Mál 17 2008

 

Ár 2010, fimmtudaginn 23. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2008:

A hf.

gegn

B, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 15. september 2008 frá C, lögmanni í S, fyrir hönd A hf., kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum B, hdl., kærðu, þegar hún lét af hagsmunagæslu fyrir kæranda og tók að sér hagsmunagæslu fyrir samkeppnisaðila. D, hrl., sendi greinargerð fyrir hönd kærðu til nefndarinnar þann 14. október 2008. Af hálfu kæranda voru gerðar athugasemdir við greinargerð kærðu í bréfi, dags. 18. nóvember 2008. Kærða tjáði sig um athugasemdirnar í bréfi til nefndarinnar, dags. 16. desember 2008.

Formaður úrskurðarnefndar vék sæti vegna vanhæfis. Í hans stað tók varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Thoroddsen, hrl., þátt í afgreiðslu málsins, frá 15. júní 2010.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 1989 leitaði fyrirtækjasamstæðan E til lögmannanna R og S vegna áforma um að koma á fót fyrirtæki á Íslandi sem veitti þjónustu á sviði endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra aðila. Starfsemin hófst árið 1996, að loknum ítarlegum undirbúningi, á vegum fyrirtækisins A hf., kæranda, sem sérstaklega var stofnaði í þessu skyni.

Fljótlega eftir að starfsemin hófst var ráðinn til fyrirtækisins maður að nafni T. Hann þótti standa sig vel í starfi og komst þar til metorða. Hann hlaut meðal annars sérstaka þjálfun hjá systurfyrirtæki kæranda í Þ. Í ágúst 2001, þegar T var orðinn framkvæmdastjóri kæranda og systurfyrirtækis í D, Ö, ákvað hann að söðla um og hefja störf hjá fyrirtækinu X hf., en það fyrirtæki var í eigu Y, í beinni samkeppni við kæranda. Telur kærandi þennan starfsmann sinn hafa undirbúið umskiptin í nokkurn tíma, meðan hann starfaði enn hjá sér. Innan mánaðar frá því T hóf störf hjá samkeppnisaðilanum var sá kominn með yfir 50% markaðshlutdeild.

Í hönd fór mikil samkeppni þessara tveggja fyrirtækja og gekk á með málsóknum fyrir dómstólum og síðar með kærumálum til samkeppnisyfirvalda. Q, hrl., gætti hagsmuna kæranda í þeim dómsmálum sem rekin voru en þegar deilumál fyrirtækjanna færðust yfir á vettvang samkeppnisyfirvalda tók kærða að sér hagsmunagæsluna fyrir kæranda og sinnti þeim málum í um það bil 5 ár.

Fyrirtækið P hf., sem veitir margvíslega þjónustu á sviði kortaviðskipta og skyldum sviðum, keypti öll hlutabréf í fyrirtækinu Y og hugðist þannig bæta við nýju sviði fjármálaþjónustu, nánar tiltekið endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra aðila sem X hf., dótturfélag Y, sinnti.

P hf. var, eins og kærandi, viðskiptavinur hjá lögmannsstofu kærðu, H. Í júlí 2008 áttu sænskur lögmaður kæranda, C, og kærða í nokkrum samskiptum vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra vegna kaupa P hf. á hlutabréfunum í Y og áformaðs samruna fyrirtækjanna tveggja. Að ráði varð að kærða og lögmannsstofa hennar hættu störfum fyrir kæranda vegna hættu á hagsmunaárekstrum.

Þann 11. ágúst 2008 fór Z, hrl., sem tekið hafði að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda hér á landi, fram á það við kærðu að hún afhenti sér, sem lögmanni kæranda, öll gögn er hún kynni að hafa undir höndum frá kæranda. Þessari beiðni var fylgt eftir og hún ítrekuð næsta dag með símtali hins sænska lögmanns kæranda við kærðu.

Þann x. ágúst 200x sendi kærða samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa P hf. á hlutabréfunum í Y. Undirritaði kærða tilkynninguna fyrir hönd beggja fyrirtækjanna.

Gögn vegna mála, sem unnið hafði verið að hjá H fyrir kæranda, voru tekin saman og afhent nýjum lögmanni kæranda 2., 5. og 12. september 2008.

Kærandi var ósáttur við að kærða tók að sér gerð samrunatilkynningarinnar til Samkeppniseftirlitsins vegna hagsmunaárekstra og fleiri atriða, er hann taldi hafa verið fyrir hendi. Af því tilefni sendi hann erindi það, sem hér er til úrlausnar, til úrskurðarnefndar lögmanna.

II.

Kærandi heldur því fram í erindi sínu til úrskurðarnefndar að sambandið milli sín og samkeppnisaðilans, Y, hafi ekki verið eðlilegt samband tveggja samkeppnisaðila á fákeppnismarkaði, vegna þeirrar miklu hörku sem einkenndi samskipti þeirra. Kærandi bendir einnig á að vegna starfa sinna í að minnsta kosti 5 ár fyrir kæranda, hafi kærða fengið mikilvægar trúnaðarupplýsingar um viðskiptamarkmið og áætlanir kæranda. Mikilvægi þessara upplýsinga hafi verið þeim mun meira vegna hinna sérstöku aðstæðna sem ríktu hérlendis á þessum markaði. Kærandi telur samband kærðu við sig hafa verið þýðingarmeira en almennt gerist í samskiptum lögmanna og skjólstæðinga þeirra, vegna hinna sérstöku aðstæðna hér á landi og vegna hinna tíðu málaferla við samkeppnisaðilann, Y.

Kærandi telur að vegna hinnar sterku stöðu P hf. hér á landi á mismunandi markaðssviðum hafi óskilyrtur samruni við Y getað leitt til yfirburðastöðu fyrirtækjanna tveggja gagnvart kæranda á sviði endurgreiðslu virðisaukaskatts og svonefndrar DCC þjónustu. Það hafi því haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir kæranda að eiga ótruflaðan aðgang að lögfræðiaðstoð og -ráðgjöf til þess að berjast gegn hinum áformaða samruna. Þá telur kærandi það hafa verið afar mikilvægt að markmiðum og áætlunum sínum yrði haldið leyndum og að þeim yrði ekki ljóstrað upp til samkeppnisaðila eða gerðar opinberar.

Kærandi telur að vegna samrunans hafi sér verið nauðsynlegt að eiga aðgang að lögfræðilegri þekkingu á sviði samkeppnisréttar, þekkingu á starfsemi sinni og þekkingu á hinum sérstöku markaðsaðstæðum á Íslandi. Kærða hafi hins vegar ákveðið að veita P hf. og Y aðstoð í samrunamálinu, í stað þess að veita sér aðstoð. Kærða sé þannig persónulega að gæta hagsmuna fyrirtækjanna tveggja í samrunamálinu. Hún sé þannig að veita fyrirtækjunum aðgang að allri sinni þekkingu á íslenskum markaði á sviði endurgreiðslu virðisaukaskatts og DCC þjónustu. Hún sé einnig að gera sínum nýju skjólstæðingum kleift að fá trúnaðarupplýsingar um markmið og áætlanir kæranda, upplýsingar sem henni hefðu verið veittar í trúnaði.

Kærandi kveður kærðu hafa fengið skrifleg tilmæli frá nýjum lögmanni kæranda þann 11. ágúst 2008 um að senda tafarlaust öll gögn í málum kæranda til I til varðveislu. Þessi tilmæli hafi sænskur lögmaður kæranda ítrekað í símtali við kærðu þann 12. ágúst 2008. Mánuði síðar hafi stór hluti þessara gagna ekki skilað sér frá lögmannsstofu kærðu.

Kærandi kveður kærðu hafa borið fyrir sig að vegna sumarleyfa hafi dregist að afhenda umbeðin gögn. Telur kærandi þessa skýringu vera ófaglega og vandræðalega. Telur hann það vera augljóst að gögnum í málum sínum hafi af ásettu ráði verið haldið af kærðu, en hún hafi á sama tíma verið að vinna í samrunamálinu fyrir P hf. og Y með því að reyna að sannfæra samkeppnisyfirvöld um að heimila samrunann. Heldur kærandi því fram að upplýsingar í þessum gögnum hafi verið notaðar gegn sér í samrunamálinu.

Kærandi telur að kærða hafi gerst sek um brot á 2. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna, með því að afhenda ekki umbeðin trúnaðargögn og með því að nota þessi gögn til hagsbóta fyrir gagnaðila kæranda. Kærandi telur í þessu sambandi kærðu hafa veitt báðum fyrirtækjunum, P hf. og Y, sömu aðstoð í málinu hjá Samkeppniseftirlitinu. Hafi þessi fyrirtæki haft sömu hagsmuna að gæta í málinu, sem væru í andstöðu við hagsmuni kæranda.

Kærandi heldur því fram að kærða hafi tekið Y sem nýjan skjólstæðing í samrunamálinu. Með því að taka fyrirtækið sem nýjan skjólstæðing, vitandi um að hagsmunir þess væru augljóslega í andstöðu við hagsmuni kæranda, hefði kærða brotið gegn 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna. Kærðu hafi mátt vera ljóst, þegar hún vann í samrunamálinu fyrir P hf. og Y, að hættan á hagsmunaárekstrum og miðlun trúnaðarupplýsinga kæranda ykist verulega. Að mati kæranda hefði kærða átt að sýna meiri aðgát í meðferð málsins og að hún hefði persónulega átt að víkja sæti í því.

Kærandi telur kærðu hafa brotið starfsskyldur sínar gagnvart sér að með því að halda gögnum kæranda, þrátt fyrir tilmæli um afhendingu þeirra, á viðkvæmu tímabili þegar hún veitti P hf. lögfræðilega ráðgjöf um samruna við eina samkeppnisaðila kæranda og með því að taka persónulega að sér að aðstoða við samrunann, í stað þess að tilnefna annan lögmann til verksins. Kærandi telur kærðu á þennan hátt hafa valdið sér tjóni.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin grípi strax til nauðsynlegra aðgerða gegn kærðu vegna þeirra brota hennar gegn tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna, sem nefndar eru hér að framan.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar mótmælir kærða staðhæfingum kæranda sem röngum og hafnar því að hafa brotið nokkur ákvæði siðareglnanna.

Kærða kveður H hafa um árabil unnið tilfallandi verk fyrir kæranda. Ekki hafi verið gerður skriflegur verksamningur um þjónustuna, en unnið samkvæmt verkbeiðni hverju sinni. Þá kveður kærða lögmannsstofuna einnig um árabil hafa veitt P hf. lögmannsþjónustu. Það hafi farið eftir eðli verkefna hvaða lögmaður eða lögmenn önnuðust verk fyrir þessa skjólstæðinga. Kveðst kærða hafa sinnt einstökum verkefnum á sviði samkeppnisréttar fyrir báða þessa skjólstæðinga. Kærða kveður H, og þar með talda sig, hins vegar aldrei hafa unnið neitt fyrir fyrirtækið Y ehf., né tekið það fyrirtæki í viðskipti sem nýjan viðskiptavin. Ekki heldur í tengslum við kaup P hf. á öllu hlutafé í því fyrirtæki og samruna þess við P hf. Kveður kærða staðhæfingar kæranda í þá átt einfaldlega vera rangar.

Þá séu rangar þær fullyrðingar kæranda, að hlutverk kærðu við gæslu hagsmuna kæranda hafi verið annað og meira en eðlileg hagsmunagæsla lögmanns gagnvart skjólstæðingi. Engu breyti þar um þótt kærandi og Y hafi átt í harðri samkeppni á fákeppnismarkaði.

Kærða kveður samningaviðræður hafa hafist sumarið 2008 milli P hf. og eigenda Y ehf. um kaup P hf. á öllu hlutafé í síðarnefnda félaginu. Kærða kveður H hafa gætt hagsmuna P hf. í þeim viðræðum. Kærða hafi sjálf hvorki komið nærri þeim viðræðum né að gerð kaupsamnings í kjölfar þeirra, sem var undirritaður 30. júlí 2008. Kveðst kærða hafa verið í fæðingarorlofi frá 2. apríl 2008 til 30. september 2008 og aðkoma sín að lögfræðiverkefnum hafi verið mjög takmörkuð á því tímabili.

Kærða kveður C hafa haft samband við sig um sumarið og spurst fyrir um hérlendar reglur um hagsmunaárekstra. Með tölvupósti til hans þann 15. júlí 2008 hafi hún vakið máls á því, aðspurð, að eignaðist einn af sínum skjólstæðingum, P hf., Y ehf., myndi koma upp hagsmunaárekstur milli P og kæranda, ef kærandi óskaði eftir liðsinni lögmanns. Sama dag hafi C sent sér beiðni í tölvupósti um að vísa honum á nýjan lögmann á Íslandi á sviði samkeppnisréttar til þess að vinna fyrir kæranda í stað kærðu. Kærða kveðst hafa átt nokkur tölvupóstsamskipti við lögmanninn í framhaldinu, dagana 15.-24. júlí 2008, þar sem rætt hafi verið um það, að vegna þess að P hf. væri skjólstæðingur kærðu gæti hún ekki lengur gætt hagsmuna kæranda sakir andstæðra viðskiptahagsmuna fyrirtækjanna.

Kærða kveðst hafa fengið tölvupóst frá nýjum lögmanni kæranda þann 11. ágúst 2008, Z, hrl., þar sem Z hafi tilkynnt að hún hefði tekið við kæranda. Jafnframt hafi Þórunn óskað eftir að kærða sendi henni öll gögn kæranda, sem kærða hefði undir höndum frá fyrirtækinu. Kærða kveður gögnin hafa verið tekin saman og send Z í áföngum, dagana 2., 5. og 12. september 2008. Um hafi verið að ræða gögn vegna tuga verkefna, sem taka hefði þurft saman og senda.

Kærða kveður sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi brotið gegn siðareglum lögmanna hvíla á kæranda og í því sambandi staðhæfingar hans um staðreyndir máls.

Kærða kveður þá staðhæfingu algjörlega úr lausu lofti gripna að hún hafi notað trúnaðarupplýsingar í gögnum frá kæranda til hagsbóta fyrir Y ehf. við samruna þess fyrirtækis og P hf. og ekki skilað kæranda gögnunum í þeim tilgangi. Hafi kærandi ekki bent á nein tiltekin gögn í þessu efni, né heldur á neinar tilteknar upplýsingar í þessum gögnum, sem hún ætti að hafa notað í þessu skyni, eða hvernig hún hefði notað þær til hagsbóta fyrir Y og hvernig það hafi þá komið því fyrirtæki til hagsbóta.

Telur kærða þessa staðhæfingu kæranda tilhæfulausa með öllu. Um sé að ræða aðdróttun, sem C sé ekki samboðin sem lögmanni að láta frá sér fara. Ekki heldur fyrir hönd kæranda. Ekki sé að finna minnstu vísbendingu um það, að kærða hafi ekki virt trúnaðarskyldu sína við kæranda, sbr. 17. gr. siðareglna lögmanna. Það eitt, að hafa undir höndum trúnaðargögn eða trúnaðarupplýsingar frá fyrrum skjólstæðingi, sé ekki jafngildi þess að þau gögn eða upplýsingar í þeim séu eða hafi verið notaðar til hagsbóta fyrir aðra.

Kærða bendir á að alla jafna séu ekki trúnaðarupplýsingar í samrunaskrá samkvæmt 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. reglur Samkeppniseftirlitsins nr. 684/2008, nema þá varðandi samrunaaðilana sjálfa. Eins og sjá megi af reglunum eigi í samrunaskrá einkum að koma fram upplýsingar um samrunaaðilana sjálfa og skilgreiningar á þeim mörkuðum sem þeir starfa á. Því fari fjarri að í samrunaskránni um samruna P og Y hafi verið nokkuð það, sem talist geti til trúnaðarupplýsinga, sem kærða hafi fengið frá kæranda í tengslum við lögmannsstörf sín fyrir það félag. Enda nefni kærandi engin dæmi þess. Kærða kveður engum trúnaðarupplýsingum frá kæranda fyrir að fara í samrunaskránni.

Telur kærða þannig alls ósannað að hún hafi brotið gegn 2. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna.

Kærða telur þá staðhæfingu kæranda úr lausu lofti gripna, að hún hafi tekið að sér nýjan skjólstæðing, Y ehf., og gætt hagsmuna þess fyrirtækis við kaup P hf. á hlutaféinu í því og samruna þess við P hf. Kveðst kærða eingöngu hafa gætt hagsmuna P hf., sem verið hefði skjólstæðingur sinn um árabil. Y hf. hefði haft eigin lögmann til að gæta hagsmuna sinna við kaupin og samruna fyrirtækjanna.

Kærða kveður það eitt, að hún hafi aðstoðað P hf. á síðasta stigi málsins, eða með gerð tilkynningar til Samkeppniseftirlitsins um samruna fyrirtækjanna, og undirritað samrunaskrána bæði fyrir hönd P hf. og Y, ekki gert Y að nýjum skjólstæðingi sínum. Bendir kærða á að samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 hafi P hf., sem ráðandi eignaraðila, borið að ganga frá tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins um samruna fyrirtækjanna.

Kærða kveður P hf., sem ráðandi eignaraðila, og sig sem lögmann P hf., hafa haft fulla heimild til að undirrita samrunatilkynninguna fyrir hönd beggja fyrirtækjanna. Hefði kærandi ekki fært fram neina sönnun þess eða haldbær rök fyrir því að kærða hefði með undirrituninni eða á annan hátt tekið Y í viðskipti sem nýjan viðskiptavin, eða verið að vinna fyrir það fyrirtæki í tengslum við umrædd kaup og fyrirtækjasamruna.

Telur kærða það því ekki fást staðist hjá kæranda að hún hafi brotið gegn 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna.

Til frekari áréttingar afstöðu sinnar í málinu bendir kærða á nokkur atriði:

a) Kaup P hf. á öllu hlutafé í Y og samruni þess við P hf. er mál, sem kærandi, A, var ekki aðili að. Eru kaup og samruni þessara aðila sem slík ekki sjálfkrafa andstæð hagsmunum kæranda, þótt hann og Y hafi verið keppinautar á markaði.

b) Kærða telur ósannað, að hin nýja eignaraðild að starfsemi Y og brotthvarf þess fyrirtækis af markaði með samruna þess við P hf., sé í andstöðu við hagsmuni kæranda. Þvert á móti megi ætla að það muni verða til þess að lægja þær illvígu og persónutengdu deilur, sem geysað höfðu milli kæranda og Y og sem kærandi greindi frá í kærubréfi sínu. Í staðinn ætti að komast á eðlileg samkeppni á viðkomandi þjónustumarkaði. Telur kærða það ekki geta verð andstætt hagsmunum kæranda.

c) Kærða bendir á að hún hafi ekki lengur verið lögmaður kæranda þegar hún kom fyrst að samrunamálinu og gekk frá samrunatilkynningunni til Samkeppniseftirlitsins. Kveðst kærða aldrei hafa farið með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í samrunamálinu, heldur aðeins hagsmuni eins skjólstæðings, P hf.

d) Kærða telur siðareglur lögmanna aldrei hafa bannað lögmanni að taka að sér mál gegn fyrrum skjólstæðingi sínum eða sinna verkefni fyrir skjólstæðing sem hefði hagsmuni andstæða hagsmunum fyrri skjólstæðings lögmannsins, til dæmis viðskiptahagsmuni. Væri hinn fyrir skjólstæðingur lögmannsins enda varinn af ákvæðum siðareglnanna um trúnaðarskyldur.

e) Kærða telur ekkert liggja fyrir í málinu um að hún hafi brotið nokkur ákvæði siðareglna lögmanna vegna lögmannsstarfa í tengslum við samrunamálið. Við lestur kærubréfs kæranda yrði hins vegar ekki annað ráðið en að kærandi væri æfur yfir því að kærða skyldi hafa leyft sér að aðstoða P hf. í samrunamálinu, þrátt fyrir að hún væri ekki lengur lögmaður kæranda, og það væri undirrótin að kærunni. Skoða bæri kæruna í því ljósi.

IV.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærðu kveðst kærandi telja einu leiðina fyrir H til að takast á við hagsmunaáreksturinn í samrunamálinu hafa verið þá að láta aðrar lögmannsstofur gæta hagsmuna málsaðila, til þess að varðveita trúverðugleika sinn gagnvart öllum skjólstæðingum sínum og verðandi skjólstæðingum. Þess í stað hafi kærða valið þá leið sem fól í sér að minnsta kosti tvö brot á siðareglum lögmanna. Fyrir það beri að refsa henni.

Að því er varðar brot gegn 2. mgr. 6. gr. siðareglnanna bendir kærandi á nokkur atriði:

Kærandi telur að með því að halda trúnaðargögnum frá sér við hinar sérstöku aðstæður og með því að nota þau gögn í lögmannsstörfum sínum fyrir gagnaðila hafi kærða brotið gegn 2. mgr. 6. gr. siðareglnanna. Til nánari rökstuðnings bendir kærandi á nokkur atriði.

Kærandi telur það vera staðreynd að á þeim tíma sem kærða vann að ýmsum verkefnum fyrir sig á íslenskum markaði á að minnsta kosti 5 ára tímabili, á afar sérstökum markaði, hafi hún tekið við upplýsingum frá sér í algjörum trúnaði.

Kærandi telur það vera staðreynd að þegar í ljós kom að kærða gat ekki gætt hagsmuna kæranda í hinu mjög svo mikilvæga máli til samkeppnisyfirvalda, hafi hún fengið fyrirmæli frá I, er þá gættu hagsmuna kæranda, þann 11. ágúst 2008, um að senda tafarlaust öll gögn með trúnaðarupplýsingum sem tilheyrðu kæranda, til geymslu hjá I.

Kærandi telur það vera staðreynd að þessi fyrirmæli hafi verið áréttuð af C, sænskum lögmanni kæranda, beint í símtali hans við kærðu þann 12. ágúst 2008.

Kærandi telur það vera staðreynd að nær mánuði síðar, á þeim tíma þegar kæra þessi til úrskurðarnefndar lögmanna var lögð fram, hafi ekkert af gögnum kæranda verið móttekið af I.

Kærandi telur það vera staðreynd að í stað þess að sinna tafarlaust ítrekuðum fyrirmælum um afhendingu gagna kæranda hafi kærða á sama tíma í raun unnið fyrir P hf. og I að samrunatilkynningunni til samkeppnisyfirvalda, en sú tilkynning hafi verið afhent x. ágúst 200X.

Kærandi telur það vera staðreynd að samrunatilkynningin hafði afar mikla þýðingu fyrir sig vegna hagsmuna sinna á íslenska markaðinum.

Kærandi vekur athygli á því að þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli, þrátt fyrir að kærða var raunverulega í vinnu og hafði til þess tíma, og þrátt fyrir að trúnaðarupplýsingarnar höfðu mikla þýðingu á hinum tilgreinda markaði tveggja harðra samkeppnisaðila, og þrátt fyrir hið þýðingarmikla tímabil þegar samrunatilkynningin var útbúin á síðari hluta ágústmánaðar 2008, hafi kærða ekki orðið við ítrekuðum beiðnum kæranda um að skila tafarlaust öllum trúnaðarupplýsingum.

Kærandi telur það vera augljóst, með vísun til framangreindra staðreynda og innihalds samrunatilkynningarinnar, að kærða hafi í raun notað upplýsingar úr trúnaðargögnum, sem hún fékk meðan hún starfaði fyrir kæranda, til hagsbóta fyrir gagnaðila kæranda.

Að því er varðar brot gegn 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna tilgreinir kærandi einnig nokkur atriði í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndar:

Kærandi telur kærðu hafa brotið gegn 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa tekið við Y sem nýjum skjólstæðingi, vitandi það fullvel að hagsmunir þessa nýja skjólstæðings væru ósamrýmanlegir hagsmunum annars skjólstæðings, þ.e. kæranda.

Kærandi telur ekkert í texta 1. málsliðar 2. mgr. 17. gr. b samkeppnislaga nr. 44/2005 bera með sér að lögmaður fyrirtækis með ráðandi hlut í öðru fyrirtæki skuli undirrita samrunatilkynningu fyrir hönd beggja fyrirtækjanna. Þvert á móti beri ákvæðið með sér að nóg sé að undirritun lögmannsins sé eingöngu fyrir hönd yfirtökufélagsins, P hf. Ef Y hefði haft sinn eigin lögmann, eins og tilgreint sé í greinargerð kærðu, hefði sá lögmaður getað undirritað samrunatilkynninguna fyrir hönd Y.

Kærandi vekur athygli á því að í 2. kafla á bls. 6 í samrunatilkynningunni er kærða tilgreind sem tengiliður fyrir bæði P hf. og Y gagnvart samkeppnisyfirvöldum. Í sama kafla sé tilgreint að bæði fyrirtækin hafi skilað inn til samkeppnisyfirvalda lögmannsumboði, þar sem tilgreint sé að H sé lögfræðilegur ráðgjafi þeirra við samrunann.

Kærandi telur það vera staðreynd að hann hafi verið fastur viðskiptavinur hjá H í meira en 10 ár og kærða hafi verið lögmaður sinn í meira en 5 ár.

Kærandi telur það vera staðreynd að áður en til samrunamálsins var stofnað fyrir samkeppnisyfirvöldum hafi Y ekki verið meðal viðskiptavina, hvorki almennt hjá H né sérstaklega hjá kærðu.

Kærandi telur það vera staðreynd að kærða hafi undirritað samrunatilkynninguna fyrir hönd beggja fyrirtækjanna, P hf. og Y.

Kærandi telur það vera staðreynd að kærða sé tilgreind í samrunatilkynningunni sem tengiliður fyrir bæði P hf. og Y.

Kærandi telur það vera staðreynd að H, þar sem kærða er meðal eigenda, hafi verið tilgreind sem lögfræðilegur fulltrúi beggja fyrirtækjanna, P hf. og Y, í samrunamálinu fyrir samkeppnisyfirvöldum.

Kærandi telur það vera staðreynd að samkvæmt íslensku samkeppnislögunum sé ekki gert ráð fyrir að lögmaður yfirtökufélags undirriti samrunatilkynningu fyrir hönd beggja fyrirtækja, í þessu tilviki P hf. og Y, eins og haldið sé fram í greinargerð kærðu.

Loks telur kærandi það vera staðreynd að kærða hafi getað valið að undirrita samrunatilkynninguna eingöngu fyrir P hf. á fullkomlega lögmætan hátt samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 17. gr. b samkeppnislaga, ef P hf. var í raun hennar eini skjólstæðingur.

Kærandi telur það vera augljóst og hafið yfir allan vafa að kærða hafi tekið Y sem nýjan skjólstæðing, þrátt fyrir að hagsmunir þessa nýja skjólstæðings og hagsmunir annars skjólstæðings, A, hafi verið ósamrýmanlegir eða að hætta hafi verið á slíku.

Kærandi ítrekar kröfu um að úrskurðarnefndin grípi til viðeigandi aðgerða gagnvart kærðu vegna hinna alvarlegu og augljósu brota hennar gegn hinum tilgreindu ákvæðum siðareglnanna.

V.

Í athugasemdum sínum áréttar kærða að röng sé sú endurtekna staðhæfing kæranda að kærða hafi haldið trúnaðargögnum frá A og notað þau í þágu Y. Ekki hafi verið sýnt fram á nein dæmi þess. Hið rétta sé að kærða hafi virt í einu og öllu trúnaðarskyldur sínar samkvæmt ákvæðum siðareglna lögmanna gagnvart kæranda.

Kærða kveður öll gögn kæranda hafa verið samkvæmt beiðni afhent nýjum lögmanni kæranda á Íslandi, Z, eins og fram komi í greinargerð kærðu til nefndarinnar. Það eitt, að ekki hafi verið búið að afhenda öll gögnin áður en kærða kom að samrunamálinu, hafi ekki falið í sér nein brot á siðareglum lögmanna. Fyllstu trúnaðarskyldu hafi verið gætt af hálfu kærðu, fyrir sem eftir afhendingu gagnanna.

Kærða kveður vera ranga þá endurteknu staðhæfingu kæranda að samrunatilkynningin til Samkeppniseftirlitsins, sem hún hafi undirritað, hafi verið „critical til A and absolutely detrimental to its interests on the Icelandic Market". Hafi engin rök verið færð fyrir því eða útskýrt á nokkurn hátt hvernig það mætti vera.

Kærða kveður vera ranga þá endurteknu staðhæfingu kæranda að kærða hafi tekið Y í viðskipti sem nýjan skjólstæðing. Kveður kærða hvorki H né sig hafa, fyrr eða síðar, tekið Y í viðskipti. Það eitt að hún hafi undirritað í umboði P hf., sem ráðandi eignaraðila og yfirtökuaðila, samrunatilkynninguna fyrir hönd beggja fyrirtækjanna, hafi ekki gert Y að nýjum viðskiptavini eða skjólstæðingi sínum.

Kærða telur kjarnann í málinu, við mat á því hvort hún hafi brotið siðareglur lögmanna, vera eftirfarandi:

Kærða kveðst ekki hafa verið að vinna að neinu máli fyrir kæranda þegar samruni P hf. og I hafi komið til sögunnar.

Kærða kveðst ekkert hafa komið að samrunaferlinu fyrir hönd P hf. fyrr en eftir að kærandi hafði hætt viðskiptum við sig og ráðið sér nýjan lögmann í staðinn.

Kærða kveðst, hvorki fyrr né síðar, hafa haft Y sem skjólstæðing.

Kærða kveðst aldrei í sama máli (samrunamálinu) hafa farið með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga, sem átt hafi þar andstæða hagsmuni.

Kærða kveður ekkert í siðareglum lögmanna banna lögmanni að taka að sér mál gegn fyrrum skjólstæðingi sínum eða sinna verkefni fyrir skjólstæðing sem hafi hagsmuni andstæða hagsmunum fyrrverandi skjólstæðings. Enda væri sá varinn af ákvæðum siðareglnanna um trúnaðarskyldur lögmanna. Kveður kærða sér hafa verið fyllilega heimilt gagnvart kæranda að gæta hagsmuna P hf., eins og hún hafi gert í samrunamálinu, og einnig hagsmuna Y, ef því var að skipta.

Kærða kveður ekkert benda til þess að hún hafi notfært sér trúnaðarupplýsingar frá kæranda í tengslum við samruna P hf. og Y.

Kærða kveðst hafa skilað öllum gögnum kæranda, sem voru í sínum vörslum, til nýs lögmanns kæranda, svo sem óskað hafði verið eftir af hálfu kæranda. Það, að ekki hafi verið búið að afhenda hinum nýja lögmanni kæranda öll gögnin áður en kærða kom að samrunamálinu, hafi ekki verið brot á siðareglum lögmanna.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. siðareglnanna má lögmaður ekki nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. siðareglnanna hvílir rík skylda á lögmanni til upplýsingaleyndar um málefni skjólstæðinga hans. Hvílir trúnaðarskyldan á lögmanni og starfsfólki hans þótt verki sé lokið.

Í erindi kæranda er vikið að því að fyrir kærðu hafi verið lagt, þann 11. ágúst 2008, að skila til nýs lögmanns kæranda gögnum í öllum þeim málum, sem unnið hafði verið að hjá H. Gögnunum hefði hins vegar ekki verið skilað fyrr en í 1. og 2. viku september 2008. Á sama tíma hefði kærða unnið að gerð samrunatilkynningar vegna áformaðs samruna P hf. við helsta keppinaut kæranda hérlendis, Y, en tilkynningunni hefði verið skilað til samkeppnisyfirvalda þann xx. ágúst 200x.

Kærandi telur kærðu, með þessum drætti á afhendingu gagnanna, hafa gerst brotlega við 2. mgr. 6. gr. siðareglnanna en hann dregur þá ályktun að kærða hafi notað þessi gögn til hagsbóta fyrir gagnaðila sinn, Y.

Í skrifum sínum til nefndarinnar hefur kærandi ekki gert sérstaklega grein fyrir þeim málum sem kærða vann að í hans þágu að öðru leyti en því að flest eða öll málin voru á sviði samkeppnisréttar. Kærandi tilgreinir heldur ekki sérstaklega tengsl eldri málanna, sem kærða vann að fyrir hann, við samrunaáformin sem kærða vann að fyrir P hf. Af hálfu kærðu er því mótmælt að hún hafi notað gögn kæranda eða upplýsingar úr þeim til hagsbóta fyrir aðila í samrunamálinu.

Það er mat úrskurðarnefndar að ekkert liggi fyrir í málinu sem staðfesti ályktanir kæranda, um að kærða hafi notað upplýsingar úr gögnum eldri mála kæranda til hagsbóta fyrir P hf. og eftir atvikum Y. Telst kærða að þessu leyti því ekki hafa brotið gegn 2. mgr. 6. gr. siðareglnanna.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður jafnan varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.

Með kaupunum á Y eignaðist P hf. jafnframt dótturfélag þess fyrirtækis, X, sem var með 60-65% markaðshlutdeild hérlendis í þjónustu um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna, á móti 35-40% hlutdeild kæranda á þeim markaði. Eftir því sem fram kemur í samrunatilkynningunni til Samkeppniseftirlitsins var markmið samruna P hf. og Y að geta boðið viðskiptavinum félaganna bætta þjónustu. Jafnframt var það markmiðið að ná fram kostnaðarhagræðingu í rekstri félaganna, svo sem með sparnaði í yfirbyggingu, bókhaldi og öðrum slíkum kostnaði.

Samkvæmt tölvupóstsamskiptum aðila í júlí 2008 voru þeir sér meðvitaðir um að við kaup P hf. á Y yrðu hagsmunaárekstrar eða að hætta yrði á þeim héldi kærða áfram að veita kæranda lögfræðiþjónustu eins og áður. Að beiðni kæranda veitti kærða upplýsingar um hvar hann gæti leitað sér lögmannsþjónustu eftir samstarfsslit þeirra. Í tölvupósti til kærðu þann 15. júlí 2008 kom meðal annars fram af hálfu kæranda að vegna eigendaskiptanna að Y2 (Y) teldi hann sig þurfa að reyna að fá sett skilyrði fyrir yfirtökunni á fyrirtækinu út frá samkeppnisréttarlegum sjónarmiðum og að þar af leiðandi þyrfi hann á lögmannsþjónustu að halda. Síðar reyndi kærandi árangurslaust að fá skriflega staðfestingu kærðu á því að hún myndi ekki gæta hagsmuna P hf. í málum gegn sér.

Beiðni kæranda barst kærðu þann 11. ágúst 2008 um að afhenda gögn í öllum verkefnum sem unnið hafði verið að á lögmannsstofunni. Um tugi mála var að ræða og tók það 3-4 vikur að afhenda gögnin. Í millitíðinni vann kærða að samrunatilkynningunni fyrir P hf. og sendi hana til Samkeppniseftirlitsins x. ágúst 200x. Að mati úrskurðarnefndar var kærða enn bundin skyldum lögmanns gagnvart skjólstæðingi sínum, kæranda, meðan málsgögn voru enn í hennar vörslum, að minnsta kosti að því er varðaði meðferð gagnanna og afhendingu þeirra til kæranda eða viðtakandi lögmanns.

Kærandi, sem hafði í nokkur skipti átt í ágreiningi við X vegna samkeppnismála, taldi sér standa ógn af kaupunum og væntanlegum samruna fyrirtækjanna. Af þeim sökum áformaði kærandi, eins og áður greinir, að reyna að fá sett skilyrði fyrir yfirtöku P hf. á Y. Kærðu var kunnugt um þau áform þegar hún tók að sér hagsmunagæsluna fyrir P hf. Sem lögmaður P hf. í samrunaferlinu átti kærða á þessum tíma, meðan enn var ekki búið að rjúfa öll tengsl við kæranda, á hættu að lenda í þeirri stöðu að gæta hagsmuna fyrirtækisins og dótturfélaga þess gagnvart tilraunum kæranda við að sett yrðu skilyrði fyrir yfirtökunni, en samkvæmt samrunatilkynningunni var kærða tengiliður fyrir P hf. og I við samkeppnisyfirvöld. Að þessu leyti var, að mati úrskurðarnefndar, hætta á hagsmunaárekstrum í skilningi 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna. Telur nefndin því að kærða hafi þannig, með því að taka að sér hagsmunagæslu fyrir P hf. og dótturfélög þess við samrunaáformin, brotið gegn þessu ákvæði siðareglnanna. Er það aðfinnsluvert að mati nefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hagsmunagæsla kærðu, B, hdl., fyrir P hf. og dótturfélög þess við samrunaáform vegna kaupa á Y er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA