Mál 4 2008

Ár 2008, föstudaginn 11. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2008:

 

A,

B og

C

gegn

Q, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi A, B og C, kærenda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 22. febrúar 2008, er kvartað yfir vinnubrögðum Q, hdl., þegar hún á árinu 2001 tók að sér að aðstoða aldraðar frænkur eiginmanns síns til þess að breyta erfðaskrá, sem þær höfðu áður gert, en með breytingunni var tengdafaðir kærðu gerður að einkaerfingja þeirra.

  Í tilefni af erindi kærenda þótti af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna ástæða til að kanna hvenær kærða hefði öðlast lögmannsréttindi. Samkvæmt upplýsingum frá Lögmannafélagi Íslands urðu réttindi kærðu sem lögmanns ekki virk fyrr en x. júní 200x, samkvæmt tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu, en við það tækifæri gerðist hún félagsmaður í Lögmannafélagi Íslands. Á þeim tíma og til dagsins í dag hefur kærða starfað hjá J hf., en starfar ekki á lögmannsstofu.

 Niðurstaða.

 Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

 Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

 Úrskurðarnefnd lögmanna hefur túlkað gildissvið 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga svo að það næði til þeirrar háttsemi sem lögmenn viðhafa í störfum sínum sem lögmenn. Önnur háttsemi  þeirra, svo sem í annars konar störfum eða í einkalífi þeirra, félli því utan lögboðins valdsviðs nefndarinnar.

 Samkvæmt erindi kærenda áttu þau atvik, sem kæra þeirra laut að, sér einkum stað á árinu 2001, á þeim tíma þegar kærða var ekki með virk lögmannsréttindi. Í erindi kærenda er einnig vikið að framburði kærðu sem vitnis fyrir Héraðsdómi E, í máli sem kærendur höfðuðu til ógildingar á erfðaskránni, en skýrslan var gefin við aðalmeðferð málsins þann x. ágúst 200x. Skýrslugjöfin laut að þætti kærðu í gerð erfðaskrárinnar á árinu 2001.

 Af framangreindu má vera ljóst að erindi kærenda lýtur að athöfnum eða háttsemi kærðu á tíma þegar hún var ekki með virk lögmannsréttindi og síðar, eftir að tilkynnt hafði verið um að lögmannsréttindi hennar væru orðin virk, að framburði hennar fyrir dómi um málefni, sem ekki varðaði lögmannsstörf hennar. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd lögmanna að hin kærða háttsemi falli utan lögbundins valdsviðs síns samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Af þeirri ástæðu ber að vísa máli þessu frá nefndinni.

  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Erindi kærenda, A, B og C, er vísað frá.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANN