Mál 1 2009

Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2009:

A hf.

gegn

B, hrl., og

C, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 5. janúar 2009 frá A hf., sóknaraðila, þar krafist var lækkunar á málskostnaði B, hrl., og C, hrl., varnaraðila, vegna reksturs hæstaréttarmálsins nr. xxx/200x. Greinargerð af hálfu varnaraðila barst nefndinni þann 19. febrúar 2009. Sóknaraðili hefur ekki tjáð sig frekar um málið þótt honum hafi verið gefinn kostur á því.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 2005 seldi sóknaraðili og tengt fyrirtæki rekstur bílaleigu til fyrirtækisins D ehf. Til tryggingar greiðslu kaupverðs aflaði kaupandinn bankaábyrgðar frá Íslandsbanka hf. Ágreining um fjárhagslegt uppgjör skyldi leggja fyrir gerðardóm til úrlausnar.

Ágreiningur reis með aðilum og var leyst úr honum fyrir gerðardómi í október 2006. Að fenginni þeirri niðurstöðu beindi sóknaraðili (seljandi) kröfu til bankans um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins, á grundvelli bankaábyrgðarinnar. Kröfunni var hafnað og af því tilefni höfðaði sóknaraðili dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn bankanum til innheimtu eftirstöðva kaupverðsins. Í dómi, uppkveðnum x. febrúar 200x, var bankinn sýknaður að svo stöddu.

Ákveðið var að áfrýja dóminum til Hæstaréttar Íslands og var það gert x. apríl 200x. Hlaut málið númerið xxx/200x. Lögmannsstofa varnaraðila annaðist hagsmuni sóknaraðila á báðum dómstigum. Hinir fjárhagslegu hagsmunir í málinu fyrir Hæstarétti voru taldir nema 174.611 bandarískum dölum auk dráttarvaxta.

Vinna við könnun á kostum þess að áfrýja héraðsdómi og við undirbúning áfrýjunar málsins fór einkum fram í mars, apríl og maí 2007, en samkvæmt tímaskýrslum varnaraðila var málið þingfest þann 30. maí 2007. Reikningar voru gefnir út í lok hvers mánaðar vegna vinnu í þeim mánuði og byggðust þeir á tímaskýrslum. Sóknaraðili greiddi reikninga lögmannsstofunnar, þann síðasta vegna vinnu í júlí við yfirlestur á greinargerð stefnda, bankans, sem þá hafði borist.

Undirbúningur að flutningi málsins í Hæstarétti fór einkum fram í nóvember 2007 og var málið flutt þann x. desember það ár. Alls voru skráðir 63 tímar vegna vinnu C að málinu og 2 tímar vegna vinnu F. Í sömu tímaskýrslu var tilgreind 13 tíma vinna C í maí 2007 og 2 tímar um miðjan desember í frágangsvinnu.

Í dómi Hæstaréttar Íslands þann x. desember 200x var niðurstöðu héraðsdóms hrundið og bankinn dæmdur til að greiða áfrýjendum 174.611 bandaríska dali auk dráttarvaxta og 1,2 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Að gengnum dómi Hæstaréttar var krafan á hendur bankanum innheimt og uppgjör á henni fór fram í kjölfarið, þar með talið uppgjör á verklaunum varnaraðila. Ágreiningur reis milli sóknaraðila og varnaraðila um áskilda þóknun þeirra fyrir undirbúning og flutning hæstaréttarmálsins, en endurgjaldskrafan við uppgjörið nam 1.535.660 krónum auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, eða alls 1.912.797 krónum. Að viðbættum þeim 754.115 krónum auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, sem sóknaraðili greiddi fyrr á árinu til varnaraðila, nam heildarendurgjald fyrir málareksturinn 2.288.775 krónum auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar. Eftir að hafa fengið uppgjör og reikning varnaraðila, sem gefinn var út 28. desember 2007, ritaði sóknaraðili bréf þar sem endurgjaldinu var mótmælt. Af hálfu varnaraðila var því bréfi svarað með bréfi til sóknaraðila, dags. 8. janúar 2008.

Ágreiningurinn um endurgjaldið varð tilefni þess að sóknaraðili sendi erindi þetta til úrskurðarnefndar lögmanna til úrlausnar.

II.

Sóknaraðili fer fram á það í erindi sínu til úrskurðarnefndar að þóknun varnaraðila verði lækkuð. Kveðst sóknaraðili hafa greitt reikninga vegna vinnu varnaraðila fyrir tímabilið febrúar til júlí 2007, þegar áfrýjun héraðsdóms var ákveðin og málið undirbúið fyrir þingfestingu, alls 754.115 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar. Samkvæmt tímaskýrslum hafi C varið 36,25 tímum til undirbúnings málsins. Þá hafi aðrir starfsmenn einnig tekið þátt í undirbúningnum.

Sóknaraðili kveðst hafa fengið þær upplýsingar að til viðbótar kæmi reikningur vegna flutnings málsins í Hæstarétti ásamt einhverjum fáum tímum í undirbúning fyrir flutninginn. Við uppgjör málsins hafi hins vegar verið kynntar tímaskýrslur vegna vinnu á tímabilinu 9. nóvember til 4. desember. Samkvæmt þeim hafi C varið 63 tímum í að undirbúa málflutninginn og að flytja málið. Þá hafi B varið 15 tímum í að undirbúa Hæstaréttarmálið. Sérstaka athygli veki að af þeim 15 tímum séu 13 tímar frá því í maí 2007, en þeir tímar virðist ekki hafa verið skráðir á verkið samkvæmt fyrri tímaskýrslu fyrir þann mánuð. Bendir sóknaraðili í þessu sambandi á að reikningur, dagsettur 31. maí, byggist á tímaskýrslu maí-mánaðar.

Sóknaraðili kveður það fráleitt að hægt sé að rukka svona fyrir þjónustuna. Kveðst sóknaraðili skoða reikning varnaraðila í ljósi þeirrar kröfu er B setti fram, þar sem hann hélt því fram að hann hefði samið um einhverja hagsmunatengda þóknun við viðskiptafélaga forsvarsmanns sóknaraðila. Sá samningur væri forsvarsmanninum óviðkomandi og hafi B vitað það vel.

Sóknaraðili kveðst alltaf hafa átt von á reikningi upp á 2-300 þúsund krónur til viðbótar þegar greiddum reikningum, enda hefði starfsmaður lögmannsstofu varnaraðila verið búinn að upplýsa sig um það.

Fram kemur af hálfu sóknaraðila að kostnaður vegna reksturs dómsmálsins fyrir héraðsdómi sé ekki meðtalinn, en sérstaklega hafi verið búið að greiða hann.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefjast varnaraðilar þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Auk þeirra sjónarmiða er fram koma í greinargerðinni vísa þeir til áður fram kominna sjónarmiða sinna í bréfi til sóknaraðila, dags. 8. janúar 2008.

Varnaraðilar halda því fram að tímafjöldi vegna vinnu við áfrýjun héraðsdóms til Hæstaréttar og flutnings C á málinu fyrir réttinum sé fullkomlega eðlilegur, en málið hafið verið margþætt eins og gögn þess beri með sér. Fleiri en einn lögmaður hafi komið að vinnslu þessa máls fyrir dómstólum. Varnaraðilar gera nokkra grein fyrir þeim lögfræðilegum álitaefnum sem á reyndi í dómsmálinu.

Þar hafi í fyrsta lagi verið fjallað um túlkun og skýringu á ábyrgðaryfirlýsingu Glitnis banka og gildissviðs hennar. Reynt hafi á reglur og venjur um bankaábyrgðir.

Þá hafi í öðru lagi verið fjallað um það hvort bankaábyrgðin væri bundin skilyrðum, þ.e. hvort búið væri að leysa úr öllum ágreiningsefnum sem risu um efndir á kaupsamningi sóknaraðila og viðsemjanda hans, en í því sambandi hafi einnig reynt á túlkun á gerðardómi og hvort hann væri réttur.

Í þriðja lagi hafi reynt á spurningu um túlkun á kaupsamningi sóknaraðila og viðsemjanda hans um fjárhagslegt uppgjör í skilningi kaupsamningsins og þýðingu þess uppgjörs varðandi skilmála bankaábyrgðarinnar.

Í fjórða lagi hafi reynt á spurningu um það hvort kaupandinn, viðsemjandi sóknaraðila, hafi átt gilda skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila og umfang hennar.

Í fimmta lagi hafi reynt á spurningu um það hvort skilyrði væru samkvæmt reglum um skuldajöfnuð til að skuldajafna slíkri skaðabótakröfu við stefnukröfur sóknaraðila í dómsmálinu.

Og loks, í sjötta lagi, hafi þurft að sýna fram á að forsendur og niðurstaða héraðsdóms væru röng.

Fara hafi þurft í saumana á öllum þessum atriðum við undirbúning málsins og flutning þess í Hæstarétti. Varnaraðilar telja því það fara víðs fjarri að skráðir vinnutímar, sem lágu til grundvallar reikningsgerð, hafi verið óeðlilega margir. Varnaraðilar benda á að sóknaraðili hafi ekki gert neina tilraun til þess að sýna fram á að sú vinna sem innt var af hendi hafi verið ónauðsynleg eða óþörf vegna undirbúnings málsins.

Varnaraðilar benda á að fjárhagslegir hagsmunir sóknaraðila í hæstaréttarmálinu hafi verið 174.611 bandarískir dalir auk dráttarvaxta. Ekki hafi verið sjálfgefið að þessir fjármunir næðust út úr bankanum, enda hefði hann hafnað með öllu að greiða þessa fjárhæð og héraðsdómur hafi fallist á sjónarmið bankans og sýknað hann að svo stöddu. Sigur hafi hins vegar unnist í Hæstarétti og tildæmdur málskostnaður hafi numið 1,2 milljónum króna. Varnaraðilar kveða það vera gamla sögu og nýja að dómstólar dæmi aðilum sjaldnast raunkostnað af málaferlum, þótt mál vinnist að öllu leyti.

Varnaraðilar hafna því að sóknaraðili hafi mátt búast við að viðbótarkostnaður í málinu yrði á bilinu 200-300 þúsund krónur. Er því mótmælt að starfsmenn lögmannsstofu þeirra hafi gefið slíkt til kynna.

Varnaraðilar árétta að öll gjaldtaka í málinu hafi miðast við þá vinnu sem í málið fór. Í engu hafi verið höfð hliðsjón af þeim samningum sem þeir töldu hafa tekist um hagsmunatengda þóknun og sóknaraðili hafi ekki viljað standa við.

Varnaraðilar fallast ekki á þá fullyrðingu að þóknun fyrir áfrýjun og málflutning í Hæstarétti hafi verið ósanngjörn eða réttlæti nokkra lækkun á þeim grundvelli, sbr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Í bréfi varnaraðila til sóknaraðila, dags. 8. janúar 2010, kom meðal annars fram að unnið hefði verið að fjórum verkefnum fyrir sóknaraðila. Í fyrsta lagi hefði verið unnið að gerð kaupsamnings og skjalagerð um bílaleiguna X. Í öðru lagi hefði verið unnið að gerðardómsmáli, sem rekið hefði verið um kaupin, auk uppgjörs. Í þriðja lagi hefði verið unnið að rekstri héraðsdómsmálsins og loks, í fjórða lagi, að rekstri hæstaréttarmálsins. Fyrstu verkliðirnir þrír væru uppgerðir og reikningar vegna þeirra hefðu verið að fullu greiddir án athugasemda af hálfu sóknaraðila.

Í bréfinu var einnig útskýrð skráning á 13 vinnustundum B í maí 2007. Hafði B talið sig hafa náð samkomulagi við einn hlutahafa sóknaraðila um hagsmunatengda þóknun, 10 milljónir króna, tækist honum að koma á sölu rekstursins. Síðar hafi þessi hluthafi ekki viljað standa við það samkomulag en talað þess í stað um eitthvað lægri fjárhæð. Vinna B við undirbúning að áfrýjun héraðsdóms hefði ekki verið færð strax á tímaskýrslur þar sem hann hefði ætlað að endanlegt uppgjör við sóknaraðila samkvæmt samtölum hans við hluthafann myndi dekka þennan þátt málsins. Jafnframt hefði hann viljað bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar um það hvort þessi tími yrði rukkaður eður ei. Þá var þess getið í bréfinu að menn hefðu óttast að gerð yrði tilraun til þess að frysta féð meðan viðsemjandi sóknaraðila, kaupandinn, léti reyna á réttmæti gagnkrafna sinna. Með miklu harðfylgi hefði tekist að fá féð frá bankanum. Í þetta hefði farið nokkur tími og hefði hann ekki allur verið reikningsfærður.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gáfu varnaraðilar út 4 reikninga til sóknaraðila vegna vinnu á fyrstu stigum málarekstursins fyrir Hæstarétti Íslands. Byggðust þeir reikningar á tímaskýrslum og tilgreindu tímagjaldi. Voru þeir reikningar greiddir án athugasemda. Reikningur sá, sem erindi sóknaraðila til úrskurðarnefndar fjallar um, byggist einnig á tímaskýrslu og tilgreindu tímagjaldi, sem er hið sama og á fyrri reikningum. Hefur sóknaraðili ekki gert sérstakar athugasemdir við áskilið tímagjald varnaraðila.

II.

Af erindi sóknaraðila má ráða að kröfugerð hans fyrir nefndinni og sjónarmið að baki henni lúti fyrst og fremst að skráðum tíma við undirbúning og flutning hæstaréttarmálsins í nóvember og desember 2007, en einnig að skráðum vinnutíma B í maí 2007, sem fyrst kom fram í tímaskýrslu eftir rekstur hæstaréttarmálsins. Telur sóknaraðili sig hafa fengið upplýsingar um það á lögmannsstofu varnaraðila að til viðbótar fyrri reikningum kæmi reikningur vegna flutnings málsins "ásamt einhverjum fáum tímum í undirbúning fyrir flutninginn". Þá hafi tilgreindur starfsmaður lögmannsstofunnar upplýst að viðbótarkostnaðurinn gæti numið 200-300 þúsund krónum. Varnaraðilar mótmæla þessum staðhæfingum sóknaraðila um að starfsmenn stofunnar hafi verið búnir að gefa til kynna að kostnaðurinn yrði ekki hærri en 200-300 þúsund krónur.

Engin gögn liggja fyrir í málinu sem styðja staðhæfingar aðila, annars hvors eða beggja, sem hér hafa verið raktar. Verður niðurstaða í málinu því ekki á þeim reist.

III.

Sá tími sem fer í rekstur máls fyrir Hæstarétti Íslands, allt frá því ákvörðun er tekin um áfrýjun héraðsdóms og þar til dómþingi er slitið að loknum málflutningi fyrir réttinum, er misjafnlega langur. Mörg atriði hafa þar áhrif, svo sem skjalamagn, hin lögfræðilegu álitaefni sem um er fjallað, fjöldi álitaefna, hvaða réttarreglur málatilbúnaður er reistur á, o.s.frv. Þá má ætla að því flóknari sem hin lögfræðilegu álitaefni eru, þeim mun meiri tími kann að fara í könnun fræðikenninga og dómafordæma, en hvorutveggja getur orðið veigamikill þáttur í málflutningnum sjálfum. Reynslan sýnir að fyrirfram er erfitt að áætla þann tíma sem í slíkan málarekstur fer.

Í því dómsmáli, sem sóknaraðili fól varnaraðilum að reka fyrir sig í Hæstarétti Íslands, eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir, reyndi á allmörg lögfræðileg álitaefni, svo sem nánar var gerð grein fyrir í greinargerð varnaraðila. Línur voru lagðar í áfrýjunarstefnu og þó sérstaklega í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar. Nefndin telur rök standa til þess að allnokkurn tíma hafi þó þurft við undirbúning málflutningsins, sérstaklega ef horft er til þess að nauðsynlegt var fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt og leita þannig hagfelldari niðurstöðu fyrir sóknaraðila.

Í gögnum málsins er tímaskýrsla varnaraðila fyrir nóvember og desember 2007, þar sem meðal annars er tilgreindur og sundurliðaður tímafjöldinn við undirbúning og flutning hæstaréttarmálsins 4. desember, alls 63 tímar. Sóknaraðili hefur ekki sett fram athugasemdir við einstaka skráðar tímaeiningar í tímaskýrslunni.

Það er mat úrskurðarnefndar, eftir skoðun á gögnum málsins og með hliðsjón af þeim atriðum, sem að framan greinir og sem kunna að hafa áhrif á umfang málareksturs, að sá tími, sem skráður var á verkið við undirbúning og flutning hæstaréttarmálsins í nóvember og desember 2007, sé ekki óeðlilega mikill. Telur nefndin þannig ekkert liggja fyrir í málinu sem leiða kann lækkunar á hinum skráða tímafjölda.

IV.

Í gögnum málsins, meðal annars í tölvupóstsamskiptum B við forsvarsmann sóknaraðila skömmu fyrir uppgjörið, er fjallað um hagsmunatengingu þá, sem lögmaðurinn taldi samkomulag vera um en sem hafnað var af hálfu sóknaraðila. Varnaraðilar virðast hafa ákveðið að falla frá tilkalli til þóknunar á þeim grundvelli, enda byggðist lokareikningur þeirra á tímaskýrslu og tímagjaldi. Varnaraðilar útskýra í bréfi sínu til sóknaraðila þann 8. janúar 2008 hvaða vinna B lá að baki þeim 15 tímum sem fram komu í tímaskýrslunni og hvers vegna 13 tímar af þeim komu þá fyrst fram en ekki í maí, þegar vinnan var innt af hendi. Eru þær útskýringar svar við athugasemdum sóknaraðila þar að lútandi, sem fram komu í bréfi hans til varnaraðila skömmu eftir áramótin 2007-2008. Engin andmæli sóknaraðila liggja fyrir við þessum útskýringum.

Útskýringar varnaraðila á hinni síðbúnu framsetningu vinnutíma í maí 2007 eru ekki ótrúverðugar að mati úrskurðarnefndar. Eru þessir tímar því taldir eiga rétt á sér í tímaskýrslunni.

V.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu og að virtum þeim athugasemdum og sjónarmiðum sem að framan eru rakin, telur nefndin að áskilin þóknun varnaraðila samkvæmt reikningi þeirra í lok árs 2007, 1.535.660 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, vegna vinnu við undirbúning og rekstur hæstaréttarmálsins nr. 196/2007 fyrir sóknaraðila, feli í sér hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun varnaraðila, B, hrl., og C, hrl., fyrir störf að undirbúningi og flutningi hæstaréttarmálsins nr. xxx/200x fyrir sóknaraðila, telst vera hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA