflun, könnun réttarheimilda og annars sem málið snertir. Varnaraðili kveður matsmálið hafa verið unnið af samviskusemi, eins og niðurstöður þess sýni.

e) Útlagt þingfestingargjald nemur 3.900 krónum.

Varnaraðili kveður reikning sinn nr. 668 vegna meðferðar og flutnings málsins um frávísunarkröfu fasteignasalans hafa byggst á tímagjaldi. Krafið sé sérstaklega um þóknun fyrir málflutning „inni” í málum, enda sé flutningur slíkra ágreiningsefna ekki innifalinn í gjaldtöku fyrir meðferð aðalmáls, ekki frekar en meðferð matsmáls.

Varnaraðili kveðst hafa boðið sóknaraðilum að lækka lokareikning sinn um 200.877 krónur auk virðisaukaskatts, eða 250.092 krónur. Heildarkostnaður sóknaraðila af rekstri málsins, þar með talið matsmáli og málflutningi um frávísunarkröfu, nemi því 1.033.733 krónum auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar.

Varnaraðili gerir grein fyrir afstöðu sinni til athugasemda sóknaraðila, í þeirri röð sem þær eru settar fram:

1. Varnaraðili mótmælir því að samið hafi verið á öðrum grundvelli en gjaldskrá lögmannsstofu sinnar, sem byggist alfarið á hagsmunatengingu þóknunar í dómsmálum þar sem það eigi við.

2. Varnaraðili kveður matsmálið vera sjálfstætt mál.

3. Varnaraðili mótmælir þessari athugasemd sóknaraðila og spyr hvort lögmaður eigi að liggja óbættur utan garðs tapist mál. Lögmaður geti auðvitað aldrei borið ábyrgð á niðurstöðu, aðeins á faglegum vinnubrögðum sem ekki hafi verið bornar brigður á í þessu máli. Varnaraðili vekur athygli á því að hann hefði getað reiknað hagsmunatengda þóknun sína af vöxtunum einnig, þótt hann hefði ekki gert það.

4. Varnaraðili bendir á tímaskrá sína undir þessum tölulið.

5. Varnaraðili kveðst telja frávísunarúrskurðinn rangan. Fallið hefði verið frá kæru til Hæstaréttar meðal annars til þess að taka ekki óþarfa áhættu um frekari kostnað. Ekki hafi legið fyrir í upphafi að fasteignasalanum yrði stefnt, en það, að hann átti ekki kost á að vera viðstaddur mat, hafi aðeins snúið að sönnun tjónsfjárhæðar.

6. Varnaraðili mótmælir hvorutveggja athugasemdinni undir þessum tölulið með vísan til þess sem áður sé komið fram.

7. Varnaraðili mótmælir athugasemd í þessum tölulið og kveður það vera venju að gera mál upp á þessu stigi, meðal annars til þess að aðilar geti tekið upplýsta ákvörðun um framhald.

Varnaraðili telur að í kröfugerð sóknaraðila, um að reikningar sínir verði lækkaðir og færðir til samræmis við það sem eðlilegt megi teljast á markaði, hljóti að felast að endurgjald sitt verði úrskurðað að álitum.

Varnaraðili kveðst harma að trúnaðarbrestur hafi orðið með aðilum með þeim hætti að sóknaraðilar hafi falið öðrum lögmanni að reka mál sitt fyrir Hæstarétti Íslands og leitað álits úrskurðarnefndar lögmanna um endurgjald sitt. Varnaraðili kveðst því hafa haldið fund á skrifstofu sinni til þess að útskýra reikningsgerð sína og reyna að eyða misskilningi, þar á meðal um meinta tvítöku á virðisaukaskatti og jafnframt um að bæði væri verið að krefja um hagsmunatengingu og tímagjald í sama málinu. Varnaraðili kveðst hafa lagt fram þríþætt tilboð á þessum fundi:

a) Í fyrsta lagi hafi verið boðin lækkun á hagsmunatengdu endurgjaldi þannig að eingöngu yrði miðað við dæmda fjárhæð en ekki stefnufjárhæð, hvoru tveggja án vaxta. Við þetta hefði endurgjaldið lækkað úr 618.641 krónu í 526.900 krónur eða um 91.741 krónu auk virðisaukaskatts.

b) Að auki hefði verið boðin ósundurgreind lækkun að fjárhæð 109.136 krónur auk virðisaukaskatts. Að henni meðtalinni hefði reikningsfjárhæðin lækkað niður í 600.000 krónur. Varnaraðili kveðst hafa talið að með svo rausnarlegum afslætti væri verið að ýta út af borðinu öllum tölulegum ágreiningi þar sem seinni liður afsláttarins hefði meðal annars náð yfir reikningsfærslu vegna flutnings og meðferðar málsins um frávísunarkröfuna.

c) Varnaraðili kveðst hafa boðist til þess að reka málið fyrir Hæstarétti Íslands fyrir sóknaraðila gegn fastri fjárhæð, 250.000 krónum, sem þó myndi hækka upp að dæmdum kostnaði ef því væri að skipta, en færi aldrei yfir hann.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa hafnað sáttatilboði sínu og jafnframt hafi þeir tilkynnt sér að öðrum lögmanni hefði verið falið að fullnusta dóminn. Varnaraðili kveðst, þrátt fyrir allt, vera reiðubúinn til þess að standa við sáttatilboð sitt að breyttu breytanda varðandi meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Í lok greinargerðar sinnar dregur varnaraðili saman nokkur atriði um vinnuframlag sitt í málinu:

a) Hann kveður matsmálið og aðalmálið hafa verið tekið fyrir alls 16 sinnum í héraðsdómi.

b) Vettvangsskoðun, matsfundur og samskipti við matsmann hafi verið þar fyrir utan og því hafi þurft að minnsta kosti 18 sinnum að huga að fyrirtökum eða mætingu vegna málarekstursins.

c) Varnaraðili kveður lögmann gagnaðila hafa óvænt bent á það að sóknaraðilar hefðu selt eignina og að ekkert væri vitað um afdrif kröfunnar. Þetta hefði sett málið að sjálfsögðu í nokkurt uppnám og það hefði kallað á aukavinnu, enda hefðu sóknaraðilar aldrei haft fyrir því að upplýsa sig um söluna eða að leita ráða í því sambandi.

d) Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa leitað ráða hjá sér um framkvæmdir við endurbætur á eigninni og hann hafi því þurft að hafa milligöngu um það við lögmann gagnaðila að kanna hvort farið yrði fram á yfirmat á þessu stigi. Allt hefði þetta tekið nokkurn tíma.

e) Varnaraðili kveður raunverulegt endurgjald sitt í málavafstrinu öllu, eins og það lægi fyrir eftir afslátt, vera 1.037.773 krónur, sem samsvaraði um það bil 69 klst. vinnu alls fyrir allar mætingar og snúninga, gagnaöflun, skjalagerð, fundi með aðilum, símtöl, undirbúning aðalmeðferðar, aðalmeðferð með talsverðum skýrslutökum, matsmál, aðalmál og frávísun.

Varnaraðili kveðst leggja fram tímaskýrslu sína og C, hdl., vegna vinnu hans að málinu. Augljóst væri af þessum gögnum að gjaldtaka sem byggðist á tímaskráningu yrði sóknaraðilum mun óhagstæðari en fyrirliggjandi krafa um gjaldtöku.

Varnaraðili kveðst telja umkrafið endurgjald sitt vera verulega vanreiknað, hvort heldur sem miðað væri við fyrirliggjandi gjaldskrá, tímaskrár eða samkvæmt almennu mati.

IV.

Í athugasemdum sínum við greinargerð varnaraðila kveðast sóknaraðilar meðal annars ekki kannast við að rætt hafi verið um hagsmunatengingu endurgjalds, þegar varnaraðila var falið fyrra gallamálið. Í því máli hafi endurgjaldið miðast við tímagjald og þeim hafi þótt reikningurinn vera nokkuð hár.

Í síðara gallamálinu hafi legið beinast við að leita aftur  til varnaraðila, sem hefði sinnt fyrra málinu ágætlega. Sóknaraðilar kveðast ekki minnast þess að þá hafi verið rætt um að gjaldtakan yrði hagsmunatengd. Reikningar varnaraðila hafi verið greiddir en síðasti reikningurinn hafi komið eins og köld vatnsgusa framan í þá. Þar hafi gjaldtakan miðast við tímavinnu og einnig við hagsmunatengingu. Þeim hafi þótt reikningurinn vera hár og þeim hafi verið tjáð að lögmenn áskildu sér endurgjald annað hvort samkvæmt tímaskráningu eða samkvæmt hagsmunatengingu. Þá hafi ekki legið fyrir hvort málið hefði unnist þar sem ekki hefði verið búið að áfrýja dóminum til Hæstaréttar þegar reikningurinn frá varnaraðila barst.

Sóknaraðilum finnst athugavert að farið hafi 20 klst. í vinnu við matsmálið og færa fyrir því nokkur rök. Þá benda þeir á að heildarkostnaðurinn samkvæmt reikningum varnaraðila, 1.754.696 krónur, hljóði upp á um 50% af tildæmdri fjárhæð auk dráttarvaxta, en reikningur vegna vinnu við fyrra gallamálið hafi numið um 24,4% af þeim bótum sem innheimtar voru.

Sóknaraðilar benda einnig á að þeir hafi ekki fengið tildæmdar bætur í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar. Þá benda þeir á að samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem varnaraðili lagði fram í héraðsdómi nam áskilið endurgjald, útlagður kostnaður og virðisaukaskattur 1.352.013 krónum, sem væri lægri fjárhæð en þeim hefði verið gerður reikningur fyrir. Loks benda sóknaraðilar á að tildæmdur málskostnaður hafi numið 650.000 krónum. Þeir séu því ósáttir við mismuninn á tildæmdum málskostnaði og því sem varnaraðili krefðist greiðslu á, en það væru 1.104.696 krónur.

Sóknaraðilar telja boð varnaraðila um lækkun reikninga sinna ekki vera fullnægjandi og að heildarkostnaður við málið ætti að vera nærri tildæmdum málskostnaði.

Niðurstaða.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.

Í máli þessu fyrir úrskurðarnefndinni er deilt um áskilið endurgjald varnaraðila fyrir rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/200x og matsmáls sem því tengdist. Nefndin telur rétt að miða við að ágreiningurinn snúist um það endurgjald sem varnaraðili kveðst hafa boðið sóknaraðilum að greiða sér, í sáttaskyni, það er 1.037.773 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar. Varnaraðili kveðst í ágreiningsmáli þessu fyrir nefndinni standa við það boð.

Varnaraðila var upphaflega falið að gæta hagsmuna sóknaraðila vegna galla á húsinu sem þau keyptu. Samið var um 250.000 króna bætur og varnaraðili gerði sóknaraðilum reikning fyrir þá vinnu upp á 61.005 krónur. Byggðist reikningurinn á tímafjölda og tímagjaldi. Ekki var um dómsmál að ræða en með reikningsútgáfunni voru sóknaraðilar upplýstir um að fyrir mál af þessu tagi reiknaði varnaraðili þóknun sína samkvæmt tímaskráningu.

Varnaraðili kveðst hafa gert sóknaraðilum grein fyrir því að hann áskildi sér hagsmunatengda þóknun fyrir rekstur dómsmála samkvæmt gjaldskrá stofu sinnar. Annar sóknaraðila, S, á hinn bóginn kveðst ekki minnast þess að rætt hefði verið um að gjaldtakan miðaðist við hagsmunatengda gjaldskrá. Enginn skriflegur samningur liggur fyrir um þjónustu varnaraðila eða önnur gögn er sýna fram á að hann hafi áskilið sér rétt til að hagsmunatengja þóknun sína vegna reksturs gallamálsins fyrir dómi. Er því að mati nefndarinnar ekki unnt að sannreyna að samið hafi verið um slíkt fyrirkomulag.

Það tíðkast mjög að reikna endurgjald fyrir lögmannsþjónustu samkvæmt tímaskráningu og tímagjaldi. Þessi aðferð kallar á að haldin sé trúverðug tímaskýrsla yfir tiltekið verk, sem veitir upplýsingar um verkefnið sem unnið er að hverju sinni. Varnaraðili, sem í fyrra gallamálinu reiknaði þóknun sína út frá tímafjölda, hefur í þessu máli lagt fram tímaskýrslu fyrir rekstur dómsmálsins, þar með talið málflutningurinn um frávísunarkröfuna. Einnig fylgir á sérblaði yfirlit um rekstur matsmálsins, það er dagsetningar og tímafjöldi og stutt lýsing á því sem gert var hverju sinni. Samkvæmt þessum gögnum varði varnaraðili 88,75 tímum í verkefnið, þar af 10,75 tímum í undirbúning og flutning málsins um frávísunarkröfuna.

Gögn dómsmálsins liggja fyrir nefndinni, það er útprentun úr þingbók um þinghöld, matsbeiðni, tölvupóstar og önnur gögn um samskipti aðila, stefna í héraðsdómsmálinu og greinargerð gagnaðila, kaupsamningur og söluyfirlit og fleiri skjöl. Þótt í niðurstöðu dómsmálsins hafi ekki að öllu leyti verið fallist á kröfur sóknaraðila var niðurstaðan engu síður þeim hagfelld. Fallist var á bóta- eða afsláttarkröfu þeirra og þeim dæmd allhá fjárhæð vegna gallans á fasteigninni, ásamt dráttarvöxtum.

Nefndin fellst ekki á það sjónarmið sóknaraðila, að bíða ætti með reikningsgerð varnaraðila þar til útséð yrði með hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar eður ei. Verkinu um rekstur héraðsdómsmálsins lauk við dómsuppkvaðningu og var varnaraðila rétt að freista þess að fá uppgjör á því tímamarki. Þá fellst nefndin ekki heldur á það sjónarmið sóknaraðila að miða eigi endurgjaldið til varnaraðila við hinn tildæmda málskostnað í dómsmálinu. Í almennu einkamáli bindur málskostnaðarákvörðun dómara að jafnaði ekki lögmann þegar hann gerir skjólstæðingi sínum reikning.

Að virtu öllu því sem liggur fyrir í málinu, þar á meðal tímaskýrslum varnaraðila, er það mat úrskurðarnefndar að endurgjald það, sem varnaraðili hefur boðið sóknaraðilum í sáttaskyni, 1.037.773 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, sé hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Að teknu tilliti til innborgana sóknaraðila nema ógreiddar eftirstöðvar endurgjaldsins 600.000 krónum, þar með talinn virðisaukaskattur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sóknaraðilar, R og S, greiði varnaraðila, T, hrl., 600.000 krónur til lúkningar eftirstöðvum kostnaðar fyrir rekstur og flutning málsins nr. E-xxxx/2008 í Héraðsdómi L.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA